Ferill 252. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 948  —  252. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt,
nr. 100/1952, með síðari breytingum (biðtími vegna refsinga o.fl.).


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Berglindi Báru Sigurjónsdóttur, Fanneyju Óskarsdóttur og Hönnu Rún Sverrisdóttur frá dómsmálaráðuneyti, Öldu Hrönn Jóhannsdóttur frá lögreglunni á Suðurnesjum, Vilborgu Sif Valdimarsdóttur og Veru Dögg Guðmundsdóttur frá Útlendingastofnun og Ingu Helgu Sveinsdóttur frá Þjóðskrá Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir frá lögreglunni á Suðurnesjum, No Borders Iceland, Útlendingastofnun og Þjóðskrá Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um íslenskan ríkisborgararétt sem varða skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar. Aðallega eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um biðtíma vegna sektarrefsingar. Markmið frumvarpsins er að auka skilvirkni, gagnsæi og skýrleika laganna.
    Með frumvarpinu er m.a. lagt til að felld verði brott þau skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar að brot megi ekki vera endurtekið auk þess sem sektarfjárhæðir eru hækkaðar til samræmis við þróun verðlags. Nefndin telur um einstaklega mikilvægar breytingar að ræða sem sanngjarnt sé að gera gagnvart umsækjendum um ríkisborgararétt.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að æskilegt væri að við lög um íslenskan ríkisborgararétt yrði bætt heimild til að víkja frá þeim skilyrðum að umsækjandi sanni á sér deili og framvísi erlendu sakavottorði þegar sérstaklega standi á. Nefndin telur að sanngjarnt sé að gera slíkar undanþágur í afmörkuðum tilvikum þar sem aðstæður séu óvenjulegar. Undanþáguheimildin væri þá ætluð umsækjendum sem væri ómögulegt aðstöðu sinnar vegna að útvega fullnægjandi gögn um auðkenni eða sakavottorð en uppfylltu önnur skilyrði laganna fyrir veitingu ríkisborgararéttar. Sem dæmi má nefna flóttafólk sem hlotið hefur alþjóðlega vernd sökum ofsókna af hálfu stjórnvalda í heimaríki eða flóttafólk frá stríðshrjáðum svæðum þar sem innviði skortir. Nefndin leggur til að ákvæði um að heimilt sé að víkja frá framangreindum skilyrðum þegar ríkar sanngirnisástæður mæla með því verði bætt við frumvarpið.
    Í frumvarpinu er lagt til að sett verði ákvæði um endurveitingu ríkisfangs þeim til handa sem misst hafa íslenskt ríkisfang skv. 7. gr. laga nr. 100/1952 en hefðu haldið því hefði greinin verið fallin úr gildi á þeim tíma sem þau misstu ríkisfangið. Nefndin fjallaði um ákvæðið og telur um jákvæða breytingu að ræða, þá sérstaklega að ákvæðinu sé ætlað að standa ótímabundið. Þá leggur nefndin til breytingar tæknilegs eðlis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við b-lið 1. gr.
                  a.      Orðin „svo sem“ falli brott.
                  b.      Í stað orðsins „sinna“ komi: umsækjanda.
     2.      Við 2. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Heimilt er að víkja frá skilyrðum 1. og 6. tölul. 1. mgr. varðandi framvísun gagna frá heimaríki eða fyrra dvalarríki ef aðstæður umsækjanda eru óvenjulegar og ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Umsækjandi þarf jafnframt að uppfylla önnur skilyrði laga þessara fyrir veitingu ríkisborgararéttar.
     3.      Við 6. gr.
                  a.      1. málsl. orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2020.
                  b.      Í stað orðanna „um búsetutíma“ í 2. málsl. komi: hvað varðar búsetutíma.

    Helgi Hrafn Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 5. febrúar 2020.

Páll Magnússon,
form.
Birgir Ármannsson,
frsm.
Anna Kolbrún Árnadóttir.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Guðmundur Andri Thorsson. Halla Gunnarsdóttir.
Helgi Hrafn Gunnarsson,
með fyrirvara.
Jón Steindór Valdimarsson. Þórarinn Ingi Pétursson.