Ferill 81. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 81  —  81. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000 (kosningarréttur).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Íslenskur ríkisborgari, sem náð hefur 18 ára aldri og átt hefur lögheimili hér á landi, á og kosningarrétt hafi hann sótt um hann samkvæmt nánari reglum í 2. gr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Umsókn um kosningarrétt skv. 2. mgr. 1. gr. skal beint rafrænt til Þjóðskrár Íslands á því formi sem hún ákveður. Í umsókn skal koma fram nafn umsækjanda, kennitala hans, hvenær hann flutti af landi brott, síðasta lögheimili á landinu og heimilisfang erlendis.
     b.      3. og 4. málsl. 1. mgr. falla brott.
     c.      Orðin „í fjögur ár“ í 6. málsl. 1. mgr. falla brott.
     d.      2. mgr. fellur brott.

3. gr.

    Orðið „b-lið“ í 3. mgr. 27. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er lagt fram í þriðja sinn en var síðast lagt fram á 149. löggjafarþingi (134. mál).
    Með frumvarpinu er lagt til að íslenskir ríkisborgarar sem búsettir eru erlendis verði teknir á kjörskrá ef þeir leggja fram fullnægjandi umsókn um kosningarrétt. Með því fyrirkomulagi verður horfið frá þeirri framkvæmd sem nú gildir að íslenskur ríkisborgari sem hefur átt lögheimili hér á landi þurfi að sækja sérstaklega um að halda kosningarrétti sínum þegar liðin eru átta ár eða meira frá því að viðkomandi ríkisborgari flutti af landi brott, en ákvörðun um að einhver skuli þannig tekinn á kjörskrá gildir í fjögur ár. Með því er lagt til að í stað þess þurfi íslenskur ríkisborgari sem hefur flutt til útlanda aðeins að sækja um að viðhalda kosningarrétti sínum einu sinni.
    Þá er lagt til að umsóknarferli vegna umsókna um töku á kjörskrá verði rafrænt en það einfaldar og styttir ferlið og gerir það öruggara.
    Flutningsmenn telja að verði frumvarpið samþykkt muni það spara kjósanda og Þjóðskrá Íslands þónokkra pappírsvinnu og einfalda umstang í kringum kjörskrá.