Ferill 89. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 89  —  89. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum (gengishagnaður).

Flm.: Óli Björn Kárason, Haraldur Benediktsson, Njáll Trausti Friðbertsson,
Brynjar Níelsson, Vilhjálmur Árnason, Ásmundur Friðriksson.


1. gr.

    Í stað orðanna „með jafnri fjárhæð á þrjú ár frá og með því reikningsári þegar gengishagnaður fellur til“ í 2. mgr. 5. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að færa mismuninn til tekna með jafnri fjárhæð á allt að þrjú ár frá og með því reikningsári þegar gengishagnaður fellur til.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020 og koma til framkvæmda fyrir reikningsárið 2019.

Greinargerð.

    Mál þetta var áður flutt á 149. þingi (491. mál) en náði ekki fram að ganga.
    Í 2. mgr. 5. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, kemur fram að draga skuli gengistap frá gengishagnaði ársins og færa mismuninn til tekna sem gengishagnað. Með lögum nr. 61/2008, sbr. 1. gr., bættist við ákvæðið sú regla að mismuninn skyldi færa til tekna með jafnri fjárhæð á þrjú ár frá og með því reikningsári þegar gengishagnaður fellur til. Þetta ákvæði getur falið í sér óhagræði og umtalsverðan kostnað fyrir lögaðila, ekki síst minni fyrirtæki. Dæmi eru um að fyrirtækjum sé gert skylt að dreifa nokkrum tugum þúsunda króna í skattskyldan gengishagnað yfir þriggja ára tímabil í stað þess að greiða skatt af hagnaðinum strax. Með frumvarpinu er lagt til að þessi kvöð verði felld niður en þess í stað verði um valfrjálsa heimild að ræða. Fyrirtækjum verði heimilt en ekki skylt að dreifa greiðslu skatts af gengishagnaði á allt að þrjú ár.
    Frumvarpið hefur engin áhrif á tekjur ríkissjóðs til lengri tíma en mun í einhverjum tilfellum flýta greiðslu skatts af gengishagnaði.