Ferill 376. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 910  —  376. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Haraldi Benediktssyni um tekjur ríkisins af eldsneyti og bifreiðum.


     1.      Hvernig hafa þróast skatttekjur ríkisins af innflutningi og sölu eldsneytis á bifreiðar, þ.e. bensíni og dísil, undanfarin fjögur ár? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Í töflu 1 má sjá tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum á jarðefnaeldsneyti vegna bifreiða í milljónum króna og á verðlagi hvers árs.

Tafla 1. Tekjur ríkissjóðs af bifreiðaeldsneyti.
Millj. kr. 2015 2016 2017 2018
Vörugjöld af bensíni 11.862 12.193 12.700 12.214
Olíugjald 8.313 9.226 11.433 11.787
Kolefnisgjald á bensín 946 931 988 1.279
Kolefnisgjald á dísilolíu bifreiða* 855 1.001 1.178 1.891
Samtals 21.976 23.351 26.299 27.027
Heimild: Ríkisreikningur.
*Hlutdeild bifreiða í kolefnisgjaldi á dísilolíu er áætluð.

     2.      Hvað gera áætlanir ríkisins ráð fyrir að tekjur ríkisins verði miklar af bensíni og dísil næstu fjögur ár? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Í töflu 2 má sjá áætlun um tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum á jarðefnaeldsneyti vegna bifreiða í milljónum króna og á verðlagi hvers árs. Áætlun fyrir árin 2019 og 2020 er frá því í október sl. og tekur mið af nýjustu upplýsingum um innheimtu umræddra skatta. Áætlun fyrir árin 2021 og 2022 er frá því í maí sl. og því byggð á eldri forsendum. Áætlanirnar verða endurskoðaðar í vor fyrir framlagningu á fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025.

Tafla 2. Áætlaðar tekjur ríkissjóðs af bifreiðaeldsneyti.
Millj. kr. 2019 2020 2021 2022
Vörugjöld af bensíni 12.000 11.800 - -
Olíugjald 12.200 12.400 - -
Kolefnisgjald á bensín 1.410 1.510 - -
Kolefnisgjald á dísilolíu bifreiða* 2.040 2.200 - -
Samtals 27.650 27.910 29.060 29.470
Heimild: Fjáraukalög 2019, fjárlög 2020 og fjármálaáætlun 2020–2024.
*Hlutdeild bifreiða í kolefnisgjaldi á dísilolíu er áætluð.


     3.      Hverjar voru undanfarin fjögur ár skatttekjur ríkisins af bifreiðum sem knúnar eru með öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti? Hversu margar eru þær bifreiðar og hvert er hlutfall þeirra af heildarbílaflota landsins? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Bifreiðar í bílaflota landsins sem knúnar eru með öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti eru vetnis-, rafmagns-, tengiltvinn-, metan- og metanólbifreiðar. Ríkissjóður fær skatttekjur af bifreiða- og úrvinnslugjaldi og í sumum tilvikum af vörugjaldi ökutækja vegna umræddra bifreiða en bæði bifreiðagjald og vörugjald taka mið af skráðri koltvísýringslosun bifreiða. Ríkissjóður hefur hins vegar engar tekjur af orkunotkun slíkra bifreiða. Í töflu 3 má sjá tekjurnar í milljónum króna og á verðlagi hvers árs.

Tafla 3. Tekjur ríkissjóðs af vörugjaldi, bifreiðagjaldi og úrvinnslugjaldi vegna bifreiða sem ganga fyrir öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti.
Millj. kr. 2015 2016 2017 2018
Vörugjald af ökutækjum* 1 0 2 0
Bifreiðagjald 14 24 46 89
Úrvinnslugjald 1 2 3 5
Samtals 16 26 51 94
Heimild: Ríkisskattstjóri og tollstjóri.     
*Hér er miðað við vörugjald sem greitt er af bifreiðum sem ganga fyrir metani.     

    Í töflu 4 má sjá fjölda umræddra bifreiða eftir orkugjöfum og samanlögð hlutdeild þeirra í bílaflota landsins.

Tafla 4. Fjöldi bifreiða sem knúnar eru með öðrum orkugjafa en jarðefnaeldsneyti og hlutdeild þeirra í bílaflota landsins.
Orkugjafi 2015 2016 2017 2018
Vetni 1 1 1 16
Rafmagn 773 1.173 2.055 2.898
Rafmagn og bensín/dísil* 227 1.007 3.188 6.051
Metan 271 320 349 355
Metan og bensín/dísill 711 1.053 1.357 1.496
Metanól og bensín 0 1 1 1
Samtals 1.983 3.555 6.951 10.817
Hlutfall af bílaflota 0,7% 1,2% 2,2% 3,3%
Heimild: Samgöngustofa.
*Hér er aðeins átt við tengiltvinnbifreiðar.