Ferill 554. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 913  —  554. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES fyrir árið 2019.


1. Inngangur.
    Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 30 önnur Evrópuríki með um 500 milljóna manna markað. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp öflugt net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB eða svonefnd þriðju ríki.
    Í umfjöllun þingmannanefnda EFTA og EES um EES-samninginn og rekstur hans var að venju annars vegar farið yfir þann fjölda ESB-gerða á sviði innri markaðarins sem bíða upptöku í EES-samninginn og hins vegar var fjallað um svonefndan innleiðingarhalla EES/EFTA-ríkjanna sem mælir hversu hratt ríkin innleiða þær gerðir sem þegar hafa verið teknar upp í EES-samninginn. Mikilvægt er að upptaka gerða í samninginn og innleiðing í EES/EFTA-ríkjunum gangi snurðulaust fyrir sig til þess að tryggja lagalegt samræmi á innri markaðnum sem er ein forsenda virkni hans. Ísland hefur bætt árangur sinn á þessu sviði en árið 2018 voru reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála endurskoðaðar með það að markmiði að gera EES-málum hærra undir höfði og auka um leið skilvirkni við upptöku og innleiðingu ESB-gerða. Reglurnar komu til framkvæmda við upphaf 149. löggjafarþings í september það ár.
    Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA að venju. EFTA hefur verið í fararbroddi á heimsvísu í gerð fríverslunarsamninga og eru gildir samningar nú 29 talsins og taka til 40 ríkja. Á árinu var efnislega lokið við samning við Mercosur sem er tollabandalag fjögurra Suður-Ameríkuríkja, Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ. Samningurinn er í lagalegri yfirferð og bíður undirritunar. Jafnframt á EFTA í fríverslunarviðræðum við Indland, Malasíu og Víetnam. Þá hefur EFTA unnið að uppfærslu á eldri fríverslunarsamningum sem snýst einkum um að víkka út samninga sem takmörkuðust við vöruviðskipti þannig að þeir taki til þjónustuviðskipta, hugverkaréttinda, úrlausnar deilumála, opinberra innkaupa og sjálfbærrar þróunar. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga EFTA og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð slíkra samninga. Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA heimsótti í þessu skyni Suður-Kóreu á árinu og átti viðræður við þarlend stjórnvöld, þingnefndir, stofnanir og hagsmunaaðila um aukið efnahagslegt samstarf við EFTA og þá einkum uppfærslu á fríverslunarsamningi aðilanna frá árinu 2005.
    Væntanleg útganga Bretlands úr ESB, Brexit, kom ítrekað til umfjöllunar á árinu. Framtíðarskipan viðskipta við Bretland eftir útgöngu úr ESB, og þar með EES, er gríðarlegt hagsmunamál fyrir ríki EFTA en Bretland er stærsti viðskiptaaðili bæði Íslands og Noregs innan EES. Þrír möguleikar voru einkum nefndir, í fyrsta lagi að EFTA-ríkin fjögur gerðu saman samning við Bretland, í öðru lagi kæmi til greina að EFTA/EES-ríkin þrjú án Sviss hefðu samflot um slíkan samning og í þriðja lagi gæti sú staða komið upp að hvert EFTA-ríki fyrir sig gerði tvíhliða samning við Bretland. Niðurstaðan mun væntanlega ráðast af því hvers konar samning Bretland og ESB gera um framtíðarsamband sitt eftir að Bretland er formlega gengið úr ESB.
    Af fleiri málum sem voru ofarlega á baugi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu má nefna þróun í alþjóðaviðskiptum og stöðu Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar, ákvæði um vinnuvernd og sjálfbærni í fríverslunarsamningum, kosningar til Evrópuþingsins, viðskiptastefnu ESB og viðbrögð þjóðþinga við #metoo-hreyfingunni.
    Smári McCarthy gegndi formennsku í þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES á árinu og stýrði öllum fundum nefnanna.

2. Almennt um þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.
    Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES myndar sendinefnd Alþingis bæði í þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES. Þá myndar Íslandsdeildin ásamt fjórum þingmönnum úr utanríkismálanefnd sendinefnd Alþingis í sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og ESB.

Þingmannanefnd EFTA.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 með það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja sitja í þingmannanefndinni. Starfsemi nefndarinnar hefur aukist jafnt og þétt, í samræmi við aukin umsvif EFTA, bæði hvað varðar samskipti við ESB og samstarf við svokölluð þriðju ríki, þ.e. ríki utan ESB. Starfssvið nefndarinnar jókst til muna með tilkomu EES-samningsins sem tók gildi 1. janúar 1994. Með gildistöku hans varð nefndin að formi til tvískipt þar sem Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þau þrjú aðildarríki EFTA sem aðild eiga að EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi, en Svisslendingar sitja sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða EES-samninginn eru tekin fyrir. Í frásögnum af fundum hér á eftir verður fjallað um þessar tvær formlegu þingmannanefndir EFTA sem eina heild.
    Alþingi á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA líkt og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi að jafnaði þrisvar til fjórum sinnum á ári og á þremur fundum sínum á hún auk þess fund með ráðherraráði EFTA og utanríkisráðherrum EES/EFTA-ríkjanna. Nefndin fjallar almennt um starfsemi EFTA, málefni EES og ESB, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og viðskiptamál í víðu samhengi. Nefndin á einnig samstarf við þing þeirra ríkja sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA undirbýr starf nefndarinnar og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA, auk þess að fjalla um aðkallandi mál. Framkvæmdastjórnin kemur oft fram fyrir hönd þingmannanefndarinnar í samskiptum við þjóðþing þriðju ríkja. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum. Auk formanns hefur af hálfu Íslandsdeildar einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.

