Ferill 347. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 708  —  347. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni um yfirtöku lífeyrisskuldbindinga Bændasamtakanna.


     1.      Er samkomulag um að ríkið taki yfir lífeyrisskuldbindingar Bændasamtakanna að upphæð 172 millj. kr. á ári frá og með næstu áramótum og er fjárhæðin föst? Ef svo er ekki, hvernig er búist við að fjárhæðin þróist á næstu árum og áratugum?
    Hinn 19. október 2018 undirrituðu fjármála- og efnahagsráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra samning við Bændasamtök Íslands og tengda aðila um uppgjör á lífeyrisskuldbindingum sem myndast höfðu í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR). Samningurinn fól í sér að ríkissjóður tók yfir ábyrgð á þeim lífeyrisskuldbindingum frá 31. desember 2018 og þar með færist ábyrgð á greiðslu lífeyrishækkana eftir að taka lífeyris er hafin frá launagreiðendum (Bændasamtökunum o.fl.) til ríkissjóðs. Samningurinn var gerður í samræmi við ákvæði í 6. gr. fjárlaga ársins 2018 og með fyrirvara um fjárheimild í fjáraukalögum ársins 2018.
    Áætlað er að greiðsla þessara lífeyrishækkana á árinu 2019 nemi 172 millj. kr. úr ríkissjóði. Í samræmi við ákvæði samningsins lækka framlög til rammasamnings um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins á hinn bóginn um sömu fjárhæð og verður því engin hækkun á heildarframlagi ríkissjóðs vegna þessara mála í fjárlögum 2019.
    Greiðsla lífeyrishækkana er í samræmi við ákvæði í 33. gr. laga nr. 1/1997, um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en um er að ræða greiðslu á hækkunum sem verða á lífeyri eftir að taka lífeyris hefst, vegna breytinga á verðlagi. Því tekur árleg greiðsla breytingum í samræmi við fjölda lífeyrisþega og verðhækkanir. Miðað við tryggingafræðilegar forsendur er áætluð hlutdeild ríkissjóðs í greiðslu lífeyrishækkana vegna samnings þessa um 2,9 milljarða kr.

     2.      Miðast samningur ríkisins um greiðslu lífeyrisskuldbindinga Bændasamtakanna við sömu tímamörk og eru í tímabundnum búvörusamningum um lækkandi framlög ríkisins vegna þeirra?
    Samningurinn um yfirtöku þessara lífeyrisskuldbindinga er ekki bundinn við gildistíma búvörusamninga. Forsendu samningsins má rekja til laga nr. 130/1994, um sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í ein heildarsamtök bænda, þar sem m.a. var kveðið á um réttindi starfsmanna Búnaðarfélagsins og skyldu ríkisins til að ábyrgjast skuldbindingar við LSR. Í 3. gr. laganna kemur fram að: „Ríkissjóður ábyrgist gagnvart hinum nýju samtökum skuldbindingar þeirra við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins vegna lífeyrisréttinda skv. 2. gr., svo og vegna lífeyrisréttinda fastráðinna starfsmanna Búnaðarfélags Íslands sem látið hafa af störfum fyrir 1. janúar 1995.“
    Fram að áðurnefndum samningi um lífeyrismál höfðu Bændasamtökin greitt lífeyrishækkanir til LSR en í samræmi við ákvæði búvörusamninga var framlag vegna þessa tryggt: „Framlög vegna lífeyrisskuldbindinga verða leiðrétt í samræmi við greiðslur vegna skuldbindinga Bændasamtaka Íslands og búnaðarsambanda vegna núverandi og fyrrverandi starfsmanna þeirra“.
    Þetta fyrirkomulag hélst út árið 2018. Því er framlag ársins 2019 vegna búnaðarlagasamnings lækkað þar sem ríkissjóður hefur frá og með því ári tekið yfir greiðslu lífeyrishækkana af Bændasamtökunum.

     3.      Hvert er núvirði lífeyrisskuldbindinga Bændasamtakanna sem ríkið hefur tekið yfir og hvert er núvirði þess hluta skuldbindingarinnar sem fellur innan gildistíma búvörusamninga?
    Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt sem unnin var 12. september 2018 var áfallin tryggingafræðileg staða þeirra skuldbindinga sem ríkissjóður tók yfir áætluð liðlega 4,8 milljarðar kr. Þessar skuldbindingar koma til greiðslu á næstu áratugum en ekki liggur fyrir hversu stór hluti þeirra kemur til greiðslu innan gildistíma búvörusamninga.

     4.      Stendur til að ríkið taki yfir lífeyrisskuldbindingar annarra félagasamtaka á næstunni? Hvaða skilyrði þurfa félagasamtök að uppfylla til þess að ríkið taki yfir lífeyrisskuldbindingar þeirra?
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur undanfarin ár gert samninga um yfirtöku ríkissjóðs á lífeyrisskuldbindingum félagasamtaka og aðila sem hafa gegn framlagi ríkissjóðs sinnt lögbundnum verkefnum ríkisins, einkum á sviði hjúkrunarþjónustu, sérhæfðrar læknis- og endurhæfingarþjónustu og þjónustu við fatlaða. Unnið er að fleiri samningum af þeim toga.
Frumskilyrði yfirtöku lífeyrisskuldbindinga er að hlutaðeigandi aðilar hafi veitt þjónustu sem ríkissjóði beri að tryggja almenningi og vegna þeirrar starfsemi hafi myndast skuldbindingar í B-deild LSR (og áður í Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga) eða í sambærilegum lífeyrissjóðum með bakábyrgð launagreiðenda.