Ferill 161. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 668  —  161. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um Ferðamálastofu og nýsköpun í ferðaþjónustu.


     1.      Hver hefur verið fjöldi stöðugilda hjá Ferðamálastofu árlega sl. tíu ár, skipt eftir landshlutum?
    Meðfylgjandi tafla sýnir fjölda stöðugilda hjá Ferðamálastofu á árunum 2009–2019. Stofnunin hefur starfsstöðvar í Reykjavík og á Akureyri. Árið 2019 var ráðinn starfsmaður án staðsetningar sem hefur aðsetur í Danmörku. Þá hefur stofnunin fjármagnað hálft starf ferða- og menningarfulltrúa á Djúpavogi undanfarin ár með sérstakri fjárveitingu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     2.      Hver hafa verið framlög til nýsköpunar í ferðaþjónustu árlega sl. tíu ár og hvernig hafa þau skipst eftir landshlutum?
    Ekki er haldið sérstaklega utan um framlög til nýsköpunar í ferðaþjónustu í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Við vinnslu svarsins var kallað eftir upplýsingum frá Ferðamálastofu og Nýsköpunarmiðstöð Íslands um framlög til verkefna sem flokkast gætu undir nýsköpun í ferðaþjónustu en ekki liggur fyrir ein skilgreining á því hvað fellur þar undir hvort sem litið er til vöru, þjónustu, starfa eða innleiðingar tækni. Eftirfarandi töflur gefa því eingöngu til kynna hvernig framlög sem nýst hafa til verkefna sem talist geta til nýsköpunar í ferðaþjónustu hafa þróast eftir landshlutum undanfarin tíu ár.

Ferðamálastofa.
    Þess skal getið að árið 2008 veitti ríkisstjórnin 160 millj. kr. í gegnum Ferðamálastofu til 76 verkefna sem skilgreind voru sem mótvægisaðgerðir á sviði ferðaþjónustu á árunum 2008–2009. Í töflunni er ekki gert ráð fyrir þessari fjárhæð þar sem erfitt er að segja til um skiptingu fjárins milli ára og einnig um hvað fór í nýsköpunartengd verkefni. Þá voru á árinu 2017 veittar 165 millj. kr. til markaðsstofa landshlutanna í gegnum Ferðamálastofu til svokallaðs DMP-verkefnis um þróun áfangastaðaáætlana. Í töflunni er ekki gert ráð fyrir þeirri fjárhæð enda áfangastaðaáætlanir unnar eftir þekktri aðferðafræði þótt þær styðji vissulega við nýsköpun heima í héraði.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
    Í töflunni er sýndur beinn fjárstuðningur eftir landshlutum úr verkefnunum Skrefi framar, atvinnusköpun í sjávarbyggðum, Framtaki, Ísland allt árið og Átaki til atvinnusköpunar sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands hafði umsjón eða umsýslu með á einhverjum tímapunkti á viðmiðunartímabilinu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
    Framlög atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis til verkefna sem talist geta til nýsköpunar í ferðaþjónustu eru ekki skilgreind eftir árum og landshlutum enda eru þau að jafnaði þess eðlis að þau nýtast jafnt um allt land og eru hugsuð til lengri tíma. Meðal verkefna sem hér koma til álita eru þróun Mælaborðs ferðaþjónustunnar, þróun ástandsmats áfangastaða í samvinnu við Umhverfisstofnun, þróun Jafnvægisáss ferðamála í samvinnu við verkfræðistofuna EFLU og yfirstandandi þróun stjórnborðs fyrir Jafnvægisásinn. Stofnun og starfræksla Flugþróunarsjóðs felur einnig í sér ákveðna nýsköpun sem og verkefni um skilgreiningu fyrirmyndaráfangastaða sem unnið er að í samvinnu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis.
    Þá hefur verið úthlutað árlega frá árinu 2012 úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, en sjóðnum er ætlað að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða sem eru í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila um land allt. Með fjármagni úr sjóðnum skal leitast við að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins auk þess að fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði. Í hlutverki sjóðsins getur því falist ákveðin nýsköpun og vöruþróun, en ekki hefur verið haldið sérstaklega utan um hvaða framlög hafa nýst til slíks. Frá árinu 2012 hafa samtals 5 milljarðar kr. verið veittir í gegnum sjóðinn til verkefna sem falla undir gildissvið hans. Í vefsjá Ferðamálastofu, sem aðgengileg er á vef stofnunarinnar, má sjá hvernig styrkir hafa skipst niður eftir staðsetningu.
    Jafnframt má nefna að styrkir hafa verið veittir úr Tækniþróunarsjóði sem nýst hafa til nýsköpunarverkefna í ferðaþjónustu en framlög í sjóðinn voru stóraukin á árunum 2014–2016. Þá rennur fjármagn í gegnum sóknaráætlanir landshluta til sambærilegra verkefna. Um þetta vísast nánar til svars við fyrirspurn á þskj. 669 á yfirstandandi þingi.
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun taka til skoðunar að skylda sjóði sem undir það heyra til að skrá hlutfall framlaga sem fara til nýsköpunartengdra verkefna.