Ferill 552. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1150  —  552. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Elvari Eyvindssyni um ræktarland.


     1.      Hefur ræktarland á Íslandi verið flokkað í gæðaflokka með tilliti til kjörnýtingar? Ef svo er, hvernig?
    Árið 1961 birtu Landmælingar Íslands mælingar á gróðurlendi eftir Íslandskortum í mælikvarðanum 1:100.000. Skipting gróðurlendisins, talin í km2, eftir hæð yfir sjávarmáli, var þessi:

Gróðurlendi Íslands (1961).

Hæð yfir sjó Gróið land Vötn Auðnir Jöklar Samtals
0–200 metrar 13.718 1.786 9.112 88 24.704
201–400 metrar 6.034 213 11.854 300 18.401
401–600 metrar 3.255 458 18.044 411 22.168
Yfir 600 metrar 798 300 25.528 11.123 37.749
Samtals 23.805 2.757 64.538 11.922 103.022

    Í skýrslu Rannsóknarráðs ríkisins frá árinu 1976 er byggt á þessari heimild og ályktað svo um ,“mögulega stærð ræktanlegs lands“: Heildarstærð þess ræktanlega lands, sem gróið er neðan 200 metra, er talin 13.718 km2 og ræktanlegar auðnir 9.112 km2. Af auðnunum er ætlað að hægt sé að breyta 5000 km2 í land sem gefur fullan afrakstur. Ef 20% af þessu landi þarf undir byggingar, vegi og athafnasvæði yrðu um 15.000 km2 ræktanlegs lands til ráðstöfunar.
    Síðan þessi athugun var gerð hefur oftlega verið staðhæft í opinberum gögnum að ræktanlegt land neðan 200 metra sé 15.000 km2 eða 1,5 millj. ha. Þó er rétt að geta þess að Óttar Geirsson ráðunautur taldi árið 1986 að “auðræktanlegt“ land væri um 1 millj. ha eða um tíundi hluti landsins. Í Árnes- og Rangárvallasýslum einum væru um 330 þús. ha af slíku landi.
    Árið 2011 var álitu ráðunautarnir Áslaug Helgadóttir og Jónatan Hermannsson að um 6% landsins væri gott ræktunarland en lítill hluti þess væri þegar ræktaður eða um 1,6% af landinu öllu. Var við þessa afmörkun stuðst við eftirgreindar forsendur:
     1.      Land er neðan 200 metra hæðarlínu. Undantekningar má þó gera, þar sem hefð er fyrir túnrækt ofan hæðarlínunnar.
     2.      Land hefði það djúpan jarðveg að grjót hindri ekki plægingu (25–30 cm).
     3.      Ef um er að ræða mýrlendi, skal vera hægt að ræsa það fram án vandkvæða, en minnt er á að votlendi 2 ha og stærra nýtur verndar.
     4.      Landhalli má ekki vera meiri en 5–10%, háð jarðvegsgerð, til þess að forðast jarðvegsrof (hallatala háð frekari rannsóknum og ákvörðunum).
     5.      Akuryrkjuland skal skilgreina sem slíkt fram á ár- og vatnsbakka en þekja vatnshelgunar síðan lögð yfir til frekari takmörkunar og taki þá af helgunarsvæði vatna og vatnsfalla.
     6.      Sandar og áraurar teljast með, að undanteknum foksöndum og jökulsársöndum, sem liggja undir árflóðum, enda uppfylli þeir önnur skilyrði.
     7.      Vera það samfellt að unnt sé án vandkvæða að rækta hið minnsta 3 ha samfelldar spildur. Skurðir inni í spildum teljast þó ekki rjúfa samfellu.
    Enn fremur hefur landið verið rýnt með tilliti til veðurfarslegra þátta, svo sem nálægð kaldsjávar, vindánauðar og hæðar yfir sjávarmáli, og möguleg nýting áætluð út frá því:

