Ferill 244. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 421  —  244. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um markaðs- og kynningarmál heilbrigðisstofnana.


     1.      Hversu miklu fjármagni ver Landspítalinn árlega í markaðs- og kynningarmál, og þar af í rekstur samskiptadeildar sem hefur m.a. það verkefni að annast miðlun upplýsinga um starfsemi Landspítalans?
    Öllu kynningar- og upplýsingastarfi á Landspítala er sinnt af samskiptadeild spítalans. Deildin hefur einnig með höndum vefumsjón og önnur tengd verkefni. Ekki er um eiginlegt markaðsstarf að ræða heldur upplýsingagjöf og snýr starfsemi samskiptadeildar fyrst og fremst að innra starfi spítalans þótt efni sem þar er framleitt nýtist til ytra kynningarstarfs í einhverjum tilvikum. Samskiptadeild Landspítala veitir deildum og starfsfólki spítalans þjónustu t.d. með upplýsingamiðlun og vefsvæði, í tengslum við auglýsingar, skýrslur, viðburði og upptökur og útsendingar á námskeiðum og ráðstefnum.
    Samskiptadeildin framleiðir árlega um 600 fréttir um starfsemi spítalans og annast upplýsingamiðlun inn á við og út á við, annars vegar í tengslum við reglulega starfsemi Landspítala og álagstoppa í starfseminni, hins vegar þegar kemur að sértækum framkvæmdum á borð við Hringbrautarverkefnið. Að auki hefur deildin tekið þátt í sérstökum upplýsingaverkefnum eins og um þjónustustig heilsugæslu og læknavaktar. Það verkefni skilaði sér m.a. í 20–30% færri komum á bráðamóttöku í Fossvogi í átaksmánuðunum. Deildinni berast um 12 þúsund fyrirspurnir frá fjölmiðlum árlega sem birtast m.a. í þeim tæplega 6.000 fréttum árlega þar sem Landspítali kemur við sögu. Vefsvæði Landspítala, sem samskiptadeildin rekur og þjónustar, samanstendur af 5.000 síðna ytri vef og 50.000 síðna innri vef. Einnig sér deildin um samskiptamiðilinn Workplace, sem er með 7.000 notendur, og samfélagsmiðla spítalans sem hafa um 30.000 fylgjendur.
    Rekstrarkostnaður samskiptadeildar er um 95 millj. kr. á ári. Á deildinni eru fimm stöðugildi, þ.e. deildarstjóri, tæknilegur vefstjóri, vefritstjóri fyrir framleiðslu texta, myndatökumaður og grafískur hönnuður. Á árinu 2018 var kostnaður deildarinnar við laun og launatengd gjöld 63,9 millj. kr. en rekstur og aðkeypta þjónustu 31,1 millj. kr. Var þar einkum um að ræða kostnað vegna vefþróunar og forritunar vefsvæða sem voru öll endurnýjuð á árinu.

     2.      Hversu miklu fjármagni verja Sjúkrahúsið á Akureyri, heilsugæslur og aðrar heilbrigðisstofnanir í markaðs- og kynningarmál árlega?
    Fyrirliggjandi upplýsingar hjá stofnunum um markaðs- og kynningarmál eru aðeins mismunandi auk þess sem þrjár stofnanir hafa ekki sett neitt sérstakt fjármagn í markaðs- og kynningarmál.
     Sjúkrahúsið á Akureyri.
    Aðkeypt vinna við útgáfu ársrits og bæklinga hefur verið á bilinu 1,6–2 millj. kr. undanfarin ár. Þá er undanskilið fræðsluefni til sjúklinga, vinna við vefsíðu og samfélagsmiðla og kostnaður við kynningar fyrir ytri aðila.
     Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins.
    Síðustu þrjú ár hefur aðkeypt þjónusta verið frá 0,9 millj. kr. til tæplega 1,9 millj. kr. til markaðs- og kynningarmála og á árinu 2019 er sú upphæð orðin tæplega 0,9 millj. kr. Þeir fjármunir hafa farið í aðstoð við gerð veggspjalda fyrir ráðstefnur og fundi, aðstoð við gerð og birtingu texta um heilsufarsmál og þau málefni sem stofnunin hefur viljað koma á framfæri við almenning og að lokum fyrir þjónustu fyrirtækis við gerð könnunar með rýnihóp til að afla upplýsinga um mat skjólstæðinga stofnunarinnar á þjónustu hennar. Sérstök deild eða starfsmenn til að sinna markaðs- og kynningarmálum hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er ekki fyrir hendi en segja má að starfsmenn vinni að markaðs- og kynningarmálum stofnunarinnar samhliða starfi sínu með þátttöku í þjóðmálaumræðu og ritun greina um heilbrigðismál og þjónustu þeirra heilsugæslustöðva sem heyra undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
     Heilbrigðisstofnun Vesturlands.
    Ekki hefur verið sett sérstakt fjármagn í markaðs- og kynningarmál.
     Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
    Ekki hefur verið sett sérstakt fjármagn í markaðs- og kynningarmál.
     Heilbrigðisstofnun Norðurlands.
    Síðustu ár hefur verið ráðstafað árlega um 1,1–1,5 millj. kr. til kynningarmála.
     Heilbrigðisstofnun Austurlands.
    Ekki hefur verið sett sérstakt fjármagn í markaðs- og kynningarmál.
     Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
    Fjármagni var varið í gerð kynningarmyndbands að upphæð 2,6 m.kr fyrir árið í ár.
     Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
    Ekki hefur verið sett sérstakt fjármagn í markaðs- og kynningarmál.