Ferill 580. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1087  —  580. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um málsmeðferð umsókna umsækjenda um alþjóðlega vernd frá öruggum ríkjum.


     1.      Á hvaða upplýsingum byggist listi Útlendingastofnunar yfir svonefnd örugg ríki? Er við gerð hans tekið tillit til viðmiða og tilmæla alþjóðastofnana, svo sem Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna? Tekur Útlendingastofnun aðeins til skoðunar almennt ástand í ríkinu eða einnig einstaka samfélagsþætti varðandi öryggi tiltekinna hópa sem geta verið í viðkvæmri stöðu, t.d. vegna þjóðernisuppruna, trúarskoðana, fatlana eða kynhneigðar?
    Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, er Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála heimilt að styðjast við lista yfir ríki sem almennt eru álitin örugg upprunaríki við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd sem þykja bersýnilega tilhæfulausar. Með öruggu upprunaríki er átt við ríki þar sem einstaklingar eiga almennt ekki á hættu að vera ofsóttir eða sæta alvarlegum mannréttindabrotum.
    Við mat á því hvort ríki teljist öruggt upprunaríki er m.a. litið til þess hvort þar sé stöðugt stjórnarfyrirkomulag sem byggist á viðurkenndum meginreglum um réttarríki, efnahagslega stöðu ríkisins og innri stjórnsýslu þess. Til þess að um öruggt upprunaríki sé að ræða verður ríkið að vera aðili að helstu alþjóðlegu mannréttindasáttmálum Sameinuðu þjóðanna. Þá er einnig höfð hliðsjón af svokölluðum Kaupmannahafnarviðmiðum, sem notuð eru á vettvangi Evrópusambandsins til að meta hvort ríki uppfylli skilyrði til að sækja um aðild að sambandinu, og skýrslum, samantektum og gögnum annarra ríkja, alþjóðlegra samtaka og frjálsra félagasamtaka um aðstæður þar í landi.
    Áður en ákvörðun er tekin um að bæta landi á listann yfir örugg ríki eru niðurstöður umsókna um alþjóðlega vernd skoðaðar í málum hér á landi varðandi það ríki sem um ræðir. Þá er einnig litið til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja við mat á því hvaða upprunaríki teljist örugg. Ekki er gerð sú krafa að engum frá viðkomandi ríki hafi verið veitt vernd en ljóst er að synjunarhlutfall umsókna frá viðkomandi ríki á ársgrundvelli þarf að vera hátt. Loks er einnig litið til þess hversu auðveldlega viðkomandi einstaklingur getur snúið til baka til Íslands verði ákvörðun snúið í kæruferli.
    Útlendingastofnun heldur utan um listann í samvinnu við dómsmálaráðuneytið með skipulegum hætti, uppfærir hann reglulega og birtir á vef stofnunarinnar. Þar er einnig hægt að kynna sér á hvaða grundvelli tiltekin ríki eru sett á listann.
    Áréttað er að þrátt fyrir að tiltekið ríki sé á lista yfir örugg ríki fer ávallt fram einstaklingsbundið mat á aðstæðum í hverju máli fyrir sig. Hvert mál er skoðað sérstaklega á eigin forsendum með tilliti til fyrirliggjandi gagna og landaupplýsinga á hverjum tíma. Útlendingastofnun framkvæmir því mat á öllum þeim þáttum er snerta þær málsástæður sem umsækjandi um alþjóðlega vernd ber fyrir sig í málsmeðferð sinni hjá stofnuninni eins og skýrt er kveðið á um í lögum um útlendinga, nr. 80/2016. Við einstaklingsbundna matið er því sérstaklega skoðað hvort umsækjandi tilheyri minnihlutahópi í heimaríki sínu af einhverjum tilteknum ástæðum eða eigi rétt á dvalaleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Það eitt að umsækjandi um alþjóðlega vernd sé frá ríki á lista yfir örugg upprunaríki getur aldrei leitt til þess að Útlendingastofnun taki mál viðkomandi ekki til skoðunar eða synji umsókn hans án undangenginnar rannsóknar. Það fer því ávallt fram einstaklingsbundið mat á aðstæðum í hverju máli fyrir sig.

     2.      Telur ráðherra að 2. mgr. 29. gr. laga um útlendinga sé nægilega skýr varðandi þau skilyrði sem ríki þurfa að uppfylla til að teljast til öruggra ríkja? Telur ráðherra jafnframt að setja þurfi skýrari tilmæli um að uppfæra þurfi landaupplýsingar ríkja á lista yfir örugg ríki og ef svo er, hversu reglulega?
    Að mati ráðuneytisins veitir 2. mgr. 29. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, og athugasemdir við ákvæðið í frumvarpi því er varð að nefndum lögum nægilega skýr viðmið fyrir Útlendingastofnun við mat stofnunarinnar á því hvort bæta skuli ríki við listann yfir örugg ríki. Þá telur ráðuneytið ekki nauðsynlegt að setja skýrari fyrirmæli um hversu reglulega uppfæra þurfi landaupplýsingar ríkja á listanum, en hann er í sífelldri endurskoðun við útgáfu nýrra skýrslna sem Útlendingastofnun styðst við varðandi aðstæður í ríkjunum.

     3.      Hver er meðalhraði við afgreiðslu umsókna einstaklinga frá öruggum ríkjum hjá Útlendingastofnun? Í hversu mörgum tilfellum er ákvörðun birt umsækjanda sama dag og viðtal er tekið við hann?
    Á árinu 2019 bárust Útlendingastofnun 80 umsóknir frá ríkisborgurum öruggra ríkja. Meðalafgreiðslutími þeirra var 12 dagar og voru 16 mál afgreidd samdægurs.

