Ferill 190. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 206  —  190. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson og Sigurbjörgu Stellu Guðmundsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Áslaugu Jósepsdóttur og Rögnu Bjarnadóttur frá dómsmálaráðuneyti, Snorra Olsen ríkisskattstjóra, Matthildi Magnúsdóttur frá ríkisskattstjóra og Birgi Jónasson frá ríkislögreglustjóra.
    Málið bar skjótt að og hefur nefndinni ekki gefist kostur á að óska umsagna hagsmunaaðila eða viðhafa að öðru leyti þau vinnubrögð sem æskileg eru við umfjöllun fastanefnda Alþingis um lagafrumvörp.
    Með frumvarpinu er lagt til að ný heildarlög um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri öðlist gildi. Frumvarpið er til komið vegna athugasemda alþjóðlegs vinnuhóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, FATF (Financial Action Task Force), um að slík félög séu ekki skráningarskyld hér á landi. Frumvarpið er að hluta til byggt á vinnu við frumvarp til laga um félög til almannaheilla sem lagt var fram á síðasta þingi (785. mál á 149. löggjafarþingi) og endurflutt lítillega breytt á þessu þingi (181. mál).
    Í áhættumati greiningardeildar ríkislögreglustjóra vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka frá apríl 2019, sem unnið var í kjölfar úttektar FATF á vörnum Íslands í þeim efnum, var m.a. fjallað um félög til almannaheilla. Tekið var fram að lögregla þekkti engin dæmi um að almannaheillafélög hefðu verið misnotuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka. Hins vegar skorti heildaryfirsýn yfir félög til almannaheilla, upplýsingar um fyrirsvarsmenn þeirra o.fl., og hvort þau starfi yfir landamæri. Með þessu frumvarpi er brugðist við þeim veikleikum í íslenskri löggjöf að þessu leyti sem greindir voru í áhættumati greiningardeildarinnar og í úttekt FATF.
    Vegna þeirra aðstæðna sem brugðist er við með frumvarpinu er nauðsynlegt að lögin öðlist þegar gildi, sbr. 23. gr. frumvarpsins. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu skulu almenn félagasamtök sem falla undir gildissvið frumvarpsins breyta skráningu sinni í félag til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri við gildistöku laganna og skila þeim upplýsingum sem skrá skal til almannaheillafélagaskrár ríkisskattstjóra. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar er talið að á þriðja hundrað félaga heyri undir gildissvið laganna og hefur ekki unnist ráðrúm til að gera þeim viðvart. Í þessu ljósi leggur meiri hlutinn áherslu á að sanngirni og meðalhófs verði gætt við þá vinnu sem fram undan er við að hafa samband við félögin og veita þeim upplýsingar, leiðbeiningar og eðlilega fresti til að uppfylla skilyrði laganna.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Í VI. kafla frumvarpsins er fjallað um slit félags með dómi. Í 1. mgr. 14. gr. kemur fram að dómari geti, að beiðni málsaðila, stöðvað starfsemi félags til bráðabirgða hafi mál verið höfðað til slita á því. Í 2. mgr. kemur fram að heimilt sé að banna starfsemi félags til bráðabirgða skv. 1. mgr. að beiðni ráðherra eða ríkissaksóknara þrátt fyrir að mál hafi ekki verið höfðað og að slíkt bann falli niður verði ekki krafist slita á félaginu innan 14 daga frá útgáfu bannsins. Í ákvæðinu kemur ekki skýrt fram hver megi leggja slíkt bann á starfsemi félags séu skilyrði þess uppfyllt. Meiri hlutinn leggur til að skýrt verði tekið fram að slík heimild sé í höndum dómara.
    Til umræðu kom í nefndinni að beiting heimildar 2. mgr. 14. gr. felur í sér verulegt og íþyngjandi inngrip í rekstur félags. Mikilvægt væri að slíkri heimild yrði ekki misbeitt í öðrum tilgangi en til væri ætlast. Samkvæmt ákvæðinu geta ráðherra og ríkissaksóknari lagt fram beiðni um bráðabirgðabann við starfsemi félags ef líkur eru á að félag brjóti ella verulega gegn lögum eða skilgreindum tilgangi samkvæmt samþykktum sínum. Meiri hlutinn telur rétt að setja beitingu heimildarinnar þrengri skorður og leggur til að beiðni um beitingu hennar geti aðeins stafað frá ríkissaksóknara en að vísun til ráðherra falli brott úr ákvæðinu. Jafnframt leggur meiri hlutinn til að skilyrði þess að bráðabirgðabann megi leggja á sé að rökstuddur grunur sé um að félag brjóti ella verulega gegn lögum eða skilgreindum tilgangi sínum.
    Aðrar breytingartillögur meiri hlutans eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir orðinu „félag“ í 2. mgr. 1. gr. komi: skv. 1. mgr.
     2.      Í stað orðsins „Félagsstjórn“ í 4. mgr. 8. gr. komi: Stjórn félags.
     3.      Í stað orðsins „Félögum“ í 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. komi: Félagi.
     4.      Í stað orðanna „tekið úr skránni“ í 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. komi: fellt út af skránni.
     5.      Við 14. gr.
                  a.      Í stað orðanna „gegn 1. mgr. 13. gr.“ í 1. mgr. komi: að verulegu leyti gegn lögum eða skilgreindum tilgangi samkvæmt samþykktum sínum.
                  b.      1. málsl. 2. mgr. orðist svo: Að beiðni ríkissaksóknara er dómara heimilt að banna starfsemi félags til bráðabirgða skv. 1. mgr., þrátt fyrir að mál hafi ekki verið höfðað til slita á félagi, ef rökstuddur grunur er um að félag brjóti ella að verulegu leyti gegn lögum eða skilgreindum tilgangi samkvæmt samþykktum sínum.
     6.      Í stað orðanna „annarra þeirra einstaklinga“ í 2. mgr. 19. gr. komi: öðrum þeim einstaklingum.

    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. október 2019.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Brynjar Níelsson. Bryndís Haraldsdóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir.