Ferill 534. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 884  —  534. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2019.

1. Inngangur.
    Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur þingmanna frá Íslandi, Grænlandi og Færeyjum. Meðlimir ráðsins hittast tvisvar á ári, annars vegar á þemaráðstefnu ráðsins að vetri og hins vegar á ársfundi að hausti. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins tók virkan þátt í starfi ráðsins á árinu og vann að framgangi vestnorrænna mála á Alþingi.
    Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins var haldin í Norræna húsinu. Umfjöllunarefni ráðstefnunnar var staða vestnorrænu landanna í nýjum veruleika alþjóðastjórnmálanna. Ráðstefnan var opin almenningi og haldin í samvinnu við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Fyrirlesurum ráðstefnunnar varð tíðrætt um loftslagsbreytingar á norðurslóðum. Bent var á að ummerki loftslagsbreytinga væru skýr og að áhrifa þeirra gætti í meira mæli á norðurslóðum en annars staðar í heiminum. Ísland, Færeyjar og Grænland stæðu frammi fyrir ólíkum áskorunum af völdum loftslagsbreytinga en öll þyrftu þau að horfast í augu við hækkandi verð á innfluttum matvælum á næstu áratugum. Talsvert var rætt um hvaða áhrif það gæti haft ef siglingaleið opnaðist frá Asíu til Evrópu og Norður-Ameríku um norðurskautið. Ýmis tækifæri gætu falist í því fyrir Vestur-Norðurlönd en einnig skapaðist hætta á umhverfisslysum og áskoranir varðandi leit og björgun.
    Fyrirlesarar greindu sérstaklega stöðu Grænlands, Færeyja og Íslands í alþjóðastjórnmálum og bentu á hernaðarlegt mikilvægi landanna fyrir stórveldin í seinni heimsstyrjöldinni og kalda stríðinu. Þetta hernaðarlega mikilvægi hefði dvínað á síðustu áratugum en í ljósi breyttra aðstæðna á norðurslóðum gæti það snúist að einhverju leyti við. Bent var á að löndin gætu aukið samstarf sitt í samskiptum við stórveldi eða í tengslum við þjónustu við flutningaskip. Öll hefðu þau hagsmuni af því að stuðla að verndun auðlinda hafsins og viðkvæmrar náttúru norðurslóða. Samhliða þemaráðstefnunni var haldinn innri fundur ráðsins í Reykholti í Borgarfirði þar sem ráðsmeðlimir ræddu um starf ráðsins, tilgang og markmið.
    Ársfundur Vestnorræna ráðsins var haldinn í Inatsisartut, grænlenska þinginu, og hafa þá öll aðildarlöndin haldið ársfund í þinghúsi sínu. Ráðherrar frá Grænlandi og Íslandi tóku þátt í leiðtogafundi sem bar yfirskriftina „Vestur-Norðurlönd og hafið“. Ársfundur samþykkti tvær ályktanir. Í þeirri fyrri voru ríkisstjórnir landanna hvattar til að auka möguleika fyrir ungt fólk á Vestur-Norðurlöndum að ferðast á milli landanna þriggja, mögulega með niðurgreiðslum flugfargjalda fyrir ungmenni. Í þeirri síðari hvatti Vestnorræna ráðið ríkisstjórnir landanna til að stofna umhverfisverðlaun hafsins, í þeim tilgangi að vekja athygli á mikilvægi sjálfbærni í fiskveiðum og verndun hafsins. Ályktanirnar verða lagðar fram sem tillögur til þingsályktunar á Alþingi á vorþingi 2020. Guðjón S. Brjánsson var kjörinn formaður Vestnorræna ráðsins fram að næsta ársfundi, en aðildarlöndin skiptast á að fara með formennskuna.
    Vestnorræna ráðið stóð fyrir tveimur málstofum á Hringborði norðurslóða (Arctic Circle) í október, annars vegar um hagsmuni Vestur-Norðurlanda á norðurslóðum og hins vegar um verndun smárra tungumála á norðurslóðum. Auk þess var mikill áhugi á Grænlandi á ráðstefnunni og nokkrar málstofur um grænlensk málefni.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins, sem samanstendur af formönnum landsdeilda Íslands, Grænlands og Færeyja, tók þátt í 71. þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í lok október. Samhliða þinginu fundaði forsætisnefnd með ráðherrum Vestur-Norðurlanda og forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Á fundunum bar hæst þær áskoranir sem tungumál vestnorrænu landanna standa frammi fyrir, málefni hafsins og umhverfismál á norðurslóðum. Þá átti forsætisnefnd sinn árlega fund með sendinefnd Evrópuþingsins í Brussel í desember. Fulltrúar þingnefndarinnar og Evrópusambandsins vöktu máls á aukinni samkeppni milli norðurskautsríkja og áhuga stórveldanna á vestnorrænu löndunum.
    Íslandsdeild lagði fram tvær tillögur til þingsályktunar á 149. þingi upp úr ályktunum Vestnorræna ráðsins frá ársfundi ráðsins árið 2018. Tillögurnar voru samþykktar á Alþingi í júní 2019. Á haustþingi 2019 lagði Íslandsdeild einnig fram frumvarp um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, en lögin voru samþykkt á Alþingi í desember.

2. Almennt um Vestnorræna ráðið.
    Lögþing Færeyja, Landsþing Grænlands (Inatsisartut) og Alþingi stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk 24. september 1985 sem samstarfsvettvang þinganna þriggja. Með því var formfest samstarf landanna sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Stofnun ráðsins var fyrst og fremst byggð á sameiginlegum bakgrunni landanna á ýmsum sviðum; bæði með hliðsjón af nánum sögulegum og menningarlegum arfi og tengslum sem og sameiginlegum hagsmunum í umhverfis-, samgöngu- og efnahagsmálum. Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafni þess breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur. Á sama fundi voru markmið samstarfsins skerpt, nýjar vinnureglur samþykktar, ákveðið að setja á fót skrifstofu ráðsins og ráða framkvæmdastjóra. Árið 2016 var ákveðið að auka við fjárráð ráðsins og ráða annan starfsmann í hálft starf til að sinna málefnum norðurslóða og Norðurskautsráðs. Lögþing Færeyinga, Alþingi Íslendinga og Landsþing Grænlendinga velja hvert um sig sex fulltrúa til setu í Vestnorræna ráðinu, þ.e. átján fulltrúa alls.
    Markmið Vestnorræna ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, vernda auðlindir og menningararfleifð Norður-Atlantshafssvæðisins, stuðla að samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg mál og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfismál, auðlinda- og samgöngumál, björgunar- og öryggismál, málefni norðurslóða, heilbrigðismál, menningarmál og íþrótta- og æskulýðsmál, svo fátt eitt sé nefnt.
    Vestnorræna ráðið kemur saman tvisvar á ári, til þemaráðstefnu í janúar og til ársfundar í ágúst eða byrjun september. Ársfundur fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins skipuleggur verkefni og störf ráðsins milli ársfunda. Forsætisnefnd samanstendur af einum fulltrúa frá hverju landi, formanni, fyrsta varaformanni og öðrum varaformanni. Formennska í ráðinu skiptist árlega á milli landanna þriggja. Ráðið getur einnig skipað sérstakar vinnunefndir um einstök mál. Ársfundur samþykkir ályktanir um ýmis mál sem síðan eru lögð fyrir þjóðþing landanna sem þingsályktunartillögur. Samþykki þingið ályktanirnar er þeim beint til viðeigandi ráðuneyta sem bera ábyrgð á að hrinda ályktunum í framkvæmd. Á hverjum ársfundi er tekin ákvörðun um hvaða þema verður tekið fyrir á þemaráðstefnu ráðsins árið eftir.
    Árið 2002 var undirritaður samningur um samstarf Vestnorræna ráðsins og ríkisstjórna Vestur-Norðurlanda. Með samningnum var kveðið á um að ríkisstjórnir landanna þriggja gæfu ráðinu skýrslu um stöðu framkvæmda gildandi ályktana fyrir ársfund ráðsins. Forsætisnefnd gæfist auk þess tækifæri til að funda með ráðherrum landanna í tengslum við Norðurlandaráðsþing ár hvert. Eftir því sem kostur væri tækju ráðherrar landanna einnig þátt í fundum Vestnorræna ráðsins.
