Ferill 556. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 915  —  556. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2019.


1. Inngangur.
    Á vettvangi NATO-þingsins árið 2019 var rík áhersla lögð á samskipti NATO og Rússlands. Aukin hernaðarumsvif Rússlands og sniðganga þeirra á alþjóðaskuldbindingum, sem hafa haft neikvæð áhrif á öryggishorfur í Evrópu, voru í brennidepli. Samskiptin hafa ekki verið eins slæm frá lokum kalda stríðsins og versnuðu enn frekar í kjölfar brota Rússa á samningi um meðaldræg kjarnavopn ( INF-treaty, Intermediate-Range Nuclear Forces Treaty). Þá ályktaði þingið um stuðning við stefnu NATO eftir endalok samningsins en Bandaríkin riftu honum í ágúst. Meðlimir þingsins voru þó sammála um mikilvægi áframhaldandi viðræðna á milli Rússa og NATO-þingsins.
    Málefni norðurslóða fengu aukna athygli á árinu og ályktaði þingið um þróun öryggismála á svæðinu. Sérstök áhersla var lögð á hernaðarlegt mikilvægi Norður-Atlantshafsins með tilliti til hafsvæðisins milli Íslands, Grænlands og Bretlands. Þingmenn voru sammála um mikilvægi þess að viðhalda lágri spennu á svæðinu eins og verið hefði, þrátt fyrir að hernaðarviðvera, einkum Rússa, hefði aukist. Þá var rætt um að áhrif loftslagsbreytinga væru öryggis- og varnarmál, m.a. vegna hækkunar yfirborðs sjávar og aukins aðgengis að náttúruauðlindum á norðurslóðum.
     Ítrekað var fjallað um netöryggi og ályktaði þingið um styrkingu varna NATO varðandi netöryggi. Vaxandi áhyggjur voru meðal þingmanna af netárásum þar sem eðli þeirra væri af öðrum toga en við þekkjum og erfitt væri að rekja slíkar árásir. Lögð var áhersla á mikilvægi þess að samhæfa aðgerðir aðildarríkjanna og bandalagsins sjálfs og skiptast á reynslu og þekkingu aðildarríkjanna. Þá var áréttað að nauðsynlegt væri að fjármagn yrði aukið til að viðhalda tækniþróun og getu bandalagsins.
    Einnig var rætt mikið um varnarútgjöld aðildarríkjanna í ljósi nýrra öryggisógna og hvernig bandalagið getur tekist á við fjölþættar áskoranir og tryggt getu sína og styrk til þess að standa við skuldbindingar sínar. Þá var sjónum beint að mikilvægi þess að jafna byrðar á bandalagsþjóðir, auka fjárframlög Evrópuríkja og að aðildarríkin stefndu að því að ná markmiði NATO um að útgjöld til varnarmála verði 2% af vergri landsframleiðslu fyrir árið 2024 til að mæta breyttum öryggishorfum.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á fundum NATO-þingsins árið 2019 má nefna óstöðugleikann í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs og í Norður-Afríku, ekki síst í tengslum við átökin í Sýrlandi og þann mikla flóttamannavanda sem þau hafa valdið á nágrannasvæðum og í Evrópu. Einnig var rætt um þróun mála í Afganistan og áframhaldandi stuðning bandalagsins við stjórnvöld í landinu, fjölþættar ógnir, viðnámsgetu ríkja til að bregðast við óvæntum atburðum, aukna ógn af kafbátum og afvopnunarmál. Einnig fór fram umræða um jafnréttismál innan NATO og mikilvægi þess að innleiða þau í starfsemi og stefnur tengdar öryggis- og varnarmálum með innleiðingu öryggisályktunar Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi.
    
