Ferill 236. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 427  —  236. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Ara Trausta Guðmundssyni um nýsköpun í landbúnaði.


     1.      Hvaða nýsköpun og nýjungar sér ráðherra helstar í landbúnaði á Íslandi?
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að Ísland sé leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Þá er lögð áhersla á nýsköpun og vöruþróun til að stuðla að byggðafestu, auka verðmætasköpun og nýta tækifæri sem byggjast á áhuga á matarmenningu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi. Meginmarkmiðið er að landbúnaður á Íslandi sé sjálfbær. Þá er í stjórnarsáttmálanum lögð áhersla á fjölbreytt atvinnulíf og að Ísland búi sig undir að mæta þeim áskorunum og nýta þau tækifæri sem felast í sífellt örari tæknibreytingum og að til sé umhverfi sem hvetur til nýsköpunar á öllum sviðum.
    Ráðherra telur mikil og fjölbreytt tækifæri felast í landbúnaði á Íslandi. Til dæmis má nefna tækifæri vegna aðgangs framleiðenda að endurnýjanlegri orku og að hreinu vatni, sem nýst gæti til uppbyggingar garðyrkjuframleiðslu. Ljóst er að breytingar í samfélaginu, áhersla á loftslagsmál og auknar kröfur neytenda kalla á nýsköpun og framþróun á þessu sviði. Erfitt er að sjá fyrir hvaða nýsköpun og nýjungar í landbúnaði muni koma fram á næstu árum en áhersla stjórnvalda er að styðja við nýsköpun á sviðinu.
    Verkefnið Til sjávar og sveita er samstarfsverkefni Icelandic Startups og Íslenska sjávarklasans. Meginmarkmið verkefnisins er að leita að nýjum lausnum sem stuðla að sjálfbærri verðmætasköpun í landbúnaði og sjávarútvegi. Staðið er fyrir viðskiptahraðli sem er ferli sem fólk með viðskiptahugmyndir getur sótt um að taka þátt í. Þátttakendur fá vinnuaðstöðu, aðgang að mentorum, sérfræðingum og mögulegum fjárfestum. Með þessu er stuðlað að því að viðskiptahugmyndir raungerist. Sprotafyrirtækin sem hafa þróast út úr þessu ferli eru margs konar, en má þar nefna háhraðatækni DNA-próf fyrir matvælaiðnaðinn, framleiðslu á kartöfluflögum úr annars flokks kartöflum, snyrtivörur úr gulrótum og rófum sem annars færu til spillis og rekjanleika- og upplýsingakerfi fyrir matvæli.
    Með innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila leggja stjórnvöld aukna áherslu á umhverfisvernd, hollt og sjálfbært mataræði og rekjanleika upplýsinga um matvæli. Á sama tíma og áhersla er lögð á hagkvæm innkaup munu fyrrgreindir þættir fá aukið vægi í innkaupaferlum. Nýsköpun, bæði í framleiðslu á matvælum og innkaupum, mun spila lykilhlutverk í innleiðingu stefnunnar.
    Í lok ársins verður matvælastefna fyrir Ísland kynnt. Sú stefna mun leggja grunn að áframhaldandi nýsköpun í landbúnaði.
    
