Ferill 221. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 880  —  221. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Margréti Tryggvadóttur um kynskráningu í þjóðskrá.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvers vegna er íslenskum borgurum búsettum erlendis, sem ekki hafa möguleika á breyttri kynskráningu og samhliða breytingu á nafni í búsetulandi án þess að fá fyrst nýtt vegabréf, eigi að síður vísað til þarlendra yfirvalda af Þjóðskrá Íslands? Hefur ráðherra í hyggju að leggja til breytt verklag að þessu leyti?
     2.      Telur ráðherra við hæfi að íslenskum umsækjendum með búsetu erlendis sé vísað til yfirvalda í landi þar sem kröfur um sálfræði- og læknisfræðilegar meðferðir, aðgerðir og greiningar eru settar sem skilyrði fyrir breyttri kynskráningu í ljósi þess að slík skilyrði eru bönnuð hér á landi?


    Á Íslandi er byggt á þeirri meginreglu alþjóðlegs einkamálaréttar að persónuleg réttarstaða manns, þ.e. á sviði persónu-, erfða- og sifjaréttar, skuli fara að íslenskum lögum ef viðkomandi á heimilisfesti á Íslandi. Þekkt er hins vegar í íslenskum rétti að gerð sé sérstök undanþága frá þessari meginreglu. Þannig er gerð undantekning í hjúskaparlögum, nr. 31/1993, með síðari breytingum.
    Þau mistök voru gerð við setningu laga nr. 80/2019, um kynrænt sjálfræði, að ekki var sett undanþáguheimild er varðar framangreinda meginreglu þrátt fyrir að það hafi verið ætlan löggjafans að heimila undanþágu frá meginreglunni. Úr því hefur nú verið bætt með lögum nr. 159/2019 sem breyta lögum um kynrænt sjálfræði á þá leið að íslenskum ríkisborgurum búsettum erlendis er veitt heimild til að breyta skráningu á kyni og nafni sínu samkvæmt lögunum hér á landi.