Ferill 398. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 834  —  398. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ómari Ásbirni Óskarssyni um fangelsismál og afplánun dóma.


     1.      Hver hefur verið meðalbiðtími eftir afplánun dóma síðastliðin 10 ár og hver var lengsti biðtíminn á sama árabili?
    Súluritið hér á eftir sýnir þá sem hefja afplánun innan hvers árs og þann meðaltíma í mánuðum talið sem þeir hafa verið á boðunarlista Fangelsismálastofnunar ríkisins.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Margar ástæður eru fyrir því að dómþolar eru lengi á boðunarlista og í raun ekki hægt að vísa í biðtíma í sjálfu sér. Nefna má að dómþolar geta sjálfir óskað eftir fresti á afplánun, dómþolar fara úr landi áður en unnt er að fullnusta refsingu, framsali á dómþolum milli landa er synjað o.s.frv. Þá skal í þessu samhengi bent á að Fangelsismálastofnun ríkisins reynir ávallt að verða við óskum dómþola um að hefja afplánun.

     2.      Hversu mörgum dómum hefur verið fullnægt með samfélagsþjónustu frá því heimild fyrir slíkri afplánun var leidd í lög og hvert er hlutfall þeirra af heildarfjölda dóma á sama tímabili?
    Hinn 1. júlí 1995 varð heimilað að fullnægja óskilorðsbundnum dómum með samfélagsþjónustu að uppfylltum skilyrðum. Frá þeim tíma hefur 1.981 óskilorðsbundnum dómum verið fullnægt með samfélagsþjónustu sem eru tæp 20% af fjölda dóma á sama tíma. Rétt er að vekja athygli á því að fleiri einstaklingum hefur verið veitt heimild til að afplána óskilorðsbundna fangelsisrefsingu með samfélagsþjónustu, en þeir hafa ekki lokið samfélagsþjónustu vegna rofs á skilyrðum eða að eigin ósk.

     3.      Hvaða aðilar teljast bærir til að taka ákvörðun um samfélagsþjónustu og hverjir koma að ákvörðunarferlinu?
    Fangelsismálastofnun ríkisins tekur ákvörðun um samfélagsþjónustu skv. 39. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga.
     4.      Í hversu mörgum tilfellum hefur heimild til vistunar á heilbrigðis- eða meðferðarstofnun verið nýtt án þess að dómþoli hafi verið metinn ósakhæfur?
    Dómþola hefur verið veitt heimild til að afplána óskilorðsbundna fangelsisrefsingu á heilbrigðisstofnun í 269 skipti, að hluta eða öllu leyti.
    Dómþola hefur verið veitt heimild til að afplána óskilorðsbundna fangelsisrefsingu á meðferðarstofnun í 664 skipti. Vakin skal athygli á því að sami einstaklingur getur hafa fengið að fara í meðferð oftar en einu sinni í sömu afplánun.

     5.      Hversu hátt hlutfall fanga fær meðferðaráætlun samkvæmt lögum um fullnustu refsinga og hvaða mælikvörðum er beitt við töku ákvörðunar um það?
    Það er erfiðleikum bundið að svara nákvæmlega hversu hátt hlutfall fanga fær meðferðaráætlun samkvæmt lögum um fullnustu refsinga en áætla má að um 70% fanga hafi farið í gegnum matsferli félagsráðgjafa og/eða sálfræðinga Fangelsismálastofnunar ríkisins meðan á afplánun stendur. Við upphaf afplánunar er boðið upp á innkomu- og þjónustumat. Þá er farið yfir afbrotasögu, hjúskaparstöðu, húsnæði, menntun, framfærslu, heilsufar, fyrirliggjandi greiningar, uppvaxtarár, sögu um ofbeldi og meðferðar- og neyslusögu. Þeir einstaklingar sem óska eftir meðferð á meðferðargangi Litla-Hrauns fara í gegnum matsferli sálfræðings þar sem meðferðaráætlun er útbúin. Þá eru þeir sem dæmdir eru fyrir kynferðisbrot gegn börnum boðaðir í áhættumatsgerð hjá sálfræðingi en tekið er mið af niðurstöðu matsins við ákvörðun um meðferðaráætlun. Hvað varðar mælikvarða við ákvörðun á þörf á meðferðaráætlun er litið til þarfa sem snúa að þjónustu félagsráðgjafa og sálfræðinga, úrræða sem í boði eru í fangelsum og viðkomandi einstaklingur gæti nýtt sér. Mikilvægt er að samvinna fagaðila og einstaklings sé til staðar þegar ákvörðun um meðferðaráætlun er tekin. Þá er rétt að benda á að einstaklingar sem eru í gæsluvarðhaldi fara almennt ekki í gegnum matsferli og meðferðaráætlun er ekki gerð fyrir þá nema slíkt sé talið nauðsynlegt, m.a. með hliðsjón af því broti sem þeir eru grunaðir um.

     6.      Hversu margir bíða nú eftir afplánun dóms?
    Búið er að boða 459 dómþola til afplánunar og auk þess eiga 95 dómþolar eftir að fá boðunarbréf frá Fangelsismálastofnun ríkisins, samtals 554 einstaklingar.

     7.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við þeim vanda og mannréttindabrotum sem felast í löngum biðlistum eftir afplánun dóma?
    Með breytingum á lögum um fullnustu refsinga jukust svigrúm og heimildir til afplánunar utan fangelsa, m.a. með rafrænu eftirliti og samfélagsþjónustu, og í kjölfar aukinna fjárveitinga á síðasta ári við að fullmanna fangelsið á Hólmsheiði hafa fangelsismálayfirvöld getað dregið úr fjölda þeirra sem bíða afplánunar. Þá verður að hafa hugfast að dæmdar refsingar á þessu ári eru 40% þyngri en allt árið í fyrra auk þess sem aldrei hafa verið fleiri í gæsluvarðhaldi frá því skráningar hófust, en þetta tvennt hefur mikil áhrif á biðlista eftir afplánun refsinga.