Ferill 469. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 684  —  469. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019 (skráning kyns).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar (PállM, BÁ, BjG, HHG, HVH, JSV, SÞÁ, ÞórP).


1. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Íslenskir ríkisborgarar búsettir erlendis hafa rétt til að breyta skráningu á kyni og nafni sínu skv. 1. mgr.

2. gr.

    Í stað orðanna „2.–4. mgr.“ í 3. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: 2.–5. mgr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í 4. gr. laga um kynrænt sjálfræði er kveðið á um rétt einstaklinga til að breyta opinberri skráningu kyns. Í 1. mgr. 4. gr. segir að sérhver einstaklingur sem náð hefur 18 ára aldri hafi rétt til að breyta skráningu á kyni sínu í þjóðskrá. Skal beiðni um slíka breytingu beint til Þjóðskrár Íslands. Jafnhliða breyttri skráningu kyns á umsækjandi rétt á að breyta nafni sínu.
    Hér á landi hefur verið byggt á þeirri meginreglu samkvæmt alþjóðlegum einkamálarétti að persónuleg réttarstaða manns skuli fara að íslenskum lögum ef viðkomandi einstaklingur á heimilisfesti á Íslandi. Í alþjóðlegum einkamálarétti hefur þannig að jafnaði verið stuðst við þá meginreglu að styðjast við heimilisfesti aðila fremur en ríkisfang þegar persónulegir tengslaþættir eru metnir. Hefur sú meginregla þannig verið talin gilda samkvæmt alþjóðlegum einkamálarétti við meðferð mála fyrir stjórnvöldum hér á landi að málefni sem varðar persónurétt einstaklinga heyri undir stjórnvöld þess ríkis þar sem viðkomandi á heimilisfesti. Þannig má telja að Þjóðskrá Íslands hafi ekki lögsögu til að taka til efnislegrar meðferðar beiðnir íslenskra ríkisborgara sem búsettir eru erlendis um breytingar á kynskráningu og samhliða nafnbreytingu.
    Af framangreindu leiðir að ákvæði 1. mgr. 4. gr. laga um kynrænt sjálfræði gilda eingöngu um þá einstaklinga sem hér eru búsettir og eiga hér lögheimili. Nauðsynlegt er því að gera breytingar á 4. gr. laganna og kveða skýrt á um rétt íslenskra ríkisborgara sem búsettir eru erlendis til að breyta skráningu á kyni og nafni sínu skv. 1. mgr. greinarinnar. Samhliða er lögð til breyting á tilvísun í 2. mgr. 5. gr. laganna sem fjallar um breytingu á skráðu kyni barns þannig að heimilt verði fyrir börn sem eru íslenskir ríkisborgarar og búsett erlendis að breyta opinberri skráningu kyns síns.
    Bent hefur verið á að með breytingunni er íslenskum ríkisborgurum sem búsettir eru erlendis og vilja breyta kynskráningu sinni veittur rýmri réttur til að breyta nafni sínu en öðrum íslenskum ríkisborgurum sem búsettir eru erlendis og vilja breyta nafni sínu en ekki skráningu kyns. Verður að telja að þessi rýmri réttur sé byggður á málefnalegum sjónarmiðum og því réttlætanlegur.