Ferill 32. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 32  —  32. mál.
Leiðréttur texti.




Tillaga til þingsályktunar


um endurskoðun á ráðstöfun almannafjár við gæðastýringu í sauðfjárrækt.


Flm.: Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson.


    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra að endurskoða ráðstöfun almannafjár við gæðastýringu í sauðfjárrækt, með það að markmiði að landnýtingarþáttur hennar samræmist lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Ráðherrarnir setji nýjar reglur um viðmiðunarmörk fyrir ástand heimalanda, upprekstrarheimalanda og beitilanda á afrétti, sem byggist á ráðgjöf Landgræðslunnar um slík viðmið og tryggi að greiðslur verði ekki inntar af hendi til þeirra framleiðenda sem liggur fyrir að nái ekki núgildandi viðmiðum. Við þá vinnu verði jafnframt tryggt að núgildandi landbótaáætlanir samkvæmt reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu verði felldar úr gildi og landnotendum gert að gera nýjar landbótaáætlanir sem standist lög og ný viðmið.
    Endurskoðun verði lokið og ný viðmið sett fyrir 1. janúar 2020.

Greinargerð.

    Landnýtingarþáttur í gæðastýringu í sauðfjárrækt er sá hluti stuðningsgreiðslna til bænda sem er bundinn tilteknum viðmiðum varðandi ástand lands og landnýtingu. Var hann settur á til að bregðast við bágri stöðu vistkerfa og miklu jarðvegsrofi á landinu öllu, í samræmi við kortlagningu Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins og Landgræðslunnar.
    Heildarstuðningur við sauðfjárrækt árið 2019 samkvæmt sauðfjársamningi er tæpir 4,9 milljarðar kr., þar af eru greiðslur vegna gæðastýringar tæpir 1,7 milljarðar kr. Óbeinn stuðningur við sauðfjárrækt gæti hækkað framangreindar fjárhæðir. Á þeim árum sem liðin eru frá því að landnýtingarþáttur var færður inn í stuðningskerfi landbúnaðarins hefur engum framleiðanda verið synjað um vottun um að landnotkun og landbótaáætlanir standist viðmið um sjálfbæra landnýtingu. Sú staðreynd væri fagnaðarefni ef ekki hefði verið bent á veigamikla hnökra við framkvæmd hennar í nokkur ár.
    Landgræðslan hefur í samskiptum sínum við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið bent á að viðmið og framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringarinnar standist ekki fagleg sjónarmið. Þau samskipti hafa nýverið verið rakin í riti Ólafs Arnalds, prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands, sem ber titilinn Á röngunni: Alvarlegir hnökrar á framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringar í sauðfjárrækt og var gefið út í júní 2019. Þar er farið með ítarlegum hætti yfir þá vankanta sem finna má á fram kvæmd landnýtingarþáttarins. Kemur þar m.a. fram að mikið skorti á að nútímaleg þekking á sviði beitarvistfræði sé nýtt við framkvæmdina, að viðmið sem notuð eru standist ekki faglega skoðun, að landbótaáætlanir hafi verið samþykktar þótt ljóst sé að landgæði nái ekki lágmarksviðmiðum á samningstíma og séu reyndar fjarri því að gera það. Talið er að 10–20% fjárstofnsins gangi af þeim sökum á svæðum þar sem ástand og eðli vistkerfa standast ekki viðmið sem sett eru í tengslum við framkvæmd núverandi búvörulaga. Þeir sem eiga þessa gripi hafa því fengið greiðslur úr ríkissjóði þrátt fyrir að uppfylla ekki nauðsynleg skilyrði samkvæmt ákvæðum laga þar um.
    Þá hafa Landgræðslan, Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands bent á eftirfarandi atriði:
     a.      viðmiðin sem beitt er standast ekki eðlilegar kröfur,
     b.      þau eru ekki viðurkennd af Landgræðslunni,
     c.      þau kunna að vera í andstöðu við skilyrði búvörulaga, nr. 99/1993, laga um landgræðslu, nr. 155/2018, og laga um náttúruvernd, nr. 60/2013,
     d.      góðum stjórnsýsluháttum hefur hingað til ekki verið fylgt við framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringar í sauðfjárrækt.
    Slæm staða íslenskra vistkerfa og jarðvegseyðing er einn helsti umhverfisvandi lands og þjóðar. Á sama tíma virðist almannafé varið til að styðja við óábyrga landnýtingu, þar sem viðmið eru ekki uppfyllt að mati sérfræðinga og lagastoð þeirra viðmiða er umdeild.
    Alþingi ber að tryggja að náttúran njóti vafans og sauðfjárrækt sé ekki stunduð á landsvæðum sem eru of viðkvæm til að beit standist kröfur um ábyrga og sjálfbæra landnýtingu. Það veikir samkeppnisstöðu mikils meiri hluta sauðfjárbænda sem standast allar kröfur og fylgja ýtrustu viðmiðum um landnotkun með tilheyrandi tilkostnaði og óhagræði, að jafnháir styrkir séu greiddir til þeirra sem ekki uppfylla grunnskilyrðin. Vottanir á borð við þessa kunna að auki að hafa áhrif á val neytenda sem vilja láta umhverfissjónarmið stýra vali sínu við neyslu. Raunar má færa fyrir því rök að neytendur dilkakjöts sem kjósa að kaupa afurðir sem framleiddar eru með ábyrgum hætti með tilliti til umhverfissjónarmiða hafi verið blekktir. Þjóðin hefur ríkan hag af því að almannafé sé eingöngu varið til sauðfjárræktar sem er sjálfbær og gengur ekki með ótilhlýðilegum hætti á vistkerfi landsins.
    Því er brýnt að viðkomandi ráðherrar endurskoði án tafar landnýtingarþáttinn í gæðastýringu í landbúnaði og tryggi að viðmið sjálfbærrar landnýtingar séu í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti og að þeim sé fylgt til samræmis við eðlilegar kröfur að mati Landgræðslunnar.