2. Almennt um NATO-þingið.
    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hefur allt frá árinu 1955 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu. Níu lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja eiga nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra, Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose-Roth-áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum frá árinu 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu en með tímanum óx þeirri skoðun fylgi að nauðsyn væri á skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings NATO. Þingið hefur ekki formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að efla samstöðu og samráð þjóðþinga á sviði öryggis- og varnarmála. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, efnahagsnefnd, vísinda- og tækninefnd og nefnd um borgaralegt öryggi. Auk þess fer mikið starf fram á vegum Miðjarðarhafshópsins sem þó hefur ekki stöðu formlegrar málefnanefndar. Þessar nefndir eru meginvettvangur umræðna, þær fjalla um samtímamál sem upp koma á starfssviði þeirra og vinna um þau skýrslur. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tilmæla, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tilmælum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan NATO, og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða. Ályktunum þingsins er hins vegar beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna.
    Þótt þingið sé óháð NATO hafa samskipti þess við bandalagið smám saman tekið á sig fastara form. Á meðal formlegra samskipta má í fyrsta lagi nefna formleg svör við tilmælum þingsins frá framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Norður-Atlantshafsráðsins. Í öðru lagi flytur framkvæmdastjóri bandalagsins ávarp á vorfundum og ársfundum NATO-þingsins og svarar fyrirspurnum þingmanna. Í þriðja lagi koma stjórnarnefnd NATO-þingsins og Norður-Atlantshafsráðið árlega saman til fundar í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Að lokum skal nefndur sameiginlegur fundur þriggja nefnda NATO-þingsins í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE (Supreme Headquarters Allied Powers in Europe – æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og Evrópusambandsins.

Fulltrúar á NATO-þinginu og forustumenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 266 þingmenn frá aðildarríkjunum 29. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn en sú íslenska er í hópi þeirra smæstu með þrjá þingmenn. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls á 61 þingmaður frá 13 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, nema fundum stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Þeir hafa þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.
    Forustumenn þingsins eru sjö og eru sex þeirra, forseti og fimm varaforsetar, kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi. Sjöundi embættismaðurinn er gjaldkerinn en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn auk formanna allra landsdeilda aðildarríkja NATO.

3. Íslandsdeild NATO-þingsins og starfsemi hennar.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru árið 2019 Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaformaður, þingflokki Viðreisnar, og Willum Þór Þórsson, þingflokki Framsóknar. Varamenn voru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Jón Steindór Valdimarsson, þingflokki Viðreisnar. Hinn 12. september tók Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, sæti Áslaugar Örnu sem varamaður í Íslandsdeild. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang, alþjóðaritari.
    Íslandsdeildin hélt þrjá undirbúningsfundi fyrir fundi NATO-þingsins.

    Skipting Íslandsdeildar í nefndir árið 2019 var eftirfarandi:

Stjórnarnefnd: Njáll Trausti Friðbertsson
    Til vara: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir/Birgir Ármannsson
Stjórnmálanefnd: Njáll Trausti Friðbertsson
    Til vara: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir/Birgir Ármannsson
Varnar- og öryggismálanefnd: Þorgerður K. Gunnarsdóttir
    Til vara: Jón Steindór Valdimarsson
Nefnd um borgaralegt öryggi: Willum Þór Þórsson
    Til vara: Halla Signý Kristjánsdóttir
Efnahagsnefnd: Willum Þór Þórsson
    Til vara: Halla Signý Kristjánsdóttir
Vísinda- og tækninefnd: Njáll Trausti Friðbertsson
    Til vara: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir/Birgir Ármannsson
Vinnuhópur um Miðjarðarhafssvæðið: Þorgerður K. Gunnarsdóttir

4. Fundir NATO-þingsins.
    NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og ársfund að hausti. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður-Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Jafnframt kemur stjórnarnefnd þingsins saman til fundar í mars eða apríl ár hvert. Þá sækir fjöldi NATO-þingmanna árlegan fund um Atlantshafssamstarfið sem fram fer í desember í samstarfi NATO-þingsins og bandaríska Atlantshafsráðsins. Loks halda nefndir og undirnefndir þingsins reglulega málstofur og fundi á milli þingfunda.
    Árið 2019 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum í Brussel, vorfundi í Bratislava og ársfundi í London. Hér á eftir fylgja í tímaröð frásagnir af fundum sem Íslandsdeildin sótti.

