Ferill 126. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 126  —  126. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um viðgerðir á jarðvegsrofi vegna utanvegaaksturs utan þjóðgarða.


Flm.: Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Björn Leví Gunnarsson, Guðmundur Ingi Kristinsson.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að setja eigi síðar en 1. apríl 2020 á fót jarðbótasjóð sem fjármagnaður verði úr ríkissjóði og hafi að markmiði að standa undir viðgerðum á jarðvegsrofi vegna utanvegaaksturs utan þjóðgarða. Ráðherra setji sjóðnum úthlutunarreglur sem m.a. geri félagasamtökum kleift að sækja fé í sjóðinn til að vinna að markmiðum hans.

Greinargerð.

    Tillagan var lögð fram á 149. löggjafarþingi (749. mál) en var ekki afgreidd og er nú flutt lítillega breytt.
    Akstur utan vega er ein algengasta orsök ólögmæts gróður og umhverfistjóns á viðkvæmum svæðum. Skemmdir vegna slíks athæfis eru oft bæði miklar og varanlegar. Jákvæð skref hafa verið tekin í átt að aukinni vitundarvakningu um áhrif utanvegaaksturs, hertum viðurlögum við honum og auknu eftirliti í kringum landið. Enn er þó þörf á því að tryggja nauðsynlegar lagfæringar á skemmdum af völdum slíkrar háttsemi utan þjóðgarða. Framlög eru tryggð til að bæta skemmdir af mannavöldum innan þjóðgarða en utan þeirra skortir hvort tveggja eftirlit og úrræði til að bregðast við tjóni vegna aksturs og annars ágangs utan vega.
    Markmiðið með þessari þingsályktunartillögu er að tryggja að fé sem rennur í ríkissjóð af sektargreiðslum fyrir brot gegn V. kafla laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, um akstur utan vega, verði nýtt til bóta á skemmdum svæðum. Til að hægt sé að koma því í kring er að mati flutningsmanna rétt að settur verði á fót sjóður sem notaður verði til að standa straum af kostnaði við viðgerðirnar. Eðlilegt þykir að fjárframlög í sjóðinn nemi að lágmarki tekjum ríkissjóðs af sektum vegna utanvegaaksturs auk frekari framlaga eftir þörfum. Þar sem fjárhæðir sekta munu ekki í öllum tilvikum duga til að standa straum af kostnaði er mikilvægt að ráðherra leggi mat á það hversu háum fjárhæðum verði varið úr ríkissjóði á hverju ári til viðbótar við fjárhæðir sekta. Jafnframt er mikilvægt að nýta þær upplýsingar sem safnast með tímanum um raunverulegan kostnað við viðgerðir til að endurskoða upphæð sektargreiðslna með það að markmiði að þær standi undir kostnaðinum að því marki sem hægt er.
    Tillaga flutningsmanna er að úthlutunarreglur taki mið af því að staðbundin félagasamtök á borð við íþróttafélög, skátahreyfingar eða umhverfisverndarsamtök geti tekið að sér framkvæmd viðgerða á tilteknum skemmdum. Gert er ráð fyrir því að fjárframlög í sjóðinn nemi að lágmarki fjárhæðum sekta vegna utanvegaaksturs óháð því hvort tjóni sé valdið innan þjóðgarða eða utan en verði þó eingöngu varið til viðgerða á skemmdum utan þjóðgarða. Flestir dómar sem felldir eru um utanvegaakstur eru vegna brota sem framin eru innan þjóðgarða. Í fyllingu tímans, og þegar nákvæmari gögn liggja fyrir um umfang tjóna og kostnað við viðgerðir á þeim, verður betur unnt að ákvarða sektarfjárhæðir í samræmi við kostnaðinn sem viðgerðum fylgir. Verður þá hægt að taka afstöðu til þess hvort lækka megi framlög til þjóðgarða sem nemur viðgerðakostnaði vegna utanvegaaksturs og heimila úthlutanir úr sjóðnum til viðgerða innan þjóðgarða. Fram að því er þó rétt að úthlutunum verði eingöngu varið til þeirra svæða sem nú njóta ekki fjárveitinga til viðgerða á skemmdum vegna utanvegaaksturs.