Ferill 391. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 772  —  391. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum (forsendur úthlutunar úr Jöfnunarsjóði).

(Eftir 2. umræðu, 16. desember.)


1. gr.

    B-liður 1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo: Úthlutuð framlög til sveitarfélaga skv. III. kafla.

2. gr.

    E-liður 10. gr. laganna orðast svo: Til Tryggingastofnunar ríkisins vegna eftirlaunasjóðs aldraðra samkvæmt lögum um eftirlaun til aldraðra.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      A-liður orðast svo: Til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga, svo sem með þátttöku í eðlilegum kostnaði við undirbúning sameiningar, kynningu á sameiningartillögu og framkvæmd atkvæðagreiðslu. Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga setur vinnureglur sem staðfestar skulu af ráðherra þar sem fram komi viðmiðunarfjárhæðir þessara framlaga. Einnig er heimilt að veita aðstoð með óskertum tekjujöfnunar- og útgjaldaframlögum á því ári þegar sameiningin tekur gildi og með sérstöku framlagi í fjögur ár sem nemur þeirri skerðingu sem kann að verða á tekjujöfnunar- og útgjaldajöfnunarframlögum í kjölfar sameiningar. Þá er heimilt að veita sérstök framlög í allt að sjö ár til að jafna skuldastöðu sveitarfélaga vegna kostnaðar við framkvæmd sameiningar, til að stuðla að endurskipulagningu þjónustu og stjórnsýslu og til að rétta stöðu sveitarfélaga þar sem fjölgun íbúa hefur verið undir árlegri meðalfjölgun íbúa í sveitarfélögum á landsvísu. Ráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð, sbr. 18. gr., m.a. um forsendur og útreikning framlaga.
     b.      Í stað orðanna „sbr. 75. gr. sveitarstjórnarlaga“ í b-lið kemur: með styrk eða láni, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 84. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.
     c.      C-liður orðast svo: Til greiðslu stofnkostnaðar við vatnsveitur á lögbýlum þar sem hagkvæmara er að mati sveitarstjórnar að leggja vatnsveitu að einstökum bæjum, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004. Hámarksfjárhæð vegna einstakra framkvæmda má nema allt að 44% stofnkostnaðar við vatnsveitu til heimilis- og búsþarfa. Ráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð, sbr. 18. gr., um skilyrði fyrir úthlutun samkvæmt ákvæði þessu.
     d.      Við d-lið bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Framlag samkvæmt þessum lið skal greiða þegar afskrifað endurstofnverð fasteigna í sveitarfélagi, annarra en sumarbústaða, margfaldað með markaðsstuðli fasteigna sveitarfélaga sem eru í viðmiðunarflokki a skv. 12. gr., er hærra en fasteignamat sömu fasteigna. Skal framlagið nema mismuninum, margfölduðum með álagningarprósentu fasteignaskatts viðkomandi sveitarfélags, á því ári þegar framlagið er ákveðið.

4. gr.

    Í stað 12. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 12. gr., 12. gr. a og 12. gr. b, svohljóðandi:

    a. (12. gr.)
    Jöfnunarframlög skiptast í tvennt, tekjujöfnunarframlög, sbr. 12. gr. a, og útgjaldajöfnunarframlög, sbr. 12. gr. b. Til jöfnunarframlaga skal verja þeim tekjum sjóðsins skv. a- og b-lið 8. gr. a sem eru umfram ráðstöfun skv. 10. og 11. gr.
    Til grundvallar útreikningi jöfnunarframlaga gerir ráðherra árlega skrá um álagðar skatttekjur sveitarfélaga á yfirstandandi reikningsári ásamt skrá um fullnýtingu tekjustofna, þ.e. útsvars, fasteignaskatts, framlags skv. d-lið 11. gr. og framleiðslugjalds. Með útsvari er átt við álagt útsvar á yfirstandandi ári á tekjur fyrra árs.
    Á grundvelli skrár um fullnýtingu tekjustofna sveitarfélaga skal reikna út meðaltekjur sveitarfélaga á hvern íbúa í eftirtöldum viðmiðunarflokkum sem ráðast af íbúafjölda sveitarfélaga:
     a.      í sveitarfélögum með 70.000 íbúa eða fleiri,
     b.      í sveitarfélögum með 12.000–69.999 íbúa,
     c.      í sveitarfélögum með 300–11.999 íbúa,
     d.      í sveitarfélögum með 299 íbúa eða færri.
    Við útreikning meðaltekna skal sleppa tekjum sem sveitarfélög hafa af álagningu einstakra fasteigna ef tekjur vegna þeirra eru umfram 7% af heildartekjum sveitarfélagsins. Þá skal sleppa einstökum sveitarfélögum sem eru með tekjur á hvern íbúa sem eru 50% yfir meðaltekjum í hverjum viðmiðunarflokki.

