Ferill 245. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 266  —  245. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á tollalögum og fleiri lögum (fyrirkomulag tollafgreiðslu og tollgæslu).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



I. KAFLI

Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      4. tölul. orðast svo: Embætti ríkisskattstjóra: Sú stofnun sem fer með stjórn tollamála samkvæmt lögum þessum og er auk þess falið að framfylgja öðrum lögum og stjórnvaldsreglum sem varða innflutning, umflutning og útflutning á vörum.
     b.      13. tölul. orðast svo: Ríkisskattstjóri: Sá embættismaður sem ber faglega, fjárhagslega og stjórnunarlega ábyrgð á rekstri embættis ríkisskattstjóra.
     c.      19. tölul. orðast svo: Tollgæsla Íslands: Sérstök eining við embætti ríkisskattstjóra sem sinnir tollgæslu. Meginhlutverk Tollgæslu Íslands er að sinna eftirliti til að tryggja framkvæmd samkvæmt lögum þessum, stjórnvaldsreglum settum samkvæmt þeim og öðrum lögum og stjórnvaldsreglum sem ríkisskattstjóra ber að framfylgja. Um tollgæsluvald fer eftir ákvæðum XXI. kafla.
     d.      23. tölul. orðast svo: Tollgæslustjóri: Tollgæslustjóri fer með daglega stjórn og rekstur Tollgæslu Íslands í umboði ríkisskattstjóra og önnur verkefni sem ríkisskattstjóri felur honum.

2. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjóri hefur“ í 18. tölul. 1. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur: Tollyfirvöld hafa.

3. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóra“ tvívegis í 31. og 32. tölul. 1. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum, nema í 46. gr. og 147. gr., kemur, í viðeigandi beygingarfalli: tollyfirvöld.

4. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjóri getur“ í 1. málsl. 3. mgr. 10. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur: Tollyfirvöld geta.

5. gr.

    Í stað orðanna „getur hann“ í 2. málsl. 3. mgr. 21. gr. laganna kemur: geta þau.

6. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjóri skal“ í 1. málsl. 4. mgr. 21. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum, kemur: Tollyfirvöld skulu.

7. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóri“ í 3. málsl. 4. mgr. 21. gr., 5. tölul. 2. mgr. 24. gr., 1. málsl. 1. mgr. 36. gr., fyrirsögn 40. gr., 3. mgr. 45. gr., 1. málsl. 1. mgr. 70. gr., 2. málsl. 7. tölul. 1. mgr. 91. gr., 1. málsl. 1. mgr. 109. gr., 1. málsl. 3. mgr. 110. gr., 1. málsl. 2. mgr. 117. gr., 2. málsl. 1. mgr. 120. gr., 3. mgr. 128. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 183. gr. laganna kemur: tollyfirvöld.

8. gr.

    Í stað orðanna „skal hann“ í 3. málsl. 4. mgr. 21 gr., 1. mgr. 110. gr., 1. málsl. 115. gr., 1. málsl. 2. mgr. 117. gr. og 2. mgr. 184. gr. laganna kemur: skulu þau.

9. gr.

    Í stað orðanna „skal tollstjóri“ í 4. málsl. 4. mgr. 21. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur: skulu tollyfirvöld.

10. gr.

    Í stað orðanna „getur tollstjóri“ í 2. mgr. 23. gr., 2. málsl. 1. mgr. 36. gr., 1. málsl. 1. mgr. 53. gr., 2. málsl. 62. gr., 2. málsl. 1. mgr. 70. gr., 1. mgr. 88. gr., 1. málsl. 1. mgr. 91. gr., 1. mgr. 96. gr., 1. mgr. 101. gr., 1. málsl. 2. mgr. 104. gr., 1. mgr. 105. gr., 1. mgr. 108. gr. a, 1. mgr. 152. gr., 3. mgr. 164. gr. og 3. málsl. 2. mgr. 185. gr. laganna kemur: geta tollyfirvöld.

11. gr.

    Í stað orðsins „honum“ í 2. mgr. 23. gr. laganna kemur: þeim.

12. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjóri ákveður“ í 6. mgr. 23. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur: Tollyfirvöld ákveða.

13. gr.

    Í stað orðanna „hann fer“ í 1. málsl. 3. mgr. 30. gr. laganna kemur: þau fara.

14. gr.

    Í stað orðanna „má“ og „tollstjóri tiltekur“ í 1. málsl. 1. mgr. 36. gr. laganna kemur: mega; og: tollyfirvöld tiltaka.

15. gr.

    Í stað orðanna „má tollstjóri“ í 3. málsl. 1. mgr. 36. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laganna kemur: mega tollyfirvöld.

16. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjóri fer“ í 2. málsl. 1. mgr. 38. gr. laganna og „tollstjóri“ í 1. málsl. 2. mgr. sömu greinar kemur: Ríkisskattstjóri og tollyfirvöld fara; og: tollyfirvöld.

17. gr.

    Í stað orðsins „tollgæslunnar“ í fyrirsögn 41. gr. laganna kemur: tollyfirvalda.

18. gr.

    Í stað orðsins „hans“ í 1. málsl. 42. gr. og tvívegis í 1. og 2. málsl. 5. mgr. 185. gr. laganna, kemur: þeirra.

19. gr.