     Möguleg nýting á góðu ræktunarlandi. 1

Flatarstærð
Tún grænfóður bygg og hveiti: 20 þús. ha (einkum sunnan lands)
Tún grænfóður og bygg (of kalt fyrir hveiti): 380 þús. ha (aðrar góðsveitir)
Tún og grænfóður (of kalt fyrir bygg): 200 þús. ha
Samtals: 600 þús. ha

    Talið hefur verið að sé ætlast til að fá kornuppskeru í a.m.k. átta ár af hverjum tíu þá megi rækta korn á um helmingi bújarða á landinu. Öllu Suðurlandi, lágsveitum við Faxaflóa og jafnvel Breiðafjörð og innsveitum norðan lands og austan, enda sé þar skýlt fyrir hafáttinni. Sé krafa um öryggi minnkuð megi rækta korn enn víðar. 2
    Ástæða er til að draga þetta fram til að benda á að þrátt fyrir að Íslendingar nú hagnýti ekki allt land sem hentar til ræktunar sem slíkt þá er það engu að síður fágæt auðlind hér á landi og nemur aðeins um 6% af landinu. Hér við bætist að með náttúruverndarlögum hefur votlendi verið viðurkennt fyrir þá vistkerfisþjónustu sem það veitir, en með því takmarkast möguleikar til ræktunar umtalsvert þar sem mikið af ræktunarlandi verður aðeins hagnýtt með þurrkun þess eða framræslu.
    Þjóðskrá Íslands hefur á undanförnum árum unnið að skrásetningu landeigna, þar á meðal jarða, í þéttbýli og dreifbýli á grundvelli upplýsinga um lóða- og landamerki staðfestra af sveitarfélögum eða sýslumönnum. Nokkur skortur er þó á heildstæðri samræmdri flokkun á landi, svo sem eftir landkostum og nýtingarmöguleikum. Samkvæmt nýlegu mati Þjóðskrár Íslands er þó talið að gott ræktarland sé kringum 6.150 km2 (um 6% af flatarmáli landsins), sem fer þá saman við athugun þeirra Áslaugar og Jónatans. Þetta mat Þjóðskrár byggistt m.a. á athugunum Landbúnaðarháskóla Íslands og Skógræktar ríkisins. Þá má nefna í þessu sambandi að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið heldur utan um allt ræktað land sem nýtur jarðræktarstyrkja og landgreiðslna í tengslum við framkvæmd á búvörusamningum.
    Samkvæmt jarðalögum, nr. 81/2004, skal tryggja svo sem kostur er að land sem vel er fallið til búvöruframleiðslu verði varðveitt til slíkra nota og er óheimilt að taka land sem skipulagt er sem landbúnaðarsvæði eða land sem nýtanlegt er eða nýtt til landbúnaðar, þ.m.t. afrétti, til annarra nota (breyta landnotkun) nema aflað sé leyfis ráðherra. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vinnur nú að reglugerð um vernd landbúnaðarlands, sem hefur verið til kynningar á samráðsvef stjórnvalda, mál nr. 39/2020. Með reglugerðinni er lagt til að sveitarfélögum verði gefin sú leiðbeining að landbúnaðarsvæði verði flokkuð í fjóra flokka. Flokkar 1, 2 og 3 snúa að eiginleikum lands til ræktunar og enn fremur hvort land geti hentað til akuryrkju þótt fleiri þættir komi þar til, svo sem nálægð kaldsjávar og vindánauð auk hæðar yfir sjávarmáli. Land sem ekki er talið fallið til ræktunar fer í flokk 4. Þessir flokkar eru:
     1.      Mjög gott ræktunarland. Land fremur slétt, yfirleitt undir 5% halla og alltaf undir 10%. Jarðvegur frjór og auðveldlega plógtækur og nær laus við grjót, getur þurft að þurrka upp. Mjög gott akuryrkjuland.
     2.      Gott ræktunarland. Land fremur slétt, hallinn yfirleitt undir 10% og alltaf undir 15% . Jarðvegur oft frjósamur en getur verið rýr og þá áburðarfrekur, sums staðar sendinn og þurrlendur. Plógtækur jarðvegur kann að vera allt niður í 25 cm þar sem hann er hvað grynnstur. Stakir hólar, klettar eða dældir kunna að raska samfellu í landi, getur þurft að ræsa fram. Gott akuryrkjuland.
     3.      Blandað ræktunarland. Land þar sem halli getur verið allt að 25%. Hraun, klettar, halli eða annað getur raskað samfellu í landi. Jarðvegur getur verið breytilegur, allt frá því að vera mjög frjór yfir í rýran móajarðveg og lítt gróin melasvæði. Jarðvegur getur verið grýttur. Hentar oft vel til túnræktar og í sumum tilfellum mögulegt til akuryrkju. Landið er yfirleitt gott til beitar eða skógræktar.
     4.      Annað landbúnaðarland. Landbúnaðarland, sem fellur ekki að neinum ofangreindra flokka.
    Gert er ráð fyrir að sveitarstjórnum verði heimilt að flokka landbúnaðarsvæði enn frekar í undirflokka við flokkana fjóra, ef vilji stendur til þess. Við afmörkun þessara flokka var litið til vinnu sérfræðinga Landbúnaðarháskóla Íslands og Steinsholts sf. (nú Eflu verkfræðistofu), en þar hefur um árabil verið unnið að flokkun ræktunarlands einkum með tilliti til akuryrkju. Áréttað skal þó að reglugerðin er enn í vinnslu og á m.a. eftir að vinna úr niðurstöðum samráðs.

