Ferill 147. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 147  —  147. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um fullgildingu Haag-samningsins frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum.


Flm.: Njörður Sigurðsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir,
Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda Haag-samninginn frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður flutt á 149. löggjafarþingi (106. mál) og fylgdi henni þá svofelld greinargerð:     
    „Í ljósi reynslunnar af síðari heimsstyrjöldinni, þegar ómetanleg menningarverðmæti skemmdust og glötuðust, var samningur um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum gerður í Haag árið 1954. Samningurinn frá 1954 er fyrsti alþjóðlegi samningurinn sem ætlað er að vernda menningararf í vopnuðum átökum. Ríki sem eru aðilar að samningnum skuldbinda sig til að vernda menningarverðmæti þegar vopnuð átök eiga sér stað og nær samningurinn yfir hreyfanleg og óhreyfanleg menningarverðmæti, svo sem byggingar, listaverk, bækur, handrit, skjöl og menningarminjastaði án tillits til uppruna eða eignarhalds. Gagnkvæmur ávinningur aðildarríkja að samningnum er m.a. sá að hann stuðlar að forvarnaaðgerðum á friðartímum með því að aðildarríkin skrá menningarverðmæti, gera neyðaráætlanir gegn eyðileggingu menningarverðmæta, undirbúa flutning hreyfanlegra menningarverðmæta og stuðla að verndun þeirra á vörslustað, aðildarríkin bera virðingu fyrir menningarverðmætum innan eigin landamæra og innan annarra aðildarríkja, stofna þeim ekki í hættu í vopnuðum átökum og eru tilbúin að beita viðurlögum við brotum á samningnum og kynna ákvæði samningsins fyrir almenningi og hagsmunaaðilum, m.a. sérfræðingum í varðveislu menningarverðmæta og viðbragðsaðilum.
    Menningarverðmæti sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt Haag-samningnum frá 1954 eru merkt með verndarmerki samningsins, Bláa skildinum.
    133 ríki eru nú aðilar að samningnum, 110 ríki eru aðilar að fyrsta viðauka samningsins frá 1954 og 81 ríki að öðrum viðauka samningsins frá 1999. Í Evrópu eru öll ríki aðilar að samningnum nema Ísland, Andorra, Moldóva og Malta. Noregur gerðist aðili árið 1961, Svíþjóð árið 1985, Finnland árið 1994 og Danmörk árið 2003.
    Fullgilding samningsins myndi án efa hafa þau áhrif að betra yfirlit fengist yfir menningarverðmæti hér á landi og viðbragðsáætlanir yrðu gerðar á söfnum, bókasöfnum, skjalasöfnum og menningarminjastöðum um hvernig skuli bregðast við ef hætta steðjar að. Ekki síst myndi aðild leiða beint og óbeint til betri og samhæfðari viðbragða til verndar menningarverðmætum þegar náttúruhamfarir verða, svo sem jarðskjálftar, eldgos og flóð.“