Ferill 218. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 909  —  218. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um kolefnisskatt og kostnað aðgerða til að minnka losun kolefnis.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hverjar hafa verið árlegar tekjur ríkissjóðs sl. 5 ár af kolefnisskatti og hver hafa verið árleg útgjöld ríkissjóðs sem tengjast beint aðgerðum til að minnka losun kolefnis? Hverjar eru þessar árlegu aðgerðir og hvað hafa þær helstu kostað árlega?

    Árlegar tekjur ríkissjóðs af kolefnisskatti á verðlagi hvers árs má sjá í töflunni hér fyrir neðan. Þróun kolefnisgjalds fylgdi verðlagi árin 2015–2017 en var hækkað til viðbótar um 2,5% umfram verðbólgu árið 2017 líkt og önnur krónutölugjöld. Árið 2018 var gjaldið hækkað um 50% og árið 2019 var gjaldið hækkað um 10%.

Tekjur ríkissjóðs í millj. kr. 2015 2016 2017 2018 2019*
Kolefnisgjald 3.274 3.464 3.806 5.317 5.680
*Áætlun. Heimild: Ríkisreikningur, fjárlög, fjáraukalög.

    Útgjöld ríkissjóðs sem stuðla að minni losun kolefnis koma m.a. fram í mynd ívilnana í skattlagningu. Síðastliðin ár hefur ríkissjóður gefið eftir hluta af virðisaukaskatti vegna kaupa á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðum til þess að hvetja til kaupa á umræddum bifreiðum. Í töflunni hér fyrir neðan má sjá hversu mikill skattastyrkurinn hefur verið á verðlagi hvers árs síðustu fimm árin.

Skattastyrkir ríkissjóðs í millj. kr. 2015 2016 2017 2018 2019*
Lækkun á VSK fyrir rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðar 468 916 2.295 3.035 2.401
*Fjárhæðin er fyrir tímabilið janúar – nóvember 2019. Heimild: Tollstjóri.

    Bein útgjöld ríkissjóðs í formi fjárveitinga sem stuðla að minni losun kolefnis eru ólík og á ábyrgð nokkurra ráðuneyta og stofnanna. Við úrvinnslu þessa svars var aflað upplýsinga hjá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Í töflunum hér á eftir má sjá hversu mikil útgjöldin hafa verið á verðlagi hvers árs. Vert er að benda á að sum útgjöldin, sér í lagi þau sem tengjast almenningssamgöngum, þjóna fleiri markmiðum en eingöngu því að minnka losun kolefnis.
Þær loftslagsaðgerðir sem fjármagnaðar eru í gegnum umhverfis- og auðlindaráðuneytið miða allar að því að draga úr nettólosun Íslands, einkum með orkuskiptum, samdrætti í losun frá landi og bindingu kolefnis úr andrúmslofti, með því að efla getu stjórnvalda til að takast á við strangari skuldbindingar í loftslagsmálum og með því að efla rannsóknir og nýsköpun með nýjum loftlagsvænum tæknilausnum. Stór hluti heildarfjárveitinga til stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, svo sem til Skógræktarinnar, Landgræðslunnar og Umhverfisstofnunar, tengist loftslagsmálum enda gegna þær mikilvægu hlutverki við að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda. Þessar fjárveitingar eru þó ekki meðtaldar í töflunni hér fyrir neðan. Í henni eru einungis teknar saman fjárveitingar til sérstakra áætlana stjórnvalda í loftslagsmálum.

Fjárveitingar í millj. kr. 2015 2016 2017 2018 2019
Orkuskipti í samgöngum (vegasamgöngum og öðru) - 67 67 67 257
Margvíslegar aðrar loftslagsaðgerðir - 24 24 74 108
Kolefnisbinding - 65 65 65 185
Átak í endurheimt votlendis - 20 20 20 48
Loftslagssjóður - - - - 64
Rannsóknir og vöktun vegna loftslagsbreytinga - 74 51 51 58
Styrkir til almenningssamgangna 896 988 2.926 3.264 3.407
Rafgeymar og landtengibúnaður fyrir Herjólf - - - - 830
Styrkir til göngu- og hjólastíga* 400 400 200 200 1.000
Samtals 1.296 1.638 3.353 3.741 5.957
*Þar af er 750 millj. kr. vegna samkomulags um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.
Heimild: Ríkisreikningur, fjárlög og ráðuneyti.

