Ferill 22. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 665  —  22. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Steinunni Bergmann frá Félagsráðgjafafélagi Íslands, Söndru Bryndísardóttur Franks og Gunnar Örn Gunnarsson frá Sjúkraliðafélagi Íslands og Sigurveigu H. Sigurðardóttur frá félagsvísindasviði Háskóla Íslands.
    Umsagnir bárust frá Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Læknafélagi Íslands, Mosfellsbæ og Sjúkraliðafélagi Íslands.
    Með tillögunni er lagt til að heilbrigðisráðherra beiti sér fyrir því að þunglyndi eldri borgara verði rannsakað og umfang þess metið. Í þeim tilgangi er lagt til að ráðherra verði falið að skipa nefnd sem m.a. kanni umfang vandans og hvaða leiðir séu best til þess fallnar að koma í veg fyrir þunglyndi meðal eldri borgara.
    Í umsögnum sem nefndinni bárust kom fram almenn ánægja með markmið tillögunnar. Meðal annars var bent á að félagslegir þættir hefðu djúpstæð áhrif á líðan eldri borgara. Öflugt tengslanet, stuðningur, hreyfing, virkni og þátttaka í félagslífi og samfélaginu almennt gæti því virkað verndandi gegn kvíða og þunglyndi. Mikilvægt væri að horfa ekki fram hjá þessari félagslegu hlið vandans og að skipan nefndar um rannsóknir á þunglyndi eldri borgara tæki jafnframt mið af því. Í því sambandi bendir nefndin á að í tillögunni er lagt til að nefndin verði skipuð níu einstaklingum og er sérstaklega tilgreint hvaða stofnanir og félög tilnefni einstaklinga til setu í henni. M.a. var gerð athugasemd við það að innan nefndarinnar væri ekki gert ráð fyrir fulltrúum félagsráðgjafa, sjúkraliða eða iðjuþjálfa. Nefndin tekur undir þær athugasemdir og telur betur fara á því að ráðherra verði veitt svigrúm til mats á því hvernig nefndin verði best skipuð. Með vísan til þess leggur nefndin til breytingartillögu þess efnis, en beinir því jafnframt til heilbrigðisráðherra að tryggja þverfaglega skipan nefndarinnar með áherslu á líkamlegt, andlegt og félagslegt heilbrigði.
    Félagsvísindasvið Háskóla Íslands gerði í umsögn sinni grein fyrir ýmsum verkefnum, gagnagrunnum og rannsóknum sem unnar hafa verið um líðan eldri borgara og benti á að mikilvægt væri að horfa til þeirra gagnagrunna sem til eru. Bent var á að upplýsingar um líðan eldra fólks væri m.a. að finna í ýmsum verkefnum sem unnin hafa verið innan félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, m.a. verkefni um kvíða, depurð, einmanaleika og félagslega virkni eldra fólks, sem og í rannsóknum Rannsóknarseturs í barna- og fjölskylduvernd og Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Þá væru til ýmis gögn, m.a. á vegum embættis landlæknis, sem líta mætti til við vinnuna. Nýta þyrfti þá þekkingu sem til er og einnig þyrftu áherslur að endurspegla að hækkandi aldri fylgdu bæði heilsufarsleg vandamál en ekki síður breytingar á félagslegri stöðu og högum.
    Að lokum benti Læknafélag Íslands á að óraunhæft væri að gera ráð fyrir því að niðurstöður rannsóknarinnar gætu legið fyrir 1. júní 2020. Nefndin tekur undir það sjónarmið og leggur til að ráðherra geri Alþingi grein fyrir niðurstöðum starfshópsins á vorþingi 2021.
    Með vísan til framangreinds leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    2. mgr. tillögugreinarinnar orðist svo:
    Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður nefndarinnar á vorþingi 2021.

Alþingi, 4. desember 2019.

Helga Vala Helgadóttir,
form., frsm.
Ólafur Þór Gunnarsson. Anna Kolbrún Árnadóttir.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Halla Signý Kristjánsdóttir. Halldóra Mogensen.
Lilja Rafney Magnúsdóttir.