Ferill 176. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 177  —  176. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um erfðafjárskatt, nr. 14/2004, með síðari breytingum (einstaklingsbundinn skattstofn, þrepaskipting).

Flm.: Jón Steindór Valdimarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson.


1. gr.

    1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Erfingi skal greiða skatt í ríkissjóð eftir lögum þessum af öllum fjárverðmætum er hverfa til hans við skipti á dánarbúi manns, sbr. þó 18. gr.

2. gr.

    Í stað 1. og 2. mgr. 2. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:
    Erfðafjárskattur er í þremur þrepum, 10%, 15% og 20%, og ræðst hlutfallið af fjárhæð þess arfs sem fellur til hvers erfingja um sig við uppgjör tiltekins dánarbús. Af fyrstu 15.000.000 kr. skal greiða 10% erfðafjárskatt, af næstu 15.000.000 kr. skal greiða 15% erfðafjárskatt og af þeim hluta arfs sem er umfram 30.000.000 kr. skal greiða 20% erfðafjárskatt.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal hver erfingi engan skatt greiða af fyrstu 6.500.000 kr. arfs. Ákvæði þetta gildir einnig um fyrirframgreiðslu arfs enda skoðist fyrir fram greiddur arfur og arfur við búskipti sem ein heild við útreikning erfðafjárskatts hvers erfingja og réttar til afsláttar.
    Fjárhæðir í 1. og 2. mgr. breytast til samræmis við breytingar á vísitölu Hagstofunnar til verðtryggingar 1. janúar ár hvert. Breytingar á viðmiðunarfjárhæðum skal birta með auglýsingu ráðherra.

3. gr.

    1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
    Skattstofn erfðafjárskatts er hlutdeild hvers erfingja af heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og kostnaði skv. 5. gr.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020 og taka til skipta á dánarbúum þeirra sem andast þann dag eða síðar. Lögin taka einnig til búskipta þeirra er hafa heimild til setu í óskiptu búi, fari þau fram eftir gildistöku laganna, og álagningar erfðafjárskatts á fyrirframgreiðslu arfs vegna erfðafjárskýrslna sem berast sýslumönnum eftir gildistöku laganna.


Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 149. löggjafarþingi (920. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Það er nú endurflutt lítið breytt.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að horfið verði frá því að líta á dánarbú manns sem andlag erfðafjárskatts. Þess í stað verði horft til arfs hvers erfingja um sig sem andlags erfðafjárskattsins. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að skattfrelsi miðist framvegis við arfshluta hvers og eins erfingja. Þar með verða skatttekjur ríkisins vegna hvers dánarbús háðar fjölda erfingja búsins og arfshluta þeirra.
    Með frumvarpinu er lagt til að hlutfall erfðafjárskatts verði breytilegt eftir upphæð þess arfs sem fellur erfingja í hlut við skipti tiltekins dánarbús. Skatthlutföllin verði fjögur, 0%, 10%, 15% og 20%.
    Markmið frumvarpsins er að fella erfðafjárskatt alveg niður af arfi sem nemur allt að 6,5 millj. kr. og um leið lækka erfðafjárskatt miðað við gildandi lög af arfi búa að fjárhæð 25 millj. kr. sé erfingi einn, 53 millj. kr. séu erfingjar tveir, 81 millj. kr. séu erfingjar þrír, 109 millj. kr. séu erfingjar fjórir o.s.frv.
    Til að gefa hugmynd um áhrif frumvarpsins má nefna þessi dæmi:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Enginn á tilkall til þess að sá sem hann stendur til arfs eftir láti eftir sig eignir í dánarbúi sem komi til skipta milli erfingja. Í lifanda lífi er hverjum og einum frjáls ráðstöfun eigna sinna í samræmi við lög og reglur. Arfur verður ekki til fyrr en bú hefur verið gert upp. Að vissu leyti má segja að tilviljun ráði hvað komi til skipta og auki þannig eignir og tekjumöguleika erfingja. Það er eðlilegt að þeir erfingjar sem mest fá greiði hlutfallslega mest í skatt. Breytingin stuðlar líka að því að draga úr auðsöfnun á fárra manna hendur. Með því að persónubinda afsláttinn fá fleiri í sinn hlut arf án skattheimtu. Þannig dreifist arfur betur til einstaklinga í samfélaginu um leið og erfðafjárskattur sem kemur í hlut ríkisins við skipti minni dánarbúa lækkar.
    Tekjur ríkisins af erfðafjárskatti hafa á síðustu árum verið um og yfir 3 milljarðar kr. og eru áætlaðar 3,4 milljarðar kr. vegna ársins 2017 og 4,4 milljarðar kr. árið 2018. Frumvarp þetta hefur ekki að sérstöku markmiði að lækka heildarfjárhæð þessa tekjustofns ríkisins. Erfitt er að sjá fyrir með fullri vissu hver áhrifin verða. Ástæðan er fyrst og fremst sú að ekki liggja fyrir aðgengilegar upplýsingar um fjölda erfingja að hverju dánarbúi.
    Þáttur í undirbúningi frumvarpsins var fyrirspurn til fjármála og efnahagsráðherra um arf og fjárhæð erfðafjárskatts. Í svari við fyrirspurninni (þskj. 712 á 149. löggjafarþingi) koma fram gagnlegar upplýsingar. Fyrirspurninni var svo fylgt eftir með aðstoð rannsóknaþjónustu Alþingis og beiðni til ríkisskattstjóra og frekari sundurgreining fengin.
    Það liggur fyrir, samkvæmt þessum svörum, að árið 2017 var miðgildi heildarverðmætis dánarbúa 14,5 millj. kr. og miðgildi arfsfjárhæðar hvers erfingja 3,5 millj. kr.
    