    Í stað orðanna „Hann getur“ og „tollgæslu“ í 2. málsl. 42. gr. laganna kemur: Þau geta; og: tollyfirvöld.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Ráðherra“ í 1. mgr. og „tollstjóra“ í sömu málsgrein kemur: Ríkisskattstjóri; og: tollgæslustjóra.
     b.      1. og 2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Ríkisskattstjóri skipar tollverði til fimm ára í senn til starfa hjá Tollgæslu Íslands. Ríkisskattstjóri ræður auk þess aðra starfsmenn til starfa við tollframkvæmd hjá embættinu.
     c.      Í stað orðanna „Tollstjóra“ í 1. málsl. 3. mgr. og „tollstjóra“ í 2. málsl. sömu málsgreinar kemur: Ríkisskattstjóra; og: ríkisskattstjóra.

21. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjóri veitir“ í 1. mgr. 48. gr. og 2. málsl. 2. mgr. 145. gr. laganna, kemur: Tollyfirvöld veita.

22. gr.

    Í stað orðanna „tollstjóri setur“ í 2. málsl. 1. mgr. 53. gr. og 1. málsl. 100. gr. laganna kemur: tollyfirvöld setja.

23. gr.

    Í stað orðsins „getur“ í 1. málsl. 54. gr. laganna kemur: geta.

24. gr.

    Í stað orðanna „tollstjóri telur“ í 2. mgr. 64. gr., tvívegis í 1. mgr. 110. gr., 3. tölul. 1. mgr. 132. gr. og 2. málsl. 7. tölul. 1. mgr. 195. gr. laganna kemur: tollyfirvöld telja.

25. gr.

    Í stað orðsins „honum“ í 1. málsl. 67. gr., 3. málsl. 1. mgr. 79. gr., 3. málsl. 1. mgr. 109. gr. og 3. mgr. 128. gr. laganna kemur: þeim.

26. gr.

    Í stað orðanna „hann telur“ í 3. málsl. 3. mgr. 69. gr., 2. tölul. 1. mgr. 94. gr., 2. mgr. 114. gr. og 2. mgr. 184. gr. laganna, kemur: þau telja.

27. gr.

    Í stað orðanna „hans“ í 2. mgr. 72. gr. laganna og „tollstjóri tiltekur getur tollstjóri“ í 4. mgr. sömu greinar kemur: þeirra; og: tollyfirvöld tiltaka geta tollyfirvöld.

28. gr.

    Í stað orðsins „Honum“ í 4. málsl. 7. tölul. 1. mgr. 91. gr. laganna kemur: Þeim.

29. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjóri sker“ í 3. mgr. 95. gr. laganna kemur: Tollyfirvöld skera.

30. gr.

    Í stað orðanna „leggur hann“ í 1. málsl. 3. mgr. 110. gr. laganna kemur: leggja þau.

31. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjóri kveður“ í 4. mgr. 116. gr. kemur: Tollyfirvöld kveða.

32. gr.

    Í stað orðanna „tollstjóri tiltekur“ í 3. málsl. 1. mgr. 120. gr. laganna kemur: tollyfirvöld tiltaka.

33. gr.

    Í stað orðanna „Hann skal“ í 2. málsl. 2. mgr. 132. gr. laganna og „hann hefur“ í 1. málsl. 3. mgr. sömu greinar kemur: Þau skulu; og: þau hafa.

34. gr.

    Í stað orðanna „veitir tollstjóri“ í 2. málsl. 2. mgr. 145. gr. b laganna kemur: veita tollyfirvöld.

35. gr.

    Í stað orðanna „tollstjóri ber“ í 146. gr. laganna kemur: tollyfirvöld bera.

36. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjóri“ í 1. mgr. 147. gr. laganna og „tollstjóra“ í 2. mgr. sömu greinar kemur: Ríkisskattstjóri, tollgæslustjóri; og: ríkisskattstjóra.

37. gr.

    Í stað orðanna „setur“ í 2. mgr. 164. gr. laganna kemur: setja.

38. gr.

    Í stað orðanna „Skal hann“ í 2. málsl. 1. mgr. 183. gr. laganna kemur: Skulu þau.

II. KAFLI

Breyting á lögum um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum, nr. 84/2018.

39. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóra“ í 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: tollyfirvalda.

III. KAFLI

Breyting á lögum um bráðabirgðaútflutningsskýrslur, nr. 53/1935, með síðari breytingum.

40. gr.

    Í stað orðanna „skal tollstjóri“ í 8. mgr. 3. gr. laganna kemur: skulu tollyfirvöld.

IV. KAFLI

Breyting á búvörulögum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.

41. gr.

    Í stað 2. og 3. málsl. 3. mgr. 85. gr. A laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Tollyfirvöld annast meðferð umsókna og greiðslu verðjöfnunar.

V. KAFLI

Breyting á efnalögum, nr. 61/2013, með síðari breytingum.

42. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóra“ í 15. tölul. 5. gr., í fyrirsögn og 1. mgr. 8. gr., 18. tölul. 1. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 20. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: tollyfirvöld.

43. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóri“ í 2. málsl. 53. gr. laganna kemur: tollyfirvöld.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, með síðari breytingum.

44. gr.

    Í stað orðanna „tollstjóri eða ríkisskattstjóri“ í 1. málsl. 4. mgr. 3. gr. laganna kemur: tollyfirvöld.

45. gr.

    Í stað orðanna „getur tollstjóri“ í 5. mgr. 5. gr. a laganna og „tollstjóri“ í sömu málsgrein kemur: geta tollyfirvöld; og: tollyfirvöld.

46. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóra“ í 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: tollyfirvalda.

