Ferill 300. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 671  —  300. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssyni um fjóra tengivegi.


    Samkvæmt tillögu að samgönguáætlun er gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til styrkingar og lagningar bundins slitlags á umferðarlitla tengivegi. Með fjárveitingu þeirri sem lögð er til á tímabilunum má að öllum líkindum leggja bundið slitlag á um 400-450 km samtals. Lagt er til að skipting fjárins fari eftir umferð og lengd tengivega á hverju svæði án bundins slitlags. Heimilt er einnig að nota fjárveitingu þessa til framkvæmda á héraðsvegum sem gegna hlutverki tengivega og eftir atvikum einnig á umferðarlitlum stofnvegum.

     1.      Hve miklum fjármunum verður varið á næsta ári til viðhalds og uppbyggingar á:
                  a.      Innstrandavegi nr. 68,
                  b.      Hegranesvegi nr. 764,
                  c.      Þingeyravegi nr. 721,
                  d.      Álftaneshreppsvegi nr. 533?

    a. Innstrandarvegur (68) er 105 km langur stofnvegur. Um 66 km hans eru lagðir bundnu slitlagi en um 39 km eru með malarslitlagi. Áætluð meðalumferð á þeim hlutum hans sem eru með malarslitlagi er á bilinu 90–130 bílar á dag. Viðhald Innstrandavegar á næsta ári verður rykbinding og heflun. Kostnaður er áætlaður um 3,5–4 millj. kr.
    b. Hegranesvegur (764) er 21 km langur tengivegur. Um 5 km af honum eru lagðir bundnu slitlagi en um 16 km eru með malarslitlagi. Áætluð meðalumferð er á bilinu 60–80 bílar á dag. Viðhald Hegranesvegar á næsta ári verður rykbinding og heflun. Kostnaður er áætlaður um 0,8 millj. kr.
    c. Þingeyrarvegur (721) er 6 km langur héraðsvegur með malarslitlagi. Ekki liggja fyrir tölur um áætlaða umferð á héraðsvegum almennt. Viðhald Þingeyrarvegar á næsta ári verður mölburður, rykbinding og heflun. Kostnaður er áætlaður um 3 millj. kr.
    d. Álftaneshreppsvegur (533) er 31 km langur tengivegur með malarslitlagi. Áætluð meðalumferð er á bilinu 20–80 bílar á dag. Viðhald Álftaneshreppsvegar á næsta ári verður mölburður, styrking, rásagerð, brot, rykbinding og heflun. Kostnaður er áætlaður um 10 millj. kr.
    Forgangsröðun uppbyggingar tengivega byggist á ráðleggingum frá svæðisstjórnum Vegagerðarinnar á hverju landsvæði fyrir sig. Byggist hún m.a. á umferðarþunga, slysatölum og því hvort leiðir sinni skólaakstri og/eða almenningssamgöngum.

     2.      Telur ráðherra þá fjármuni nægja til fullnægjandi endurbóta á framangreindum vegum eða hyggst hann beita sér fyrir því að viðbótarfjármagn verði veitt til uppbyggingar þeirra og ef svo er, hve mikið og hvenær?
    Fé til viðhalds vega hefur verið stóraukið, en það eykst um 2 milljarða kr. á milli ára og verður 10,5 milljarðar kr. árið 2019. Árið 2016 var viðhaldsfé um 5,5 milljarðar kr. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu á fé til viðhalds vega, sem er forgangsraðað eftir umferðarþunga, tekur nokkurn tíma að vinna niður uppsafnaðan viðhaldshalla, sérstaklega þar sem endurbóta á veglínu er þörf. Það á m.a. við um þessa vegi. Vegagerðin hefur metið það sem svo að auka þurfi viðhaldsfé til malarvega um 30–50% svo hægt verði að þjónusta þá og viðhalda samkvæmt þörf. Með viðhald og endurbætur fer samkvæmt þingsályktun um samgönguáætlun sem lögð er fyrir Alþingi.

     3.      Liggur fyrir tímasett áætlun um hvenær bundið slitlag verður lagt á vegina og þeim framkvæmdum lokið?

    Samkvæmt tillögu að samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 er áætlað að setja 300 m.kr. í Innstrandarveg á milli Heydalsár og Þorpa á árunum 2025–2029. Þar stendur til að setja bundið slitlag á 5 km kafla vegarins.
    Tengivegaáætlun liggur fyrir hjá Vegagerðinni til næstu fimm ára og í henni er gert ráð fyrir að setja um 250 millj. kr. í Álftaneshreppsveg á árunum 2021–2023. Þar er gert ráð fyrir að leggja bundið slitlag á um 12 km af veginum.