Ferill 487. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 898  —  487. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni um fjárhæð veiðigjalda.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er fjárhæð álagðra veiðigjalda og áætlaðra veiðigjalda fyrir fiskveiðiárin frá 2016/2017 til og með 2019/2020, annars vegar reiknuð út frá gildandi lögum um veiðigjald, nr. 145/2018, og hins vegar reiknuð fyrir sömu ár út frá þeim lögum sem áður giltu? Svar óskast sundurliðað eftir hverju fiskveiðiári fyrir sig.

    Fjárhæð veiðigjalda fyrri fiskveiðiára er ekki hægt að áætla samkvæmt gildandi lögum um veiðigjald, nr. 145/2018, nema með þeim fyrirvara að upplýsingum um skattalegar fyrningar veiðiskipa var ekki safnað af ríkisskattstjóra fyrr en með skattskýrslum fyrir rekstrarárið 2018. Vísast nánar um þetta til athugasemda með lögunum og þá sérstaklega kafla 3.1 og skýringa með ákvæði til bráðabirgða, sem kvað á um veiðigjald ársins 2019.
    Í athugasemdunum er gerður samanburður milli álagðs veiðigjalds samkvæmt ríkisreikningi fyrir hvert almanaksár (án áhrifa tímabundinnar lækkunarreglu vegna kvótakaupa 2012/13–2016/17) og áætlaðra tekjuáhrifa hins nýja frumvarps hefði það verið í gildi á sama tímabili.
    Sú athugasemd var gerð, við áætlun um bakreikning af tekjuáhrifum frumvarpsins, að ekki lágu fyrir við samningu frumvarpsins heildstæðar upplýsingar um skattalegar fyrningar veiðiskipa, sem var nýr frádráttarliður í reiknistofni. Þess í stað var stuðst við upplýsingar frá Hagstofu Íslands um bókhaldslegar fyrningar veiðiskipa.
    Þessi samanburður leiddi í ljós að reiknistofn veiðigjalds samkvæmt frumvarpinu, hefði hann verið í gildi á viðmiðunartímanum, hefði skilað áþekkri fjárhæð í ríkissjóð og veiðigjöld gerðu á sama tíma. Með því fæli frumvarpið í sér í raun að fjárhæð veiðigjalds yrði óbreytt. Á það var þó bent af þessu tilefni að sú aðferð sem notuð var til að reikna veiðigjald á þessum tíma tók nokkrum breytingum. Til nánari skýringar fylgdi frumvarpinu svofelld tafla:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




    Frá og með 2019 hefur veiðigjald verið ákvarðað fyrir eitt almanaksár í senn, byggt á skattalegum upplýsingum fyrir heil rekstrarár. Samkvæmt áætlun þeirri sem gerð var með töflu sem fylgdi frumvarpi til laga um veiðigjald hefðu tekjur samkvæmt reikniaðferð frumvarpsins verið sem hér segir:
        2017: 9,28 milljarðar kr. (án tillits til afsláttarreglna).
        2018: 8,68 milljarðar kr. (án tillits til afsláttarreglna).
    Áætlað veiðigjald almanaksáranna 2019 og 2020 er sem hér segir:
        2019: Um 7,4 milljarðar kr. (að teknu tilliti til afsláttarreglna). 1
        2020: Um 4,9 milljarðar kr. (að teknu tilliti til afsláttarreglna). 2
    Svo sem greinir í yfirliti í töflu, sem fylgdi frumvarpi til laga um veiðigjald, nam álagt veiðigjald í ríkisreikningi þeirri fjárhæð sem hér segir:
        2017: 6,24 milljarðar kr. (að teknu tilliti til afsláttarreglna).
        2018: 11,0 milljarðar kr. (að teknu tilliti til afsláttarreglna).
    Ráðuneytið hefur áætlað, á grundvelli upplýsinga frá Hagstofu Íslands, hverjar heildartekjur af veiðigjaldi hefðu orðið á fiskveiðiárinu 2018/19 ef lög nr. 74/2012, um veiðigjald, með síðari breytingum, hefðu verið framlengd óbreytt. Heildartekjur eru sem hér segir:
        Fiskveiðiárið 2018/19: 11,73 milljarðar kr. (að teknu tilliti til afsláttarreglna 11,4 milljarðar kr.).
        Fiskveiðiárið 2019/20: 2,75 milljarðar kr. (að teknu tilliti til afsláttarreglna 2,6 milljarðar kr.).
        Fiskveiðiárið 2020/21: 3,81 milljarðar kr. (að teknu tilliti til afsláttarreglna 3,6 milljarðar kr.).
    Samkvæmt þessu verða tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi á framangreindu tímabili áþekkar þeim sem hefðu fallið til ef eldri lög hefðu verið framlengd óbreytt. Er það í samræmi við fyrrgreint markmið frumvarps sem síðar varð að lögum nr. 145/2018 um að fjárhæð veiðigjalds yrði óbreytt.