    Vestnorræna ráðið vinnur jafnframt að framgöngu markmiða sinna með virkri þátttöku í norrænu og evrópsku samstarfi og norðurskautssamstarfi. Árið 2006 var undirritaður samstarfssamningur Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs. Samningurinn veitir Vestnorræna ráðinu og Norðurlandaráði gagnkvæman þátttökurétt hvoru á fundum annars og formgerir samstarfið á milli ráðanna frekar. Samningurinn gerir það m.a. mögulegt að ályktanir Vestnorræna ráðsins séu teknar til umfjöllunar í Norðurlandaráði. Árið 2011 héldu Vestnorræna ráðið og Norðurlandaráð sína fyrstu sameiginlegu ráðstefnu sem fjallaði um öryggi á sjó á Norður-Atlantshafi. Önnur ráðstefna var haldin árið 2013 og fjallaði um nýtingu auðlinda hafsins og sú þriðja árið 2016 sem fjallaði um sjálfbæra svæðisbundna þróun á norðurslóðum. Árið 2008 varð að samkomulagi milli Vestnorræna ráðsins og Evrópuþingsins að halda reglubundna upplýsinga- og samráðsfundi. Auk þess hefur Vestnorræna ráðið áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál. Loks gerði ráðið samstarfssamning við Hringborð norðurslóða árið 2016.
    
3. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins var kosin á þingfundi 14. desember 2017 í kjölfar alþingiskosninga. Aðalmenn eru Guðjón S. Brjánsson, formaður, þingflokki Samfylkingar, Þórunn Egilsdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Ásmundur Friðriksson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Bryndís Haraldsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Inga Sæland, þingflokki Flokks fólksins, og Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn eru Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingflokki Samfylkingar, Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Njáll Trausti Friðbertsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokki Flokks fólksins, og Ólafur Þór Gunnarsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Ritari Íslandsdeildar var Bylgja Árnadóttir alþjóðaritari.
    Á ársfundi Vestnorræna ráðsins í október var Guðjón S. Brjánsson kjörinn formaður ráðsins. Fulltrúi Íslandsdeildar í sérnefnd um málefni norðurslóða var Bryndís Haraldsdóttir og varamaður var Lilja Rafney Magnúsdóttir. Íslandsdeild hélt níu fundi á árinu þar sem þátttaka í fundum ráðsins var undirbúin og starf ráðsins rætt. Meðal gesta nefndarinnar voru Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Hringborðs norðurslóða, og Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus. Auk þess heimsótti Íslandsdeild sendiskrifstofur Færeyja og Grænlands í Reykjavík.
    Íslandsdeild lagði fram tvær tillögur til þingsályktunar á 149. þingi upp úr ályktunum Vestnorræna ráðsins frá ársfundi ráðsins árið 2018. Tillögurnar voru samþykktar á Alþingi í júní 2019. Á haustþingi 2019 lagði Íslandsdeild einnig fram frumvarp um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, en lögin voru samþykkt á Alþingi í desember. Með lagabreytingunni geta íslenskir kvikmyndaframleiðendur fengið endurgreiðslur frá íslenska ríkinu vegna framleiðslukostnaðar sem fellur til á Grænlandi og í Færeyjum.

4. Fundir Vestnorræna ráðsins 2019.
    Þemaráðstefna ársins var haldin á Íslandi í lok janúar og ársfundurinn í Nuuk á Grænlandi í lok október. Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins tók þátt í Hringborði norðurslóða í október og fundaði með ráðherrum frá Vestur-Norðurlöndum í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í lok október auk fundar með forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Þá átti forsætisnefnd fund með þingmannanefnd Evrópuþingsins í Brussel í desember. Að auki fundaði forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins í Nuuk í ágúst og átti símafund í apríl.
    Guðjón S. Brjánsson, formaður Íslandsdeildar, tók þátt í þingmannaráðstefnu norðlægu víddarinnar (Northern Dimension Parliamentary Forum) í Bodö í Noregi í nóvember. Hann tók einnig þátt í fundi þingmannanefndar um norðurslóðamál í Murmansk í Rússlandi í mars, fyrir hönd Vestnorræna ráðsins. Að auki sótti Guðjón ráðstefnu Hringborðs norðurslóða í Shanghai í Kína í maí.
    Árið 2018 var ákveðið að Vestnorræna ráðið myndi beina sjónum að auknum rannsóknum á vímuefnanotkun ungmenna á norðurslóðum á vettvangi Norðurskautsráðsins. Ákveðið var að fara þá leið að vekja athygli á starfsemi Rannsókna og greininga á fundi vinnuhóps um sjálfbæra þróun sem haldinn var hér á landi í september 2019, en Ísland fór með formennskuna í Norðurskautsráði. Á fundinum kynnti Jón Sigfússon, framkvæmdastjóri Rannsókna og greiningar, forvarnastefnu og rannsóknir á Íslandi og svaraði spurningum fundargesta.

Þemaráðstefna í Reykjavík 29.–31. janúar 2019.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu fundinn Guðjón S. Brjánsson, formaður, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, varamaður, og Lilja Rafney Magnúsdóttir, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara.
    Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins var haldin í Norræna húsinu 30. janúar og bar yfirskriftina „Staða vestnorrænu landanna í nýjum veruleika alþjóðastjórnmálanna“. Ráðstefnan hófst með opnunarávarpi Guðjóns S. Brjánssonar, formanns Íslandsdeildar. Guðjón sagði loftslagsbreytingar vera stærstu ógnina sem vestnorrænu löndin stæðu frammi fyrir. Afleiðingarnar hefðu víðtæk áhrif á svæðið og nauðsynlegt væri að greina hvernig löndin gætu haft sem mest áhrif á ákvarðanatöku á svæðinu. Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra norrænna samstarfsmála, benti á að áhrifa af loftslagsbreytingum gætti í auknum mæli á norðurslóðum en annars staðar í heiminum. Ekki yrði hjá því komist að taka eftir ummerkjum á borð við hopun jökla og ofsafengnara veðurfar. Minnkandi hafís skapaði löndunum einnig tækifæri og þar skipti máli að vestnorrænu löndin fylgdust vel með millilandaviðræðum um nýtingu hafsvæðisins.
    Ástríður Jónsdóttir, verkefnastjóri Hringborðs norðurslóða, ræddi um stefnu Vestnorræna ráðsins gagnvart Norðurskautsráði og norðurslóðamálum almennt. Hún sagði vestnorrænu löndin vera verndara norðursins og hafa þá skyldu að vernda viðkvæma náttúru og hvetja til sjálfbærrar nýtingar auðlinda. Á vettvangi norðurslóðasamstarfs gætu vestnorrænu löndin miðlað af einstakri þekkingu sinni og reynslu. Í pallborðsumræðum í kjölfarið sagði Bryndís Haraldsdóttir vestnorrænu löndin hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta á norðurslóðum. Löndin þyrftu sérstaklega að vinna saman að verndun auðlinda hafsins.
    Britt Lundberg, þingkona frá Álandseyjum og fulltrúi í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, lýsti ánægju sinni með samvinnu Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins. Hún sagðist telja tímabært að endurskoða samstarfssamning ráðanna tveggja með það fyrir augum að auka samstarfið enn frekar og styrkja rödd Vestnorræna ráðsins innan Norðurlandaráðs. Aðspurð um afstöðu Norðurlandaráðs til þess að veita Færeyjum og Grænlandi fulla aðild að Norðurlandaráði sagði hún Norðurlandaráð ekki geta tekið fram fyrir hendurnar á aðildarríkjum sínum.
    Maria Ackrén, lektor við félagsfræðideild Ilimmarfik á Grænlandi, greindi stuttlega frá sinni sýn á stöðu Grænlands í alþjóðastjórnmálum. Hún benti á að í ýmsum tilvikum væri óskýrt hvaða málefni féllu undir lögsögu Danmerkur og hver heyrðu undir heimastjórnina á Grænlandi. Sem dæmi nefndi hún samninga um úrannámur og umdeilda aðkomu Kínverja að uppbyggingu flugvalla á Grænlandi, sem fallið var frá haustið 2018. Ackrén benti á að Grænland væri ótrúlega auðugt af auðlindum, þar á meðal olíu, eðalsteinum, úrani og sinki. Veðurfar gerði vinnslu auðlindanna erfiða en það gæti breyst í kjölfar loftslagsbreytinga. Hlýnandi loftslag ógnaði hins vegar lífsviðurværi veiðimanna á Grænlandi og þeirri menningu sem samfélag innfæddra grundvallaðist á. Aukin skipaumferð um svæðið myndi enn fremur skapa áskoranir varðandi leit og björgun og mengunarhættu. Að mati Ackréns leiddi landfræðileg staða Grænlands óhjákvæmilega til þess að stórveldi tækjust á um áhrif á svæðinu. Hernaðarleg uppbygging Rússa á norðurslóðum ógnaði augljóslega núverandi valdajafnvægi á svæðinu.