Þingmannanefnd EES.
    Þingmannanefnd EES var komið á fót skv. 95. gr. EES-samningsins og er hún hluti af stofnanakerfi hans. Í þingmannanefnd EES eru 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá EFTA-ríkjunum sem eiga aðild að EES (EFTA-hluta sameiginlegrar þingmannanefndar EES). Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Þingmannanefndin fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda eftir þörfum. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni á milli ára.
    Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins. Hún tekur ákveðin málefni til skoðunar, skrifar um þau skýrslur og samþykkir ályktanir. Skýrslugerð um mál sem tekið er fyrir er í höndum tveggja framsögumanna, annars úr hópi EFTA-þingmanna og hins úr hópi Evrópuþingmanna. Skýrsla framsögumanna er alfarið á þeirra eigin ábyrgð en nefndin samþykkir venjulega ályktun þegar umfjöllun um málið er lokið. Ályktanir nefndarinnar eru sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, Evrópunefnda þjóðþinga ESB, Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA/EES-ríkja. Þingmannanefndin fylgist náið með því hvernig mál sem hún hefur tekið fyrir þróast og þegar hún telur að framvinda mála sé ófullnægjandi tekur hún þau upp aftur. Nefndin beinir einnig sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann. Fulltrúar ráðherraráðs EFTA og embættismenn stofnana EFTA og ESB mæta á fundi nefndarinnar til að skýra frá framvindu mála og svara spurningum nefndarmanna.

Sameiginleg þingmannanefnd Íslands og ESB.
    Sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins var komið á fót í október 2010 og er hún skipuð níu þingmönnum frá Evrópuþinginu og níu alþingismönnum. Af hálfu Alþingis sitja fimm nefndarmenn úr Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES og fjórir nefndarmenn úr utanríkismálanefnd í hinni sameiginlegu þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins.
    Þegar sameiginlega þingmannanefndin var stofnuð, í tengslum við aðildarviðræður Íslands og ESB, leysti hún af hólmi tvíhliða fundi Alþingis og Evrópuþingsins sem haldnir höfðu verið árlega frá árinu 1987. Á fundi nefndarinnar 9. febrúar 2016 var gerð breyting á starfsreglum hennar og vísun í aðildarferlið tekin út. Eftir breytinguna er skilgreint hlutverk nefndarinnar að fjalla um samskipti Íslands og ESB á breiðum grunni.
    Sameiginlega þingmannanefndin kom framan af saman tvisvar á ári, til skiptis á Íslandi og í starfsstöðvum Evrópuþingsins í Brussel eða Strassborg. Í kjölfar þess að aðildarviðræðum við ESB var hætt var fundum nefndarinnar fækkað í einn á ári líkt og tíðkaðist fyrir tíma aðildarumsóknar. Sameiginlega þingmannanefndin tekur fyrir einstök málefni sem varða samskipti Íslands og Evrópusambandsins og getur hún sent frá sér tilmæli þeim viðvíkjandi. Tilmæli verða aðeins samþykkt með því að meiri hluti fulltrúa jafnt Evrópuþingsins sem Alþingis veiti þeim stuðning. Tilmælum sameiginlegu þingmannanefndarinnar er beint til Evrópuþingsins, framkvæmdastjórnar og ráðs Evrópusambandsins, Alþingis og ríkisstjórnar Íslands. Alla jafna sitja fulltrúar ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar og ráðs Evrópusambandsins fundi sameiginlegu þingmannanefndarinnar. Á vettvangi nefndarinnar gefst alþingismönnum því kostur á að eiga formbundnar og milliliðalausar viðræður við Evrópuþingmenn auk fulltrúa framkvæmdastjórnar og ráðs ESB. Nefndin er því mikilvægur vettvangur fyrir alþingismenn til að fjalla um samskipti Íslands og Evrópusambandsins.

3. Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES.
    Árið 2019 áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES: Smári McCarthy, formaður, þingflokki Pírata, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaformaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Brynjar Níelsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Hanna Katrín Friðriksson, þingflokki Viðreisnar, og Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Andrés Ingi Jónsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Halldóra Mogensen, þingflokki Pírata, Páll Magnússon, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Vilhjálmur Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Þorsteinn Víglundsson, þingflokki Viðreisnar. Hinn 4. desember 2019 tók Ólafur Þór Gunnarsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sæti Andrésar Inga sem varamaður í Íslandsdeild. Ritari Íslandsdeildar var Stígur Stefánsson, deildarstjóri alþjóðadeildar.
    Smári McCarthy, formaður Íslandsdeildar, gegndi formennsku í bæði þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES á árinu 2019.

4. Fundir þingmannanefndar EFTA, þingmannanefndar EES og sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB á árinu 2019.
    Starfsemi nefndanna var með hefðbundnum hætti á árinu 2019. Þingmannanefnd EFTA kom saman til fundar tvisvar sinnum í tengslum við fundi nefndarinnar með ráðherrum EFTA. Enn fremur átti framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA fundi með þingnefndum, ráðuneytum og stofnunum í Seoul um fríverslunarmál. Þá áttu formenn landsdeilda þingmannanefndar EFTA fundi með lykilsamstarfsaðilum í Evrópuþinginu í kjölfar kosninga til þess. Þingmannanefnd EES kom að venju tvisvar saman til fundar á árinu.
    Hér á eftir er gerð grein fyrir fundum þingmannanefnda EFTA og EES sem Íslandsdeildin sótti á starfsárinu í tímaröð.

