Ferill 104. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 653  —  104. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, með síðari breytingum (Grænland og Færeyjar).

Frá atvinnuveganefnd.


    Með frumvarpinu er lagt til að sömu endurgreiðslureglur gildi um framleiðslukostnað sem fellur til á Grænlandi og í Færeyjum og gilda í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Í þeim tilfellum þegar 80% heildarframleiðslukostnaðar fellur til á Íslandi er unnt að sækja um endurgreiðslu á 25% þess kostnaðar sem fellur til í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Með breytingunni næði sú heimild jafnframt til Grænlands og Færeyja.
    Megintilgangur frumvarpsins er að búa til hvata fyrir kvikmyndagerðarmenn til að ráðast í kvikmyndaverkefni á Grænlandi og í Færeyjum.
    Nefndin hefur fjallað um málið. Í greinargerð með frumvarpinu var bent á að með þessari breytingu myndi hvati til að ráðast í kvikmyndaverkefni í Færeyjum og Grænlandi stóraukast og að það væri innspýting fyrir efnahag beggja landa ef af þessu yrði. Er jafnframt bent á að í skýrslu þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá 2015 hafi komið fram að endurgreiðslur séu styrkir til greinarinnar sem bæti hlutfallslega stöðu hennar umfram greinar sem ekki njóti stuðnings.
    Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur áherslu á mikilvægi þess að tengja vestnorrænu þjóðirnar saman í menningar- og listastarfi.
    Nefndin telur frumvarp þetta til bóta og leggur til að það verði samþykkt óbreytt.
    Ásmundur Friðriksson og María Hjálmarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 5. desember 2019.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form., frsm.
Ásmundur Friðriksson. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Jón Þór Ólafsson. María Hjálmarsdóttir. Njáll Trausti Friðbertsson.
Ólafur Ísleifsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Sigurður Páll Jónsson.