Febrúarfundir.
    Dagana 18.–20. febrúar var efnt til svonefndra febrúarfunda NATO-þingsins í Brussel en það eru sameiginlegir fundir stjórnmálanefndar, efnahagsnefndar og varnar- og öryggismálanefndar. Fyrirkomulag fundanna var með hefðbundnum hætti, þ.e. sérfræðingar, embættismenn og herforingjar Atlantshafsbandalagsins héldu erindi um afmörkuð málefni og svöruðu spurningum þingmanna. Þá fór fram árlegur fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins með Norður-Atlantshafsráðinu í höfuðstöðvum NATO. Helstu mál á dagskrá fundarins voru baráttan gegn hryðjuverkum, jafnari byrðar aðildarríkja NATO, samskipti Evrópusambandsins og NATO, samskipti NATO og Rússlands og loks óstöðugleikinn í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, fundina, auk Gunnþóru Elínar Erlingsdóttur, starfandi ritara.
    Hefðbundinn fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins og sendiherra aðildarríkja NATO í Norður-Atlantshafsráðinu, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan bandalagsins, fór fram í höfuðstöðvum NATO 19. febrúar. Að venju sátu sendiherrar aðildarríkjanna fyrir svörum hjá þingmönnum en umræðum stjórnaði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri bandalagsins, sem jafnframt flutti inngangserindi. Stoltenberg ræddi m.a. um mikilvægi þess að búa að nýjustu tækni í varnarmálum og fór yfir helstu verkefni sem NATO hefur tekið þátt í. Stoltenberg sagði jákvætt hve vel hefði tekist hjá aðildarríkjum að auka framlög sín til öryggis- og varnarmála en mikilvægt væri að gera enn betur. Þá væri mikilvægt að ræða loftslagsmál.
    Njáll Trausti Friðbertsson vakti máls á því að alþjóðasamfélagið og NATO hefði lengi stutt afgönsku þjóðina í vegferð hennar að friðsælu samfélagi. Mikilvægt væri að tryggja aðkomu kvenna að friðarferlinu og við uppbyggingu landsins. Jákvæð teikn væru á lofti hvað þetta varðaði, með tilliti til réttinda og stöðu kvenna innan afgansks samfélags. Í ljósi þess að friðarviðræður væru á döfinni og fyrirséð að fjöldi hermanna yrði líklega kallaður heim frá Afganistan beindi Njáll Trausti þeirri spurningu til Stoltenbergs hvernig best væri að styðja við þessa þróun. Stoltenberg svaraði því til að aðildarríkjum NATO væri umhugað um að styðja við afgönsku þjóðina. Ákvörðun um að fara frá Afganistan þyrftu aðildarríkin að taka sameiginlega.
    Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, fór yfir stöðu mála hjá NATO eins og hún blasir við Bandaríkjunum. Fulltrúar Bandaríkjaþings, bæði úr fulltrúadeildinni og öldungadeildinni, fylktu liði á fundinn og sagði Nancy það sýna skuldbindingu Bandaríkjanna gagnvart NATO. Fundurinn væri liður í ferð þeirra um Evrópu sem jafnframt væri ætlað að styrkja tengslin við Evrópusambandið. Pelosi fór yfir mikilvægi NATO í heimssögunni. Ný kynslóð væri að alast upp sem hefði ekki upplifað fall Berlínarmúrsins eða kalda stríðið. Það væri því áskorun að sannfæra unga fólkið um mikilvægi bandalags eins og NATO. Pelosi ræddi um stöðuna í Rússlandi og Úkraínu og sagði mikilvægt að halda samtalinu gangandi.
    Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, ávarpaði fundinn og sagði mikilvægt að styrkja samband ESB og NATO. ESB legði sitt af mörkum í þessu sambandi þar sem m.a. væri séð til þess að Stoltenberg fengi alltaf boð á mánaðarlega fundi ráðherra ESB. Áhersla ESB á varnarmál væri ekki ætlað að veikja NATO. Þvert á móti væri kapp lagt á að styðja við varnir og samvinnu ESB-ríkjanna og NATO. Mikilvægt væri að vera samstíga. Hún ítrekaði að ESB yrði aldrei að hernaðarbandalagi en þrátt fyrir það væri mikilvægt að marka sambandinu öryggis- og varnarmálastefnu. Verið væri að auka útgjöld ESB til varnarmála en ekki stæði til að koma á fót sameiginlegum her. Í því samhengi ítrekaði hún að ESB væri bandalag fullvalda ríkja sem aldrei yrðu þvinguð til hernaðaraðgerða. Slík ákvörðun væri partur af sjálfsákvörðunarrétti hvers og eins ríkis. ESB myndi aftur á móti alltaf standa vörð um lýðræði og mannréttindi.