52. fundur þingmannanefndar EES í Strassborg 13. mars 2019.
    Fundur þingmannanefndar EES var haldinn í Evrópuþinginu í Strassborg. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Smári McCarthy, formaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Hanna Katrín Friðriksson, auk Stígs Stefánssonar ritara. Helstu dagskrármál fundarins voru staða EES-samstarfsins, viðbrögð þjóðþinga við vinnustaðaráreitni í kjölfar #metoo-hreyfingarinnar, samræming almannatryggingakerfa og fyrirliggjandi kosningar til Evrópuþingsins. Smári McCarthy og Evrópuþingmaðurinn Jørn Dohrmann stýrðu fundinum.
    Á fundinum var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að hafa framsögur í umræðum um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Frummælendur voru Augustin Varnav fyrir hönd formennsku ESB í EES-ráðinu, Claude Maerten fyrir hönd ESB í sameiginlegu EES-nefndinni og Sabine Monauni fyrir hönd formennsku EFTA í EES-ráðinu og sameiginlegu EES-nefndinni. Í umfjöllun þeirra og umræðunni sem á eftir fylgdi var m.a. fjallað um áskoranir EES-samstarfsins. Farið var yfir svokallaðan upptökuhalla sem mælir fjölda ESB-gerða sem bíða upptöku í EES-samninginn en þær voru 637 talsins eða sem nemur meira en eins árs löggjafarstarfi. Hvatt var til þess að nýta tækifærið til þess að minnka hallann verulega þegar hægðist á löggjafarstarfi ESB vegna kosninga til Evrópuþingsins í maí og skipunar nýrrar framkvæmdastjórnar í framhaldinu. Mikilvægi þess að upptaka gerða í EES-samninginn gangi snurðulaust fyrir sig felst í því að tryggja lagalegt samræmi á innri markaðnum sem er ein forsenda virkni hans. Þá var fjallað um viðburði á árinu 2019 í tilefni af 25 ára afmæli EES-samningsins og hvernig nýta mætti tímamótin til þess að auka vitund um og þekkingu á samningnum innan stofnana ESB. Þá var rætt um viðbúnað EES/ EFTA-ríkjanna vegna Brexit en útgöngusamningur Bretlands úr ESB var felldur í atkvæðagreiðslu í neðri deild breska þingsins kvöldið áður en fundur þingmannanefndar EES fór fram.
    Í framhaldi af umræðu um þróun og framkvæmd EES-samningsins voru lögð fram drög að ályktun þingmannanefndarinnar um ársskýrslu sameiginlegu EES-nefndarinnar fyrir 2018. Smári McCarthy og Jørn Dohrmann voru framsögumenn og lögðu áherslu á mikilvægi þess að EES/EFTA-ríkin beittu sér í vinnuhópum framkvæmdastjórnar ESB þar sem þau gætu haft áhrif á undirbúning lagasetningar en EES/EFTA-ríkin sendu umsagnir til framkvæmdastjórnarinnar um 13 mál á árinu. Þá væri brýnt að minnka upptökuhallann sem nefndur var að framan. Áhersla var einnig lögð á framlag EES/EFTA-ríkjanna í formi uppbyggingarstyrkja til fátækari ríkja ESB á tímabilinu 2014–2021.
    Umræða um viðbrögð þjóðþinga við vinnustaðaráreitni fór fram að frumkvæði Íslandsdeildar. Hanna Katrín Friðriksson flutti framsögu og vísaði fyrst í könnun Alþjóðaþingmannasambandsins og Evrópuráðsþingsins á umfangi kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni í evrópskum þjóðþingum sem sýndi að 85% þingkvenna sem tóku þátt í rannsókninni hefðu orðið fyrir andlegu ofbeldi í starfi. Þá greindi hún frá því hvernig stjórnmálakonur á Íslandi hefðu tekið þátt í #metoo-hreyfingunni með því að safna saman sögum í lokuðum hópi á netinu sem síðar voru gerðar opinberar. Sögurnar greindu frá kynferðislegri áreitni á ólíkum sviðum stjórnmálastarfs, á Alþingi, í bæjar- og sveitarstjórnum og í innra starfi stjórnmálaflokkanna. Hvorki gerendur né þolendur voru nafngreindir þegar 130 sögur voru birtar enda var tilgangurinn að beina sjónum að kerfislægum vanda í menningu og umgjörð stjórnmálastarfs fremur en að nafngreindum einstaklingum. Frásögnunum fylgdi yfirlýsing yfir 400 stjórnmálakvenna þar sem breytinga var krafist. Í framhaldinu fór fram starfsdagur, svokölluð „rakarastofa“, á Alþingi þar sem þingmönnum var skipt í hópa, fyrst kynjaskipt og svo blandað, til þess að ræða jafnréttismál og samskipti undir leiðsögn hópstjóra frá samtökum á borð við UN Women. Í kjölfarið voru gerðar breytingar á siðareglum Alþingis sem tóku til þess að skapa heilbrigt starfsumhverfi þar sem hafnað var hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti eða annarri vanvirðandi framkomu auk þess sem kveðið var á um að þingmenn skyldu ekki sýna öðrum þingmönnum, starfsmönnum þingsins eða gestum kynferðislega eða kynbundna áreitni, leggja þá í einelti eða koma fram við þá á annan vanvirðandi hátt. Loks greindi Hanna Katrín frá Klaustursmálinu og að verið væri að meta hvort það kæmi til kasta siðanefndar Alþingis. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir greindi frá því að þingflokkarnir á Alþingi hefðu skipulagt nýjan #metoo-viðburð þar sem til stæði að fara ítarlega yfir niðurstöður könnunar Alþjóðaþingmannasambandsins og Evrópuráðsþingsins á umfangi kynferðislegrar áreitni í þjóðþingum og þær leiðir sem bent hefði verið á til úrbóta.
    Elisabeth Morin-Chartier, formaður ráðgjafanefndar um vinnustaðaráreitni í Evrópuþinginu, gerði grein fyrir starfi þingsins í þessum málum. Þegar þingið setti sér stefnu um áreitnis- og eineltismál í lok árs 2014 var áherslan annars vegar lögð á að koma á ferli þar sem þolendur gætu fengið aðstoð og hins vegar að vinna að forvörnum. Forvarnirnar felast einkum í námskeiðum og átaki til vitundarvakningar um hvað telst áreitni og að áreitni sé glæpur. Einn stærsti vandinn var að fá þolendur til að stíga fram en komið var á neti trúnaðarmanna til að gera slíkt auðveldara.
    Í umfjöllun um samræmingu almannatryggingakerfa fluttu Evrópuþingmennirnir Helga Stevens og Sven Schulze framsögur. Í umræðunni var fjallað um tillögu framkvæmdastjórnarinnar frá 2016 um breytingu á slíkri samræmingu sem laut einkum að aðgangi borgara sem hefðu staðið lengi utan vinnumarkaðar að almannatryggingum, fyrirkomulagi tryggingagreiðslna til lengri tíma yfir landamæri, fjölskyldubótum og fyrirkomulagi bóta fyrir útsenda starfsmenn sem starfa í skamman tíma í öðru landi en heimalandi sínu.
    Í umfjöllun um framtíðarstarf þingmannanefndar EES var farið yfir bréfaskipti á milli formanna EES/EFTA- og Evrópuþingshliðar nefndarinnar þar sem EES/EFTA-þingmenn höfðu lagt til ýmsar breytingar á starfi hennar, m.a. að þingmannanefndin kæmi ætíð saman í Evrópuþinginu í Strassborg í stað þess að fundir færu til skiptis fram þar og í EES/EFTA-ríki. Ávinningurinn af slíkri breytingu væri aukin þátttaka Evrópuþingmanna og aðgangur að þingmönnum í fastanefndum Evrópuþingsins sem fást við mál sem þingmannanefnd EES tekur jafnframt fyrir á sínum vettvangi. Þannig gætu framsögumenn stórra mála hjá fastanefndum komið og haldið erindi á fundum þingmannanefndar EES þegar svo bæri undir. Ákveðið var að taka upp þráðinn í þessum umræðum eftir kosningar til Evrópuþingsins sem fram fóru 23.–26 maí.
    Loks var farið yfir kynningarátak á vegum Evrópuþingsins sem ætlað var að auka áhuga ungra kjósenda á þátttöku í kosningunum til Evrópuþingsins.