    Pia Hansson og Auður Birna Stefánsdóttir, frá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, sögðu frá nýlegri rannsókn sinni á stöðu Íslands í alþjóðastjórnmálum. Auður Birna og Pia greindu frá því að á tímum kalda stríðsins hefði náið samband við Bandaríkin verið mikilvægasti þátturinn í velgengni íslenskra stjórnvalda á alþjóðavettvangi. Í skjóli hernaðarlegs mikilvægis landsins fyrir Bandaríkin hefði Ísland notið stuðnings Bandaríkjanna í mikilvægum málum. Frá lokum kalda stríðsins hefði hins vegar hernaðarlegt mikilvægi minnkað og með því hefði stuðningur og velvilji Bandaríkjanna dvínað. Íslensk stjórnvöld hefðu því í meira mæli einbeitt sér að því að rækta sambandið við Norðurlöndin og Evrópusambandið. Með auknum alþjóðlegum áhuga á norðurslóðum hefði landfræðilegt mikilvægi Íslands vaxið á ný og stjórnvöld hefðu á síðustu árum beint sjónum sínum í sífellt auknum mæli að norðurslóðamálum. Að mati Piu og Auðar Birnu væri ímynd Íslands og orðspor mikilvægasta auðlind Íslands á alþjóðavettvangi. Ísland hefur ímynd hlutleysis, jafnréttis og sjálfbærni. Nýleg kosning Íslands í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna er dæmi um það hvernig nýta má þessa ímynd til áhrifa í utanríkismálum.
    Jens Christian Svabo Justinussen, lektor í félagsfræði við Fróðskaparsetur Færeyja, fjallaði um stöðu Færeyja í alþjóðastjórnmálum. Hann benti á að í seinni heimsstyrjöldinni hefði siglingaleiðin kringum Færeyjar verið eins konar flöskuháls í Atlantshafi og eyjarnar því orðið hernaðarlega mikilvægar. Með auknum siglingum á norðurslóðum stefndi í að Færeyjar öðluðust á ný slíkt mikilvægi. Færeyingar hefðu orðið varir við aukinn áhuga umheimsins á svæðinu og heimastjórnin ætti í sífellt meiri samskiptum við stórveldi án aðkomu Danmerkur.
    Lau Øfjord Blaxekjær, fræðimaður við Norrænu Asíustofnunina (NIAS), fjallaði um áhrif loftslagsbreytinga á alþjóðastjórnmál á svæðinu. Hann benti á að áhrif loftslagsbreytinga yrðu ólík milli landa. Á Grænlandi myndi þiðnun sífrera í jörðu kalla á lagfæringar á innviðum á borð við vegi og lagnir. Öll löndin þyrftu að takast á við aukinn matarkostnað og reyna að auka matvælaframleiðslu heima fyrir til að draga úr innflutningi á mat. Auðlindir og landfræðileg staða landanna settu þeim ólíkar skorður varðandi möguleika þeirra til að takast á við þessar áskoranir. Øfjord Blaxekjær hvatti til aukinnar vestnorrænnar samvinnu um norðurslóðamál og viðbrögð við loftslagsbreytingum. Til dæmis gætu löndin átt í sameiginlegum samskiptum við stórveldi á borð við Kína, Kóreu, Japan og Rússland og skipulagt sameiginlega þjónustu við flutningaskip sem sigldu um norðurslóðir og ekki síst aukið samstarf um rannsóknir og menntun.
    Í lokaávarpi Alberts Jónssonar, fyrrverandi sendiherra, kom fram að landfræðilegt mikilvægi vestnorrænu landanna hefði minnkað verulega og yrði ekki endurheimt. Miðpunktur alþjóðastjórnmála hefði færst til Asíu og Kyrrahafsins þar sem væri nú efnahagsleg og tæknileg þungamiðja heimsins. Aukinn áhugi á norðurslóðum og opnun siglingaleiðar um norður-heimskautið gæti þó tengt vestnorrænu löndin betur við þessa nýju þungamiðju. Rússar væru óumdeilanlega sterkasti aðilinn á norðurslóðum og þeir hefðu gríðarlegan hag af því að auka auðlindanýtingu sína á svæðinu og ná yfirráðum yfir siglingaleiðinni um norðurheimskautið.
    Daginn fyrir ráðstefnuna hélt Vestnorræna ráðið innri fund í húsnæði gamla Héraðsskólans í Reykholti. Á fundinum ræddu meðlimir Vestnorræna ráðsins um starfið, tilgang ráðsins og markmið. Í umræðunum komu meðal annars fram þau sjónarmið að góð tengsl milli þingmanna í vestnorrænu löndunum ýttu undir greiðari samskipti milli landanna og kæmu að gagni þegar ágreiningur væri uppi milli ríkisstjórna landanna. Meðlimirnir voru sammála um að ekki væri þörf á að stofna flokkahópa innan Vestnorræna ráðsins heldur ætti að einbeita sér að þeim málefnum sem féllu undir sameiginlega hagsmuni landanna þriggja, til dæmis hvað varðar verndun auðlinda og umhverfis. Bent var á gagnsemi þess að móta sameiginlega stefnu Vestnorræna ráðsins sem unnt væri að vísa til í samskiptum við utanaðkomandi aðila, t.d. Norðurlandaráð og Evrópuþingið. Að lokum var lögð áhersla á að auka eftirfylgd með því að ályktunum ráðsins væri framfylgt af ríkisstjórnum landanna. Nokkrir meðlimir lýstu enn fremur áhuga sínum á að auka samstarf Vestnorræna ráðsins við nágranna, til dæmis í Norður-Skotlandi, Nunavut í Kanada og strandsamfélögum í Noregi. Stungið var upp á því að Vestnorræna ráðið ætti frumkvæðið að auknu samstarfi, til dæmis með því að halda þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í einu nágrannalandanna. Sigurður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, sagði stuttlega frá starfi skrifstofunnar frá ársfundi. Meðal verkefna var undirbúningur ráðningar starfsmanns og endurskoðun reglna um barna- og unglingabókmenntaverðlaun Vestnorræna ráðsins.
    Í kjölfar ráðstefnunnar fóru meðlimir Vestnorræna ráðsins og gestir í vettvangsheimsóknir í fyrirtæki og stofnanir á suðvesturhorni landsins fimmtudaginn 31. janúar. Meðal viðkomustaða voru höfuðstöðvar ORF Líftækni í Kópavogi, orkuver HS Orku í Svartsengi, fiskverkunar- og ferðaþjónustufyrirtækið Stakkavík og Fisktækniskólinn í Grindavík.

Fundur Íslandsdeildar með Ólafi Ragnari Grímssyni 11. júní 2019.
    Á fund Íslandsdeildar kom Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Hringborðs norðurslóða, og Dagfinnur Sveinbjörnsson, forstjóri Hringborðs norðurslóða. Fyrir hönd Íslandsdeildar sátu fundinn Guðjón S. Brjánsson, formaður, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Inga Sæland, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Halla Signý Kristjánsdóttir, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara, og Sigurðar Ólafssonar, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins.
    Ólafur Ragnar sagði Hringborð norðurslóða endurspegla heimssögulegar breytingar í nágrenni Íslands þar sem norðurslóðir fengju sífellt meira vægi. Þessar breytingar hefðu áhrif á stöðu og hlutverk Íslands, Færeyja og Grænlands. Þessu til stuðnings benti hann á vaxandi áhuga Bandaríkjamanna á svæðinu, sem augljós væri af heimsóknum öldungadeildarþingmanna og utanríkisráðherra landsins til Íslands. Einnig hefði verið tilkynnt að orkumálaráðherra Bandaríkjanna mundi ávarpa komandi Hringborð, en það hefði komið til að frumkvæði Bandaríkjamanna. Hann benti á að önnur lönd á norðurslóðum og nágrenni þess hefðu aukið verulega fjárfestingar sínar í rannsóknum, samgöngum og orkunýtingu á svæðinu, þar á meðal Suður-Kórea, Rússland og Noregur. Starfandi ríkisstjórn Íslands og utanríkisráðherra gerðu sér fyllilega grein fyrir mikilvægi svæðisins og Ísland væri í einstakri stöðu til að hafa áhrif með formennsku í Norðurskautsráði og í norrænni samvinnu. Gott samband við Færeyinga og Grænlendinga væri lykillinn að því að hafa áhrif á norðurslóðum.
