Ferill 44. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 44  —  44. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um mótun efnahagslegra hvata til að efla ræktun orkujurta á Íslandi.


Flm.: Silja Dögg Gunnarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Willum Þór Þórsson, Þórarinn Ingi Pétursson.


    Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að skipa starfshóp til að móta og hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun um efnahagslega hvata sem styrkja forsendur fyrir ræktun orkujurtanna repju (Brassica campestris) og nepju (Brassica rapa) í þeim tilgangi að framleiða eldsneyti (bíódísil) sem notað verði á skip í stað jarðefnaeldsneytis. Aðgerðaáætlunin verði í samræmi við stefnumörkun um innlenda umhverfisvæna orkugjafa í þingsályktun nr. 11/149 um samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033 og þingsályktun nr. 10/149 um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019–2023. Aðgerðaáætlunin með tillögum að framkvæmd hennar liggi fyrir eigi síðar en 1. mars 2020 og verði þá kynnt Alþingi.
    Í aðgerðaáætluninni skal m.a. tekin afstaða til beitingar eftirtalinna efnahagslegra hvata:
     1.      ræktunarstyrkja til bænda sem nýta land sem ekki er notað til annarrar ræktunar til að rækta orkujurtir,
     2.      styrkja til að uppskera og þreskja orkujurtir,
     3.      styrkja til uppbyggingar á aðstöðu til að hreinsa og þurrka fræ orkujurtanna,
     4.      styrkja til uppbyggingar á geymslum og búnaði til varðveislu orkujurtanna,
     5.      styrkja til uppbyggingar á búnaði til að framleiða söluvöru úr fræjum orkujurtanna,
     6.      styrkja til markaðssetningar og dreifingar á framleiðsluvörum úr orkujurtum.

Greinargerð.

    Með tillögu þessari er lagt til að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra verði falið að skipa starfshóp til að móta og hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun um efnahagslega hvata til að styrkja forsendur fyrir ræktun repju (Brassica campestris) og nepju (Brassica rapa) sem verði notaðar í framleiðslu bíódísils sem nota má í stað jarðefnaeldsneytis.
    Árið 2008 hófust tilraunir með að afla innlendra umhverfisvænna orkugjafa á vegum Siglingastofnunar Íslands. Þegar Siglingastofnun rann inn í Samgöngustofu árið 2013 var þessu verkefni haldið áfram á þeim vettvangi og hefur verið svo síðan. Rannsóknarverkefnið fór fljótt að snúast um ræktun á orkujurtunum repju og nepju og vinnslu afurða úr þeim. Ástæður þess voru einkum að fyrir lá að þessar tegundir væru ræktaðar til orkuöflunar og annarra nytja á norðlægum slóðum erlendis og þótti mikilvægt að kanna hvort hafa mætti af þeim sambærilegar nytjar hér á landi á tímum þar sem leitað er leiða til að afla umhverfisvænna orkugjafa og nota þá hvarvetna þar sem kostur er á því.
    Skemmst er frá því að segja að tilraunirnar lofa góðu. Unnt er að rækta repju og nepju víða um land með góðum árangri og ekkert virðist því til fyrirstöðu að nýta afurðirnar með sama hætti og gert er annars staðar þar sem þessar jurtir eru ræktaðar til nytja. Sökum þess að ræktun á repju til framleiðslu á olíu og kjarnfóðri er ný grein landbúnaðar hér á landi er nauðsynlegt að styðja við þróun þessarar atvinnugreinar meðan hún er að ná þeim þroska og styrk að geta séð um sig sjálf.

Afurðir orkujurtanna og notkun þeirra.
    Við ræktun og vinnslu á repju og nepju verða til þrjár meginafurðir: olía, fóðurmjöl og stönglar. Olían er um 15% lífmassans, fóðurmjölið um 35% og stönglarnir um 50%. Stönglarnir eru notaðir til að bera undir húsdýr og einnig sem vistvænn og lífrænn áburður á tún og akra. Fóðurmjölið er mjög prótínríkt og hentar því prýðilega sem kjarnfóður fyrir nautgripi og svín og eldisfiska. Olíuna er unnt að nota sem eldsneyti á vélar sem brenna dísilolíu og einnig í matargerð. Unnt er að nota olíuna á stærri dísilvélar án þess að breyta þeim en eigi að nota hana á minni dísilvélar þarf að setja á þær olíuhitara sem hitar repjuolíuna í 50–70°C áður en hún fer inn í eldsneytiskerfi vélarinnar. Auðvelt er að nota repjuolíu sem íblöndunarefni í jarðdísilolíu og er það gjarnan gert í hlutföllum frá 5–25%. Ætla má að þannig verði repjuolían einkum notuð sem orkugjafi fyrst í stað.

