Ferill 668. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1133  —  668. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um fæðuöryggi á Íslandi.


Flm.: Þorgrímur Sigmundsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp til að móta stefnu um fæðuöryggi á Íslandi. Í starfshópnum eigi sæti fulltrúar Bændasamtaka Íslands, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Neytendasamtakanna og Samtaka verslunar og þjónustu. Starfshópurinn skili niðurstöðum sínum eigi síðar en 1. desember 2020. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.

Greinargerð.

    Mikilvægt er nú sem áður að tryggja fæðuöryggi í landinu. Ríkisstjórnin þarf að móta stefnu um fæðuöryggi á Íslandi ef til þess kæmi að landið lokaðist fyrir vöruflutningum. Innviðir verða að geta staðist neyðarástand hvenær sem er, t.d. vegna eldgoss eða heimsfaraldurs. Hið mikla óvissuástand sem nú er uppi sýnir hve nauðsynlegt er að hafa áætlun á takteinum til að tryggja fæðuöryggi landsmanna.
    Umræða um fæðuöryggi er ekki ný af nálinni. Árið 1996 stóð Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna að ríkjaþingi um fæðuöryggi. Þar var samþykkt svonefnd Rómaryfirlýsing þar sem segir að fæðuöryggi sé tryggt þegar allir hafa raunverulegan og efnahagslegan aðgang hvenær sem er að heilnæmum og næringarríkum mat í nægilegu magni sem gerir þeim kleift að lifa virku og heilsusamlegu lífi. Til að tryggja fæðuöryggi þurfi hver þjóð að gera áætlun eftir efnum og ástæðum til að ná markmiðum sínum um fæðuöryggi, og vinna um leið með öðrum þjóðum nær og fjær við að skipuleggja sameiginlegar aðgerðir til að leysa úr viðfangsefnum sem ógna fæðuöryggi.
    Hér á landi hefur lengi verið kallað eftir stefnu um fæðuöryggi þjóðarinnar. Á búnaðarþingi árið 2009 var samþykkt ályktun um að brýnt væri að fæðuöryggi þjóðarinnar yrði tryggt. Í athugasemdum með ályktuninni var lögð áhersla á að gera heildstæða áætlun um hvernig það mætti gera, því að ekki væri alltaf hægt að treysta á að unnt yrði að flytja inn matvæli eða aðföng til matvælaframleiðslu.
    Í skýrslu nefndar um landnotkun frá árinu 2010 til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kom fram að það væri umhugsunarefni fyrir eyþjóð á borð við Íslendinga hvernig tryggja mætti stöðugleika fæðuframboðs fyrir þjóðina til langframa, enda yrðu allir aðdrættir erfiðleikum háðir við neyðaraðstæður sökum fjarlægðar frá mörkuðum og birgjum. Taldi nefndin rétt að stjórnvöld hrintu af stað stefnumótun um hvernig fæðuöryggi þjóðarinnar yrði tryggt til framtíðar.
    Í svari dómsmálaráðherra (þskj. 402, 239. mál) við fyrirspurn frá Karli Gauta Hjaltasyni á yfirstandandi löggjafarþingi, þar sem m.a. var spurt um birgðastöðu matvæla, kom í ljós að ekki höfðu verið gerðar sérstakar viðbragðsáætlanir um það ef flutningsleiðir til landsins lokuðust skyndilega. Hins vegar hefði þetta verið skoðað árið 2009 vegna heimsfaraldurs inflúensu. Þá hefði komið í ljós að birgðir af matvælum væru almennt frekar litlar. Tíðar skipakomur gerðu það að verkum að ekki þyrfti að liggja á stórum lager. Þá sagði ráðherra að hægt væri að sjá þjóðinni fyrir mat með því sem framleitt væri innan lands.
    Áhugavert er að bera þetta svar dómsmálaráðherra saman við svar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá 149. löggjafarþingi (þskj. 356, 170. mál). Þar sagði einnig að heildarframleiðsla matvæla hér á landi væri umtalsvert meiri en sem næmi fæðuþörf landsmanna. Þau hlutföll væru þó misjöfn milli einstakra tegunda og flokka matvæla. Þá yrði að hafa í huga að innlend framleiðsla byggðist að miklu leyti á innflutningi aðfanga eins og olíu, áburði, fóðri o.fl. Því skipti miklu að erlend viðskipti væru greið en jafnframt þyrfti að huga að aukinni framleiðslu aðfanga til matvælaframleiðslu hér á landi.
    Í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kemur einnig fram að ráðherra hafi skipað verkefnisstjórn til að móta matvælastefnu fyrir Ísland. Þar er þó aðeins með óbeinum hætti drepið á fæðuöryggi og sagt að viðfangsefni sem lúta að fæðuöryggi séu á málefnasviði fleiri ráðherra.
    Að mati flutningsmanna er mikilvægt að ráðist verði strax í mótun stefnu um fæðuöryggi landsmanna. Matvælaframleiðsla á Íslandi er gríðarlega öflug og því ætti að vera hægt að tryggja góðan forða ef til þess kæmi að landinu yrði skyndilega lokað. Því þarf að styðja vel við landbúnað og garðyrkjubændur.