Ferill 32. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 756  —  32. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit með frávísunartillögu


um tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á ráðstöfun almannafjár
við gæðastýringu í sauðfjárrækt.


Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásu Þórhildi Þórðardóttur, Elísabetu Önnu Jónsdóttur og Arnar Frey Einarsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Björn Helga Barkarson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, dr. Ólaf Arnalds, Unnstein Snorra Snorrason frá Landssamtökum sauðfjárbænda, Árna Bragason frá Landgræðslunni, Borgþór Magnússon og Trausta Baldursson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Auði Önnu Magnúsdóttur frá Landvernd, Jón Baldur Lorange frá Matvælastofnun og dr. Ingibjörgu Svölu Jónsdóttur prófessor við Háskóla Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir frá dr. Ingibjörgu Svölu Jónsdóttur prófessor við Háskóla Íslands, Landgræðslunni, Landssamtökum sauðfjárbænda, Landvernd, Matvælastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, dr. Ólafi Arnalds og Samtökum náttúrustofa.
    Með tillögunni er lagt til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að endurskoða nýtingu almannafjár við gæðastýringu í sauðfjárrækt. Einnig að þeir setji nýjar reglur um viðmiðunarmörk á nýtingu lands þar sem tryggt verði að engar greiðslur renni til framleiðenda sem nái ekki gildandi viðmiðum. Jafnframt verði núgildandi landbótaáætlanir felldar úr gildi, landnotendum gert að gera nýjar og þær endurskoðaðar fyrir 1. janúar 2020.
    Í greinargerð með tillögunni kemur fram að landnýtingarþáttur í gæðastýringu í sauðfjárrækt er sá hluti stuðningsgreiðslna til bænda sem bundinn er viðmiðum um ástand lands og landnýtingu. Fram kom fyrir nefndinni að þeim þætti var komið á árið 2000 til að bregðast við bágri stöðu vistkerfa og miklu jarðvegsrofi í samræmi við kortlagningu Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins og Landgræðslunnar. Þá er í greinargerðinni bent á að Ólafur Arnalds, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, hafi sýnt fram á það í riti sínu, Á röngunni: Alvarlegir hnökrar á framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringar í sauðfjárrækt, sem kom út í júní sl., að ágallar væru á framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringar.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að umsagnaraðilar og gestir eru sammála um mikilvægi bættrar landnýtingar, skýrari viðmiða um sjálfbæra nýtingu lands, markvissari meðferðar fjármuna og skilvirkari stjórnsýslu við framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringar í sauðfjárrækt. Hins vegar eru skiptar skoðanir um þá nálgun á verkefnið og það verklag sem lagt er til með tillögunni. Landvernd, Náttúrufræðistofnun Íslands, Samtök náttúrustofa og dr. Ólafur Arnalds taka undir efni tillögunnar sem og Landgræðslan með þeim fyrirvara að ekki sé tekin afstaða til þess í hvaða mæli almannafé er ráðstafað til einstakra verkefna utan stofnunarinnar. Þá fagnar dr. Ingibjörg Svala Jónsdóttir þeirri endurskoðun á gæðastýringu í sauðfjárrækt sem boðuð er með tillögunni. Landssamtök sauðfjárbænda styðja hins vegar ekki samþykkt tillögunnar.