     2.      Hvernig er best stutt við nýsköpun í landbúnaði?
    Stjórnvöld telja mikilvægt að styðja við nýsköpun í landbúnaði og búa til umhverfi sem hvetji í nýsköpunar og þróunar. Ýmsar leiðir eru færar í þeim efnum og hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á að stuðla að umhverfi nýsköpunar og þróunar sem gagnast öllum atvinnugreinum.
    Við endurskoðun búvörusamninga sem hófst árið 2019 hefur áhersla verið lögð á að styðja við nýsköpun. Má þar m.a. nefna að við endurskoðun samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 19. febrúar 2016, sem lauk í janúar 2019, var m.a. samið um heimild til að gera aðlögunarsamninga við framleiðendur sem tilbúnir eru að hætta eða draga úr sauðfjárbúskap og reyna fyrir sér í nýrri starfsemi. Með samningunum er rudd braut fyrir bændur til að byggja upp nýjar búgreinar eða hasla sér völl á öðrum sviðum. Samningarnir eru tímabundnir og háðir skilyrðum um byggðarfestu, verðmætasköpun og búsetu á viðkomandi jörð. Geta samningarnir þannig stuðlað að nýsköpun, náttúruvernd og nýjum áherslum í rannsóknum og menntun. Nýsköpun og framþróun er einnig höfð að leiðarljósi við endurskoðun samninga sem varða garðyrkju, nautgriparækt og almenn starfsskilyrði landbúnaðarins.
    Í júní sl. ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun sem miðar að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu, sbr. þingsályktun um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna, nr. 40/149. Ein þeirra aðgerða er að settur verði á fót sjóður með áherslu á eflingu nýsköpunar í innlendri matvælaframleiðslu. Ráðherra hefur nú lagt fram á Alþingi frumvarp um stofnun Matvælasjóðs. Ein af megináherslum sjóðsins yrði að styrkja verkefni sem snúa að nýsköpun og framþróun á sviði landbúnaðar og matvælaframleiðslu.
    Hjá Matís er unnið að fjölbreyttum verkefnum í matvælaiðnaði þar sem áhersla er lögð á nýsköpun og verðmætaaukningu. Verkefni eru unnin í samvinnu við innlenda matvælaframleiðendur, háskóla og erlendar rannsóknastofnanir og fyrirtæki. Sem dæmi má nefna nýtt evrópskt rannsóknarverkefni sem Matís leiðir og kallast NextGenProteins. Verkefnið er til fjögurra ára og að því stendur 21 samstarfsaðili frá tíu Evrópulöndum, þar af fjórir þátttakendur frá Íslandi. Markmið verkefnisins er að þróa næstu kynslóðir af matvæla- og fóðurprótínum með sjálfbærum og umhverfisvænum hætti. Verkefnið er liður í þeirri umbyltingu sem þarf að eiga sér stað í matvælaframleiðslu í heiminum til að fullnægja aukinni prótínþörf á sem umhverfisvænastan máta. Verkefnið hlaut yfir milljarð í styrk úr evrópsku rannsóknaáætluninni, Horizon 2020.
    Matarauður Íslands starfar innan ráðuneytisins og hefur stutt nýsköpun og verðmætasköpun með því að styrkja minni verkefni meðal smáframleiðenda og matarhandverksfólks. Matarauður styður verkefni í öllum landshlutum og snúa þau m.a. að matartengdri ferðaþjónustu, aukinni viðskiptanánd milli framleiðanda og neytenda og hugmyndasamkeppni meðal smáframleiðenda. Matarauður Íslands hefir einnig stutt við stofnun félags smáframleiðenda á mat. Matarauður styrkir Landbúnaðarklasann sem veitir aðstöðu fyrir frumkvöðla. Einnig hefur Matís stutt frumkvöðlastarf og verið leiðandi í nýsköpun í landbúnaði, sbr. dæmi hér að framan.
    Hinn 4. október sl. birti ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra nýsköpunarstefnu, Nýsköpunarlandið Íslands. Með þessu styðja stjórnvöld þá samfélagslegu umgjörð sem þarf að vera fyrir hendi svo nýsköpun þrífist. Markmið stefnunnar er að „mæta áskorun framtíðarinnar með því að byggja hugvitsdrifna nýsköpun á öllum sviðum“. Vinna innan ráðuneytisins er að hefjast í að innleiða markmið stefnunnar varðandi þau verkefni sem snúa að landbúnaði.
    Í tengslum við nýsköpun á sviði landbúnaðar er einnig mikilvægt að huga að menntun og rannsóknum á sviðinu. Landbúnaðarháskóli Íslands gaf út sl. júlí stefnu skólans til næstu fimm ára. Í þeirri stefnu er m.a. lögð aukin áhersla á hlutverk nýsköpunar við að víkka og efla kennslu nemenda skólans. Meginmarkmiðið er að búa þá undir að takast á við áskoranir sem landbúnaður stendur frammi fyrir, svo sem fæðuöryggi, aðgengi að heilnæmum matvælum, hreinu vatni, andrúmslofti og orku.

     3.      Hvernig geta nýsköpun og nýjungar í landbúnaði stutt við byggðaþróun í landinu?
    Með stuðningi við nýsköpun í landbúnaði verður til umhverfi sem styður við og þróar áfram starfsemi búgreina fyrir nýja starfsemi. Þannig er stuðlað að sterkara og fjölbreyttara atvinnulífi í landinu sem býr til tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar og uppbyggingar. Þannig styður nýsköpun við byggðaþróun í landinu.