Ferill 684. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1158  —  684. mál.




Fyrirspurn


til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um greiðslur til sauðfjárræktar og nautgriparæktar.

Frá Jóni Steindóri Valdimarssyni.


     1.      Hverjar voru heildargreiðslur til hvers sauðfjárbús á grundvelli samninga um starfsskilyrði sauðfjárræktar árin 2014–2019? Svar óskast sundurliðað eftir árum þar sem fram komi upphæð á hvert sauðfjárbú fyrir sig, sundurgreint eftir heiti þess, viðtakanda greiðslu, póstnúmeri, árum, tegund greiðslna og ærgildum.
     2.      Hverjar voru heildargreiðslur til hvers nautgriparæktanda (viðtakanda greiðslu) á grundvelli samninga um starfsskilyrði nautgriparæktar árin 2014–2019? Svar óskast sundurliðað eftir árum þar sem fram komi upphæð á hvern framleiðanda fyrir sig, sundurgreint eftir heiti bús, viðtakanda greiðslu, póstnúmeri, árum, tegund greiðslna og árskúm.


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.

    Fyrirspurnin er í anda fyrri fyrirspurnar á þskj. 560, 407. máli, en ráðherra taldi sér ekki fært að svara með vísan til þess að upplýsingarnar vörðuðu fjárhagsmálefni einstaklinga sem óheimilt væri að birta skv. 1. og 2. mgr. 50. gr. þingskapa. Síðan svarið barst hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál birt úrskurð í máli 876/2020, þar sem sagði m.a.: „Það er mat úrskurðarnefndarinnar að þrátt fyrir að upplýsingarnar varði greiðslur til lögbýla og þar með fjárhagsmálefni þeirra sem þiggja greiðslur vegna sauðfjárræktar verði ekki talið að upplýsingarnar gefi slíka innsýn í fjármál þeirra sem að rekstrinum standa að rétt sé að takmarka aðgang að upplýsingum um þær og víkja þannig til hliðar upplýsingarétti almennings um ráðstöfun opinberra fjármuna.“ Í því ljósi er fyrirspurnin lögð fram að nýju, með töluverðum viðbótum frá því síðast.