Vorfundur.
    Árlegur vorfundur NATO-þingsins var haldinn í Bratislava dagana 31. maí – 3. júní 2019. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Njáll Trausti Friðbertsson formaður og Þorgerður K. Gunnarsdóttir auk Örnu Gerðar Bang ritara. Á vorfundum NATO-þingsins vinna málefnanefndir skýrslur og eiga fundi með fulltrúum ríkisstjórna og alþjóðastofnana og sérfræðingum. Þá er þingfundur haldinn þar sem fjallað er um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu. Helstu umræðuefni fundarins voru samskipti NATO og Rússlands og hvernig Moskva ýtir undir óstöðugleika í Úkraínu, áskoranir frá Kína og netöryggi. Einnig fór fram umræða um fjölþættar ógnir, viðnámsgetu ríkja til að bregðast við óvæntum atburðum, gervigreind og afvopnunarmál. Rúmlega 250 þingmenn sóttu fundinn frá 29 aðildarríkjum auk fulltrúa frá 22 aukaaðildar- og áheyrnarríkjum.
         Á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins var m.a. tekin ákvörðun um starfsemi og helstu viðfangsefni NATO-þingsins seinni hluta árs 2019. Samþykktar voru breytingartillögur við starfsreglur NATO-þingsins. Áfram verður áhersla lögð á samstarf og stefnu um opnun fyrir ný aðildarríki, norðurslóðamál og samskipti þvert yfir Atlantshaf. Rætt var um samskipti NATO-þingsins við rússneska þingið og var áhersla lögð á mikilvægi þess að áframhaldandi samræður ættu sér stað milli Rússa og NATO-þingsins. Samstarf við ríki utan bandalagsins og uppbygging stöðugleika bæði til suðurs og austurs er einnig í brennidepli auk áframhaldandi stuðnings í Afganistan. Þá var rætt um stöðu mála varðandi fullgildingu aðildar Norður-Makedóníu að NATO. Undirbúningur þinglegrar meðferðar vegna fullgildingarinnar er þegar hafinn hérlendis og kominn vel áleiðis í flestum aðildarríkjunum.
    Stjórnmálanefnd fjallaði um þrjár skýrslur á fundum sínum. Sú fyrsta fjallar um öryggi og stöðugleika í Afríku og áskoranir og tækifæri fyrir NATO, önnur um samband NATO og Rússlands og sú þriðja um 70 ára afmæli NATO og mikilvægi bandalagsins. Efnahagsnefnd NATO-þingsins fjallaði í skýrslum sínum m.a. um málefni Norður-Makedóníu: Stjórnmálalegar breytingar, aðild að NATO og efnahagsleg umskipti og efnahagsþvinganir sem tæki í utanríkisstefnu. Jafnframt fór fram umræða um efnahagstengsl handan Atlantsála, stafræna markaði og netöryggi.
    Vísinda- og tækninefnd ræddi drög að þremur skýrslum á fundi sínum. Sú fyrsta fjallaði um NATO á tímum internetsins og hvernig styrkja mætti varnir og öryggi og voru nefndarmenn sammála um nauðsyn þess að fjármagn yrði lagt fram til að viðhalda tækniþróun hjá NATO og getu bandalagsins. Önnur fjallaði um vísbendingar fyrir herafla NATO og sú þriðja um varnir gegn kafbátum: enduruppbygging getu og undirbúningur til framtíðar. Njáll Trausti Friðbertsson, varaformaður nefndarinnar, kynnti skýrsluna fyrir nefndinni í fjarveru skýrsluhöfundar og svaraði spurningum nefndarmanna.
    Njáll Trausti greindi m.a. frá því að Íslendingar hefðu orðið varir við aukna kafbátaumferð Rússa og ljóst væri á niðurstöðum skýrslunnar að NATO þyrfti að horfast í augu við aukna ógn af kafbátum þeirra. Landfræðileg staða Íslands í miðju Atlantshafinu er mikilvæg, t.d. hefur flugvöllurinn í Keflavík skipt miklu máli í eftirliti í lofti á norðurslóðum, ekki síst þar sem fleiri rússnesk loftför, skip og kafbátar fara nú um Norður-Atlantshafið en fyrir nokkrum árum. Þá sagði hann mikilvægt að horfa til Kína og Norður-Kóreu en bæði ríkin hefðu áform um að endurbyggja kafbátaflota sinn og það síðarnefnda væri búið kjarnorkuvopnum. Enn fremur þyrfti bandalagið að horfast í augu við minnkandi getu sína í vörnum gegn kafbátum sem væri áhyggjuefni.
