Ferill 550. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 905  —  550. mál.
Viðbót.




Beiðni um skýrslu


frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um samanburð á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi.

Frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur, Hönnu Katrínu Friðriksson, Jóni Steindóri Valdimarssyni, Þorsteini Víglundssyni, Halldóru Mogensen, Helga Hrafni Gunnarssyni, Birni Leví Gunnarssyni, Jóni Þór Ólafssyni, Olgu Margréti Cilia, Smára McCarthy, Ágústi Ólafi Ágústssyni, Helgu Völu Helgadóttur, Örnu Láru Jónsdóttur, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, Loga Einarssyni, Guðmundi Andra Thorssyni, Nirði Sigurðssyni og Andrési Inga Jónssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flytji Alþingi skýrslu um samanburð á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi á grundvelli upplýsinga frá Fiskistofu og í þeim skjölum sem RÚV fjallaði nýlega um í fréttaskýringaþættinum Kveik.

Greinargerð.

    Með skýrslubeiðni þessari er óskað eftir því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flytji Alþingi skýrslu um samanburð á veiðigjöldum Samherja hér á landi og í Namibíu. Í 2. mgr. 7. gr. laga um veiðigjald, nr. 145/2018, er kveðið á um að Fiskistofa skuli árlega birta upplýsingar um álagningu veiðigjalds og að upplýsingar um álagningu og innheimtu veiðigjalds á hvern og einn greiðanda séu opinberar upplýsingar sem öllum er heimill aðgangur að. Þannig teljast greiðslur veiðigjalda til opinberra málefna skv. 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis.
    Ákvörðun veiðigjalda hefur lengi verið ágreiningsmál í íslenskum stjórnmálum. Ekki hefur verið meiri hluti fyrir því að láta gjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind landsmanna ráðast á markaði þar sem tiltekinn hluti veiðiheimilda yrði ár hvert boðinn til sölu til ákveðins tíma. Þess í stað hefur gjaldið verið ákveðið með lögum, sem sætt hafa reglulegum breytingum.
    Endurgjald fyrir einkaafnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar hefur þannig verið háð pólitísku mati. Það pólitíska mat hefur aftur í verulegum atriðum byggst á áliti þeirra hagsmunaaðila í útgerð sem eru fulltrúar þeirra fyrirtækja sem gjaldið greiða. Með öðrum orðum hafa verið bein tengsl á milli þess sem útgerðirnar hafa talið sig geta greitt og þess sem meiri hluti á Alþingi hverju sinni hefur talið að þær gætu greitt.
    Þær upplýsingar sem fram komu í svokölluðum Samherjaskjölum, sem RÚV fjallaði um í fréttaskýringaþættinum Kveik og gefa tilefni til að bera saman hvað eitt af stærstu og áhrifaríkustu fyrirtækjunum á þessu sviði er reiðubúið til að greiða fyrir veiðirétt á Íslandi og í Namibíu. Eftir yfirlýsingar ráðherra bæði í fjölmiðlum og á þingi er afar ólíklegt að ríkisstjórnin hafi frumkvæði að því að kanna þennan mikilvæga þátt málsins til hlítar.
    Samanburður af þessu tagi á að geta stuðlað að málefnalegri umræðu um það mat sem ákvörðun veiðigjalda byggist á.
    Í Samherjaskjölunum kemur fram að greiðsla fyrir veiðirétt í Namibíu hefur byggst á beinum greiðslum fyrir veiðirétt og sérstökum greiðslum til þeirra sem ráðið hafa mestu um úthlutun veiðiréttarins.
    Að mati skýrslubeiðenda færi best á því að samanburðarathugunin verði unnin af óháðum aðila. Rétt þykir að þeir óháðu aðilar taki heildarfjárhæð beggja þessara þátta með í samanburðinum. Einnig telja skýrslubeiðendur æskilegt að samráð verði haft við þingflokka um þá óháðu aðila sem fengnir verða í þessa þýðingarmiklu vinnu.