Fundir framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA í Seoul 23.–26. mars 2019.
    Markmið heimsóknar þingmannanefndar EFTA til Seoul var að eiga viðræður við þingmenn, ráðherra, stofnanir og hagsmunaaðila í Suður-Kóreu um fríverslunarmál og aukið efnahagslegt samstarf við EFTA, einkum uppfærslu á fríverslunarsamningi EFTA og Suður-Kóreu frá 2005. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA áttu sæti í sendinefndinni Smári McCarthy og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir auk Stígs Stefánssonar ritara. Sem formaður þingmannanefndar EFTA á árinu 2019 fór Smári McCarthy fyrir sendinefndinni á öllum fundum í Seoul.
    EFTA-ríkin og Suður-Kórea gerðu með sér fríverslunarsamning árið 2005 sem gagnast hefur samningsaðilum vel og aukið viðskipti verulega. Verðmæti vöruútflutnings Íslands til Suður-Kóreu árið 2018 nam rúmum tveimur milljörðum króna. Einkum var um að ræða sjávarafurðir, karfa, loðnu og lýsi, og vélbúnað til notkunar í matvælaiðnaði. Innflutningur á vörum frá Suður-Kóreu árið 2018 nam rúmum átta milljörðum króna og voru það einkum bifreiðar og fjarskiptabúnaður.
    Þrátt fyrir aukin viðskipti í kjölfar fríverslunarsamningsins telur EFTA svigrúm til bóta og hefur um skeið þrýst á stjórnvöld í Suður-Kóreu um að ganga til viðræðna um uppfærslu samningsins. Sérstaklega hefur verið vísað til þess að fríverslunarsamningar Suður-Kóreu við ESB og Bandaríkin, sem gerðir voru árið 2010, eru víðtækari en samningurinn við EFTA. Eitt af markmiðum EFTA með því að byggja upp net fríverslunarsamninga er að tryggja samkeppnishæfni fyrirtækja innan EFTA-ríkjanna gagnvart fyrirtækjum innan ESB á viðkomandi markaði.
    Heimsókn þingmannanefndar EFTA var liður í að halda uppi þrýstingi á stjórnvöld í Suður-Kóreu og afla stuðnings þeirra við fyrrnefnda uppfærslu á fríverslunarsamningi EFTA og Suður-Kóreu. Í Seoul átti nefndin fundi í kóreska þinginu með Lee Juyoung, varaforseta þingsins, og viðskipta-, iðnaðar- og orkunefnd undir forystu Hong Ilpyo. Þá átti nefndin fundi með Yeo Han-Koo, aðstoðarráðherra í viðskiptaráðuneyti, og Kim Hee-Song, sviðsstjóra efnahagssamvinnu í utanríkisráðuneyti. Enn fremur fundaði nefndin með fulltrúum samtaka atvinnulífsins í Suður-Kóreu og með sendiráði ESB um reynsluna af fríverslunarsamningi ESB og Suður-Kóreu. Þá fór fram fundur með ýmsum sérfræðingum um viðskiptastefnu landsins. Loks átti nefndin fund með Sung Choi, borgarstjóra Ulsan, jafnhliða því sem bílaverksmiðja og skipasmíðastöð Hyundai þar í borg voru heimsóttar.
    Smári McCarthy flutti framsögu á öllum fundum. Á fundum í þinginu og með ráðuneytum lagði hann áherslu á að reynslan af fríverslunarsamningi EFTA og Suður-Kóreu frá 2005 væri góð og að viðskipti hefðu þrefaldast frá gerð samningsins. EFTA-ríkin og Suður-Kórea ættu það sameiginlegt að vera mjög háð opnum alþjóðaviðskiptum og hafa ríka hagsmuni af því að efla regluverk þeirra og byggja upp net fríverslunarsamninga. Hins vegar hefði Suður-Kórea gert fríverslunarsamninga við ESB og Bandaríkin árið 2010 sem væru víðtækari en samningurinn við EFTA. Því stæðu útflytjendur í EFTA-ríkjunum höllum fæti gagnvart samkeppnisaðilum frá ESB og Bandaríkjunum á Kóreumarkaði. EFTA vildi uppfæra fríverslunarsamninginn þannig að hann tryggði m.a. frekari markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur og sjávarafurðir, endurskoðaðar upprunareglur, afnám tæknilegra viðskiptahindrana og aukið frelsi til þjónustuviðskipta. Þá væri rétt að bæta inn í samninginn ákvæðum um viðskipti og sjálfbæra þróun. Það væri ekki síður hagsmunamál fyrir Suður-Kóreu að uppfæra samninginn en frá gerð hans hefðu yfir 9 milljónir farsíma og 200.000 bílar verið fluttir inn til EFTA-ríkjanna frá Suður-Kóreu. Þá væru EFTA-ríkin mikilvægir viðskiptavinir skipasmíðaiðnaðar landsins og Norðmenn hefðu pantað olíuborpalla þaðan. Loks lagði Smári áherslu á að þrátt fyrir að EFTA-ríkin væru ekki á meðal mikilvægustu viðskiptaaðila Suður-Kóreu ættu ríkin mikla sameiginlega hagsmuni af opnum alþjóðaviðskiptum þannig að auk viðskiptalegs ávinnings hefði uppfærsla fríverslunarsamningsins mikilvægt táknrænt gildi á tímum sem einkenndust af aukinni verndarstefnu og einangrunarhyggju í viðskiptamálum.
    Auk þeirra meginskilaboða EFTA sem fram komu hér að framan gafst fulltrúum einstakra landsdeilda tækifæri til að ræða tvíhliða tengsl á fundum með þinginu og ráðuneytum. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir tók upp málefni norðurslóða en Suður-Kórea hefur áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og hefur lagt mikið af mörkum til vísinda- og rannsóknarstarfs á svæðinu. Minnti Bjarkey á formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu 2019–2021 og sagði að þar yrði m.a. lögð áhersla á gott samstarf við áheyrnarríkin.
    Viðmælendur sendinefndar EFTA í þinginu og ráðuneytum voru jákvæðir gagnvart viðskiptum við EFTA og sögðu tölfræði sýna fram á 10% árlega meðaltalsaukningu á viðskiptum EFTA og Suður-Kóreu frá því að fríverslunarsamningurinn frá 2005 tók gildi. Sumir viðmælendur nefndu þó að á brattann væri að sækja varðandi uppfærslu samningsins og voru rök nefnd eins og erfitt andrúmsloft í þinginu þegar kæmi að slíkum samningum, lítið svigrúm til að semja um aukinn markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur og sjávarafurðir í Kóreu, smæð markaða EFTA og að pólitískt væri meiri áhersla lögð á gerð nýrra fríverslunarsamninga en að uppfæra eða breyta gildandi samningum. Auk þess væri starfslið viðskiptaráðuneytisins, sem fer með fríverslunarmál, önnum kafið og undir mikil álagi vegna Brexit, viðskiptasambandsins við Bandaríkin og samningaviðræðna vegna nýrra fríverslunarsamninga. Því væri lítið svigrúm til að vinna að uppfærslu gildandi samninga en beiðnir um slíkt hefðu borist frá fleiri samstarfslöndum en EFTA-ríkjunum. Vinna við uppfærslu samningsins yrði því að bíða um sinn. Þessu svöruðu EFTA-þingmenn með því að minna á að einungis þurfti fjórar samningalotur til þegar fríverslunarsamningur EFTA og Suður-Kóreu var gerður á sínum tíma og lýstu bjartsýni á að semja mætti hratt um uppfærslu hans þannig að það skapaði ekki aukaálag á viðskiptaráðuneytið.

Fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA í Malbun í Liechtenstein 24. júní 2019.
    Sumarfundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA fór fram í Malbun í Liechtenstein auk þess sem þingmannanefndin hélt fund með ráðgjafanefnd EFTA og eigin nefndarfund. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Smári McCarthy, formaður, Brynjar Níelsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Jón Gunnarsson, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Fundur þingmanna og ráðherra EFTA var með breyttu sniði að því leyti að ráðgjafanefnd EFTA, sem í sitja fulltrúar aðila vinnumarkaðarins, sat einnig fundinn. Helstu dagskrárliðir fundarins voru viðskipti og sjálfbær þróun, fríverslunarmál EFTA, samskipti EFTA og Bandaríkjanna, samvinnan við ESB og loks Brexit.
    Undir liðnum viðskipti og sjálfbær þróun var farið yfir tillögur starfshóps um endurskoðun kafla um vinnuvernd og sjálfbæra þróun sem verið hefur í öllum fríverslunarsamningum EFTA frá árinu 2010. Meðal breytingartillagna var að bæta jafnréttisáherslum inn í texta þar sem undirstrikaðar eru skuldbindingar samningsaðila um að virða mannréttindi, lýðræði og réttarríkið samkvæmt helstu alþjóðasamningum þar um, en sú viðbót var keppikefli íslenskra stjórnvalda og Íslandsdeildar í vinnunni við uppfærsluna. Að kynningu lokinni var þingmannanefnd og ráðgjafanefnd veittur tími til rýna tillögurnar betur og skila athugasemdum fyrir haustið 2019.
    Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var að venju rædd á fundinum. EFTA hefur verið í fararbroddi á heimsvísu í gerð fríverslunarsamninga og voru gildir samningar 29 talsins og tóku til 40 ríkja. Farið var yfir gang yfirstandandi fríverslunarviðræðna við Indland, Malasíu, Víetnam og Mercosur tollabandalag fjögurra Suður-Ameríkuríkja, Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ. Smári McCarthy greindi frá heimsókn sendinefndar þingmanna til Seoul og viðræðum við þingmenn, ráðherra, stofnanir og hagsmunaaðila í Suður-Kóreu um aukið efnahagslegt samstarf við EFTA, einkum uppfærslu á fríverslunarsamningi EFTA og Suður-Kóreu frá 2005. Umfjöllun um þá heimsókn má sjá hér að framan.
    Þá var fjallað um samskipti við Bandaríkin en EFTA-ríkin hafa átt reglubundið samráð um alþjóðaviðskiptamál við viðskiptafulltrúa Bandaríkjanna. Bandaríkin eru langstærsta samstarfsríki EFTA sem samtökin hafa ekki fríverslunarsamning við en um 10% af útflutningi EFTA-ríkjanna fara til Bandaríkjanna. Í samráði EFTA og Bandaríkjanna hefur m.a. verið fjallað um viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína og stöðu Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar.