    b. (12. gr. a.)
    Tekjujöfnunarframlögum skal úthlutað til að jafna tekjur sveitarfélaga. Útreiknuð framlög skulu miðuð við sveitarfélög að sambærilegri stærð og fullnýtingu tekjustofna þeirra, sbr. 12. gr. Ef reiknað meðaltal sveitarfélaga á hvern íbúa í sveitarfélagi, sbr. 12. gr., er lægra en 97% af meðaltali á hvern íbúa í öllum sveitarfélögum í viðkomandi flokki skal greiða sveitarfélagi tekjujöfnunarframlag sem nemur allt að mismuninum.
    Einungis kemur til úthlutunar og greiðslu framlags hafi sveitarfélag fullnýtt heimild sína til álagningar útsvars.

    c. (12. gr. b.)
    Útgjaldajöfnunarframlögum skal varið til að mæta mismunandi útgjaldaþörf sveitarfélaga á grundvelli stærðarhagkvæmni og tekna þeirra, að teknu tilliti til þeirra landfræðilegu og lýðfræðilegu þátta sem almennt hafa áhrif á útgjaldaþörf, sbr. viðauka við lög þessi.
    Við útreikning útgjaldajöfnunarframlaga, sbr. 1. mgr., skal lækka framlög til sveitarfélaga þar sem reiknaðar meðaltekjur sveitarfélaga á hvern íbúa, miðað við fullnýtingu tekjustofna sveitarfélags, eru 4% yfir meðaltali í hverjum viðmiðunarflokki, sbr. 12. gr. Framlög falla niður þegar meðaltekjur á íbúa eru 23% yfir meðaltali. Lækkun framlaga innan þessara marka skal vera hlutfallsleg.

5. gr.

    Í stað 1. og 2. mgr. 13. gr. laganna koma átta nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Tekjum Jöfnunarsjóðs vegna reksturs grunnskóla skv. 1. tölul. 1. mgr. c-liðar 8. gr. a að frádregnu framlagi til Sambands íslenskra sveitarfélaga skv. a-lið 10. gr. skal varið til að jafna útgjaldaþarfir sveitarfélaga vegna kostnaðar af rekstri grunnskóla og skiptast framlögin í eftirfarandi flokka:
     a.      Almenn jöfnunarframlög.
     b.      Framlög vegna sérþarfa fatlaðra nemenda.
     c.      Framlög vegna nemenda með íslensku sem annað mál.
     d.      Framlög til Barnaverndarstofu vegna kennslu barna á grunnskólaaldri sem eru að beiðni barnaverndarnefndar lögheimilissveitarfélags vistuð utan þess á meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu.
     e.      Önnur framlög til sveitarfélaga og stofnana sem tengd eru rekstri grunnskóla.
    Miða skal við að 70–80% af tekjum Jöfnunarsjóðs vegna reksturs grunnskóla, sbr. 1. mgr., skuli varið í almenn jöfnunarframlög skv. a-lið 1. mgr.
    Við útreikninga almennra jöfnunarframlaga skv. a-lið 1. mgr. skal finna mismun heildarútgjaldaþarfar hvers sveitarfélags og áætlaðra útsvarstekna, 2,33% af útsvarsstofni, sem renna til sveitarfélaga vegna yfirfærslu á rekstri grunnskóla til sveitarfélaga.
    Jöfnunarsjóður skal gera áætlun um heildarframlög skv. b-lið 1. mgr. og skulu framlög veitt á grundvelli umsókna vegna sérþarfa fatlaðra nemenda sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu og ráðast af viðmiðunarstigi fötlunar, eftir tegund hennar og þörf hvers nemanda.
    Jöfnunarsjóður skal gera áætlun um heildarframlög skv. c-lið 1. mgr. og skulu framlög veitt á grundvelli umsókna vegna fjölda nemenda sem hafa íslensku sem annað mál og eiga lögheimili í sveitarfélaginu.
    Jöfnunarsjóður skal annast greiðslu á útlögðum kostnaði Barnaverndarstofu vegna kennslu þeirra barna á grunnskólaaldri sem eru að beiðni barnaverndarnefndar lögheimilissveitarfélags vistuð utan þess á meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu og skal Jöfnunarsjóður draga fjárhæð sem nemur kennslukostnaði frá jöfnunarframlögum viðkomandi sveitarfélags. Barnaverndarstofu er skylt að láta Jöfnunarsjóði í té upplýsingar um þau börn eftir því sem nauðsynlegt er við framkvæmd þessarar greinar.
    Jöfnunarsjóði er heimilt að veita sérstök framlög til sveitarfélaga og stofnana vegna verkefna, nýsköpunar eða þróunarvinnu sem tengist rekstri grunnskóla skv. e-lið 1. mgr. á grundvelli sérstakra samninga. Jöfnunarsjóði er einnig heimilt að veita sérstök framlög til sveitarfélaga á grundvelli umsókna þeirra vegna ófyrirséðra tilvika í rekstri grunnskóla sem leiða til mikilla útgjalda umfram tekjur.
    Framlög skv. a–d-lið 1. mgr. renna ekki til sveitarfélaga í viðmiðunarflokki a, sbr. 3. mgr. 12. gr.