     Þá fjallaði varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins um drög að þremur skýrslum á fundi sínum. Sú fyrsta fjallar um nýjar áherslur og áskoranir í baráttunni gegn kjarnorkuvæðingu, næsta um Afganistan, frið, stjórnmál og öryggi, og sú þriðja um þróun öryggismála á norðurslóðum. Nefndarmenn lýstu yfir áhyggjum sínum af því að samningur um meðaldræg kjarnavopn ( INF-treaty, Intermediate-Range Nuclear Forces Treaty), er gerður var eftir leiðtogafund Reagans og Gorbatsjevs í Höfða, væri í hættu „vegna rússneskra samningsbrota“ og ítrekuðu mikilvægi þess að bandalagið héldi áfram að kalla eftir því að Rússar færu að samningnum. Varðandi málefni norðurslóða voru nefndarmenn sammála um mikilvægi þess að viðhalda lágri spennu á svæðinu eins og verið hefði, þrátt fyrir að hernaðarviðvera, einkum Rússa, hafi aukist. Þá var rætt um að áhrif loftslagsbreytinga væru öryggis- og varnarmál, m.a. vegna hækkunar yfirborðs sjávar og aukins aðgengis að náttúruauðlindum á norðurslóðum. Nefnd um borgaralegt öryggi ræddi um lýðræði og ástandið í Úkraínu, öryggismál á landamærum ríkja og staðfestingu grunngilda NATO. Jafnframt fór fram umræða um nýbreytni í varnarmálum og hvernig NATO gæti nýtt sé tækniframfarir í verkefnum sínum.
    Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 3. júní 2019 þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Madeleine Moon, forseti NATO-þingsins, Andrej Kiska, forseti Slóvakíu, Andrej Danko, forseti slóvenska þingsins og Alejandro Alvargonzález, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO. Í ræðu sinni lagði forseti NATO-þingsins m.a. áherslu á mikilvægi þess að aðildarríki NATO stæðu öll sem eitt vörð um grunngildi lýðræðis. Hún sagði aðildarríkin 29 í góðu formi á 70 ára afmæli NATO til að takast á við áskoranir sem blasa við og nefndi þar sérstaklega Rússland og áframhaldandi óstöðugleika í Norður-Afríku, netöryggi auk hryðjuverkaógnarinnar. Þá gerði hún lítið úr ósamkomulagi milli aðildarríkjanna og sagði það hvorki nýtt af nálinni né alvarlegt.
    Aðstoðarframkvæmdastjóri NATO ræddi m.a. um nýjar og fjölþættar ógnir sem beinast að samfélagsinnviðum. Hann sagði netöryggi vaxandi áhyggjuefni þar sem eðli þeirra væri af öðrum toga en það sem þekkst hefði og erfitt væri að rekja slíkar árásir. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að samhæfa aðgerðir aðildarríkjanna og bandalagsins sjálfs gegn slíkum árásum og að aðildarríkin skiptust á reynslu og þekkingu. Þá ræddi hann um dreifingu ábyrgðar innan NATO og hvernig endurskipuleggja mætti starfsemina með jafnari ábyrgð aðildarríkjanna. Enn fremur sagði hann aukna áherslu á jafnréttismál innan NATO sem utan og vísaði til ályktunar Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Þá sagði Alvargonzález að aukin hernaðaruppbygging Rússa á norðurslóðum, með fleiri herstöðvum, kafbátum og aukinni hernaðarlegri loftumferð, ylli sérstaklega áhyggjum.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir tók þátt í fyrsta hádegisfundi þingkvenna NATO-þingsins sem haldinn var til að vekja máls á mikilvægi jafnréttismála innan NATO sem utan. Fyrirhugað er að fundurinn verði haldinn árlega. Þá stýrði Njáll Trausti Friðbertsson fundi með formönnum landsdeilda Norðurlanda og Eystrasaltsríkja þar sem farið var yfir þróun mála í varnar- og öryggismálum ríkjanna. Auk þess fór fram vinna í vinnuhópi um menntun og kynningu á öryggismálum og verkefnum NATO í aðildarríkjunum. Njáll Trausti Friðbertsson tók þátt í vinnu hópsins.