    Ólafur Ragnar Grímsson lagð áherslu á að ef ákvarðanataka á norðurslóðum ætti að byggjast á lýðræðislegum grunni þyrftu þingmenn að taka þátt í umræðu og stefnumótun. Eins og staðan væri tækju ýmsir aðilar þátt í umræðu um norðurslóðamál, þar á meðal ríkisstjórnir, embættismenn og fulltrúar fyrirtækja og vísindasamfélagsins. Hins vegar hallaði á þingmenn. Þar myndi ráða mestu ef þjóðþing skipulegðu sig betur og forgangsröðuðu fjármunum í norðurslóðasamstarf. Hann sagði að hægt yrði að gera Vestnorræna ráðið að lykiláhrifavaldi á norðurslóðum. Ráðið væri samráðsvettvangur landa sem saman réðu yfir miklum hafsvæðum á norðurslóðum og mögulega gæti Skotland bæst í hópinn, en þar væri norðurslóðastefna í vinnslu. Vestnorræna ráðið myndaði einu formlegu tengslin milli landanna á svæðinu og væri þannig eini vettvangurinn sem gæti talað fyrir hönd kjörinna fulltrúa á svæðinu. Tryggja þyrfti að lýðræðislegur vilji fólksins yrði þáttur í þróun málefna svæðisins. Hringborð norðurslóða væri mikilvægasti vettvangur þingmannasamskipta á norðurslóðum. Mikilvægt væri að nýta Hringborðið til að hitta þingmenn og ráðherra, koma á samböndum og breikka sjóndeildarhring.
    
Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins í Nuuk 20. ágúst 2019.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fundaði í Inatsisartut, þingi heimastjórnar Grænlands. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundinn Guðjón S. Brjánsson, formaður, auk Bylgju Árnadóttur alþjóðaritara. Aðrir fundarmenn voru Vivian Motzfeldt, formaður landsdeildar Grænlands og formaður Vestnorræna ráðsins, Kári Páll Højgaard, formaður landsdeildar Færeyja, Sigurður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Mette B. Berthelsen, ritari grænlensku landsdeildarinnar, og Rannvá Sólheim, ritari færeysku landsdeildarinnar. Helstu mál á dagskrá voru undirbúningur undir ársfund ráðsins í október, norðurslóðamál og nýjar reglur um barna- og unglingabókmenntaverðlaun ráðsins.
    Formenn landsdeildanna þriggja sögðu stuttlega frá því nýjasta í landsmálunum frá því að forsætisnefnd hélt símafund sinn í apríl. Í Færeyjum bar kosningabaráttuna hæst, en kosið var til þings 31. ágúst. Kári Páll Højgaard sagði að vel miðaði í vinnu við jarðgöng milli Sandeyjar og Straumeyjar og að afkoma Bakkafrosts hefði verið góð þótt hagnaður væri minni en í fyrra. Lánshæfismat Færeyja frá Moody's Investor Service hefði auk þess hækkað og væri nú það þriðja hæsta sem völ væri á. Guðjón S. Brjánsson sagði þingið hafa verið annasamt á vormánuðum og stæði umræða um þriðja orkupakkann enn yfir. Efnahagslífið hefði dalað nokkuð í kjölfar gjaldþrots Wow air, auk þess sem minna veiddist af loðnu og makríl. Hann benti hins vegar á að þrátt fyrir fækkun ferðamanna milli ára væri velta í greininni nánast sú sama og árið 2018. Guðjón sagði einnig frá nýjum lögum um þungunarrof sem hefðu verið samþykkt á Alþingi á vormánuðum í kjölfar mikilla umræðna. Í lögunum væri sjálfsákvörðunarréttur kvenna staðfestur og væru lögin með þeim frjálslyndustu í þessum efnum. Vivian Motzfeldt sagði ummæli Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, um möguleg kaup á Grænlandi bera hæst þá vikuna. Viðbrögð við ummælunum hefðu verið á ýmsa vegu, einhverjir væru reiðir en aðrir sæju ekki tilgang í að ræða þau. Það góða væri að ummælin hefðu vakið áhuga á Grænlandi og beint athygli að tækifærum svæðisins. Einstaklega gott sumar hefði því miður haft þann fylgifisk að gróðurbrunar hefðu brotist út í kringum Sisimiut. Illa hefði gengið að ná yfirhöndinni í baráttunni við eldana og að lokum hefði landsstjórnin falast eftir aðstoð frá Danmörku. Aðstoðin hefði borist hratt og slökkvistarf tekið skamman tíma eftir það. Motzfeldt sagði nokkrar væringar í stjórnmálunum, en samflokksmenn Kim Kielsen, formanns landsstjórnarinnar, lýstu yfir vantrausti sínu skömmu fyrir fundinn. Tekist hefði að leysa úr ágreiningnum en Motzfeldt sagði ergilegt hvað persónustjórnmál og valdabarátta hefði fengið stóran sess. Sjónir hefðu beinst að málefnum barna og ungmenna í kjölfar heimildarmyndar um Tasiilaq, á Austur-Grænlandi, sem sýnd var í danska ríkissjónvarpinu vorið 2019. Hún varaði við því að einblína á það sem væri neikvætt og sagði málin vera að þróast í rétta átt í Grænlandi, t.d. í efnahagslífinu.
    Sigurður Ólafsson greindi frá starfi ráðsins, þar á meðal þátttöku í ráðstefnu Hringborðs norðurslóða í Shanghai í Kína og fundi þingmannanefndar um norðurslóðamál í Ottawa í Kanada. Ný heimasíða ráðsins hefði verið opnuð. Framkvæmdastjóri kynnti vinnu við gerð fjárhagsáætlunar ráðsins árið 2020 og benti á að fjármál ráðsins yrðu rýmri en áður þar sem fundir Norðurskautsráðsins færu fram á Íslandi vegna formennsku Íslands. Reifaðar voru hugmyndir um þátttöku ráðsins í Hringborði norðurslóða í Berlín. Ársreikningur fyrir árið 2018 væri tilbúinn og talsverður afgangur af rekstri ráðsins. Sigurður benti á að rekstrarafgangur hefði orðið vegna lægri launakostnaðar en áætlanir gerðu ráð fyrir þar sem ekki var starfandi framkvæmdastjóri alla mánuðina á árinu 2018 og hlutastarfsmaður hefði ekki verið ráðinn inn fyrr en að vori 2019. Forsætisnefnd ræddi um hvernig skyldi ráðstafa afganginum en farin var sú leið að endurgreiða þjóðþingunum hluta aðildargjalda ársins 2017. Framkvæmdastjóri kynnti einnig nýjar reglur um barna- og unglingabókmenntaverðlaun Vestnorræna ráðsins, en vinna við að uppfæra þær hafði staðið yfir frá vetri. Ákveðið var að kynna nýju reglurnar í landsdeildunum fyrir ársfundinn í október.
    Skipulagning ársfundar Vestnorræna ráðsins í Nuuk síðar á þessu ári tók stóran hluta fundar. Ráðgert var að dagskráin yrði með svipuðum hætti og fyrri ár. Einnig var rætt um viðræður Vestnorræna ráðsins við skrifstofu Alþingis um gerð samstarfssamnings milli stofnananna, en þar skyldu formfest samskipti og hlutverk beggja aðila. Að lokum ræddi forsætisnefnd drög að nýrri stefnu ráðsins í norðurslóðamálum sem Steen Løgstrup Nielsen, nýr starfsmaður skrifstofunnar í norðurslóðamálum, hafði unnið að. Meðlimir forsætisnefndar komu með nokkrar athugasemdir varðandi drögin og var ákveðið að skjalið skyldi rætt í landsdeildunum og lokaútgáfa lögð fyrir ársfundinn til samþykktar. Meðal þess sem þurfti að taka afstöðu til var það hvort senda ætti meðlimi forsætisnefndar á fundi vinnuhóps um sjálfbæra þróun í Norðurskautsráði eða hvort aðeins starfsmaður skrifstofunnar sækti þá fundi.