Fundir formanna landsdeilda þingmannanefndar EFTA í Brussel 9. október 2019.
    Formenn fjögurra landsdeilda þingmannanefndar EFTA, þ.e. frá Alþingi og þjóðþingum Noregs, Liechtenstein og Sviss, komu saman í Brussel til þess að funda með helstu samstarfsaðilum innan Evrópuþingsins eftir að gengið hafði verið frá skipan í nefndir þess í kjölfar kosninga til þingsins í maí. Markmiðið var að halda málefnum er varða EES-samstarfið á lofti og auka vitneskju um þau innan Evrópuþingsins strax í upphafi kjörtímabilsins. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sótti fundinn Smári McCarthy, formaður, auk Stígs Stefánssonar ritara. Sem formaður þingmannanefndar EFTA á árinu 2019 fór Smári fyrir sendinefnd landsdeildarformannanna á öllum fundum.
    Helsti samstarfsaðili þingmannanefndar EFTA innan Evrópuþingsins er hin svokallaða DEEA-sendinefnd (áður SINEEA) sem starfar með EFTA-þingmönnum innan vébanda sameiginlegrar þingmannanefndar EES. Auk þess sinnir DEEA-sendinefndin tvíhliða samskiptum Evrópuþingsins við Alþingi og þjóðþing Noregs, Liechtenstein og Sviss. Þá eru málefni sem varða EES oft á dagskrá nokkurra helstu fastanefnda Evrópuþingsins og því var einnig fundað með forustu þeirra. Formenn landsdeilda þingmannanefndar EFTA áttu fundi með Andreas Schwab, formanni DEEA-sendinefndarinnar, David McAllister, formanni utanríkismálanefndar, Johan Danielsson, varaformanni samgöngu- og ferðamálanefndar, Karima Delli, formanni samgöngu- og ferðamálanefndar, Petra de Sutter, formanni nefndar um málefni innri markaðarins, og loks Bernd Lange, formanni nefndar um alþjóðaviðskipti.
    Helstu skilaboð þingmanna EFTA á öllum fundum var að halda á lofti og útskýra stöðu EFTA-ríkjanna sem nánustu samstarfsríkja ESB, annars vegar Íslands, Noregs og Liechtenstein í gegnum EES-samninginn og hins vegar Sviss í gegnum tvíhliða samninga við ESB. EES-samningurinn hefði reynst afar vel í 25 ár, nánast væri gengið að árangri hans sem gefnum og því væru málefni hans og mikilvægi ekki ofarlega á baugi í Evrópuþinginu. Formlegur samráðsvettvangur þjóðþinga EFTA-ríkjanna og Evrópuþingsins væri sameiginleg þingmannanefnd EES þar sem samskipti EFTA og ESB væru rædd, reglulega væri farið yfir stöðu og framkvæmd EES-samningsins og fjallað um löggjafarvinnu á vettvangi ESB sem ljóst væri að snerti innri markaðinn og þar með EES-samstarfið. EFTA-þingmennirnir lýstu ríkum vilja til þess að styrka samstarfið við Evrópuþingið og kom þar til að efla starfið í sameiginlegri þingmannanefnd EES og jafnframt að tengjast fastanefndum þingsins nánari böndum. Mikilvægt væri að skipuleggja fundi þingmannanefndar EES þannig að þeir nýttust sem best og að umfjöllunarefni þeirra væru pólitískt áhugaverð jafnt fyrir EFTA- og ESB-hliðina. Nefndin hefði mætt nokkru áhugaleysi af hálfu Evrópuþingsins á liðnum árum sem endurspeglaðist í dræmri fundarsókn Evrópuþingmanna. Mikilvægt væri að glæða þann áhuga og skipuleggja starf nefndarinnar með það fyrir augum. Rætt var um að mögulega ætti að halda fundi þingmannanefndar EES oftar í starfsstöðvum Evrópuþingsins í Brussel og Strassborg þar sem reynslan sýndi að þá væri fundarsókn Evrópuþingmanna meiri en þegar fundarhöld færu fram í EES/EFTA-ríkjunum þremur.
    Viðmælendur þingmanna EFTA innan Evrópuþingsins tóku undir að EES-samningurinn hefði reynst mjög vel og að það skýrði að samningurinn væri ekki ofarlega á baugi í umræðum innan þingsins sem síðustu ár hefðu frekar snúist um hinar stóru áskoranir sem ESB hefði staðið frammi fyrir. Fram kom að utanríkismálanefnd Evrópuþingsins beindi sjónum sínum í auknum mæli að málefnum norðurslóða. Þannig hefði nefndin heimsótt Noreg árið 2018 og hugmyndir væru uppi um að sendinefnd færi til Íslands og Grænlands árið 2020. Formenn nefndar Evrópuþingsins um málefni innri markaðarins og nefndar um alþjóðaviðskipti lýstu sig báðir opna fyrir nánara samstarfi við þingmenn EFTA, t.d. með því að skoða möguleika á að standa sameiginlega að fundum um mál á borðum nefndanna sem hafa mikla þýðingu fyrir EES-samstarfið.