Ársfundur.
         Ársfundur NATO-þingsins var haldinn í London dagana 11.–14. október 2019. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaformaður, og Willum Þór Þórsson, varaformaður, auk Gunnþóru Elínar Erlingsdóttur, starfandi ritara. Meginumræður fundarins fóru fram í fimm málefnanefndum þingsins á grundvelli skýrslna, sem unnar voru af nefndarmönnum, og fyrirlestra alþjóðlegra sérfræðinga um öryggismál. Þá var þingfundur haldinn þar sem fjallað var um þau mál sem hæst hafði borið í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu og greidd atkvæði um ályktanir og ákvarðanir þingsins. Helstu umræðuefni fundarins voru málefni norðurslóða, átökin í Sýrlandi, loftslagsmál, netöryggi og 70 ára afmæli NATO.
    Stjórnmálanefnd fjallaði um þrjár skýrslur á fundum sínum. Fyrsta skýrslan fjallaði um NATO í 70 ár og af hverju bandalagið væri ómissandi. Í annarri skýrslunni var fjallað um öryggi og stöðugleika í Afríku með tilliti til áskorana og tækifæra á vettvangi NATO. Þriðja skýrslan fjallaði um tengsl NATO og Rússlands. Þá fóru fram pallborðsumræður um hlutverk Kína og stöðu mála við Persaflóa. Njáll Trausti Friðbertsson tók þátt í störfum nefndarinnar.
    Varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins samþykkti ályktanir á grundvelli þriggja skýrslna á fundi sínum. Fyrsta skýrslan fjallaði um þróun öryggismála á Norður-Atlantshafinu. Í skýrslunni var lögð sérstök áhersla á hernaðarlegt mikilvægi Norður-Atlantshafsins með tilliti til hafsvæðisins milli Íslands, Grænlands og Bretlands. Í annarri skýrslunni var fjallað um heræfingar NATO og hvaða lærdóm mætti draga af þeim til framtíðar. Þriðja skýrslan fjallaði um kjarnorkuvopn og mikilvægi varnaðaráhrifa. Þá fóru fram pallborðsumræður um öryggismál á norðurslóðum. Þorgerður K. Gunnarsdóttir tók þátt í störfum nefndarinnar og vakti m.a. máls á mikilvægi þess að líta áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum alvarlegum augum. Áhrifamestu ríki heims kepptust um ítök og áhrif og því væri hernaðarlegt samstarf sérstaklega mikilvægt svo að koma mætti í veg fyrir átök á Norðurslóðum. Þorgerður sagði loftslagsmál helstu ógn við öryggi okkar allra, ekki síst á Norðurslóðum.
    Efnahagsnefnd samþykkti ályktanir á grundvelli þriggja skýrslna. Í fyrstu skýrslunni var fjallað um nálgun Norður-Ameríku og Evrópu á stafrænan markað og öryggi á netinu. Önnur skýrslan fjallaði um lýðveldið Norður-Makedóníu með tilliti til pólitískra áskorana, aðildar að NATO og efnahagsmála. Í þriðju skýrslunni var farið yfir hvernig viðskiptaþvingunum hefði verið beitt í utanríkisstefnu ríkja. Þá var m.a. rætt um fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og hvaða áhrif það gæti haft á viðskipti við ríki ESB, Bandaríkin og Kanada. Willum Þór Þórsson tók þátt í störfum nefndarinnar.
    Vísinda- og tækninefnd samþykkti ályktanir á grundvelli þriggja skýrslna. Fyrsta skýrslan fjallaði um tækniþróun og öryggi varðandi notkun gervigreindar í hernaði og áskoranir NATO því tengdar. Aðra skýrsluna kynnti Njáll Trausti Friðbertsson, einn varaformanna nefndarinnar. Skýrslan fjallaði um kafbátavarnir, framtíðarsýn og mikilvægi þess að endurreisa getu NATO í málaflokknum. Í framsögu sinni sagði Njáll Trausti skýrsluna undirstrika að geta NATO varðandi kafbátavarnir væri orðin hættulega lítil og nauðsynlegt væri að tryggja aðgengi að kafbátum. Þriðja skýrslan fjallaði um NATO á netöld og hvernig best væri að auka öryggi og varnir. Þá fóru fram pallborðsumræður annars vegar um loftslagsbreytingar og öryggismál og hins vegar um vísindi og tækni með tilliti til siglinga.