Þátttaka forsætisnefndar í ráðstefnunni Hringborði norðurslóða í Reykjavík 10.–13. október 2019.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu Hringborð norðurslóða Guðjón S. Brjánsson formaður og Bryndís Haraldsdóttir, fulltrúi Íslandsdeildar í sérnefnd Vestnorræna ráðsins um málefni norðurslóða, auk Bylgju Árnadóttur alþjóðaritara. Vestnorræna ráðið stóð fyrir tveimur málstofum á ráðstefnunni, annars vegar um hagsmuni Vestur-Norðurlanda á norðurslóðum og hins vegar um verndun smárra tungumála á norðurslóðum.
    Á málstofu um verndun smárra tungumála á norðurslóðum kynnti Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra stefnu íslenskra stjórnvalda varðandi verndun íslenskunnar. Hún benti á að rannsóknir hefðu sýnt fram á að íslensk börn yrðu fyrir áhrifum frá ensku frá 6 mánaða aldri. Sýnt hefði verið fram á tengsl veikrar stöðu nemenda í íslensku í grunnskóla og brottfalls úr háskóla. Styrking íslenskunnar væri jafnréttismál því börn sem hefðu gott vald á íslensku stæðu sig betur í námi. Tungumálið væri auk þess mikilvægasti þáttur menningarinnar og í þeim tilgangi að standa vörð um íslenska menningu hygðust stjórnvöld styrkja íslenskuna. Meðal verkefna væri að tryggja notkun íslenskunnar á háskólastigi, í fræðasamfélaginu og í viðskiptalífinu og að styðja við þróun máltækni í þeim tilgangi að tæki og tól gætu talað og skilið íslensku. Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, sagði frá jákvæðum og neikvæðum áhrifum ensku í umhverfi barna. Hún benti á að áhrif íslensku á ung börn færu minnkandi og að sum börn íslenskra foreldra sýndu merki þess að vera tvítyngd. Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms, benti á að þegar þar að kæmi að ekki væri hægt að nota tungumálið í daglegu lífi dæi það út. Mikilvægt væri því að tryggja að hægt yrði að nota íslensku í sífellt auknum samskiptum fólks við tæki. Guðjón S. Brjánsson tók þátt í pallborðsumræðum ásamt fulltrúum Grænlands og Færeyja. Hann sagði smáum tungumálasamfélögum ógnað af stafrænni byltingu og að gott væri að sjá hversu metnaðarfull íslenska aðgerðaáætlunin væri.
    Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra opnaði málstofu um hagsmuni Vestur-Norðurlanda á norðurslóðum. Hann sagði aukinn áhuga alþjóðasamfélagsins á svæðinu augljósan. Nauðsynlegt væri að sýna stillingu gagnvart þessum aukna áhuga og halda á lofti gildum norðurslóðaríkja. Hann benti á að markmið Vestnorræna ráðsins færu að mörgu leyti saman við stefnu Norðurskautsráðs. Til að mynda hefði Vestnorræna ráðið átt frumkvæði að því að Ísland vekti athygli á rannsóknum og stefnu sinni í vímuefnavörnum á fundi vinnuhóps um sjálfbæra þróun í september. Áhersla Norðurskautsráðsins á bláa hagkerfið færi einnig saman við áherslu Vestnorræna ráðsins á sjálfbæra nýtingu sjávarafurða. Margrét Cela, verkefnastjóri hjá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, fjallaði um stöðu vestnorrænu landanna í ljósi örra breytinga á norðurslóðum. Hún sagði löndin þurfa að vera tilbúin til að endurmeta í sífellu hagsmuni sína í ljósi breytinga á valdajafnvægi stórveldanna, hervæðingu og áhrifa loftslagsbreytinga á siglingaleiðir, fiskveiðar og auðlindanýtingu. Smæð landanna hefði þau áhrif að þau þyrftu að leita hagkvæmra leiða til að ná markmiðum sínum og nýta sér sambönd sín við valdameiri aðila. Í pallborðsumræðum sagði Bryndís Haraldsdóttir loftslagsbreytingar hafa haft mikil áhrif á hagsmuni Vestur-Norðurlanda. Hlýnun sjávar og súrnun gætu haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútveginn og opnun siglingaleiða yfir norðurpólinn gæti leitt af sér kapphlaup stórveldanna um yfirráð yfir auðlindum sem þar leyndust.
    Málefni Grænlands voru áberandi í fleiri málstofum á Hringborði norðurslóða og höfðu ráðstefnugestir mikinn áhuga á málflutningi grænlensku landsstjórnarinnar, ekki hvað síst í ljósi orðræðu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í ágúst um möguleg kaup á Grænlandi.

Ársfundur í Nuuk 22.–24. október 2019.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ársfundinn Guðjón S. Brjánsson formaður, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Inga Sæland, Halla Signý Kristjánsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir, auk Bylgju Árnadóttur alþjóðaritara.
    Fyrsti dagskrárliður ársfundarins var fundur með utanríkisráðherrum vestnorrænu landanna. Þau Ane Lone Bagger, utanríkisráðherra Grænlands, og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra og staðgengill utanríkisráðherra, fluttu ávörp undir yfirskriftinni „Vestur-Norðurlönd og hafið“. Bagger sagði það ljóst af fornleifauppgreftri að sjávarlífverur hefðu alla tíð verið meginuppistaðan í mataræði Grænlendinga. Mengun hafsins væri áhyggjuefni þar sem plast fyndist í auknum mæli í maga lífvera. Töpuð veiðarfæri héldu áfram að veiða fisk og brotnuðu hægt niður. Bryndís Haraldsdóttir spurði ráðherrann hvort fram færi einhvers konar áhættugreining á erlendum fjárfestingartilboðum, sér í lagi innviðafjárfestingu á vegum Kínverja. Bagger sagði landsstjórnina vinna með Dönum að greiningu á tilboðum um beina fjárfestingu. Þrátt fyrir að Grænlendingar byðu fjárfesta velkomna væri nauðsynlegt að hafa samráð þar um, sérstaklega þegar um væri að ræða mikilvæga innviði. Markmiðið væri alltaf að erlend fjárfesting væri til hagsbóta fyrir grænlenskt samfélag. Kristján Þór Júlíusson sagði Íslendinga hafa unnið ötullega að því að styrkja aðra atvinnuvegi en sjávarútveg. Tilgangurinn væri ekki að hamla vexti sjávarútvegsins heldur að auka fjölbreytnina í atvinnulífinu. Þetta hefði skilað árangri, sérstaklega á síðustu árum með auknu vægi ferðaþjónustunnar. Miklir möguleikar væru á auknu samstarfi milli landanna þriggja og hlutverk stjórnmálamanna væri að hvetja fyrirtækin til að auka samstarf sín á milli. Guðjón S. Brjánsson spurði ráðherra hvort forsenda væri fyrir því að auka samstarf vestnorrænu landanna um leit og björgun, sérstaklega í ljósi aukinna skipaferða um hafsvæði þeirra. Kristján Þór sagði nauðsynlegt að löndin mótuðu sér stefnu um hvernig þau hygðust bregðast við þessari áskorun.
    Formenn landsdeilda gerðu ráðinu grein fyrir starfinu á liðnu ári og flutti Inga Sæland skýrslu Íslandsdeildar. Hún sagði Íslandsdeild hafa fengið á sinn fund ýmsa góða gesti til að ræða þá möguleika sem fælust í starfinu innan ráðsins. Meðal annars hefði Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti og formaður Hringborðs norðurslóða, brýnt þingmennina til þátttöku í ráðstefnunni og til að nýta rödd sína á vettvangi norðurslóða. Einnig hefði Íslandsdeild heimsótt sendiskrifstofur Færeyja og Grænlands og rætt málefni vestnorrænu tungumálanna við Eirík Rögnvaldsson, prófessor emeritus.
    Fulltrúar samstarfsaðila Vestnorræna ráðsins ávörpuðu einnig fundinn. Vittus Qujaukitsoq flutti ávarp fyrir hönd vestnorrænna samstarfsráðherra Norðurlandanna. Hann benti á að Danmörk tæki við formennsku í norrænu ráðherranefndinni árið 2020. Þá myndu landsstjórnir Grænlands og Færeyja hvor standa fyrir einu formennskuverkefni. Grænlendingar hygðust leggja áherslu á sjálfbæra þróun strandsamfélaga á norðurslóðum. Magne Rommetveit, 3. varaforseti norska Stórþingsins, sagðist vonast til þess að stækkun flugvalla á Grænlandi og bygging nýs hótels í Nuuk mundi hjálpa Grænlendingum að reka sjálfbæra ferðaþjónustu í auknum mæli.
