Ferill 25. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 25  —  25. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um staðgreiðslu við innborgun í lífeyrissjóð.


Flm.: Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram lagafrumvarp fyrir lok ársins 2020 þess efnis að staðgreiðsla skatta fari fram við innborgun í lífeyrissjóði en ekki við útgreiðslu lífeyrissparnaðar. Tryggt verði að þeim fjármunum sem breytingin skilar ríkissjóði verði varið í þágu aukinnar velferðar.

Greinargerð.

    Á síðustu árum hafa eignir lífeyrissjóðanna stóraukist og eru nú tæplega 5.000 milljarðar kr. samkvæmt upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands. Inngreiðslur í samtryggingarsjóði nema yfir 200 milljörðum kr. á ári hverju. Árið 2000 námu eignir lífeyrissjóðanna um 80% af vergri landsframleiðslu en árið 2017 var hlutfallið komið í 157% samkvæmt hagtölum lífeyrissjóða sem birtast á vef Landssamtaka lífeyrissjóða, lífeyrismál.is. Það er áhyggjuefni hve mikil umsvif lífeyrissjóðanna eru í íslensku viðskiptalífi. Stjórnir þeirra eru skipaðar fulltrúum verkalýðsfélaga og atvinnulífsins sem síðan skipa stjórnarmenn til að sitja fyrir hönd sjóðanna í stjórnum fyrirtækja sem sjóðirnir eiga hlut í. Þannig eru tengslin á milli eigenda fjármagnsins (sjóðsfélaga) og þeirra sem annast fjárreiður lífeyrissjóða lítil sem engin. Útkoman er sú að stór hluti íslenskra fyrirtækja er í eigu óvirkra aðila sem starfa samkvæmt lögbundinni ávöxtunarkröfu en ekki vilja sjóðsfélaga. Undanfarin ár hafa lífeyrissjóðirnir sætt gagnrýni fyrir að fjárfesta í áhættusömum fyrirtækjum, greiða stjórnarmönnum ofurlaun og styðja viðskipti sem sjóðsfélögum blöskrar. Með því að greiða skatta af iðgjöldum við innlögn í lífeyrissjóði má sporna gegn því að lífeyrissjóðirnir verði óeðlilega stórir miðað við stærð hagkerfisins.
    Fjármuni skortir til að ráðast í nauðsynlegar úrbætur á íslenska velferðarkerfinu. Heilbrigðiskerfið stendur á brauðfótum, bætur almannatrygginga duga ekki til framfærslu og bilið milli hinna ríku og hinna fátæku eykst ár frá ári. Því er nauðsynlegt að auka tekjur ríkissjóðs og nýta þær í þágu fólksins. Skattlagning við innlögn í lífeyrissjóð í stað útgreiðslu er sársaukalaus leið til að stórauka tekjur ríkissjóðs og gerir honum kleift að styrkja velferðarkerfið án þess að skerða ráðstöfunartekjur almennings.
    Samkvæmt gildandi fyrirkomulagi eru iðgjöld í lífeyrissjóði og mótframlög vinnuveitenda ekki skattlögð. Þess í stað eru greiðslur úr lífeyrissjóðum til lífeyrisþega skattlagðar. Þannig er skattlagningu þeirra fjármuna sem mynda stofn lífeyrissparnaðar frestað þar til kemur að útgreiðslu þeirra. Ávöxtun lífeyris er ekki áhættulaus og hefur borið við að lífeyrissjóðir skili verulegu tapi. Með þessari þingsályktunartillögu er lagt til að ríkissjóður sæki skatttekjurnar í upphafi og geti því ráðstafað þeim á eigin forsendum í stað þess að treysta lífeyrissjóðum til að ávaxta féð.
    Eðli málsins samkvæmt lækkar það fjármagn sem streymir inn í lífeyrissjóðina um það sem nemur staðgreiðslunni verði breytingin að veruleika. Á móti kemur að ekki greiðist skattur þegar sá sparnaður er leystur út og því hefur breytingin ekki í för með sér hlutfallslega rýrnun á ávöxtun lífeyrissjóða.
    Miðað við greiðslur í lífeyrissjóði á árinu 2018 og 36% skatt mundi staðgreiðsla við innborgun skila ríkissjóði og sveitarfélögum um 72 milljörðum kr. árlega. Samþykkt þessarar tillögu mundi því veita þjóðinni einstakt tækifæri til úrbóta. Það er þörf á aukinni fjárfestingu í velferð og því er brýnt að ríkið nýti auknar tekjur vegna staðgreiðslu við innborgun í þágu þeirra sem mest þurfa á aðstoð að halda. Efla þarf rekstur heilbrigðiskerfisins og fjölga dvalar- og hjúkrunarrýmum. Átaks er þörf til að auðvelda atvinnuþátttöku öryrkja. Það mundi leiða til þess að fleiri kæmust aftur inn á vinnumarkað og skiluðu þá enn auknum skatttekjum. Ríkið þarf að draga úr skattbyrði láglaunafólks og lífeyrisþega og auka ráðstöfunartekjur þeirra. Þá mundu minnka líkurnar á að fólk þyrfti að fjármagna neyslu með skuldsetningu og festist í fátæktargildru. Grundvallarforsenda þessarar tillögu er að auknir fjármunir hins opinbera verði nýttir í þágu fólksins.