Ferill 345. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 634  —  345. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um brottvísun þungaðrar konu.


     1.      Hver tók ákvörðun um að vísa þungaðri konu á 36. viku meðgöngu úr landi ásamt tveggja ára barni hennar aðfaranótt 5. nóvember 2019?
    Konan kom hingað til lands ásamt manni sínum og barni og sótti um alþjóðlega vernd í byrjun október. Málið var sett í forgangsmeðferð af Útlendingastofnun og afgreitt með ákvörðun 11. október þar sem umsókn hennar var synjað. Í framhaldinu var málinu vísað til stoðdeildar embættis ríkislögreglustjóra sem ber ábyrgð á því að framkvæma ákvarðanir um flutning umsækjenda til síns heima.

     2.      Hver tekur ákvarðanir um að heimila brottvísun þungaðra kvenna þrátt fyrir að þær hafi verið metnar óhæfar til flugs vegna áhættumeðgöngu eftir læknisskoðun á Landspítalanum? Á hvaða grundvelli tekur læknir Útlendingastofnunar ákvörðun um að veita þungaðri konu flugvottorð (e. fit-to-fly certificate ), jafnvel án þess að læknisskoðun fari fram, og heimila þannig brottvísanir þungaðra kvenna þvert á álit sérfræðinga Landspítalans?
    Undirbúningur stoðdeildar embættis ríkislögreglustjóra varðandi tilhögun á lögreglufylgd felst m.a. í að ganga úr skugga um að ekki séu til staðar ástæður sem koma í veg fyrir framkvæmd flutningsins, m.a. á grundvelli heilbrigðisaðstæðna. Er það eftir atvikum gert með því að afla vottorðs frá lækni um hvort viðkomandi sé ferðafær. Ef vottorð liggur fyrir um að flutningur einstaklings úr landi muni stefna öryggi hans í hættu þá er flutningi frestað þangað til ástandið breytist. Fyrir því eru fordæmi, bæði í tilviki barnshafandi kvenna og einstaklinga sem glíma við veikindi.
    Í því tilviki sem um er rætt í 1. tölul. hafði stoðdeild samband við heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu, sem annast þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd samkvæmt samningi við Útlendingastofnun, og fékk þar vottorð frá lækni um að viðkomandi væri gengin rúmar 35 vikur og ferðafær. Vottorðið var gefið út 4. nóvember eða degi fyrir brottför í samræmi við reglur flugfélaga um aldur slíkra vottorða. Undir kvöld þann sama dag fór konan á kvennadeild Landspítala og var útskrifuð eftir miðnætti. Við komu hennar aftur í búsetuúrræði sitt fengu starfsmenn stoðdeildar í hendur vottorð sem gefið hafði verið út á Landspítalanum skömmu áður. Þegar þeim varð ljóst að á því vottorði kæmi hvorki fram að fyrirhugaður flutningur væri óráðlegur né að flutningur viðkomandi úr landi á þessum tímapunkti myndi stefna öryggi hennar eða ófæddu barni í hættu var ákveðið að fresta flutningnum ekki.
    Dómsmálaráðherra getur ekki svarað því hvernig mat læknis/heilbrigðisstarfsfólks fer fram þegar gefin eru út vottorð. Þess skal þó getið að embætti landlæknis leiðir vinnu við að yfirfara núgildandi verklag við útgáfu vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd.

     3.      Tryggir Útlendingastofnun þunguðum konum og væntanlegum börnum þeirra nauðsynlega heilbrigðisþjónustu við brottvísun, svo sem á leið á flugvöll, í flugvél og við komu til móttökuríkis?
    Stoðdeild embættis ríkislögreglustjóra ber ábyrgð á því að framkvæma ákvarðanir Útlendingastofnunar um flutning umsækjenda til síns heima. Stoðdeildin vinnur eftir verklagsreglum um brottvísanir og frávísanir sem og hættumati deildarinnar vegna fylgdar úr landi. Starfsmenn deildarinnar gæta þess að framkvæmd ákvarðana fari faglega fram og af virðingu fyrir mannlegri reisn þess sem í hlut á og tryggja að framkvæmdin sé í samræmi við löggjöf og öryggisviðmið.
    Ef upplýsingar liggja fyrir um eða í ljós kemur að viðkomandi einstaklingur hefur átt sögu um líkamlega eða andlega vanheilsu tryggir ábyrgðarmaður framkvæmdarinnar að skoðun þar til bærra starfsmanna heilbrigðisyfirvalda hafi farið fram svo að öruggt sé að framkvæmdin stefni viðkomandi ekki í hættu. Ef nauðsynlegt þykir vegna heilsu viðkomandi einstaklings er óskað eftir því að starfsmaður heilbrigðisyfirvalda komi með í framkvæmd fylgdar til að tryggja fyrstu viðbrögð ef sjúkdóma eða veikinda verður vart í fylgdinni. Áréttað er þó að liggi vottorð fyrir um að flutningur viðkomandi úr landi muni stefna öryggi viðkomandi í hættu þá er flutningi frestað þangað til ástand breytist. Viðtökuríkið ber ábyrgð á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu við komu einstaklingsins til landsins.

     4.      Er fyrrgreind brottvísun hinn 5. nóvember 2019 á þungaðri konu á 36. viku meðgöngu í samræmi við stefnu íslenskra stjórnvalda um mannúðlega meðferð á umsækjendum um alþjóðlega vernd?
    Þar sem einstök mál koma ekki til úrlausnar eða framkvæmdar innan dómsmálaráðuneytisins óskaði dómsmálaráðherra eftir nánari upplýsingum um þetta tilgreinda mál frá Útlendingastofnun og stoðdeild embættis ríkislögreglustjóra. Að mati dómsmálaráðherra var umrædd framkvæmd í samræmi við markmið laga um útlendinga, nr. 80/2016, verklag Útlendingastofnunar og stoðdeildar embættis ríkislögreglustjóra og áherslur stjórnvalda um mannúðlega og skilvirka meðferð í málefnum útlendinga hér á landi.

     5.      Hversu mörgum þunguðum konum hefur verið vísað úr landi á þessu ári og því síðasta og á hvaða tíma meðgöngu voru konurnar?
    Upplýsingar um þunganir kvenna eru ekki skráðar með þeim hætti í skráningarkerfi Útlendingastofnunar að hægt sé að taka saman slíkar tölur.