    Í umræðum um vestnorræna samvinnu benti Guðjón S. Brjánsson á að Vestnorræna ráðið væri með elstu þingmannasamtökum á norðurslóðum. Allir meðlimir ráðsins væru sammála um mikilvægi þess að vinna að sameiginlegum hagsmunum landanna þriggja. Miklar áskoranir væru fram undan og þörf fyrir meira samstarf í veröld sem breyttist hratt. Bryndís Haraldsdóttir tók til máls í umræðum um Vestnorræna ráðið og norðurslóðir og lagði hún áherslu á að staða landanna þriggja yrði sífellt sterkari á alþjóðlegum vettvangi í takt við aukinn áhuga stórvelda á norðurslóðum. Sumir hefðu áhuga á að ná yfirráðum yfir auðlindum svæðisins á meðan aðrir ræddu um að friða svæðið. Mikilvægt væri að raddir íbúa svæðisins heyrðust og að lýðræðislega kjörnir fulltrúar þeirra töluðu máli þeirra, þar á meðal á vettvangi Norðurskautsráðsins.
    Lilja Rafney Magnúsdóttir tók til máls í umræðum um sjávarútvegsmál. Hún sagði augljóst af svörum ríkisstjórnanna að ítarlegt samstarf væri milli landanna þriggja á sviði sjávarútvegsmála. Hún lýsti einnig ánægju með ítarlegar skýrslur ríkisstjórnanna um framfylgd ályktunar Vestnorræna ráðsins um rannsóknir á plastmengun í hafinu. Lilja vakti athygli á nýrri rannsókn sem framkvæmd hefði verið við strendur Grænlands sem sýndi fram á að stærstur hluti þess plasts sem fyndist í hafinu ætti uppruna sinn í nálægum byggðum. Þessar upplýsingar myndu gagnast við baráttuna gegn plastmengun í hafinu og lífverum þess. Í umræðum um menntamál fjallaði Ásmundur Friðriksson um ályktun ráðsins um stofnun vestnorrænna eftirskóla. Ásmundur benti á að þetta skólaform, heimavistarskóli fyrir 14-18 ára unglinga, væri nær óþekkt á Íslandi. Svör ríkisstjórnar Íslands bentu enn fremur til þess að lítill vilji væri til að skoða möguleikann á því að stofna nýtt skólastig. Hann lýsti ánægju sinni með nýtt samstarf menntaskóla á Íslandi, Grænlandi, í Færeyjum og Danmörku og sagði það uppfylla kjarnann í ályktuninni með því að efla þekkingu ungmenna á vestnorrænni menningu og tungu. Ráðið samþykkti einróma að fella ályktunina úr gildi.
    Í umræðum um samgöngur og innviði sagði Halla Signý Kristjánsdóttir að samgönguinnviðir væru forsenda auðlindanýtingar og vöruflutnings. Markmið vestnorræns samstarfs væri meðal annars að auka viðskipti og nýr samningur milli Eimskips og Royal Arctic Line um reglubundnar siglingar fraktskipa milli Vestur-Norðurlanda hefði mikla þýðingu fyrir fyrirtæki í löndunum. Reglubundið flug milli landanna hefði einnig stuðlað að aukinni aðsókn ferðamanna. Sífellt aukinn áhugi væri á því að ferðast á norðurslóðum og upplifa óspillta náttúru og hreint loft. Í umræðum um menningarmál sagði Bryndís Haraldsdóttir frá frumvarpi um breytingu laga um endurgreiðslur til kvikmyndaframleiðenda sem allir meðlimir Íslandsdeildar hefðu skrifað undir. Lagabreytingin myndi hafa í för með sér að íslenskir kvikmyndaframleiðendur gætu fengið endurgreiðslur frá íslenska ríkinu vegna framleiðslukostnaðar sem félli til á Grænlandi og í Færeyjum. Vonuðust þingmennirnir til þess að þetta yrði löndunum sams konar lyftistöng fyrir kvikmyndaframleiðslu og ferðaþjónustu og raunin hefði verið á Íslandi.
    Á ársfundi var samþykkt að næsta þemaráðstefna ráðsins yrði í Þórshöfn í Færeyjum í janúar 2020 og að þemaefnið yrði staða tungumálanna á Vestur-Norðurlöndum. Einnig að næsti ársfundur ráðsins yrði haldinn í húsakynnum Alþingis í september 2020. Ársfundurinn samþykkti tvær ályktanir sem verða sendar til þjóðþinga landanna þriggja til umfjöllunar. Í þeirri fyrstu eru ríkisstjórnir Vestur-Norðurlanda hvattar til þess að kanna möguleika á niðurgreiðslu flugferða ungmenna milli landanna þriggja. Í ályktuninni kemur fram að fyrirkomulagið mætti byggja upp á svipaðan hátt og hið evrópska Interrail og myndi auka möguleikana á að ungt fólk á Vestur-Norðurlöndum gæti heimsótt hvert annað og kynnst menningu og tungumáli nágranna sinna. Í annarri ályktuninni er kallað eftir því að ríkisstjórnirnar stofni umhverfisverðlaun hafsins. Með því yrði athygli vakin á mikilvægi sjálfbærra veiða og verndunar hafsins og auðlinda þess.
    Að lyktum var samþykkt að Ríkisendurskoðun skyldi áfram vera endurskoðandi reikninga Vestnorræna ráðsins. Guðjón S. Brjánsson var einróma kjörinn formaður ráðsins fram að næsta ársfundi. Við það tækifæri sagði Guðjón heiminn allan beina sjónum sínum að norðurslóðum. Vestur-Norðurlönd þyrftu að ræða saman og takast sameiginlega og á sjálfbæran hátt á við áskoranir af völdum loftslagsbreytinga.
    Í kjölfar ársfundar heimsótti Íslandsdeild sendiskrifstofu Íslands í Grænlandi og Kofoed-skólann sem veitir heimilislausum í Nuuk aðstoð og þjálfun.

Fundir forsætisnefndar á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi 29.–30. október 2019.
    Af hálfu Íslandsdeildar sótti þingið Guðjón S. Brjánsson, formaður, auk Bylgju Árnadóttur ritara. Auk þátttöku í Norðurlandaráðsþingi átti forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fundi með fulltrúum forsætisnefndar Norðurlandaráðs sem og vestnorrænum samstarfsráðherrum Norðurlanda og vestnorrænum menningarmálaráðherrum. Einnig var haldinn undirbúningsfundur fyrir þessa fundi. Af hálfu landsdeildar Færeyja sótti fundinn Henrik Old, formaður færeysku landsdeildarinnar, en enginn fulltrúi kom frá grænlensku landsdeildinni.
    Guðjón S. Brjánsson, formaður Vestnorræna ráðsins, flutti ræðu á þinginu fyrir hönd ráðsins undir umræðulið um alþjóðlega samvinnu. Hann þakkaði fyrir gott samstarf við Norðurlandaráð og bauð þátttakendum Norðurlandaráðsþings á ráðstefnu Vestnorræna ráðsins í janúar 2020. Á ráðstefnunni yrði sjónum beint að tungumálum vestnorrænu landanna og hvernig eigi að varðveita þau og styrkja. Guðjón benti á að smáum tungumálum um allan heim væri ógnað og að Íslendingar, Færeyingar og Grænlendingar þekktu vel áskoranirnar við að tryggja að móðurmálið væri notað virkt á öllum sviðum samfélagsins. Hann sagði vestnorrænu löndin finna vel fyrir áhrifum aukinna átaka á alþjóðlegum vettvangi. Hins vegar væri það á Norðurlöndum sem einna mest traust ríkti milli fólks, „hið norræna gull“ eins og það hefði verið kallað í nýlegri skýrslu á vegum norrænu ráðherranefndarinnar. Þessa auðlind þyrftu Norðurlandabúar að rækta og meta að verðleikum.