VII. KAFLI

Breyting á lögum um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019.

47. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóri“ í 3. tölul. 3. gr. laganna kemur: tollyfirvöld.

VIII. KAFLI

Breyting á lögreglulögum, nr. 90/1996, með síðari breytingum.

48. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjóri“ í 4. mgr. 9. gr. laganna og „hans“ í sömu málsgrein kemur: Tollyfirvöld; og: þeirra.

49. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóra“ þrívegis í 3. mgr. 22. gr., 1. málsl. 26. gr. og 1. mgr. 42. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: tollyfirvöld.

IX. KAFLI

Breyting á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum.

50. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóra“ í 3. málsl. 27. gr. d laganna kemur: tollyfirvalda.

X. KAFLI

Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum.

51. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóra“ í 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: tollyfirvöld.

XI. KAFLI

Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum.

52. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóra“ í 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: tollyfirvöld.

XII. KAFLI

Breyting á lögum um olíugjald og kílómetragjald, nr. 87/2004, með síðari breytingum.

53. gr.

    Í stað orðsins „Tollstjóri“ í 1. málsl. 2. gr. laganna kemur: Tollyfirvöld.

54. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjóri skal“ í 2. málsl. 3. tölul. 1. mgr. 13. gr. laganna kemur: Tollyfirvöld skulu.

55. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóra“ í 1. málsl. 7. mgr. 17. gr. laganna kemur: tollyfirvalda.

XIII. KAFLI

Breyting á lögum um rannsókn samgönguslysa, nr. 18/2013, með síðari breytingum.

56. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóri“ í b-lið 2. mgr. 16. gr. laganna kemur: tollyfirvöld.

XIV. KAFLI

Breyting á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, með síðari breytingum.

57. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóra“ í 3. mgr. 1. gr., 3. tölul. 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. og 2. málsl. 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: tollyfirvöld.

58. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjóri skal“ í 6. gr., 2. og 5. málsl. 4. mgr. 7. gr. og 5. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: Tollyfirvöld skulu.

59. gr.

    Í stað orðanna „tollstjóri ákveður“ í 1. málsl. 4. mgr. 7. gr. laganna kemur: tollyfirvöld ákveða.

60. gr.

    Í stað orðanna „skal tollstjóri“ í 6. málsl. 4. mgr. 7. gr. og 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: skulu tollyfirvöld.

XV. KAFLI

Breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum.

61. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjórinn í Reykjavík“ í 8. tölul. 1. mgr. 22. gr. laganna kemur: Tollgæslustjóri.

62. gr.

    Á eftir orðinu „lögreglumanna“ í 2. málsl. 39. gr. laganna kemur: tollgæslustjóra.

XVI. KAFLI

Breyting á lögum um siglingavernd, nr. 50/2004, með síðari breytingum.

63. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjóri setur“ í 1. málsl. 9. mgr. 4. gr., 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. og 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: Tollyfirvöld setja.

64. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjóri“ í 2. málsl. 9. mgr. 4. gr. laganna og „setur“ í sama málslið kemur: Tollyfirvöld; og: setja.

65. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjóri hefur“ og „tollstjóra“ í 2. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna og „Tollstjóri skal“ í 2. mgr. sömu greinar kemur: Tollyfirvöld hafa; tollyfirvalda; og: Tollyfirvöld skulu.

XVII. KAFLI

Breyting á lögum um timbur og timburvöru, nr. 95/2016.

66. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóra“ í d-lið 2. mgr. 5. gr. og í fyrirsögn og 1. málsl. 7. gr. laganna kemur: tollyfirvalda.

XVIII. KAFLI

Breyting á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009, með síðari breytingum.

67. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjóri“ og „hefur“ í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: Tollyfirvöld; og: hafa.

XIX. KAFLI

Breyting á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, með síðari breytingum.

68. gr.

    Í stað orðanna „tollstjórinn í Reykjavík ákveður“ í 2. málsl. 3. mgr. 7. gr. a laganna kemur: tollyfirvöld ákveða.

69. gr.

    Í stað orðanna „tollstjóra“ í 2. málsl. 3. mgr. 8. gr. laganna og 6. málsl. sömu málsgreinar kemur: tollyfirvöldum.

70. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjóri skal“ í 1. málsl. 10. gr. laganna kemur: Tollyfirvöld skulu.

71. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Orðin „tollstjóra eða til“ í 2. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Orðin „Tollstjóri eða“ í 5. málsl. 1. mgr. falla brott.
     c.      2. mgr. fellur brott.
     d.      Á eftir orðinu „ákvæðum“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: 118. gr. tollalaga, nr. 88/2005, og.

XX. KAFLI

Breyting á lögum um verslunarskýrslur, nr. 12/1922, með síðari breytingum.

72. gr.

    Í stað orðanna „tollstjórum“ í 1. mgr. 1. gr. laganna og „tollstjóri“ í 3. mgr. sömu greinar kemur: tollyfirvöldum; og: tollyfirvöld.

73. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóra“ í 1. málsl. 2. gr., tvívegis í 1. málsl. 1. mgr. og tvívegis í 1. málsl. 2. mgr. og í 1. málsl. 3. mgr. 4. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: tollyfirvöld.

74. gr.

    Í stað orðsins „hans“ í 1. málsl. 2. gr., tvívegis í 1. málsl. 1. mgr., tvívegis í 1. málsl. 2. mgr., og í 1. málsl. 3. mgr. 4. gr. laganna kemur: þeirra.

75. gr.