    Í fjárlögum 2016 var samþykkt að veita fjármagn til svokallaðrar sóknaráætlunar í loftslagsmálum. Áætlunin var til þriggja ára og sett fram í tengslum við 21. fund aðildarríkja loftslagssamningsins í París (COP21) 2015. Sóknaráætlunin byggðist á sextán verkefnum og á árunum 2016–2018 voru samtals veittar 704 millj. kr. til umræddra verkefna.
    Núverandi ríkisstjórn hefur lagt aukna áherslu á loftslagsmálin og kynnti fjármagnaða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 10. september 2018. Þess sjást merki strax í fjárlögum ársins 2019 eins og fram kemur í töflunni.
    Með orkuskiptum í samgöngum í töflunni er m.a. átt við uppbyggingu hraðhleðslustöðva vítt og breitt um landið. Með margvíslegum öðrum loftslagsaðgerðum er m.a. átt við einstakar aðgerðir sem stuðla að samdrætti í losun, svo sem átak gegn matarsóun, ýmiss konar úttektir og greiningar og eflingu stjórnsýslu til að takast á við auknar skuldbindingar í loftslagsmálum. Með kolefnisbindingu er átt við endurheimt landgæða, svo sem sérstakar aðgerðir í landgræðslu og skógrækt, sem dregur úr losun frá landi og bindur kolefni úr andrúmslofti. Með átaki í endurheimt votlendis er átt við aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá framræstu landi. Loftslagssjóður styrkir fræðslu og nýsköpun í loftslagsmálum, svo sem nýjar loftslagsvænar tæknilausnir, og mun hafa til ráðstöfunar 0,5 milljarða kr. á fimm ára tímabili þar sem árið 2019 er það fyrsta. Fjármunir vegna rannsókna og vöktunar skiptust á mismunandi stofnanir, t.d. Veðurstofu Íslands, Vatnajökulsþjóðgarð og Hafrannsóknastofnun.
     Almenningssamgöngum er ætlað að tryggja aðgengi að þjónustu en auk þessa er eitt af markmiðum þeirra að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Á árinu 2019 verður um 3,4 milljarðar kr. varið til almenningsamgangna. Undir almenningssamgöngur falla ferjur, innanlandsflug, áætlanabílar og strætisvagnar. Einu almenningssamgöngutækin í eigu ríkisins eru ferjur. Af ferjum í ríkiseigu er aðeins Herjólfur rafknúinn en við endurnýjun annarra ferja er stefnt að því að þær verði knúnar hreinorkugjafa. Stækkun rafgeyma og landtengilbúnaðar vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju er áætluð um 830 millj. kr. Við hönnun skipsins var gert ráð fyrir tvinn-tækni sem ein og sér sparar yfir 25% í olíunotkun. Þá hefur verið veittur árlegur stuðningur við gerð göngu- og hjólastíga sveitarfélaga með það að markmiði að hvetja til kolefnishlutlausra ferðamáta.
    Að samanlögðu nemur innheimta kolefnisgjalds á þessu fimm ára tímabili 21,5 milljörðum kr. miðað við verðlag hvers árs. Á sama tímabili nema skattaívilnanir 9,1 milljarði kr. og fjárveitingar til sérstakra áætlana stjórnvalda í loftslagsmálum 16 milljörðum kr. Útgjöld vegna þessa málefnis sem hér eru talin fram nema því alls 25,1 milljarði kr., eða 3,6 milljörðum kr. umfram þá sérstöku tekjuöflun sem hér um ræðir.