    Vestnorræna ráðið fundaði með menningarmálaráðherrum Vestur-Norðurlanda, þeim Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, Jenis av Rana, ráðherra utanríkis- og menntamála í Færeyjum, og Ane Lone Bagger, ráðherra utanríkis- og menntamála á Grænlandi. Guðjón S. Brjánsson opnaði fundinn og bauð ráðherrunum til þátttöku á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í janúar 2020. Hann sagði ráðsmeðlimi vilja taka þátt í og skapa aukna umræðu um þær áskoranir sem vestnorrænu tungumálin stæðu frammi fyrir. Hann þakkaði Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, fyrir þátttöku hennar í málstofu ráðsins um þetta efni á Hringborði norðurslóða í Reykjavík í október. Guðjón vakti einnig athygli á ályktun ráðsins frá árinu 2018 sem hvetur stjórnvöld til að setja á fót vinnuhóp um verndun tungumálanna í stafrænum heimi. Lilja Alfreðsdóttir þakkaði fyrir boðið og sagðist gjarnan vilja kynna aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda um eflingu íslenskunnar. Þar væri áhersla lögð á að styrkja íslenskuna og styðja við notkun hennar á öllum sviðum, ekki hvað síst í bókmenntum, kvikmyndum, viðskiptum og í stafrænum heimi. Á fundinum undirrituðu ráðherrarnir ásamt Guðjóni, fyrir hönd Vestnorræna ráðsins, nýjan samstarfssamning um barna- og unglingabókmenntaverðlaun ráðsins.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins átti fund með vestnorrænum samstarfsráðherrum Norðurlanda. Til fundarins komu Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda á Íslandi, Kaj Leo Holm Johannesen, samstarfsráðherra Færeyinga, og Vittus Qujaukitsoq, samstarfsráðherra Grænlendinga. Guðjón S. Brjánsson þakkaði ráðherrunum og skrifstofum þeirra fyrir greinargerðir ríkisstjórnanna til Vestnorræna ráðsins um framfylgd ályktana ráðsins. Henrik Old kynnti stuttlega nýjar ályktanir Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins á Grænlandi í október. Í annarri ályktuninni væru ríkisstjórnir Vestur-Norðurlanda hvattar til að koma á fót vestnorrænum umhverfisverðlaunum hafsins. Verðlaunin skyldi veita einstaklingum, fyrirtækjum, samtökum eða stofnunum sem ynnu að umhverfisvernd eða sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins. Í annarri ályktuninni væri kallað eftir ódýrari fargjöldum milli Vestur-Norðurlanda fyrir ungmenni. Þannig mætti auka samskipti ungs fólks á svæðinu og stuðla að aukinni samvinnu. Sigurður Ingi benti á að mikil áhersla væri lögð á vestnorrænt samstarf í stjórnarsáttmála íslensku ríkisstjórnarinnar. Til dæmis hefðu Íslendingar lagt sig fram um að flétta sjónarmið Grænlendinga og Færeyinga inn í formennskuáætlun sína í norrænu ráðherranefndinni. Sérstaklega væri ánægjulegt að tekist hefði að tryggja fjármögnun til að vinna þróunaráætlun um Norður-Atlantshaf (NAUST). Taldi hann að sjónarmið Vestur-Norðurlanda hefðu öðlast aukinn skilning innan Norðurlandaráðs á þessu tímabili. Vittus Qujaukitsoq tók undir þetta og sagði Norðurlöndin yfirleitt einblína á samskipti við Evrópusambandið og lönd til austurs og suðurs. Með íslensku formennskunni í norrænu ráðherranefndinni hefðu löndin hins vegar beint sjónum sínum í auknum mæli til vesturs. Hann sagði mikilvægt að Vestur-Norðurlönd stilltu saman strengi sína og ynnu saman að framgangi sinna hagsmunamála innan Norðurlandaráðs. Hann sagði stuttlega frá þeim verkefnum sem Grænlendingar myndu leiða í tíð formennsku Dana í ráðherranefndinni. Áhersla yrði lögð á sjálfbærar veiðar og aukna verðmætasköpun í nýtingu sjávarafurða. Kaj Leo Holm Johannesen lýsti áhuga á að koma á vestnorrænu samstarfi um rannsóknir á plastmengun í hafi og sjávarlífverum. Hann sagði endurnýjun fríverslunarsamnings milli Íslands og Færeyja vera forgangsmál og velti upp þeirri hugmynd að vinna að þríhliða samningi milli Vestur-Norðurlanda. Samstarfsráðherrarnir lýstu einnig áhuga á að halda formlega fundi sín á milli til að ræða ályktanir Vestnorræna ráðsins og framfylgd þeirra.
    Á fundi Vestnorræna ráðsins með forsætisnefnd Norðurlandaráðs var rætt um samstarf ráðanna tveggja, vestnorræn tungumál, umhverfismál á norðurslóðum og aukinn áhuga stórveldanna á Vestur-Norðurlöndum. Gunilla Carlsson, varaforseti Norðurlandaráðs, stýrði fundi og lýsti ánægju forsætisnefndar með samvinnuna við Vestnorræna ráðið. Hún harmaði að enginn meðlimur forsætisnefndar hefði getað sótt ársfund Vestnorræna ráðsins en það hefði verið erfitt vegna undirbúnings undir Norðurlandaráðsþing. Guðjón S. Brjánsson sagði stuttlega frá nýafstöðnum ársfundi Vestnorræna ráðsins á Grænlandi og bauð fulltrúa Norðurlandaráðs til þemaráðstefnu ráðsins í janúar. Á yfirstandandi starfsári legði Vestnorræna ráðið áherslu á umræðu um stöðu vestnorrænu tungumálanna. Mikilvægt væri að standa vörð um þessi tungumál sem örfáir töluðu og hindra það að enskan tæki hreinlega yfir. Fundarmenn voru sammála um að samstarfssamningur Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins væri góð undirstaða samstarfsins og óþarft væri að endurskoða hann.
    Britt Lundberg, þingkona frá Álandseyjum, tilkynnti fundarmönnum um fyrirhugað brotthvarf sitt úr stjórnmálum og þakkaði fyrir samstarfið við Vestnorræna ráðið. Hún sagði augljóst af umræðum á ráðstefnu Vestnorræna ráðsins í Reykjavík í janúar að þyngdarpunkturinn í alþjóðastjórnmálum væri að færast á norðurslóðir. Í norðri væru loftslagsbreytingar sýnilegastar og mikilvægast væri að sýna virðingu fyrir svæðinu og standa vörð um það. Guðjón sagði Vestur-Norðurlönd vera uggandi yfir auknum skipaferðum um svæðið, sérstaklega vegna hættunnar á umhverfisslysum. Svæðið væri viðkvæmt og þyldi ekki ótakmarkaða umferð. Ráðsmeðlimir fylgdust vel með áhrifum loftslagsbreytinga, þ.m.t. á siglingar og súrnun sjávar. Henrik Old sagðist varla geta til þess hugsað að stórfellt umhverfisslys yrði á norðurslóðum því afleiðingarnar yrðu gríðarlegar. Auk þess væri viðbragðsgeta landanna ófullnægjandi til að takast á við stórfelldar björgunaraðgerðir. Í ljósi þess yrði að gera þá kröfu að stór skemmtiferðaskip ferðuðust um svæðið tvö og tvö svo þau gætu veitt aðstoð ef eitthvað kæmi upp á. Talsvert var rætt um stöðu Grænlands í ljósi áhuga bæði Bandaríkjamanna og Kínverja á landinu síðustu misserin. Henrik Old sagði það stórt verkefni Norðurlandanna allra að hvetja Grænlendinga til að vinna með þeim. Bandaríkjamenn væru mjög áhugasamir um landið og Grænlendingar stæðu frammi fyrir gríðarlegum áskorunum þegar kæmi að samgöngum. Í raun hefðu vanhugsuð ummæli Bandaríkjaforseta um möguleg kaup á Grænlandi verið til góðs því þau hefðu vakið Grænlendinga til umhugsunar.
    
Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og þingnefndar Evrópuþingsins í Brussel 5. desember 2019.
    Árlegur fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með þingnefnd Evrópuþingsins fór fram í Brussel hinn 5. desember. Þingnefndin sinnir samskiptum Evrópuþingsins við Sviss, Noreg, Ísland og EES-svæðið auk norðursins og er kölluð DEEA-nefndin. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Guðjón S. Brjánsson, formaður Íslandsdeildar, og Bylgja Árnadóttir alþjóðaritari. Helstu mál á dagskrá voru málefni norðurslóða og samskipti ráðsins við Evrópuþingið.
