Ferill 322. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 365  —  322. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um bætta réttarstöðu þolenda heimilisofbeldis við hjúskaparslit.


Flm.: Jón Steindór Valdimarsson, Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að taka til endurskoðunar hjúskaparlög, nr. 31/1993, með síðari breytingum, reglugerð um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar, nr. 45/2008, með síðari breytingum, og stuðla að breyttu verklagi sýslumannsembættanna með það að markmiði að bæta stöðu þolenda heimilisofbeldis í lögskilnaðarferli.
    Ráðherra rýmki þegar í stað ákvæði reglugerðar um skilyrði gjafsóknar svo að meðferð skilnaðarmála, fjárskipta eða forsjármála verði þolendum heimilisofbeldis ekki jafn íþyngjandi og hún er nú. Þá geri ráðherra sýslumönnum kleift að beita úrræðum sem draga úr íþyngjandi áhrifum skilnaðar, t.d. fela sálfræðingi eða félagsráðgjafa að stýra sáttaumleitan eða viðræðum um skilnaðarkjör. Jafnframt leggi ráðherra til nauðsynlegar breytingar á lögum sem annaðhvort fela í sér að lögskilnaður sé veittur þótt samkomulag liggi ekki fyrir um fjárskipti eða forsjá eða sem auðvelda fólki að gera slíkt samkomulag þegar forsendur samskipta hjóna á milli eru brostnar, t.d. vegna ofbeldis.
    Ráðherra hafi lokið umbótum á verklagsreglum sýslumanna og lagt fram frumvarp í samræmi við ályktun þessa eigi síðar en 1. október 2020.

Greinargerð.

    Markmiðið með þingsályktunartillögu þessari er að hefja vinnu við nauðsynlegar lagabreytingar og breytingar á reglugerðum sem og verklagsreglum sem nauðsynlegar eru til að bæta stöðu þolenda heimilisofbeldis í hjónaskilnaðarferli. Er þessi tillaga lögð fram samhliða frumvarpi til laga um breytingar á hjúskaparlögum til fyllingar frumvarpinu. Er því einnig vísað til greinargerðar með því frumvarpi til frekari skýringa.
    Rétt er að ráðherra kanni löggjöf og reynslu nágrannalanda sem hafa tekið upp sambærilegar reglur, og noti til hliðsjónar við mat sitt. Í fyrsta lagi er lagt til að ráðherra rýmki strax ákvæði reglugerðar um skilyrði gjafsóknar. Í b-lið 1. tölul. 5. gr. reglugerðarinnar er t.d. kveðið á um að gjafsókn skuli að jafnaði ekki veita ef ágreiningsefni er milli nákominna, nema sérstakar ástæður mæli með því. Er sú meginregla til þess fallin að gera málarekstur vegna lögskilnaðar þyngri en ella fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum. Í undirbúningi tillögu þessarar og frumvarpsins sem hún fylgir kom m.a. fram að gjafsóknarreglur gagnast ekki nema minni hluta þolenda heimilisofbeldis vegna þess hve tekjumörk reglnanna eru lág. Hefur þetta ekki síst þýðingu í ljósi þess að um 60% kvenna sem lenda í ofbeldissamböndum hverfa af vinnumarkaði á einhverjum tímapunkti.
    Í öðru lagi er lagt til að ráðherra hafi aðkomu að umbótum á verklagsreglum sýslumanna með tvennt fyrir augum. Annars vegar að greina þörf fyrir og veita fulltrúum sýslumanns rýmri úrræði til að bregðast við andlegu ofbeldi við meðferð skilnaðarmála. Getur þar til að mynda átt við að vísa aðila burt af fundi um sættir eða forsjá og tryggja að aðilar þurfi ekki að mætast við áframhaldandi meðferð máls. Hins vegar að færa þann þátt sáttameðferðar er lýtur að möguleika á áframhaldandi hjúskap eða forsjá barna úr höndum löglærðra fulltrúa og til sérfræðinga á sviði sálfræði, félagsráðgjafar eða annarra sambærilegra greina. Taka þarf þar afstöðu til þess að hvort ráða eigi sérfræðinga á þeim sviðum til sýslumanns eða útvista verkefnin til utanaðkomandi sérfræðinga þegar þau berast.
    Í þriðja lagi er lagt til að ráðherra kanni ólíkar útfærslur sem annaðhvort fela í sér að lögskilnaður sé veittur án þess að fjárskipti eða samkomulag um forsjá barna liggi endanlega fyrir eða sem auðvelda fólki að gera slík skipti og samkomulag án aðkomu dómstóla. Ætti með þessum breytingum að vera betur hlúð að hagsmunum þolenda ofbeldis í nánum samböndum þegar þeir leita skilnaðar frá geranda sínum.
    Lagt er til að breytingar verði gerðar strax á ákvæðum reglugerðar um skilyrði gjafsóknar en aðrar breytingar verði lagðar fram eigi síðar en 1. október 2020.