Ferill 149. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 347  —  149. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Nirði Sigurðssyni um stefnumótun í náms- og starfsráðgjöf.


     1.      Hefur vinna farið fram innan ráðuneytisins í stefnumótun í náms- og starfsráðgjöf frá útkomu skýrslu sem starfshópur um stefnumótun í náms- og starfsráðgjöf skilaði af sér í maí 2015 og ef svo er, hvaða vinna?
    Ráðuneytið hefur tekið tillögur úr skýrslu starfshóps frá 2015 til skoðunar og hrundið ákveðnum hluta þeirra í framkvæmd nú þegar.
    Náms- og starfsráðgjafar starfa m.a. í skólum, í fyrirtækjum og á atvinnumiðlunum og endurspeglar skýrslan flókið umhverfi þeirra þar sem margir halda um þræðina. Ein birtingarmyndin er að sömu fjórir aðilarnir voru greindir sem ábyrgðaraðilar fyrir allar tillögur um leiðir og aðgerðir, þ.e. mennta- og menningarmálaráðuneyti, velferðarráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti auk sveitarfélaga.
    Á þeim tíma sem skýrslan kom út ákvað mennta- og menningarmálaráðuneyti að horfa sérstaklega til eins þáttar sem skýrslan leggur til, þ.e. til endurbóta á upplýsingaflæði um námsframboð. Árið 2015 voru ýmsir frambærilegir vefir til staðar sem höfðu það að markmiði að auðvelda náms- og starfsráðgjöf en spurningin var þá hvort ástæða væri til að ríkið legði áherslu á einn vef. Í janúar 2015 flutti ráðuneytið verkefni er varða innritun og upplýsingagjöf um nám á framhaldsskólastigi til Námsmatsstofnunar sem síðar varð að Menntamálastofnun. Þar með var stofnuninni m.a. falið að afla upplýsinga og miðla um námsframboð og gera efni um námsframboð aðgengilegt á vef þannig að það nýttist nemendum, forráðamönnum og skólum. Með þessu móti hugðist ráðuneytið koma til móts við ákall um aukið upplýsingaflæði. Jafnframt var stofnunin hvött til að setja af stað samstarfshóp þeirra aðila sem reka náms- og starfsráðgjafarvefi með það að markmiði að athuga hvernig best væri að huga að samstarfi og samlegð með þarfir neytandans að leiðarljósi.
    Í tengslum við þriggja ára verkefnisáætlun ráðuneytisins um námstíma sem byggist á markmiðum um námsframvindu í Hvítbók um umbætur í menntun ákvað ráðuneytið jafnframt að leggja áherslu á að draga úr brotthvarfi og fól Menntamálastofnun í september 2015 að sjá til þess að lögð yrðu skimunarpróf fyrir alla nýnema í öllum framhaldsskólum, þrjú ár í röð í hverjum skóla. Skimuninni var ætlað að greina hvers konar áhættuþættir einkenna nemendahóp viðkomandi skóla og auðvelda skólum að grípa til viðeigandi ráðstafana. Sú vinna tengdist iðulega náms- og starfsráðgjöf í viðkomandi skólum. Í tengslum við skimunarverkefnið veitti ráðuneytið einnig styrki til framhaldsskóla, 82,6 millj. kr. á ári í þrjú ár með það að markmiði að auka stuðning við nemendur í brotthvarfshættu. Menntamálastofnun hélt utan um styrkveitingarnar og hafa sum verkefni sem framhaldsskólar ýttu úr vör með tilkomu styrkjanna fest sig í sessi. Til dæmis hafa náms- og starfsráðgjafar í flestum framhaldsskólum landsins tekið upp sérstakt skimunar- og eftirfylgnikerfi sem miðar að því að koma í veg fyrir brotthvarf, einkum hjá nýnemum.
    Í fjármálaáætlun fyrir tímabilið 2018–2022 var sett fram markmið um að skoða gæði og umfang náms- og starfsráðgjafar í grunn- og framhaldsskólum.
    Fyrr á þessu ári sendi ráðuneytið framhaldsskólum rafræna könnun um hvernig stoðþjónustu við nemendur væri háttað. Tildrög könnunarinnar voru þau að í byrjun árs 2018 hófu ráðuneyti menntamála og heilbrigðismála samstarf um að koma upp, bæta og auka geðheilbrigðisþjónustu við nemendur. Könnunin tók til þátta er snúa að þjónustu sérfræðinga á sviði náms- og starfsráðgjafar, sálfræði og félagsráðgjafar. Niðurstaðan var sú að náms- og starfsráðgjöf er sinnt í öllum framhaldsskólum og eingöngu í undantekningartilfellum af einstaklingum sem ekki hafa viðurkennd réttindi. Ráðuneytið mun fylgja eftir þeim niðurstöðum. Samkvæmt niðurstöðum úr fundaröð sem mennta- og menningarmálaráðherra stóð fyrir um allt land haustið 2018 er mikil eftirspurn eftir aukinni stoðþjónustu í framhaldsskólum. Þróun í fjartækni hefur einnig bætt möguleika á þannig þjónustu og hefur ráðuneytið í hyggju að skoða þann möguleika að hefja tilraunaverkefni sem hvetur sérfræðinga til að mynda sameiginlegan rafrænan vettvang stoðþjónustu, svo sem náms- og starfsráðgjöf og geðheilbrigðisþjónustu fyrir framhaldsskólanema.
    Hvað varðar grunnskólastigið þá var rafræn spurningakönnun send til allra skólastjóra í lok árs 2018 og í framhaldinu gerð eigindleg rannsókn í byrjun árs 2019 í fimm skólum. Tekin voru viðtöl við skólastjórnendur, náms- og starfsráðgjafa, nemendur og foreldra auk þess sem talað var við fræðslustjóra í tveimur sveitarfélögum. Gert er ráð fyrir að niðurstöður verði birtar í skýrslu og í kjölfarið verði kynningar og eftirfylgni.

     2.      Ef ekki, hvernig ætlar ráðherra að beita sér fyrir því að stefnumótun í náms- og starfsráðgjöf komist á dagskrá stjórnvalda?
    Vísað er til svara hér að framan og þess að ráðuneytið mun fylgja eftir þeim verkefnum sem hafin eru.