Landþörf vegna ræktunar orkujurta.
    Um þessar mundir notar fiskiskipafloti Íslendinga um 160.000 tonn af jarðdísilolíu árlega og eru útgerðir skipanna algerlega háðar þessum orkugjafa. Íslenskar rannsóknir á ræktun repju og nepju til olíuframleiðslu hafa því haft það að markmiði að kanna hvort og þá að hvaða marki unnt væri að uppfylla þarfir fiskiskipaflotans fyrir orkugjafa með nýjum og umhverfisvænum hætti hér innan lands. Tilraunir hafa sýnt að hver hektari lands gefur af sér um eitt tonn af repjuolíu. Því þyrfti að rækta orkujurtir á um 160.000 hekturum lands, eða um 1.600 ferkílómetrum, til að mæta núverandi notkun fiskiskipaflotans á dísilolíu. Til samanburðar má nefna að ferjur Vegagerðarinnar nota um 4.000 tonn af jarðdísilolíu árlega. Unnt væri að framleiða sama magn af jurtaolíu á 4.000 hekturum lands eða 40 ferkílómetrum.
    Repjan telst ekki kröfuhörð með tilliti til ræktarlands og þrífst til dæmis vel í sendinni og rýrri jörð. Því má ætla að vel væri unnt að nota hana sem lið í uppgræðslu lands, einkum sanda, með því móti að sá lúpínu í sandinn og plægja hana niður áður en hún hefur myndað fræ. Lúpínuleifarnar innihalda köfnunarefni, fosfór og önnur næringarefni sem repjan nýtir og með þessum hætti er unnt að breyta landi sem ekki er nýtt í ræktun í ákjósanlegt ræktarland fyrir orkujurtir.

Ávinningur af ræktun orkujurta til olíuframleiðslu.
    Olía sem framleidd er úr repju sem ræktuð er hér á landi er innlendur orkugjafi. Slík framleiðsla myndi því efla orkuöryggi Íslands þar sem landið yrði ekki eins háð framboði og verðsveiflum á jarðolíu og nú er raunin. Olíuframleiðsla úr repjufræjum felur þannig í sér hagrænan ávinning en mestu skiptir þó að notkun repjuolíu hefur langtum minni óæskileg áhrif á umhverfið en notkun jarðdísils.
    Ræktun repju og nepju á einum hektara lands bindur um það bil sex tonn af gróðurhúsalofttegundinni koldíoxíði ( CO2) sem plönturnar taka í sig er þær vaxa. Við bruna á þeirri olíu sem fæst af einum hektara fara þrjú tonn af koldíoxíði aftur út í andrúmsloftið en helmingurinn af því sem plönturnar bundu í sér fer með stönglunum aftur í jarðveginn þegar þeir eru nýttir sem áburður í ræktuninni. Vinnsla á olíu úr fræjum repju og nepju verður því til að binda meira koldíoxíð ( CO2) en losað er við bruna á olíunni, en sem kunnugt er gerist hið gagnstæða þegar jarðolíu er brennt. 1
    Árleg losun fiskiskipaflotans á koldíoxíði nemur um 500.000 tonnum. 2 Ef 30% þess eldsneytis sem notað er á vélar fiskiskipanna væri repjuolía væri unnt að draga úr koldíoxíðlosun íslenskra fiskiskipa um tæp 300.000 tonn eða sem nemur tæplega 60% núverandi losunar. Þetta samsvarar heildarlosun koldíoxíðs frá vegasamgöngum á höfuðborgarsvæðinu árið 2016.
    Bæði hagrænar ástæður og umhverfisástæður mæla með því að unnið verði einarðlega að því að rækta orkujurtir til framleiðslu á vistvænum innlendum orkugjafa fyrir atvinnustarfsemi og einstaklinga. Þessi þingsályktunartillaga er flutt í því skyni að stuðla að því að svo verði og bent skal á eftirtalið málinu til stuðnings:
     1.      Við ræktun repju og nepju bindast sex tonn af gróðurhúsalofttegundinni koldíoxíði í plöntunum á hverjum hektara. Einungis helmingur þess berst aftur út í andrúmsloftið við bruna á olíunni sem unnin er úr fræjum plantnanna.
     2.      Ræktun repju og nepju styður við landgræðslu og jarðvegsundirbúning fyrir aðra ræktun.
     3.      Repjuolía er ekki skaðleg umhverfi sínu eins og jarðolía.
     4.      Repjuræktun og olíuframleiðsla úr repjufræjum skapar tækifæri til nýsköpunar í landbúnaði og iðnaði.
     5.      Repjuræktun eflir sjálfbærni íslensks samfélags og styrkir íslenska atvinnuvegi.


1     www.samgongustofa.is/media/siglingar/skyrslur/Repjuraektun-a-Islandi-2018.pdf
2     ust.is/loft/losun-grodurhusalofttegunda/losun-eftir-flokkum/