6. gr.

    Í stað orðanna „og ákvörðun á framlagi sérdeildarinnar til fasteignasjóðs, sbr. 13. gr. b“ í 4. málsl. 2. mgr. 13. gr. a laganna kemur: til verkefna sem tengjast þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk auk heimilda Jöfnunarsjóðs til að veita sérstök viðbótarframlög til þjónustusvæða.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      3. málsl. fellur brott.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ekki skal úthluta jöfnunarframlagi skv. d-lið 11. gr., 12. gr. a og 12. gr. b og 1. mgr. 13. gr. til þeirra sveitarfélaga þar sem samanlagðar heildarskatttekjur af útsvari og fasteignaskatti á hvern íbúa miðað við fullnýtingu þeirra tekjustofna eru 50% umfram meðaltekjur annarra sveitarfélaga í sama viðmiðunarflokki, sbr. 12. gr.

8. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I, IV–XIV og XVI–XVIII í lögunum falla brott.

9. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða XV í lögunum orðast svo:
    Á árunum 2019, 2020 og 2021 greiðir Jöfnunarsjóður sveitarfélaga kostnað sveitarfélaga vegna verkefna á grundvelli samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms. Kostnaður vegna verkefna samkvæmt þessari grein skal innheimtur af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda á því ári sem kostnaður er innheimtur.

10. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Við útreikning framlags árin 2020 og 2021 skv. d-lið 11. gr. skal miða við álagningarhlutfall fasteignaskatts árið 2019, enda hafi álagningarhlutfall í viðkomandi sveitarfélagi lækkað frá því ári.

11. gr.

    Við lögin bætist nýr viðauki, svohljóðandi:

Viðauki.


    Útgjaldajöfnunarframlög skiptast í A- og B-hluta. Hlutfallsleg skipting þess fjár sem er til ráðstöfunar skv. A-hluta ræðst af eftirfarandi:
Viðmið Hlutfall af heild
1. Fjöldi íbúa á aldrinum 0–5 ára 31,10%
2. Fjöldi íbúa á aldrinum 6–15 ára 23,90%
3. Fjöldi íbúa á aldrinum 16–66 ára 7,50%
4. Fjöldi íbúa á aldrinum 67–80 9,60%
5. Fjöldi íbúa á aldrinum 81 árs og eldri 6,20%
6. Fjöldi innflytjenda á aldrinum 0–5 ára 2,60%
Samtals íbúatengd framlög: 80,90%
7. Fjarlægðir innan sveitarfélaga 7,90%
8. Fjöldi þéttbýlisstaða umfram einn 5,50%
9. Fækkun íbúa 1,50%
10. Fjölgun íbúa 1,00%
11. Snjómokstur í þéttbýli 3,20%
Alls: 100%

    Skýringar á útreikningi framlaga:

A-hluti.