    Í stað orðanna „Skal tollstjóri“ í 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: Skulu tollyfirvöld.

76. gr.

    Í stað orðanna „getur tollstjóri“ í 2. málsl. 5. gr. laganna kemur: geta tollyfirvöld.

XXI. KAFLI

Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

77. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóra“ í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur: tollyfirvalda.

78. gr.

    Í stað orðsins „Tollstjóra“ í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV við lögin kemur: Tollyfirvöldum.

XXII. KAFLI

Breyting á lögum um vitamál, nr. 132/1999, með síðari breytingum.

79. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna orðast svo: Ríkisskattstjóri annast innheimtu vitagjalds vegna íslenskra og erlendra skipa.

XXIII. KAFLI

Breyting á vopnalögum, nr. 16/1998, með síðari breytingum.

80. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóri getur“ í 3. mgr. 27. gr. c laganna kemur: tollyfirvöld geta.

XXIV. KAFLI

Breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, með síðari breytingum.

81. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjóri getur“ í 2. málsl. 4. mgr. 5. gr. og 10. gr. laganna kemur: Tollyfirvöld geta.

82. gr.

    Í stað orðanna „tollstjóri metur“ í 3. málsl. 4. mgr. og „ skal tollstjóri“ í 1. málsl. 7. mgr. 5. gr. laganna kemur: tollyfirvöld meta; og: skulu tollyfirvöld.

83. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóra“ í 1. mgr. 6. gr., 2. málsl. 2. mgr. 11. gr., 2. mgr. 18. gr., 1. mgr. og 1. málsl. 3. mgr., í 1. og 2. málsl. 4. mgr. og í 5. mgr. ákvæðis XIII til bráðabirgða við lögin kemur, í viðeigandi beygingarfalli: tollyfirvöld.

84. gr.

    Í stað orðsins „Tollstjóra“ í 1. málsl. 3. mgr. 8. gr. laganna kemur: Tollyfirvöldum.

85. gr.

    Í stað orðanna „skal tollstjóri“ í 2. málsl. 20. gr. og 2. mgr. 21. gr. laganna kemur: skulu tollyfirvöld.

86. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjóri“ í 1. málsl. 2. mgr. 25. gr. laganna og „hefur“ í sama málslið kemur: Tollyfirvöld; og: hafa.

87. gr.

    Í stað orðanna „tollstjóri útbýr“ í 1. málsl. 3. mgr. ákvæðis XIII til bráðabirgða við lögin kemur: tollyfirvöld útbúa.

XXV. KAFLI

Breyting á lögum um yfirskattanefnd, nr. 30/1992, með síðari breytingum.

88. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóra“ í 2. og 3. málsl. 1. mgr. 2. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: tollyfirvalda.

XXVI. KAFLI

Breyting á lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, nr. 75/2019.

89. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóri“ í 2. málsl. 11. tölul. 2. gr. laganna kemur: tollyfirvöld.

XXVII. KAFLI

Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.

90. gr.

    Í stað lokamálsliðar 85. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ríkisskattstjóri stýrir stofnun sem nefnist Skatturinn sem annast þau verkefni sem honum er falið að sinna lögum samkvæmt.

91. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020.
    Við gildistöku laga þessara tekur ríkisskattstjóri við óloknum málum tollstjóra. Jafnframt færist búnaður og ráðstöfunarréttur á þeim bankareikningum sem tollstjóri nýtir í tengslum við tollafgreiðslu og tollgæslu yfir til ríkisskattstjóra.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Starfsmenn tollstjóra sem eru í starfi þegar lög þessi öðlast gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 2020 verða starfsmenn hjá embætti ríkisskattstjóra og Tollgæslu Íslands og fer um rétt starfsmanna til starfa hjá embætti ríkisskattstjóra eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002, eins og við á hverju sinni. Ákvæði um auglýsingaskyldu í 7. gr. laga nr. 70/1996 gilda ekki við ráðstöfun starfa samkvæmt þessu ákvæði.
    Við gildistöku laga þessara um sameiningu á embættum tollstjóra og ríkisskattstjóra er embætti tollstjóra lagt niður.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í framhaldi af vinnu nefndar um aukna skilvirkni í skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opinberra gjalda sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði 21. júní 2018. Nefndina skipa ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sérfræðingar ráðuneytisins auk fulltrúa tollstjóra og ríkisskattstjóra og er hún enn að störfum. Nefndin lagði til að innheimta opinberra gjalda, sem tollstjóri hefur annast, yrði færð til ríkisskattstjóra frá og með 1. maí 2019. Frumvarp þess efnis var lagt fram á Alþingi haustið 2018 og varð að lögum nr. 142/2018, um breytingu á lögum um tekjuskatt og fleiri lögum (fyrirkomulag innheimtu). Í frumvarpinu er lagt til að tollafgreiðsla og tollgæsla, sem tollstjóri annast nú, verði færð til ríkisskattstjóra frá og með 1. janúar 2020. Í samræmi við það meginmarkmið er lagt til að sú stofnun sem ríkisskattstjóri stýrir nefnist Skatturinn og verði honum til aðstoðar við þau verkefni sem honum er falið að sinna lögum samkvæmt.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er áhersla lögð á að Ísland búi sig undir að mæta þeim áskorunum og nýta þau tækifæri sem felast í örum tæknibreytingum. Þeim munu fylgja nýjar kröfur um menntun og hæfni starfsfólks og að til staðar sé umhverfi sem hvetur til nýsköpunar á öllum sviðum, þ.m.t. hjá hinu opinbera. Meðal þeirra áskorana sem starfsemi ríkisins þarf að bregðast við eru auknar kröfur almennings og atvinnulífs um sjálfsafgreiðslu og stafræna opinbera þjónustu. Hraðar breytingar krefjast þannig sveigjanlegra stofnanakerfis og fjölbreytts hóps starfsmanna sem þurfa að búa yfir nýrri þekkingu og hæfni.
    Mikilvægt er að skatt- og tollyfirvöld geti tekist á við þær breytingar sem eru að eiga sér stað, einkum hvað varðar aukna sjálfvirknivæðingu verkefna embættanna og aukið framboð stafrænnar þjónustu. Örar tæknibreytingar gera kröfur til skatt- og tollyfirvalda um breytt vinnulag, bætt afköst í skattframkvæmd og aukin gæði þjónustu og hagkvæmni í rekstri. Til þess að slíkt náist þarf að vera til staðar öflug rekstrareining sem getur tekist á við breyttar kröfur um veitingu opinberrar þjónustu. Samhliða þarf að bregðast við breyttum viðskiptaháttum, aukinni netverslun og rafrænum viðskiptum yfir landamæri sem kalla á eflingu og aukið samstarf þeirra ríkisstofnana sem að þessum málum koma og nýja nálgun við að tryggja tekjuöflun fyrir hið opinbera.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Meginefni frumvarpsins felur í sér þá breytingu að sameina verkefni á sviði tollafgreiðslu og tollgæslu, sem embætti tollstjóra annast nú, og þau verkefni sem embætti ríkisskattstjóra sinnir. Við sameininguna yrði embætti tollstjóra, sem ekki hefur verið skipað í síðan 1. október 2018, lagt niður og ríkisskattstjóri yrði þannig yfirmaður hins sameinaða embættis. Tollgæsluþættinum yrði þó ætluð nokkur sérstaða í hinu sameinaða embætti þar sem sett yrði upp sérstök eining undir stjórn tollgæslustjóra sem heyrði undir ríkisskattstjóra. Af þessum sökum er nauðsynlegt að fella niður í lögum um þessi embætti tilvísanir til tollstjóra og setja í staðinn tilvísanir til ríkisskattstjóra, tollgæslustjóra og tollyfirvalda eftir því sem við á hverju sinni. Í þeim tilvikum sem gera þarf efnisbreytingar sem leiða af tilfærslunni, þ.e. að sameina verkefni á sviði tollafgreiðslu og tollgæslu, sem tollstjóri annast nú, og verði færð til ríkisskattstjóra, er vísað til skýringa við einstakar greinar.
    Gera má ráð fyrir því að mikil samlegðaráhrif og hagræði hljótist af fullri sameiningu ríkisskattstjóra og tollstjóra. Það á einkum við um rekstur ýmissa notendakerfa, vélbúnaðar, netumsjón og notendaþjónustu. Stærri eining er betur í stakk búin til að tryggja rekstraröryggi sem og öryggi í aðgangi að og meðferð upplýsinga. Samhliða aukast möguleikar á betri samnýtingu upplýsinga og gagna við skatt- og tolleftirlit. Sameiginlegt aðgengi að upplýsingum úr skatt- og tollkerfum eykur jafnframt möguleika á markvissara og árangursríkara eftirliti. Auk þess skapast tækifæri til að efla starfsemi skatt- og tollyfirvalda á landsbyggðinni.
    Með sameiningu ríkisskattstjóra og tollstjóra verður til ein öflug og leiðandi upplýsinga- og þjónustustofnun sem er betur í stakk búin til að takast á við áskoranir til framtíðar en tvær minni sjálfstæðar stofnanir. Eftirfarandi atriði má nefna sem dæmi um þetta:
     a.      Bætt þjónusta og skilvirkari málsmeðferð. Í því felst meðal annars bætt þjónustustig: auknir möguleikar á sjálfsafgreiðslu, einn staður í stað tveggja og aukin gæði er varðar sérhæfingu, jafnræði og skilvirkni.
     b.      Styrkari tekjuöflun ríkissjóðs, meðal annars hvað varðar bætta yfirsýn yfir samhengi í forsendum álagningar og tekjuöflunar.
     c.      Aukið eftirlit, stuðningur við vettvangseftirlit á landamærum sem og innanlands.
     d.      Framkvæmd áhættugreininga, rafrænna greininga og eftirlit meðal annars með peningaþvætti og skattsvikum.
     e.      Efling mannauðs. Stærra embætti og breiðara verkefnasvið gefur starfsfólki aukin tækifæri til starfsþróunar.
     f.      Betri samhæfing og tækni. Skyld verkefni færð saman og aukin tækifæri til samrekstrar meðal annars er varðar upplýsingatæknikerfi.
     g.      Heildstæðari nálgun til að mæta síbreytilegum þörfum almennings og atvinnulífs.
    Mikil tækifæri felast því í að heildarferli þjónustu, álagningar, innheimtu og eftirlits sé á hendi eins og sama aðilans. Árangur við vettvangseftirlit tollgæslu ætti að aukast, auk þess sem möguleikar til að takast á við stærri efnahagsbrot innanlands og yfir landamæri, svo sem peningaþvætti, verða meiri. Margir snertifletir eru á samvinnu milli tollyfirvalda og löggæsluyfirvalda við landamæraeftirlit og því fer best á því að tolleftirliti sé þannig fyrir komið í sameinaðri stofnun að auðvelt sé að tryggja samlegð í samstarfi þeirrar einingar við löggæsluyfirvöld og eftir atvikum samþættingu þeirrar starfsemi þegar fram líða stundir.
