Ferill 318. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 683  —  318. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með frávísunartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði matvæla (einföldun regluverks, Matvælasjóður og EES-reglur).

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Með frumvarpinu er m.a. lagt til að AVS-rannsóknasjóður í sjávarútvegi og Framleiðnisjóður landbúnaðarins verði sameinaðir í nýjan sjóð sem verði kallaður Matvælasjóður.
    Nefndinni var bent á að Framleiðnisjóður landbúnaðarins sinni verkefnum sem falli ekki undir skilgreint hlutverk Matvælasjóðs samkvæmt frumvarpinu. Var nefndinni jafnframt bent á að AVS-rannsóknasjóður í sjávarútvegi hafi vægi langt umfram þá fjármuni sem hafi verið lagðir í hann. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að Matvælasjóður verði samkeppnissjóður líkt og aðrir sjóðir þar sem umsóknir verði metnar á ýmsum forsendum, m.a. nýnæmi þeirra.
    Minni hlutinn telur að ekki hafi verið sýnt fram á nægjanleg rök til grundvallar því að sameina framangreinda tvo sjóði. Bendir minni hlutinn á að hlutverk sjóðanna hafi verið með ólíkum hætti hingað til og ekki hafi verið sýnt fram á að ávinningur verði af sameiningu þeirra. Telur minni hlutinn því ekki tilefni til að sameina sjóðina.
    Fyrir nefndinni var lýst yfir ánægju með einföldun regluverks og eftirlits. Komu fram sjónarmið um að rétt væri að einfalda eftirlit enn frekar með fækkun eftirlitsstjórnvalda. Bent var á að með núverandi fyrirkomulagi væri eftirlit með matvælum á höndum ellefu embætta um land allt og að hvert þeirra væri sjálfstætt stjórnvald. Þetta leiddi til mismunandi framkvæmdar í eftirliti og eftirfylgni með framkvæmd reglna milli embætta.
    Minni hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið og telur rétt að eftirlit með matvælum verði einfaldað enn frekar. Skynsamlegt sé að eftirlit sé á höndum einnar stofnunar sem reki útibú á landinu eftir því sem þörf krefur. Það fyrirkomulag sé betur til þess fallið að tryggja samræmt eftirlit. Telur minni hlutinn þetta vera nauðsynlegan þátt í einföldun regluverks.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að undirbúningi lagafrumvarpsins varðandi gjaldtöku og mat á kostnaði væri ábótavant. Var nefndinni bent á að kostnaður sveitarfélaga vegna innri úttektar eða við að koma á fót upplýsingakerfi til að geta skilað Matvælastofnun niðurstöðum opinbers eftirlits hafi ekki verið metinn. Var jafnframt bent á að fjárhagsáhrif á hagsmunaaðila hafi ekki verið metin. Jafnframt komu fram sjónarmið um að með breytingu á ákvæðum varðandi gjaldtöku sé Matvælastofnun veitt víðtæk heimild til að fella ýmsan kostnað undir kostnað við eftirlit og velta honum yfir á eftirlitsþega. Þar með sé tilefni til aðhalds í rekstri stofnunarinnar minnkað.
    Minni hlutinn tekur undir að mat á kostnaði sé ófullnægjandi og undirbúningi gjaldtöku sé ábótavant. Bendir minni hlutinn á nauðsyn þess að meta þau áhrif sem frumvarpið hefur.
    Fyrir nefndinni komu fram ýmis sjónarmið varðandi heimaslátrun sem meiri hlutinn reifaði vel. Minni hlutinn tekur undir með meiri hlutanum um að skoða þurfi regluverk um örsláturhús og heimaslátrun með tilliti til þess hvort unnt sé að auka svigrúm að einhverju leyti og leggur jafnframt áherslu á að ekki verði slegið af kröfum um gæði vörunnar eða hreinlæti í starfsemi.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 3. desember 2019.

Ólafur Ísleifsson,
frsm.
Sigurður Páll Jónsson.