53. fundur þingmannanefndar EES í Vaduz 30. október 2019.
    Fundur þingmannanefndar EES var haldinn í þjóðþingi Liechtenstein. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Smári McCarthy, formaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Brynjar Níelsson, Jón Gunnarsson og Hanna Katrín Friðriksson, auk Stígs Stefánssonar ritara. Helstu dagskrármál fundarins voru staða EES-samstarfsins, Evrópuþingkosningarnar í maí, framtíð innri markaðarins og Brexit. Sem formaður þingmannanefndar EES á árinu 2019 stýrði Smári McCarthy fundi.
    Á fundinum fór Andreas Schwab, formaður sendinefndar Evrópuþingsins í þingmannanefnd EES, yfir kosningarnar til Evrópuþingsins 23.-26. maí og áhrif þeirra á samsetningu þess. Kosningaþátttaka var 50% sem er mesta þátttaka frá árinu 1994, nýliðun í hópi Evrópuþingmanna var 58% og hlutfall kvenna var 41% sem er hvort tveggja hæsta hlutfall sem sést hefur í kosningum til Evrópuþingsins. Stóra breytingin er varðar pólitíska samsetningu þingsins er sú að flokkahópar sósíaldemókrata (S&D) og evrópskra hægrimanna (EPP) hafa ekki meiri hluta þingmanna innan sinna vébanda eins og verið hafði frá stofnun Evrópuþingsins. Schwab sagði þingið þegar hafa sýnt styrk sinn og vald gagnvart nýrri framkvæmdastjórn ESB þegar kosið var til að staðfesta tilnefningu hennar. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, var þannig einungis kjörin með þriggja atkvæða meiri hluta og framkvæmdastjóraefnum frá Frakklandi, Ungverjalandi og Rúmeníu var hafnað í atkvæðagreiðslum eftir strangar þingyfirheyrslur.
    Á fundinum var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að hafa framsögur í umræðum um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Frummælendur voru Gunnar Pálsson sendiherra fyrir hönd formennsku EFTA í EES-ráðinu og sameiginlegu EES-nefndinni, Melissa Säilä fyrir hönd formennsku ESB í EES-ráðinu og Michael Matthiessen fyrir hönd ESB í sameiginlegu EES-nefndinni. Í umfjöllun þeirra og umræðunni sem á eftir fylgdi var m.a. fjallað um stöðu EES-samstarfsins og fram kom að svokallaður upptökuhalli, sem mælir fjölda gerða sem bíða upptöku í EES-samninginn, hefði ekki verið minni frá árinu 2015. Alls biðu 432 gerðir upptöku, sem væri 30% minna en í upphafi árs 2019, en einkum hefði verið góður gangur í að taka gerðir á sviði fjármálaþjónustu upp í samninginn. Rætt var um að nota 25 ára afmæli EES-samningsins til þess að auka vitund almennings um hann. Komið var inn á jákvæðar niðurstöður í skýrslu starfshóps utanríkisráðherra um EES-samstarfið um hag Íslands af samningnum. Hanna Katrín Friðriksson sagði EES-samninginn hafa komist í kastljósið á Íslandi í umræðu um þriðja orkupakka ESB og að í ljós hefði komið að ungt fólk vissi lítið um áhrif samningsins á lífsgæði, tækifæri og réttindi. Aukins kynningarstarfs um áhrif samningsins á daglegt líf þyrfti við. Þá var lögð áhersla á að samstarf EES/EFTA-ríkjanna þriggja, Noregs, Liechtensteins og Íslands, við ESB næði út fyrir EES-samninginn t.d. í loftslagsmálum og með uppbyggingarstyrkjum EES/EFTA-ríkjanna til fátækari svæða innan ESB. Loks kom fram að ESB óskaði þess að auka enn frelsi í viðskiptum með landbúnaðarafurðir innan EES.
    Í umfjöllun um samskipti Sviss og ESB var farið yfir hvernig brugðist hefði verið við úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2014 um að takmarka flæði innflytjenda til Sviss. Málið setti samskipti Sviss og ESB í nokkurt uppnám þar sem frjáls för fólks er bundin samningum á milli aðilanna um aðgang Sviss að innri markaði ESB. Hans-Peter Portmann, formaður landsdeildar Sviss í þingmannanefndum EFTA og EES, fór yfir málið og greindi frá mikilli fjölgun erlendra íbúa í Sviss á undanförnum árum. Nú væri svo komið að 26% af íbúunum væru erlendir ríkisborgarar og þar að auki sækti mikill fjöldi útlendinga vinnu yfir landamærin til Sviss á degi hverjum. Um 8% þátttakenda á svissneskum vinnumarkaði byggi utan landsins. Svissneska þingið brást við þjóðaratkvæðagreiðslunni með því að setja lög árið 2016 sem skyldaði þarlenda atvinnurekendur til að veita umsækjendum búsettum í Sviss forgang þegar auglýst væri eftir vinnuafli. Jafnhliða hafa farið fram samningaviðræður milli Sviss og ESB um nýjan heildarsamning (e. institutional framework accord) sem næði yfir svið fyrri samninga sem aðilarnir gerðu með sér árið 1999, þ.e. frjálsa för fólks, loftferðir, flutninga um lesta- og vegakerfi, landbúnaðarviðskipti og gagnkvæma viðurkenningu staðla. Drög að samningi hefðu legið fyrir um hríð og verið umdeild í Sviss. Frekari viðræðna milli Sviss og ESB væri að vænta þegar ný framkvæmdastjórn ESB hefði tekið við störfum.
    Loks var á fundinum farið yfir stöðuna varðandi væntanlega útgöngu Bretlands úr ESB, Brexit. Evrópuþingmaðurinn og meðlimur skoska þjóðarflokksins, Aileen McLeod, fór yfir málið frá sjónarhóli Skotlands og sagði fyrirliggjandi útgöngusamning Johnsons forsætisráðherra með útgöngu úr innri markaði jafnt sem tollabandalagi mundu valda margvíslegum efnahagslegum búsifjum í Skotlandi. Skotland hefði treyst á innflutning vinnuafls frá Evrópu og það væri sérstakt áhyggjuefni hvernig takast mundi að manna stöður í heilbrigðis- og umönnunargeiranum eftir Brexit. Þá fór Esther Schindler, sem fer með Brexitmál fyrir hönd stjórnvalda í Liechtenstein, yfir þarlendan undirbúning og ítrekaði vilja til samflots með hinum EES/EFTA-ríkjunum þegar kæmi að því að gera samning við Bretland um framtíðarskipan samskipta ríkjanna.