    Andreas Schwab, formaður þingnefndar Evrópuþingsins um norðurslóðasamvinnu og samskipti við EES-löndin, opnaði fundinn. Hann benti á að Evrópusambandið og vestnorrænu löndin stæðu frammi fyrir sameiginlegum áskorunum á borð við afleiðingar af útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og aukinn ágreining milli Rússa og NATO. Í kjölfar nýlegrar heimsóknar DEEA-nefndarinnar og utanríkismálanefndar Evrópuþingsins til Noregs hefði verið ákveðið að norðurslóðamál yrðu í brennidepli þessara þingnefnda næstu mánuðina. Það væri forgangsmál að halda áfram árangursríkri samvinnu við norðlæg svæði Evrópu. Schwab sagði það bjargfasta trú sína að framfarir næðust í samvinnu ríkja. Því miður væru margir eyjaskeggjar á þeirri skoðun að of mikil alþjóðleg samvinna gæti skaðað þá en áskoranir á borð við loftslagsbreytingar sýndu þvert á móti að frekari samvinnu væri þörf.
    Guðjón S. Brjánsson, formaður Vestnorræna ráðsins, þakkaði fyrir fundinn og óskaði þingmönnum Evrópuþingsins til hamingju með kjörið fyrr á árinu. Hann sagði stuttlega frá helstu vendingum í stjórnmálum í löndunum þremur og frá starfi ráðsins frá síðasta fundi sendinefndanna. Guðjón sagði augljóst að Vestur-Norðurlönd væru ekki lengur í jaðri heimsmálanna, ef sú hefði einhvern tímann verið raunin. Athygli stórveldanna beindist í sífellt meira mæli að norðurslóðum. Þetta væri augljóst af orðræðu Trumps Bandaríkjaforseta um möguleg kaup á Grænlandi og ekki síður af samskiptum landanna við Rússa og Kínverja. Mikilvægt væri því fyrir löndin að taka þátt í alþjóðlegri umræðu um norðurslóðir. Þrátt fyrir smæð vestnorrænu landanna hefðu þau yfir gríðarstóru hafsvæði að ráða og því væri hagsæld landanna samfléttuð lífríki hafsins. Guðjón sagði einnig frá áherslu Vestnorræna ráðsins á verndun tungumála svæðisins. Tungumálin ættu undir högg að sækja sökum smæðar sinnar og enskan yrði sífellt meira áberandi sem mál tækninnar og afþreyingarefnis. Málefnið yrði í brennidepli á þemaráðstefnu ráðsins í janúar í Færeyjum. Christel Schaldemose, Evrópuþingkona frá Danmörku, hvatti ráðsmeðlimi til þess að leitast eftir samstarfi við Evrópusambandið. Mikil áhersla væri þar á verndun smárra tungumála og mögulegt væri að fá aðstoð og styrki við verkefni á því sviði.
    Lars-Gunnar Wigemark, sendiherra Evrópusambandsins gagnvart norðurslóðum, sagði frá vinnu við að uppfæra norðurslóðastefnu Evrópusambandsins. Í næstum áratug hefði verið unnið að stefnumótun á sviðinu og samræmingu milli málefnasviða sem snertu svæðið. Þar mætti helst telja starf Evrópusambandsins á sviði umhverfis-, samgöngu- og fjarskiptamála. Wigemark benti á að þrjú aðildarlönd Evrópusambandsins væru aðilar að Norðurskautsráðinu og því væri eðlilegt að sambandið sýndi málefnum svæðisins athygli. Auðlindir norðurskautsins hefðu fyrst og fremst þýðingu fyrir norðurslóðalönd en vektu einnig áhuga Evrópusambandsins og landa á borð við Kína, Japan, Suður-Kóreu og Singapúr. Hann benti hins vegar á að löndin utan Evrópusambandsins hefðu aðra sýn á þróun svæðisins og legðu ekki jafn mikla áherslu á sjálfbæra þróun.
    Jari Vilén, sérlegur ráðgjafi framkvæmdastjórnar ESB í norðurslóðamálum, sagði Norðurskautsráðið hafa þjónað sínum tilgangi vel síðan það var stofnað á 10. áratugnum. Ráðið hefði verið vettvangur friðsamlegra samskipta norðurslóðaþjóða og tekist hefði að tryggja frið og samvinnu á svæðinu. Raunveruleikinn væri þó annar nú þar sem samkeppni hefði aukist milli norðurslóðaríkja. Hann benti á mikilvægi þess að norðurslóðaþjóðir hefðu í huga að hugmyndafræði og gildi samstarfsaðila skiptu máli. Ef löndin leituðu til Rússlands eða Kína um fjárfestingu og samvinnu væri hættan sú að með í kaupum fylgdu rússnesk viðhorf til réttinda frumbyggja.
    Edva Jakobsen, varaformaður landsdeildar Færeyja í Vestnorræna ráðinu, sagði frá áherslum Vestnorræna ráðsins sem áheyrnaraðila að Norðurskautsráði og þátttöku ráðsins í Hringborði norðurslóða. Einnig benti hún á að ráðsmeðlimir tækju þátt í starfi annarra þingmannasamtaka á svæðinu. Ríkisstjórnir allra Vestur-Norðurlanda væru sammála um að stuðla að því að vígbúnaður væri í lágmarki á norðurslóðum og að leggja áherslu á að ákvarðanir um framtíð svæðisins væru teknar á lýðræðislegan hátt og grundvölluðust á alþjóðalögum. Mininnguaq Kleist, sendifulltrúi Grænlendinga í Brussel, sagði mikilvægt að hafa í huga að ekki væru öll landsvæði á norðurslóðum eða samfélög frumbyggja eins. Samfélögin væru ólík með tilliti til þess hvernig þau nýttu auðlindir náttúrunnar og alþjóðastjórnmál hefðu ólík áhrif á þau. Hann ítrekaði að grænlenska landsstjórnin sinnti flestum verkefnum ríkisstjórna og að um Grænlendinga gilti meginreglan um sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Grænlendingar hefðu átt góða samvinnu við Evrópusambandið, sérstaklega varðandi fiskveiðar og menntun. Áhugi á fjárfestingum á Grænlandi hefði aukist mikið síðustu misserin og það væri kærkomið því mikil þörf væri á að styrkja menntakerfið og félagslega kerfið. Ef Grænland ætti að komast hjá því að þiggja styrki væri þó nauðsynlegt að eiga í samstarfi við einkaaðila. Hann hvatti Evrópusambandið til þess að sýna áhuga sinn á auknu samstarfi í verki því að gildi sambandsins um frið og sjálfbæra þróun væru kærkomin á norðurslóðum. Aileen McLeod, Evrópuþingkona frá Skotlandi og meðlimur DEEA-nefndarinnar, sagðist vel skilja sjálfstæðisbaráttu Vestur-Norðurlanda. Skoska svæðisstjórnin hefði áhuga á að styrkja sambandið við norðurslóðaríki á grundvelli sameiginlegrar menningar og skyldleika, hagsmuna og gilda. Hún benti meðlimum Vestnorræna ráðsins á að kynna sér skoskar lausnir varðandi stafræna heilsugæslu og menntun sem gagnaðist íbúum afskekktra svæða.
    Guðjón S. Brjánsson þakkaði fyrir innlegg fundarmanna og sagðist sammála því að viðurkenna þyrfti breyttan raunveruleika á norðurslóðum. Áhugi stórveldanna á svæðinu væri mun meiri en á 10. áratugnum og mikilvægt væri að standa vörð um hagsmuni íbúa svæðisins. Vígbúnaðarkapphlaup stórvelda eða samkeppni þeirra um yfirráð yfir auðlindum ógnaði þessum hagsmunum. Hann sagði Vestur-Norðurlönd öll standa frammi fyrir þeirri áskorun að fólk flyttist burt frá afskekktustu svæðunum. Hætta væri á atgervisflótta og til þess að sporna við honum þyrfti að skapa tækifæri fyrir ungt fólk í þessum byggðum. Það væri þó alls ekki óumdeilt hvernig best yrði að því staðið. Kleist samsinnti þessu og sagði mikilvægt fyrir Grænlendinga að byggja upp menntun í landinu svo að fólk flyttist síður burtu. Aðeins um helmingur þeirra Grænlendinga sem flyttu til Danmerkur sneru aftur heim. Þetta fólk væri einmitt fólkið sem gæti breytt samfélaginu.

5. Ályktanir Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins í Nuuk 22.–24. október 2019.
          Ályktun nr. 1/2019, um niðurgreiðslu flugfargjalda ungmenna milli Vestur-Norðurlanda.
          Ályktun nr. 2/2019, um vestnorræn umhverfisverðlaun hafsins.

Alþingi, 3. febrúar 2020.

Guðjón S. Brjánsson,
form.
Ásmundur Friðriksson. Bryndís Haraldsdóttir.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Inga Sæland. Lilja Rafney Magnúsdóttir.