Ferill 105. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 239  —  105. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um innleiðingu á stefnu um opinn og frjálsan hugbúnað.


     1.      Er stefna um opinn og frjálsan hugbúnað sem stjórnvöld samþykktu í mars 2008 og er aðgengileg á vef Stjórnarráðsins enn í gildi? Hefur stefnan verið uppfærð?
    Stefna stjórnvalda frá 2008 1 hefur ótímabundið gildissvið. Hún hefur hvorki verið felld úr gildi né uppfærð.

     2.      Hverjar voru niðurstöður og ávinningur aðgerðaáætlunar stjórnvalda frá mars 2011 fyrir innleiðingu frjáls og opins hugbúnaðar hjá opinberum aðilum?
    Samkvæmt skriflegu svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Ásmundar E. Daðasonar um leyfisgjöf og frjálsan og opinn hugbúnað á 141. löggjafarþingi 2012–2013 2 miðaði umrædd aðgerðaáætlun 3 ekki beint að því að innleiða frjálsan hugbúnað heldur að því að undirbúa jarðveginn og auðvelda innleiðingu hjá þeim opinberu aðilum sem hafa áhuga á því að auka notkun frjáls hugbúnaðar. Áætlunin sem slík miðar þannig að því að jafna stöðu hugbúnaðarnotkunar hjá opinberum aðilum, læra af þeim opinberu aðilum sem þegar nota frjálsan hugbúnað, miðla upplýsingum til annarra opinberra aðila og aðstoða þá sem vilja nota frjálsan hugbúnað við að meta og eftir atvikum innleiða slíkan búnað. Því má segja að aðgerðaáætlunin snúist um að gera frjálsan hugbúnað að raunverulegum valkosti í íslenskri stjórnsýslu. Ekki hefur farið fram formlegt mat á niðurstöðum eða ávinningi aðgerðaáætlunarinnar.
    Á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefur til þessa ekki verið gerð sérstök úttekt á notkun opins hugbúnaðar hjá opinberum aðilum. Upplýsingar um notkun og útbreiðslu slíks hugbúnaðar hafa þó komið fram í öðrum tengdum verkefnum sem stjórnvöld hafa unnið að. Í skýrslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins „Greining á upplýsingakerfum og nytjaleyfum hugbúnaðar hjá ríkinu“ frá 2015 4 kemur fram að margar opinberar stofnanir nota opinn hugbúnað. Þar er sérstaklega talað um notkun menntastofnana á opnum vefumsjónarkerfum. Í sömu skýrslu kemur fram að leyfisform sem falla undir skilgreiningu opins hugbúnaðar eru á rúmlega 12% af notendahugbúnaði.
    Á vegum verkefnastofu um stafrænt Ísland er unnið að skilgreiningu tækniarkitektúrs opinberra aðila. Í tengslum við verkefnið var gerð könnun hjá ákveðnu úrtaki stofnana á notkun upplýsingatæknibúnaðar. Þar kom fram að notkun opinberra aðila á opnum hugbúnaði fyrir vefþjóna, gagnasamskipti, gagnagrunna, stýri- og netkerfi væri umtalsverð. Um 80% af stofnunum í úrtakinu nota að einhverju leyti opnar lausnir í sínu upplýsingatækniumhverfi. Þetta á sérstaklega við um stóra öfluga aðila sem reka eigin upplýsingatæknideildir og hafa þar með þekkingu til að reka slíkar lausnir.

     3.      Hvernig framfylgja stjórnvöld stefnu um opinn og frjálsan hugbúnað og eftir hvaða aðgerðaáætlun er unnið?
    Í kjölfar setningar stefnu og gerðar aðgerðaáætlunar var skipaður verkefnishópur og verkefnisstjóri til að halda utan um innleiðingu stefnunnar og tilheyrandi aðgerðir. Frá 2011 til 2012 voru haldnir fundir með stofnunum og opnar kynningar. Auk þess voru haldin námskeið og fræðsluefni um opinn hugbúnað gert aðgengilegt á vef innanríkisráðuneytisins undir merkjum upplýsingasamfélagsins sem þá annaðist málaflokkinn. Það reyndist upplýsingasamfélaginu, sem þá var framkvæmdaraðili stefnunnar og aðgerðaáætlunarinnar, hins vegar erfitt að fá stofnanir til liðs við verkefnið. Helsti vandi þessa fyrirkomulags var að upplýsingasamfélagið gat ekki beinlínis hlutast til um þennan þátt í starfsemi stofnananna, sem einnig reyndust hafa mismikinn áhuga á viðfangsefninu.
    Við ríkisstjórnaskiptin í desember 2017 voru öll málefni upplýsingasamfélagsins flutt til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar með var stefnumótun um upplýsingatækni fyrir hið opinbera komin á eina hendi. Í framhaldi af því var stofnaður verkefnahópur innan ráðuneytisins sem gengur undir heitinu „Verkefnastofa um stafrænt Ísland“. Verkefni sem unnin eru af verkefnastofunni ganga þvert á stofnanir ríkisins og sveitarfélög. Í vinnu verkefnastofunnar er leitast við að gefa frjálsum hugbúnaði sömu tækifæri og séreignarhugbúnaði þegar tekin er ákvörðun um val á nýjum búnaði, að velja hugbúnað sem byggist á opnum stöðlum og stefnt er að því að opinberir aðilar verði ekki of háðir einstökum hugbúnaðarframleiðendum og þjónustuaðilum.
    Á vegum verkefnastofunnar er unnið að skilgreiningu tækniarkitektúrs opinberra aðila. Markmið verkefnisins er að samræma uppbyggingu og skipulag upplýsingatækni þeirra þannig að opinberir aðilar geti á öruggan og skilvirkan hátt byggt upp stafræn ferli og skilvirka notkun gagna sín á milli og milli þeirra og einkaaðila. Einnig hefur verið horft til gildandi stefnu um opinn og frjálsan hugbúnað.
    Áhersluatriði stefnunnar endurspeglast jafnframt í þeim áætlunum sem unnið er eftir við tæknilegt skipulag og uppbyggingu nýrrar þjónustumiðju island.is og innleiðingu sameiginlegs gagnaflutningslags opinberra aðila, Straumsins (X-Road). Í báðum tilvikum mun verða stuðst við opinn hugbúnað og staðla.