Fundir þingmanna og ráðherra EFTA í Brussel 19.–20. nóvember 2019.
    Í Brussel fóru fram fundur þingmannanefndar EFTA og utanríkisráðherra EES/EFTA-ríkjanna um EES-samstarfið og fundur þingmanna og fulltrúa ráðherraráðs EFTA um fríverslunarmál. Þá fundaði þingmannanefnd EFTA með fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB og annarra stofnana og hugveitna um fríverslun. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundina Smári McCarthy, formaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Brynjar Níelsson, Hanna Katrín Friðriksson og Jón Gunnarsson, auk Stígs Stefánssonar ritara. Smári McCarthy stýrði öllum fundum af hálfu þingmannanefndarinnar.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA og utanríkisráðherra EES/EFTA-ríkjanna var m.a. fjallað um niðurstöðu fundar EES-ráðsins sem ráðherrarnir sátu fyrr um daginn ásamt fulltrúum ráðs, framkvæmdastjórnar og utanríkisþjónustu ESB. Fram kom að svonefndur upptökuhalli, sem mælir tölu þeirra gerða sem bíða upptöku í EES-samningi, hefði minnkað umtalsvert á yfirstandandi ári eftir átak EES/EFTA-ríkjanna og stofnana ESB í þeim efnum. Einkum hefði náðst að fækka gerðum á sviði fjármálaþjónustu sem biðu upptöku í samninginn. Þá var lögð áhersla á áframhaldandi þróun og aukna virkni innri markaðarins til þess að skapa hagvöxt og störf í Evrópu. Í því sambandi hefðu EES/EFTA-ríkin skilað áliti sínu um tillögur að framþróun innri markaðarins eftir árið 2019. Einnig var fjallað um nauðsyn þess að auka vitund almennings um EES-samninginn og hvaða hag borgarar og fyrirtæki á efnahagssvæðinu hafa af honum. Upplýsingagjöf um EES þyrfti því að vera öflugri og það væri verkefni jafnt EES/EFTA-ríkjanna sem ESB að tryggja hana.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA og fulltrúa ráðherraráðs EFTA var fjallað um fríverslunarmál. Torbjørn Røe Isaksen, viðskiptaráðherra Noregs, fór yfir stöðu fríverslunarsamninga EFTA og sagði mikinn árangur hafa náðst í samningagerð á síðustu tveimur árum. Í ágúst 2019 var efnislegum fríverslunarviðræðum lokið við Mercosur, sem er tollabandalag fjögurra Suður-Ameríkuríkja, Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ. Samningurinn, sem bíður undirritunar, mun veita aðgang að mörkuðum með 260 milljónum íbúa og tekur til iðnaðarvara og sjávarfangs auk viðskipta með landbúnaðarafurðir, þó þannig að ekki gangi í berhögg við landbúnaðarvernd innan EFTA-ríkjanna. Samningurinn tekur einnig til þjónustuviðskipta, m.a. á sviði orkumála, fjarskipta, flutninga og fjármála. Loks eru ákvæði um sjálfbæra þróun, þ.m.t. sjálfbærni skóglendis, líffræðilegan fjölbreytileika og loftslagsbreytingar með tilvísun í Parísarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Unnið væri að því að koma viðræðum í gang að nýju við Indland, Víetnam og Malasíu eftir hlé. Þá væri unnið að uppfærslu eldri fríverslunarsamninga við Síle og tollabandalag Suður-Afríku. Einnig var rætt um nauðsyn þess að uppfæra samning EFTA við Kanada frá árinu 2012 svo hann nái til þjónustuviðskipta til samræmis við mun víðtækari fríverslunarsamning sem ESB hefur gert við landið.
    Smári McCarthy kallaði eftir aukinni opnun og gagnsæi hjá EFTA við fríverslunarsamningagerð og benti á hve framkvæmdastjórn ESB hefði á síðustu árum aukið upplýsingagjöf á öllum stigum samningaferla hjá sér. Isaksen sagði vart aukins áhuga á slíkri samningagerð og ljóst að ráðherrarnir þyrftu að ræða í sínum hópi hvernig bæta mætti upplýsingagjöf.
    Þá var fjallað um aukna verndarstefnu í alþjóðaviðskiptum og stöðu Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar í ljósi yfirstandandi viðskiptastríðs Bandaríkjanna og Kína og þess að gerðardómar stofnunarinnar lömuðust um áramót vegna skorts á dómurum. Bandarísk stjórnvöld hefðu stöðvað skipun dómara í gerðardómana og krafist þess að skýrari reglur verði settar um skipan dómara til þess að tryggja hæfni þeirra. Áhersla var lögð á hagsmuni EFTA-landanna, sem smáríkja, af alþjóðlegu viðskiptakerfi sem byggist á skýru regluverki Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar. Viðbrögð EFTA við þessari stöðu væru einkum fjórþætt og byggðust í fyrsta lagi á virkum stuðningi við umbótastarf innan stofnunarinnar, þ.m.t. lausn á tilnefningu dómara í gerðardóma stofnunarinnar, í öðru lagi á áframhaldandi uppbyggingu fríverslunarnets EFTA, í þriðja lagi á formlegu samráði við Bandaríkin í fríverslunarmálum og að síðustu á því að hlúa að EES-samningnum. Í ljósi þessarar stöðu væri það ákveðinn sigur fyrir EFTA að hafa nýverið lokið gerð fríverslunarsamninga við stór og mikilvæg samstarfsríki eins og Indónesíu og Mercosur-ríkin. Síðarnefndu ríkin hefðu lengst af fylgt verndarstefnu í viðskiptum og því markaði samningur þeirra við EFTA og fríverslunarsamningsgerð Mercosur við ESB þáttaskil.
    Loks var fjallað um endurskoðun kafla um vinnuvernd og sjálfbæra þróun sem verið hefur í öllum fríverslunarsamningum EFTA frá árinu 2010. Samþykktar voru breytingartillögur sem kynntar voru í júní þannig að jafnréttisáherslum var bætt við texta þar sem undirstrikaðar eru skuldbindingar samningsaðila um að virða mannréttindi, lýðræði og réttarríkið samkvæmt helstu alþjóðasamningum þar um, en það var keppikefli íslenskra stjórnvalda og Íslandsdeildar í vinnunni við uppfærsluna.
    Á fundi um viðskiptastefnu ESB með Mariu Asenius og fleiri fulltrúum stjórnardeildar framkvæmdastjórnar ESB um viðskiptamál var farið yfir fríverslunarnet sambandsins. Fríverslunarsamningar ESB eru 41 talsins og taka til 72 ríkja. Fram kom að samningaviðræður við Mercosur væru á lokastigi, bráðabirgðasamkomulag hefði verið undirritað og það væri í lögfræðilegri yfirferð. Þá kom fram að verklag við fríverslunarsamkomulag hefði breyst á síðustu árum á meðan Cecilia Malmström hefði gegnt stöðu framkvæmdastjóra viðskiptamála. Öflug upplýsingagjöf og gagnsæi hafi verið tryggð á meðan á einstökum samningaferlum stæði og leitað væri eftir samráði við almenning og hagsmunaaðila í meiri mæli en áður. Mikil gagnrýni á gerðardóma til úrlausnar deilumála milli ríkja og fjárfesta (e. Investor-State Dispute Settlement) sem tengjast fríverslunarsamningum hefði orðið til þess að framkvæmdastjórnin hefði komið á sérstökum viðskiptarétti í nýrri samningum. ESB styddi dyggilega við bakið á Alþjóðaviðskiptamálastofnuninni og hefði að hluta fyllt upp í tómarúm sem myndast hafði við áhugaleysi stjórnvalda í Bandaríkjum á stofnuninni. Farið var yfir stöðu gerðardóma Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar sem getið var að framan og fyrirsjáanlegt væri að mundi lamast í desember 2019 þegar tveir af þremur starfandi dómurum létu af störfum. Þá var rætt um viðskiptadeilur ESB og Bandaríkjanna sem hófust þegar Bandaríkin settu háa tolla á stál- og álinnflutning frá ESB með vísan í þjóðaröryggi. Gagnrýnt var af hálfu ESB að bandarísk stjórnvöld beittu lagagrein sem ætluð væri til nota á stríðs- eða neyðartímum, þvert á umsamin viðskiptakjör yfir Atlantshafið. ESB hefði svarað með tollum á tilteknar bandarískar vörur. Fram kom að bandarísk stjórnvöld hygðust setja tolla á Airbus-flugvélar eftir að Alþjóðaviðskiptamálastofnunin úrskurðaði að flugvélaframleiðandinn hefði notið ólöglegra ríkisstyrkja. Óljóst væri hvernig ESB mundi svara því.
    Loks átti þingmannanefnd EFTA fund með Birni Bjarnasyni þar sem hann kynnti skýrslu starfshóps um EES-samstarfið.

Alþingi, 31. janúar 2020.

Smári McCarthy,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
varaform.
Brynjar Níelsson.
Hanna Katrín Friðriksson. Jón Gunnarsson.