    Ljóst er að framundan eru miklar áskoranir bæði fyrir toll- og skattyfirvöld og þá starfsmenn sem þar starfa við að takast á við þau verkefni sem breytt framtíð kallar á. Nauðsynlegt er að horfa til framtíðar og huga að hagsmunum og færni starfsmanna þeirra þannig að þeir nái að þróast með þeim miklu breytingum sem verða á komandi árum, t.d. varðandi stafræna tækni o.fl. Stafræn umskipti munu frekar snúast um að breyta fyrirtækjamenningu en því að breyta stefnum og verkferlum. Sameining ríkisskattstjóra og tollstjóra ætti að geta eflt starfsemi skatt- og tollyfirvalda á landsbyggðinni og gæti aðgengi að fjarvinnu orðið mjög mikilvægt. Vinna hvar sem er og hvenær sem er gæti meðal annars orðið til þess að vinnustaðir og starfsmenn þurfi að endurskoða margt sem snýr að vinnunni, svo sem vinnutíma.
    Í tengslum við fyrirhugaðar breytingar er mikilvægt að vel verði staðið að breytingastjórnun og að kynning og upplýsingaflæði til starfsmanna verði gott. Þá er nauðsynlegt, með tilliti til hags starfsmanna beggja ríkisaðila, að breytingaferlið taki sem skemmstan tíma. Ekki er gert ráð fyrir að störf verði lögð niður heldur verði þau flutt frá tollstjóra til ríkisskattstjóra. Óhjákvæmilegt er hins vegar að skipulag starfseminnar þróist í tímans rás og að skipulaginu verði þannig háttað að saman fari góð nýting fjármagns og skilvirk skattframkvæmd. Lagt er til að sú stofnun sem ríkisskattstjóri stýrir nefnist Skatturinn og verði honum til aðstoðar við þau verkefni sem honum er falið að sinna lögum samkvæmt.
    Líta verður á tilfærsluna sem tækifæri til að tryggja gott starfsumhverfi og vinnustaðarmenningu. Miklar breytingar hafa orðið á íslenska skattkerfinu sem og starfsemi og hlutverki skattyfirvalda. Þróun í upplýsingatækni og gervigreind hefur gjörbylt vinnulagi og afköstum í skattframkvæmdinni og aukið gæði hennar til muna. Það kallar á betri rekstur og þjónustu með samlegð og hagræðingu að leiðarljósi. Umhverfið er fjölbreytt og má nefna alþjóðlegar áskoranir í rafrænni verslun sem sífellt verða fyrirferðameiri. Með samþættingu þessara ríkisaðila er stefnt að meiri árangri þar sem öll þjónusta verður á einum stað, almenningi, starfsmönnum, ríkisaðilum og samfélaginu til hagsbóta.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Það leiðir af markmiðum frumvarpsins að gera verður breytingar á þeim lögum sem gilda um hlutverk og starfsemi þeirra stofnana sem um ræðir, hvort heldur í sérlögum eða öðrum lögum. Þess var sérstaklega gætt við undirbúning frumvarpsins að orðalag breytinganna væri skýrt og í samræmi við þær kröfur sem leiða má af ákvæðum stjórnarskrár. Frumvarpið hefur ekki áhrif á skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst skattskylda aðila, bæði einstaklinga og lögaðila, en einnig tollstjóra, ríkisskattstjóra, Fjársýslu ríkisins, ríkið og sveitarfélög. Frumvarpið er samið í framhaldi af vinnu nefndar um aukna skilvirkni í skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opinberra gjalda. Í nefndinni sitja meðal annars fulltrúar tollstjóra og ríkisskattstjóra. Við vinnslu frumvarpsins var einnig haft samráð við aðra sérfræðinga innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins, embætta tollstjóra og ríkisskattstjóra. Áform um samningu frumvarpsins voru kynnt á vettvangi ráðuneytisstjóra og almenningi í opinni samráðsgátt stjórnvalda 28. júní 2019–12. júlí 2019. Þrjár umsagnir bárust um áformin frá Tollvarðafélagi Íslands (TFÍ), Samtökum atvinnulífsins (SA) og sameiginleg umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) og Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ).
    Í umsögn TFÍ er væntanlegum áformum um lagasetningu, sem feli í sér að tollafgreiðsla og tollgæsla, sem tollstjóri annast, verði færð til ríkisskattstjóra frá og með 1. janúar 2020, harðlega mótmælt. TFÍ telur óljóst hvert verði endanlegt markmið fyrirhugaðs frumvarps, áformin hafi að geyma órökstuddar fullyrðingar og óljóst sé hvort greiningarvinna vegna fyrirhugaðra breytinga hafi farið fram af hálfu stjórnvalda. Tollverðir séu embættismenn og alla umfjöllun um stöðu þeirra í nýju skipulagi skorti í áformaskjalið. Þá gagnrýnir TFÍ skort á samráði og þá miklu áherslu sem lögð sé á skatta og gjöld í áformunum. TFÍ telur farsælast að embætti tollstjóra verði áfram sjálfstæð stofnun undir heiti tollstjóra og að fallið verði frá fyrirhuguðum breytingum sem séu illa ígrundaðar og órökstuddar að mati félagsins.
    SA fagna áformum um sameiningu verkefna á sviði tollafgreiðslu og tollgæslu, sem embætti tollstjóra annist nú, og verkefna sem embætti ríkisskattstjóra sinni. Embættin vinni að skyldum verkefnum. Sameining verkefna muni hafa í för með sér víðtæk samlegðaráhrif og hagræði, með betri nýtingu upplýsingakerfa og notendaþjónustu. Jafnframt aukist möguleikar á betri samnýtingu upplýsinga. Með samþættingu verkefna þurfi einstaklingar og lögaðilar að eiga við færri opinbera aðila og til verði öflugri stofnun sem sé betur til þess fallin að takast á við áskoranir framtíðar.
    SAF og SVÞ eru jákvæð í garð áformanna og sammála því að líklegast sé að sameining verkefna embætta tollstjóra og ríkisskattstjóra sé til þess fallin að stuðla að samlegð, einföldun og skilvirkni. Þá telja samtökin slíka sameiningu skynsamlega í ljósi þeirra breytinga sem hafi orðið og séu að verða vegna tæknibreytinga. Samtökin telja æskilegt að hnykkt verði á því viðhorfi í starfsemi sameinaðrar stofnunar að henni sé ætlað þjónustuhlutverk gagnvart borgurunum. Unnið hafi verið að nauðsynlegum úrbótum á tollakerfinu og brýnt sé að endurnýja álagningarkerfi virðisaukaskatts. Þá sé nauðsynlegt að tryggja eftirlitsstjórnvöldum samstarfsvettvang þar sem þau geti deilt sýn sinni á eftirlit, eftirlitsviðfangsefni og eftirlitsaðferðir og unnið sameiginlega að áhættustjórnun með hliðsjón af hagsmunum samfélagsins, skattgreiðenda og fyrirtækja. Samtökin telja tækifæri felast í sameiningu verkefna embætta tollstjóra og ríkisskattstjóra og leggja áherslu á að vandað verði til verka við sameininguna.
    Þá voru frumvarpsdrögin kynnt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda 4. september 2019–19. september 2019. Tvær umsagnir bárust, frá TFÍ og SA, og eru þær að mestu samhljóða umsögnum sem bárust vegna áforma um samningu frumvarpsins frá sömu aðilum.
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur ekki tilefni til að bregðast sérstaklega við áðurnefndum umsögnum. Ljóst má vera að endanlegt markmið frumvarpsins er að sameina verkefni á sviði tollafgreiðslu og tollgæslu, sem embætti tollstjóra annast nú, og þau verkefni sem embætti ríkisskattstjóra sinnir, meðal annars með bætta þjónustu, samþættingu, sjálfvirknivæðingu og aukna stafræna opinbera þjónustu að leiðarljósi. Frumvarpið er samið af nefnd sem gætt hefur þess að eiga meðal annars samráð við embætti tollstjóra og á tollstjóri sæti í nefndinni. Þá hafa nefndarmenn fundað tvisvar með TFÍ um málið. Í frumvarpinu kemur fram að með sameiningu ríkisskattstjóra og tollstjóra verði til ein öflug og leiðandi upplýsinga- og þjónustustofnun sem sé betur í stakk búin til að takast á við áskoranir til framtíðar en tvær minni sjálfstæðar stofnanir. Þannig er hnykkt á því að starfsemi sameinaðrar stofnunar sé ætlað upplýsinga- og þjónustuhlutverk gagnvart borgurunum. Tekið er undir það að leggja þurfi áherslu á vönduð vinnubrögð við sameininguna og að vel verði staðið að breytingastjórnun og kynningu og upplýsingaflæði til starfsmanna.