Landnýtingarþáttur gæðastýringar.
    Í desember á síðasta ári voru samþykkt ný heildarlög um landgræðslu, nr. 155/2018, og tóku þau þegar gildi. Meiri hlutinn telur að með lögunum náist að styrkja bæði lagaumgjörð og stjórnsýslu gróður- og jarðvegsverndar en á grundvelli 11. gr. laganna sé nú unnið að setningu reglugerðar um sjálfbæra landnýtingu. Landgræðslan bendir í sinni umsögn á mikilvægi þess að viðmið og skilgreiningar reglugerðar um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu, sem byggjast m.a. á búvörulögum, nr. 99/1993, verði færð til samræmis við reglugerð um sjálfbæra landnýtingu þegar hún liggur fyrir. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið en með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu sé átt við þær afurðir sem eru framleiddar í samræmi við 41. gr. búvörulaga og reglugerð nr. 511/2018, um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.
    Á fundi nefndarinnar með fulltrúum frá Matvælastofnun kom fram að landnýting sé aðeins einn þáttur af mörgum sem sauðfjárframleiðsla þarf að standast til að uppfylla skilyrði um gæðastýrða framleiðslu og var vísað til fyrrgreindrar reglugerðar um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu, sem tekur m.a. til aðbúnaðar og umhverfis, afurðaskýrsluhalds, jarðræktar, fóðrunar, heilsufars, lyfjanotkunar, afurðar, landnýtingar og skyldra atriða. Landbótaáætlun skuli gerð fyrir heimalönd, upprekstrarheimalönd og afrétti sem uppfylli ekki þær kröfur sem reglugerðin gerir um landnýtingu við framleiðslu, þ.e. til beitarlands. Fyrir nefndinni bentu sérfræðingar í gróðurvistfræði og jarðvegsvernd á þá vankanta sem þeir telja til þessa hafa verið á framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringarinnar og mikilvægi umbóta þar að lútandi. Í umsögn dr. Ólafs Arnalds kom fram að hann hefði rökstutt í riti sínu „Á röngunni“ að framleiðendur þurfi ekki að standast lágmarksviðmið um ástand lands en að málið varðaði aðeins hluta sauðfjárbeitar í landinu og lítinn hluta landbúnaðar. Hann teldi viðmiðin fyrir nýtingu of væg, að þau stæðust ekki fagleg viðmið, auk þess sem ekki hafi verið notast við fagþekkingu Landgræðslunnar við þróun og framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringar. Þá fjallaði dr. Ólafur um skilgreiningu hugtaksins sjálfbær landnýting en hann taldi að málefni landnýtingar og sjálfbærni ættu að heyra undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Hann benti jafnframt á að setja yrði ný viðmið á landnýtingu í samræmi við nýju landgræðslulögin. Meiri hlutinn telur að bætt landnýting, vönduð beitarstýring og markviss nýting fjár í landnýtingarþætti gæðastýringar í sauðfjárrækt samrýmist áherslum ríkisstjórnarinnar um bætta landnýtingu og aðgerðir í loftslagsmálum.

GróLind.
    Meiri hlutinn vill með hliðsjón af efni tillögunnar vekja athygli á verkefninu GróLind, sem sérstaklega er ætlað að móta aðferðir til að bæta nýtingu almannafjár sem varið er til gæðastýringar og styrkja góða stjórnsýslu á þessu sviði. Um er að ræða samstarfsverkefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Bændasamtaka Íslands, Landgræðslu ríkisins og Landssamtaka sauðfjárbænda sem hófst árið 2017 að frumkvæði þeirra síðast töldu, í tengslum við búvörusamninginn 2016. GróLindar-verkefninu, sem er til 10 ára, er ætlað að vakta og meta ástand gróður- og jarðvegsauðlinda á Íslandi, m.a. með það að markmiði að skjóta styrkari vísindalegri stoðum undir beitarstýringu með það fyrir augum að sauðfjárbeit verði sjálfbær til framtíðar. Skila á með reglubundnum hætti heildarmati á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda landsins og þróa sjálfbærnivísa fyrir nýtingu auðlindanna og er gert ráð fyrir að fyrstu niðurstöður úr þessu verkefni liggi fyrir í upphafi ársins 2020. Á þeim grunni, sem og með öðrum fyrirliggjandi gögnum, verði mótuð vísindaleg viðmið um sjálfbæra nýtingu lands og telur meiri hlutinn að verkefnið geti verið liður í því að bæta nýtingu þess almannafjár sem varið verður til gæðastýringar og um leið styrkja góða stjórnsýslu á þessu sviði.

Niðurstaða.
    Í ljósi innleiðingar nýrra landgræðslulaga, þ.m.t. setningar reglugerðar um sjálfbæra landnýtingu, leggur meiri hlutinn til að tillögu þessari verði vísað til ríkisstjórnarinnar inn í þá yfirgripsmiklu vinnu sem nú fer fram á þessu sviði. Meiri hlutinn tekur jafnframt undir markmið tillögunnar og beinir því til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra að ráðuneytin vinni saman að samræmingu reglugerða með skýrum viðmiðum um sjálfbæra landnýtingu, markvissari meðferð fjármuna og skilvirkari stjórnsýslu við framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringar í sauðfjárrækt með það að markmiði að hún verði í samræmi við lög um náttúruvernd, lög um landgræðslu og búvörulög. Meiri hlutinn óskar einnig eftir að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra hlutist til um skýrslugjöf um framgang verkefnisins til umhverfis- og samgöngunefndar fyrir 1. september 2020.

    Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Jón Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 16. desember 2019.

Bergþór Ólason,
form.
Hanna Katrín Friðriksson,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Guðjón S. Brjánsson. Jón Gunnarsson. Kolbeinn Óttarsson Proppé.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.