     2.      Hvernig er best að varðveita ræktarland til notkunar í framtíðinni?

    Ræktarland verður best varðveitt með hagnýtingu þess til sjálfbærrar landbúnaðarstarfsemi. Ef ekki á að nýta ræktarland í einhvern tíma er mikilvægt að mati Landgræðslunnar að tryggja að gengið verði frá landi þannig að ekki verði rof og losun gróðurhúsalofttegunda frá landinu heldur uppbygging jarðvegs.
    Árið 2017 hófst verkefni sem unnið er í samstarfi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Landgræðslu ríkisins, Landssamtaka sauðfjárbænda og Bændasamtaka Íslands sem kallast Grólind. Markmið verkefnisins er að meta og vakta gróður- og jarðvegsauðlindir Íslands, þróa sjálfbærnivísa og kortlagningu landnýtingar. Þessi vinna mun nýtast við framtíðarstefnumótun á sviði landbúnaðar og landnýtingar.

     3.      Hefur ræktarland verið nýtt undir endurheimt votlendis, skógrækt eða beit?
    Byggðasaga landsins ber með sér að allt gróðurlendi upp á afrétti hefur verið hagnýtt með einum eða öðrum hætti. Má því segja að ræktarlandi hafi í gegnum tíðina verið ráðstafað til allra þeirra nota sem spurt er um. Hvað skógrækt snertir sérstaklega er meðal þess sem lagt er til í téðum reglugerðardrögum að ekki verði alla jafna skipulögð nytjaskógrækt í góðu ræktunarlandi. Þá má líku gilda um endurheimt votlendis en þar hefur þó fremur verið horft til þess, eftir því sem næst verður komist, að leggja áherslu á endurheimt úthaga og beitilanda, sem ræst voru fram á skurðgröfuöldinni í íslenskum landbúnaði fremur en tún og akra bænda.

1    Áslaug Helgadóttir og Jónatan Hermannsson í: Arnór Snæbjörnsson, Drífa Hjartardóttir, Eiríkur Blöndal, Jón Geir Pétursson, Ólafur Eggertsson og Þórólfur Halldórsson: Skýrsla nefndar um landnotkun. Athugun á notkun og varðveislu ræktanlegs lands. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Reykjavík 2010.
2    Jónatan Hermannsson og Kristján Bjarndal Jónsson: „Kornrækt.“ Handbók bænda 47 (1997), bls. 54.