     4.      Hvernig tryggir Útlendingastofnun einstaklingsbundið mat á aðstæðum einstaklinga frá öruggum ríkjum og þá sérstaklega í málum sem sæta forgangsmeðferð?
    Einstaklingsbundið mat umsækjenda um alþjóðlega vernd sem sæta forgangsmeðferð er tryggt með einstaklingsbundnu viðtali þar sem umsækjanda er gefinn kostur á að lýsa ástæðum flótta síns frá heimaríki. Ákvarðanir Útlendingastofnunar í slíkum málum byggjast m.a. á frásögn umsækjandans og trúverðugleikamati á stöðu hans innan heimaríkis síns og hvernig sú frásögn kemur heim og saman við þær heimildir sem stofnunin miðar við. Í trúverðugleikamati stofnunarinnar er miðað við nýjustu heimildir sem völ er á hverju sinni.

     5.      Við hvaða viðmið styðst Útlendingastofnun við mat á því hvort umsókn sé bersýnilega tilhæfulaus?
    Í b-lið 1. mgr. 29. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, er mælt fyrir um forgangsmeðferð þegar umsókn telst m.a. bersýnilega tilhæfulaus. Samkvæmt ákvæðinu telst umsókn bersýnilega tilhæfulaus þegar útlendingur hefur ríkisfang í ríki þar sem ekki er talið að hann þurfi að óttast ofsóknir eða meðferð sem fellur undir ákvæði 37. gr. laganna. Sama á við um ríki þar sem ríkisfangslaus einstaklingur hefur áður haft aðgang að vernd. Þá telst umsókn jafnframt bersýnilega tilhæfulaus þegar senda má útlending til ríkis þar sem hann þarf ekki að óttast ofsóknir eða meðferð sem fellur undir ákvæði 37. gr. laganna. Við mat á því hvort umsókn um alþjóðlega vernd telst bersýnilega tilhæfulaus er Útlendingastofnun heimilt að styðjast við lista stofnunarinnar yfir ríki sem almennt eru álitin örugg upprunaríki, sbr. 2. mgr. 29. gr. laganna.
    Ákvæði b-liðar 1. mgr. 29. gr. laga um útlendinga um forgangsmeðferð er undantekning frá þeirri meginreglu að umsækjandi um alþjóðlega vernd eigi rétt á hefðbundinni meðferð umsóknar. Útlendingastofnun beitir því þröngri túlkun við mat á því hvort beita eigi umræddri forgangsmeðferð. Þá er sérstakt tillit tekið til þeirra umsækjenda sem teljast vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu við mat á því hvort rétt sé að beita forgangsmeðferð.
    Loks er ráðherra heimilt skv. 3. mgr. 29. gr. laga um útlendinga að setja í reglugerð nánari skilyrði fyrir því að beita megi forgangsmeðferð samkvæmt greininni. Skv. 4. gr. reglugerðar nr. 775/2017, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, telst umsókn bersýnilega tilhæfulaus, óháð því hvort útlendingur komi frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki, þegar hún byggist á öðrum málsástæðum en þeim sem átt geta undir 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, t.d. atvinnuleysi, húsnæðisskorti, örbirgð eða öðrum efnahagslegum ástæðum, eða málsástæðum sem byggjast á fjarstæðukenndri frásögn. Komi útlendingur á hinn bóginn frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki telst umsókn bersýnilega tilhæfulaus þegar hún byggist á:
     1.      því að fullnægjandi vernd yfirvalda í heimaríki sé ekki til staðar,
     2.      einstaklingsbundnum líkamsárásum, hótunum, ógnunum eða deilum sem ekki geta talist kerfisbundnar,
     3.      því að fullnægjandi aðstoð og aðgengi að heilbrigðisaðstoð í heimaríki sé ekki til staðar, enda hafi þegar verið tekið mið af heilbrigðisaðstæðum við mat á því hvort upprunaríki teljist öruggt, eða
     4.      öðrum málsástæðum sem telja má ótrúverðugar með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um heimaríki.

     6.      Hefur framlagning gagna í málum umsækjenda frá öruggum ríkjum áhrif á málshraða? Eru öll gögn þýdd sem lögð eru fram til stuðnings við umsókn einstaklings frá öruggu ríki?
    Umsækjanda um alþjóðlega vernd er heimilt að leggja fram hver þau gögn sem hann telur geta stutt umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi. Tekin er afstaða til þess í einstaklingsbundnu viðtali við umsækjanda hvaða gögn eru til þess fallin að styðja umsóknina með því að umsækjandi er beðinn um að lýsa innihaldi gagnanna. Sjái Útlendingastofnun tilefni til þess að kanna tiltekin gögn frekar eru þau þýdd.
    Ef umsækjandi hefur ekki tiltæk gögn meðferðis en þau eru í búsetuúrræði hans er umsækjanda gefinn sólarhringsfrestur til að leggja gögnin fram. Séu gögn í heimaríki eða á öðrum stað þar sem ætla má að það taki einhvern tíma að nálgast gögnin er umsækjanda veittur sólarhringsfrestur til að sýna fram á tilvist gagnanna. Þegar hann hefur gert það skal ákveðið hvort veita skuli lengri frest svo umsækjandi geti aflað þeirra og þá hversu langan.