    Nefnd um borgaralega hlið öryggismála samþykkti ályktanir á grundvelli þriggja skýrslna. Fyrsta skýrslan fjallaði um NATO í 70 ár og mikilvægi þess að árétta gildi bandalagsins, önnur skýrslan fjallaði um landamæraöryggi og þriðja skýrslan fjallaði um stöðu mála í Úkraínu. Þá fóru fram pallborðsumræður um mikilvægi NATO og helstu áherslur.
    Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 14. október þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Madeleine Moon, forseti NATO-þingsins, Jens Stoltenberg, framkvæmdarstjóri NATO og Ben Wallace, ráðherra öryggismála í Bretlandi. Forseti NATO-þingsins, Madeleine Moon, lagði í ræðu sinni áherslu á mikilvægi þess að aðildarríki Bandalagsins hugsuðu um hagsmuni heildarinnar. Fjárfesting í öryggi, stöðugleika og hagsæld Afganistans og Íraks væri jafnframt fjárfesting í öryggi, stöðugleika og efnahagslegri velsæld NATO-ríkjanna. Því væri mikilvægt að ríki stæðu við skuldbindingar sínar í varnarmálum. Þá sagði Moon mikilvægt að fræða börn og unglinga um hlutverk NATO. Moon var endurkjörin forseti NATO-þingsins.
    Framkvæmdastjóri NATO, Jens Stoltenberg, sagði NATO vera árangursríkasta bandalag sögunnar og margt hefði áunnist á 70 árum. Vel hefði gengið að auka framlög bandalagsríkja til varnarmála en gera mætti enn betur. Stoltenberg lýsti yfir verulegum áhyggjum af stöðu mála í Sýrlandi. Þá ítrekaði hann skuldbindingar NATO gagnvart Afganistan og þeim friðarviðræðum sem þar væru í gangi. Loks sagði hann nauðsynlegt að NATO fylgdist vel með tækniþróun í hernaðarmálum. Bandalagið þyrfti að vera fremst í flokki þegar kæmi að tækni til hernaðar.
    Njáll Trausti Friðbertsson tók til máls á þingfundinum og sagðist deila þeim áhyggjum sem fram hefðu komið á fundinum um hina alvarlegu stöðu í Sýrlandi. Hann vakti athygli á að utanríkisráðherrar ESB væru á sama tíma að funda í Lúxemborg um hugsanleg viðbrögð við stöðunni. Í ljósi þessa spurði Njáll Trausti Stoltenberg hvort formlegar viðræður eða aðgerðir væru fyrirhugaðar af hálfu NATO. Njáll Trausti vakti jafnframt máls á loftslagsbreytingum sem hann sagði vera helstu ógn við þjóðaröryggi. Þetta ætti sérstaklega við um norðurskautið sem væri að hlýna hratt vegna loftslagsbreytinga. Tími væri kominn til að bæði ríkisstjórnir aðildarríkjanna og NATO aðlagi sig nýjum veruleika. Með tilliti til þessa beindi Njáll Trausti þeirri spurningu til Stoltenbergs hvort NATO stefndi á að vera í fararbroddi í loftslagsmálum. Stoltenberg sagði að talsverð umræða hefði skapast um stöðu mála í Sýrlandi innan NATO og að málið yrði sérstaklega tekið fyrir í höfuðstöðvum NATO á næstu dögum. Hvað varðar loftslagsmál væri NATO í sjálfu sér ekki í aðalhlutverki þegar kæmi að loftslagsbreytingum. Loftlagsbreytingum fylgdu aftur á móti varnar- og öryggistengd atriði sem mikilvægt væri að NATO fylgdist grannt með. Þannig hefðu loftslagsbreytingar áhrif á hernaðarlegt skipulag. Þá gæti vatnsskortur leitt til þess að fólk væri þvingað til að flytjast búferlum. Loks sagði Stoltenberg mikilvægt að leita leiða til að spara orku í hernaði.
    Í framsögu ráðherra öryggismála í Bretlandi, Ben Wallace, kom fram að mikill þrýstingur hefði verið á að auka útgjöld NATO-ríkjanna til varnarmála. Hann ítrekaði að Bretland væri fremst í flokki þegar kæmi að útgjöldum Evrópuríkja. Wallace fór yfir þann árangur sem NATO hefur náð síðastliðin 70 ár og þá miklu þróun sem átt hefði sér stað, ekki síst með fjölgun bandalagsríkja. Wallace sagði mikilvægt að NATO legði áherslu á netöryggismál. Þá væri nauðsynlegt að fylgjast grannt með stöðu mála í geimnum.
    Samþykktar voru ályktanir á þingfundinum um styrkingu NATO varðandi netöryggi og stuðning við stefnu NATO eftir endalok samningsins um bann á framleiðslu meðaldrægra kjarnorkuflauga. Þá var samþykkt ályktun um 70 ára afmæli NATO, um öryggisáskoranir frá Afríku, um skuldbindingar NATO við upprunaleg gildi og um meginreglur, um þróun mála í Afganistan.