Um einstakar greinar frumvarpsins.
    Með ákvæði 1. gr. er kveðið skýrt á um að erfingi beri skattskyldu af arfshlut sínum.
    Í 1. mgr. 2. gr. er mælt fyrir um þrjú þrep erfðafjárskatts, 10%, 15% og 20%, og ræðst hlutfallið af fjárhæð arfs sem fellur til hvers erfingja við skipti á tilteknu dánarbúi. Af fyrstu 15.000.000 kr. skal greiða 10%, af næstu 15.000.000 kr. skal greiða 15% og af þeim hluta arfs sem er umfram 30.000.000 kr. skal greiða 20% erfðafjárskatt.
    Í 2. mgr. 2. gr. er kveðið á um sérstakan frádrátt hvers erfingja frá reiknuðum erfðafjárskatti. Nemur upphæðin 650.000 kr. Frádrátturinn leiðir til þess að erfingi greiðir engan skatt af allt að 6.500.000 kr. arfi úr tilteknu dánarbúi. Þá er skýrt kveðið á um að ákvæðið gildi einnig um fyrirframgreiðslu arfs enda skoðist fyrir fram greiddur arfur og arfur við búskipti sem ein heild við útreikning erfðafjárskatts hvers erfingja vegna arfs úr hverju dánarbúi og réttar til afsláttar. Afslátturinn getur því aðeins nýst hverjum erfingja í eitt skipti vegna arfs frá hverjum arfleifanda.
    Í 3. mgr. 2. gr. er kveðið á um að viðmiðunarfjárhæðir taki breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu til verðtryggingar sem Hagstofan gefur út. Breytingar verði gerðar árlega í upphafi árs og birtar með auglýsingu ráðherra. Tilgangurinn er að viðmiðunarfjárhæðir taki mið af verðlagsþróun og haldi þannig verðgildi sínu.
    Í 3. gr. er kveðið á um það að arfshlutur hvers erfingja fyrir sig teljist andlag erfðafjárskatts.
    Í 4. gr. er kveðið á um gildistöku og lagaskil. Ákvæðin taka til skipta á dánarbúum þeirra sem andast á degi gildistöku eða síðar. Þá munu lögin taka til búskipta þeirra er hafa heimild til setu í óskiptu búi, fari þau fram eftir gildistöku laganna, og álagningar erfðafjárskatts á fyrirframgreiðslu arfs vegna erfðafjárskýrslna sem berast sýslumönnum eftir gildistöku laganna.