     a.      Íbúatengd framlög: Við útreikning íbúatengdra framlaga skal byggja á upplýsingum frá Hagstofu Íslands um íbúafjölda í sveitarfélagi í viðkomandi aldurshópi. Framlag til hvers sveitarfélags tekur mið af hlutfallslegum íbúafjölda þess af heildaríbúafjölda á landinu öllu innan hvers viðmiðunarflokks. Þegar lokið er útreikningi íbúatengdra framlaga samkvæmt framangreindu skal umreikna þau með tilliti til stærðar hvers sveitarfélags á grundvelli eftirfarandi stuðla sem byggjast á íbúafjölda sveitarfélags. Stuðlarnir eru fundnir þannig:
                Sveitarfélög með 2.899 íbúa eða færri fá stuðulinn 1,0.
                Sveitarfélög með 2.900–9.999 íbúa fá stuðul hlutfallslega á bilinu 1,0–0,215.
                Sveitarfélög með 10.000–15.999 íbúa fá stuðulinn 0,215.
                Sveitarfélög með 16.000–21.999 íbúa fá stuðul hlutfallslega á bilinu 0,215–0.
                Sveitarfélög með 22.000 íbúa eða fleiri fá stuðulinn 0.
     b.      Fjarlægðir í sveitarfélögum: Við mat á útgjaldaþörf sveitarfélags skal taka tillit til fjarlægða innan sveitarfélags og hlutfalls íbúa í þéttbýli og dreifbýli. Fjarlægðir í sveitarfélögum skulu mældar á eftirfarandi hátt:
                  1.      Settir skulu punktar á ystu mörk sveitarfélags, þó aldrei lengra en á ystu mörk byggðar, í norðri, austri, suðri og vestri, eða annars staðar eftir landfræðilegum aðstæðum í sveitarfélagi.
                  2.      Vegalengdir skulu mældar frá þessum punktum miðað við stystu akstursleið að stærsta þéttbýliskjarna sveitarfélags eða miðpunkti þess ef enginn þéttbýliskjarni er í sveitarfélaginu.
                  3.      Þannig mældar vegalengdir skal síðan margfalda með stuðlum sem eru mismunandi eftir sveitarfélögum og miðast við hlutfall íbúa í þéttbýli og dreifbýli. Heimilt er að líta eingöngu á stærsta þéttbýlisstaðinn eða -staðina sem þéttbýli. Stuðlana skal reikna þannig:
                          i.      Sveitarfélög með hlutfall þéttbýlis frá 0 til 49 fá stuðul hlutfallslega á bilinu 0,1–1,0.
                          ii.      Sveitarfélög með hlutfall þéttbýlis frá 50 til 89 fá stuðulinn 1,0.
                          iii.      Sveitarfélög með hlutfall þéttbýlis frá 90 til 100 fá stuðul hlutfallslega á bilinu 1,0–0,0.
     c.      Fjöldi þéttbýlisstaða umfram einn: Við útreikning skal taka tillit til sérstakrar útgjaldaþarfar sveitarfélaga sem halda þurfa úti þjónustu á fleiri en einum þéttbýlisstað innan sveitarfélagsins. Höfuðborgarsvæðið telst allt vera einn þéttbýlisstaður í þessum skilningi, að undanskildu Kjalarnesi. Útreikningum skal þannig hagað að fjármagn skiptist hlutfallslega á eftirfarandi hátt:
                  1.      60% skal skipta á grundvelli íbúafjölda í þéttbýlisstöðum umfram einn.
                  2.      40% skal skipta eftir fjölda þéttbýlisstaða umfram einn í hverju sveitarfélagi.
     d.      Fækkun íbúa: Ef íbúum sveitarfélags hefur á síðustu þremur árum fækkað árlega um meira en 1% að meðaltali skal reikna út framlag vegna fólksfækkunar. Við útreikninga framlagsins er horft til hver sé meðalfækkun sveitarfélagsins í íbúum talið sem er umfram 1%. Sá íbúafjöldi er síðan lagður saman hjá öllum sveitarfélögum og framlag til hvers sveitarfélags er í samræmi við hlutfall þess í heildarfækkun umfram 1%.
     e.      Fjölgun íbúa: Ef íbúum sveitarfélags hefur á síðustu þremur árum fjölgað árlega um meira en 2,5% að meðaltali skal reikna út framlag vegna fólksfjölgunar. Við útreikninga framlagsins er horft til hver sé meðalfjölgun sveitarfélagsins í íbúum talið sem er umfram 2,5%. Sá íbúafjöldi er síðan lagður saman hjá öllum sveitarfélögum og framlag til hvers sveitarfélags er í samræmi við hlutfall þess í heildarfjölgun umfram 2,5%.
     f.      Snjómokstur í þéttbýli: Framlögum skal úthlutað til sveitarfélaga á snjóþyngstu svæðum landsins vegna útgjalda af snjómokstri gatna í þéttbýli sveitarfélags á grundvelli vinnureglna sem ráðherra setur samkvæmt tillögum ráðgjafarnefndar og að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

B-hluti.

    Fjármagn sem til ráðstöfunar er samkvæmt þessum hluta rennur til framlaga vegna skólaaksturs úr dreifbýli og akstursþjónustu fyrir fatlað fólk.
    Skólaakstur úr dreifbýli: Útreikningur framlaga byggist á upplýsingum frá sveitarfélögum um akstursleiðir úr dreifbýli sveitarfélags og fjölda grunnskólabarna á hverri leið sem eiga heimili lengra en 3,0 km frá skóla, miðað við 1. október ár hvert. Framlög taka mið af lengstu akstursvegalengd innan hverrar leiðar frá heimili að skóla, fjölda barna, stærð ökutækis og upplýsingum frá mennta- og menningarmálaráðuneyti um fjölda skóladaga á viðkomandi skólaári. Ráðherra setur vinnureglur um úthlutun framlagsins samkvæmt tillögum ráðgjafarnefndar og að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Akstursþjónusta fyrir fatlað fólk: Útreikningur framlaga byggist á umsóknum frá sveitarfélögum um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk úr dreifbýli. Framlög taka mið af akstursvegalengd og fjölda farþega. Ráðherra setur vinnureglur um úthlutun framlagsins samkvæmt tillögum ráðgjafarnefndar og að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.