6. Mat á áhrifum.
    Með tilfærslu á tollafgreiðslu og tollgæslu frá tollstjóra til ríkisskattstjóra er stefnt að aukinni skilvirkni og hagkvæmni í toll- og skattframkvæmd. Framfarir í upplýsingatækni liðinna ára hafa umbylt hugmyndum og aðferðum við veitingu opinberrar þjónustu. Það eru mikil tækifæri til að styrkja þjónustu og stjórnsýslu ríkisskattstjóra og tollstjóra með nýtingu upplýsingatækni og aukinni samþættingu verkefna, sem leiðir til meiri skilvirkni, minni kostnaðar og bættrar þjónustu fyrir almenning og fyrirtæki. Þannig má reikna með að samfélagslegt hagræði og fjárhagslegur ávinningur verði meiri en áður sem efla mun starfsemina og lækka kostnað við rekstur toll- og skattkerfisins í heild án þess að það bitni á þjónustu og afköstum skatt- og tollyfirvalda.
    Til framtíðar þarf að skapa starfseminni umgjörð sem stuðlar að hagkvæmni, samþættingu og samlegð. Í því sambandi er nauðsynlegt að huga að skipulagningu húsnæðismála en ljóst er að af því verður ekki á næstu misserum.
    Gert er ráð fyrir því að sá kostnaður sem til fellur við tilfærsluna rúmist innan fjárheimildar í málaflokki 05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. gr. tollalaga, nr. 88/2005, er að finna skilgreiningar á þeim hugtökum sem notuð eru í lögunum. Lagt er til að embætti ríkisskattstjóra verði skilgreint sem sú stofnun sem fer með stjórn tollamála samkvæmt tollalögum auk þess að vera falið að framfylgja öðrum lögum og stjórnvaldsreglum sem varða innflutning, umflutning og útflutning á vörum. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því að við embætti ríkisskattstjóra starfi sérstök eining, Tollgæsla Íslands, sem sinni tollgæslu. Meginhlutverk Tollgæslu Íslands verður að sinna eftirliti til að tryggja framkvæmd samkvæmt tollalögum, nr. 88/2005, stjórnvaldsreglum sem settar eru samkvæmt lögunum auk annarra laga og stjórnvaldsreglna sem ríkisskattstjóra ber að framfylgja. Gert er ráð fyrir því að tollgæslustjóri fari með daglega stjórn og rekstur Tollgæslu Íslands í umboði ríkisskattstjóra og önnur verkefni sem ríkisskattstjóri felur honum. Um tollgæsluvald mun fara eftir ákvæðum XXI. kafla tollalaga, nr. 88/2005.