Nefndarfundir.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir sótti fund varnar- og öryggismálanefndar í mars á Hawaii og í nóvember í Amman. Einnig sótti hún ráðstefnu NATO-þingsins í Washington í desember. Njáll Trausti Friðbertsson sótti ráðstefnu á vegum NATO-þingsins í Antalya í apríl og fundi stjórnmálanefndar í Addis Ababa í september. Einnig sótti hann fundi vísinda- og tækninefndar í Washington og Norfolk í október. Þá var Alþingi í gestgjafahlutverki á fundum varnar- og öryggismálanefndar NATO-þingsins sem haldnir voru í Reykjavík 8.–10. maí. Njáll Trausti Friðbertsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir tóku þátt í fundunum í Reykjavík ásamt ritara Íslandsdeildar.

Alþingi, 3. febrúar 2020.

Njáll Trausti Friðbertsson,
form.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaform. Willum Þór Þórsson.


Fylgiskjal.


Ályktanir NATO-þingsins árið 2019.


Ársfundur í London 11.–14. október:
          Ályktun 454 um skuldbindingar NATO við grunngildi sín.
          Ályktun 455 um stuðning við stefnu NATO eftir endalok samningsins um bann á framleiðslu meðaldrægra kjarnorkuflauga.
          Ályktun 456 um þróun mála í Afganistan.
          Ályktun 457 um 70 ára afmæli NATO.
          Ályktun 458 um öryggisáskoranir frá Afríku.
          Ályktun 459 um styrkingu varna NATO varðandi netöryggi.