Athugasemdir:

    Nokkrum vandkvæðum er bundið að reikna með nákvæmni upphæð veiðigjalda samkvæmt eldri lögum. Við álagningu var tekið tillit til fjölda þorskígilda á því almanaksári sem lá til grundvallar afkomutölum útgerðar og vinnslu fyrir heildargjald. Þannig var áætlað hversu mörg þorskígildi voru bak við hagnað veiða og vinnslu 2015 sem nýtt var til útreiknings veiðigjalds fiskveiðiársins 2017/18. Síðan var áætlað hversu mörgum þorskígildistonnum var úthlutað fiskveiðiárið 2017/18 og gjaldið „skalað“ eftir því. Ef áætlað var að fleiri þorskígildistonnum yrði úthlutað en sem nam ígildum ársins 2015 hækkaði heildargjaldið sem því nam, eða lækkaði ef því var að skipta. Endanlegt uppgjör gjaldsins var síðan háð því hve mörg þorskígildistonn veiddust endanlega á tímabilinu og gat munað töluverðu á áætlun og útkomu. Þar koma til margir þættir, útgerðum er heimilt að flytja aflaheimildir milli ára, ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um leyfilegan heildarafla allra fisktegunda við áætlun, og í tilviki nokkurra uppsjávartegunda liggur heldur ekki fyrir skipting aflaheimilda milli Íslands og annarra landa. Að endingu má nefna óvenjulegar aðstæður eins og áhrif sjómannaverkfalls á dreifingu veiða og afla. Við þessa áætlun á veiðigjaldi samkvæmt eldri lögum hefur ekki verið tekið tillit til þessara þátta.
    Vegna umfjöllunar um áhrif afsláttarreglna skal bent á að þær voru rýmkaðar verulega við þinglega meðferð frumvarps til gildandi laga um veiðigjald umfram það sem frumvarpið gerði ráð fyrir í upphafi. Afsláttur hvers greiðanda var hækkaður úr 20% afslætti á fyrstu 4,7 millj. kr. gjalds og 15% af næstu 4,7 millj. kr. í 40% af 6,4 millj. kr. Fjárhagsáhrif þessara breytinga eru töluvert mismunandi eftir fjárhæð heildargjaldsins og forsendum um fjölda greiðenda, en hefðu líklega numið 140–270 millj. kr. á ári miðað við fjárhæðir gjalds á árunum 2018–2020. Þá var einnig í meðförum þingsins bætt við þeirri reglu að nytjastofnar sem voru ekki í aflamarki væru án gjalds og sama gilti um stofna þar sem aflaverðmæti var minna en 100 millj. kr. á ári samkvæmt vegnu meðaltali næstliðinna þriggja ára. Ekki reyndist unnt að áætla fjárhagsáhrif þessa á tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi, einkum vegna samspils þessarar reglu við aðrar afsláttarreglur, t.d. við veiðar á grásleppu sem með þessu urðu án gjalds.
1    Samkvæmt áætlun Fiskistofu.
2    Veiðigjald ársins 2020 var ákveðið með auglýsingu að fenginni tillögu embættis ríkisskattstjóra. Sýnt er að tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi dragast saman milli ára. Þar veldur aðallega að aflaverðmæti ársins 2018 var sögulega lágt og ýmsir kostnaðarliðir hækkuðu eða reyndust hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir, þ.m.t. skattaleg fyrning veiðiskipa.