Um 2.–15., 17.–19., 21.–61., 63.–89. gr.

    Meginefni frumvarpsins er sú breyting að færa tollafgreiðslu og tollgæslu, sem tollstjóri annast nú, til ríkisskattstjóra frá og með 1. janúar 2020. Af þessum sökum er nauðsynlegt að fella niður tilvísanir til tollstjóra þar sem það á við og setja ríkisskattstjóra, tollgæslustjóra eða tollyfirvöld í hans stað eftir því sem við á. Þarfnast þessar breytingar ekki frekari skýringa.

Um 16. gr.

    Skv. 38. gr. tollalaga, nr. 88/2005, fer fjármála- og efnahagsráðherra með æðstu stjórn tollamála. Lagt er til að ríkisskattstjóri og tollyfirvöld fari með tollamálefni í umboði ráðherra með þeim hætti sem kveðið er á um í lögunum í stað tollstjóra. Er það í samræmi við meginefni frumvarpsins um að færa tollafgreiðslu og tollgæslu, sem tollstjóri annast nú, til ríkisskattstjóra frá og með 1. janúar 2020.

Um 20. gr.

    Um veitingu starfa hjá tollyfirvöldum er fjallað í 46. gr. tollalaga, nr. 88/2005. Gert er ráð fyrir því að við embætti ríkisskattstjóra verði tollgæslustjóri sem ríkisskattstjóri skipar til fimm ára í senn til starfa hjá Tollgæslu Íslands. Hann skal fullnægja sömu hæfisskilyrðum og héraðsdómarar til skipunar í embætti. Tollgæslustjóri skal, auk þeirra starfa sem honum eru sérstaklega falin samkvæmt tollalögum, eða af ríkisskattstjóra, fara með stjórn Tollgæslu Íslands undir yfirstjórn ríkisskattstjóra hvarvetna á tollsvæði ríkisins, stjórn tollgæslumanna og hafa eftirlit með störfum þeirra og samræma þau. Þá skal hann einnig hafa eftirlit með ferðum og flutningi fara og fólks til og frá landinu, svo og flutningi á ótollafgreiddum varningi innanlands. Gert er ráð fyrir því að ríkisskattstjóri skipi tollverði til fimm ára í senn til starfa hjá Tollgæslu Íslands auk þess að ráða aðra starfsmenn til starfa við tollframkvæmd hjá embættinu.

Um 62. gr.

    Samkvæmt ákvæðinu skulu laun og önnur launakjör tollgæslustjóra fara eftir kjarasamningum sem stéttarfélög eða samtök þeirra gera við ríkið, sbr. 47. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Sama gildir nú um laun og önnur launakjör lögreglumanna, tollvarða, fangavarða og skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands sem ekki falla undir úrskurðarvald kjararáðs, sbr. 39. gr. áðurnefndra laga.

Um 90. gr.

    Lagt er til að sú stofnun sem ríkisskattstjóri stýrir nefnist Skatturinn og er hún honum til aðstoðar við þau verkefni sem honum er falið að sinna lögum samkvæmt og er það í samræmi við meginefni frumvarpsins að tollafgreiðsla og tollgæsla, sem tollstjóri annast nú, verði færð til ríkisskattstjóra.
    Jafnframt er lögð til sú breyting að starf vararíkisskattstjóra verði ekki lögbundið heldur ráðist það af skipulagi stofnunarinnar hverju sinni hvað starfsheiti staðgengils ríkisskattstjóra nefnist.

Um 91. gr.

    Gert er ráð fyrir því að frumvarpið öðlist gildi 1. janúar 2020. Við gildistöku laganna skal ríkisskattstjóri taka við öllum óloknum málum tollstjóra í tengslum við tollafgreiðslu og tollgæslu á hvaða stigi sem þau kunna að standa. Þannig skal ríkisskattstjóri taka við öllum óloknum kærum, erindum, fyrirspurnum og öðrum þeim málum þar sem tollstjóri hefur ekki lokið málsmeðferð samkvæmt þeim lögum sem tollstjóri fór með framkvæmd á.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Gert er ráð fyrir því að starfsmenn tollstjóra sem eru í starfi við gildistöku laganna verði starfsmenn hjá embætti ríkisskattstjóra. Ekki er því gert ráð fyrir að störf verði lögð niður heldur að þau verði flutt frá tollstjóra til ríkisskattstjóra þar sem miðað er við að allir haldi störfum sínum. Eðli máls samkvæmt á það ekki við um embætti tollstjóra sem félli niður við sameiningu og þar með setning í það embætti. Ákvæði um auglýsingaskyldu í 7. gr. laga nr. 70/1996 gilda ekki við ráðstöfun starfa samkvæmt ákvæðinu.