     4.      Hvaða verklagsreglur eru um það hvaða hugbúnaðarleyfi eru sett á hugbúnað sem er sérhannaður fyrir opinbera aðila með opinberu fé? Hvar er opinn hugbúnaður sem er smíðaður fyrir opinbert fé gerður aðgengilegur?
    Leiðbeiningar eða reglur um samningskröfur fyrir kaupendur að hugbúnaðarsmíði hafa ekki verið samræmdar af hálfu íslenska ríkisins eða Ríkiskaupa.
    Leiðbeiningar um notkun og mat á opnum hugbúnaði og séreignarhugbúnaði kemur fram í vefhandbók stjórnarráðsins. 5 Þar stendur m.a.:
     Opinn hugbúnaður byggir á því að opna þróun hugbúnaðarins og gera notendum mögulegt að taka þátt í þróuninni. Í stað þess að þróun og viðhald hugbúnaðarins sé í höndum fárra aðila í einu þróunarteymi er hún í höndum þeirra sem hafa áhuga og nota hugbúnaðinn.
    Ekki hefur verið mikið um opinn hugbúnað í innkaupaverkefnum, aðallega þar sem opinberir kaupendur hafa ekki talið sig hafa fullnægjandi innri þekkingu til að ráða við slíkt. Því eru ekki staðlaðar kröfur í útboðum um skil og aðgengi að kóða. Kaupendur einstakra ráðuneyta og stofnana hafa þó keypt hugbúnað fyrir einstök ráðuneyti og stofnanir. Kaup á sérsmíði hafa haft eignarskilmála fyrir kaupendur, en um það hafa hvorki verið gefnar út verklagsreglur né tiltekin formleg afhending. Dæmi um slíka samningsskilmála í útboði:
     6.8 Eignarhald hugbúnaðar
     Verkkaupi er eigandi alls hugbúnaðar sem verður til í verkefni þessu, þ.m.t. alls kóða og lýsinga. Verkkaupi eignast hugbúnað eftir því sem verkinu miðar áfram. Verkkaupi hefur fulla heimild til að vinna áfram að þróun og viðhaldi hugbúnaðarins með atbeina eigin starfsmanna og/eða þriðja aðila.
    Íslenska ríkið er ekki með útgefna staðlaða samningsskilmála um hugbúnaðarkaup en Ríkiskaup hafa horft til staðlaðra útgefinna samningsskilmála Norðurlandanna í hugbúnaðarverkefnum.
    Í þeim hugbúnaðarverkefnum sem núna eru í undirbúningi um nýþróun fyrir island.is og tengd kerfi er gert ráð fyrir í tæknilýsingu að öllum hugbúnaði verði skilað inn í hugbúnaðarsamfélagið GitHub þar sem hann verður aðgengilegur öllum sem hafa hug á að smíða á móti hugbúnaði ríkisins eða koma með viðbætur eða nýjungar.

1     www.stjornarradid.is/media/forsaetisraduneyti-media/media/verkefnisstjorn-radstefna-rafraen-f ramtid/Frjals_og_opinn_hugbunadur_-_Stefna_stjornvalda.pdf
2     www.althingi.is/altext/141/s/0408.html
3     www.stjornarradid.is/media/innanrikisraduneyti-media/media/Skyrslur/adgerdaaaetlun_fyrir_in nleidingu_frjals_og_opins_hugbunadar_lokaskil.pdf
4     www.stjornarradid.is/media/fjarmalaraduneyti-media/media/frettatengt2015/2015-fjr-uttekt-upp lysingakerfi-nytjaleyfi-kostnadur.pdf
5     www.stjornarradid.is/verkefni/upplysingasamfelagid/opinberir-vefir/vefhandbokin/1.-undirbuni ngur/1.3-mat-a-valkostum/