Ferill 683. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1188  —  683. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helgu Jónsdóttur, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Vilmar Frey Sævarsson og Hlyn Ingason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Snorra Olsen ríkisskattstjóra og Elínu Ölmu Arthursdóttur, Jóhönnu Láru Guðbrandsdóttur, Ingvar J. Rögnvaldsson og Jens Þór Svansson frá Skattinum, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra og Þórarin G. Pétursson frá Seðlabanka Íslands, Halldór Benjamín Þorbergsson, Ásdísi Kristjánsdóttur og Davíð Þorláksson frá Samtökum atvinnulífsins, Katrínu Júlíusdóttur, Yngva Örn Kristinsson og Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Drífu Snædal og Henný Hinz frá Alþýðusambandi Íslands, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og Sonju Ýri Þorbergsdóttur frá BSRB, Sigurð Snævarr, Karl Björnsson og Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vilhjálm Bjarnason og Guðmund Ágústsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Þóreyju S. Þórðardóttur, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, Gylfa Jónasson, Ólaf Sigurðsson, Tómas Möller og Agna Ásgeirsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Maríu Jónu Magnúsdóttur og Jón Trausta Ólafsson frá Bílgreinasambandinu, Jóhannes Þór Skúlason og Benedikt S. Benediktsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Benedikt S. Benediktsson frá Samtökum verslunar og þjónustu og Sigríði Mogensen, Sigurð Hannesson og Ingólf Bender frá Samtökum iðnaðarins.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Almannaheill – samtökum þriðja geirans, Alþýðusambandi Íslands, Bílgreinasambandinu, BSRB, Bændasamtökum Íslands, Félagi atvinnurekenda, fjármála- og áhættustýringarsviði Reykjavíkurborgar, Grýtubakkahreppi, Hagsmunasamtökum heimilanna, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Knattspyrnusambandi Íslands, KPMG ehf., Landssamtökum lífeyrissjóða, Landssamtökunum Þroskahjálp, Lúðvík Júlíussyni, orlofssjóði BHM, Öryrkjabandalagi Íslands, PricewaterhouseCoopers ehf., Reykjavíkurborg, Ríkisendurskoðun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samkeppniseftirlitinu, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Seðlabanka Íslands, Sjálfsbjörg – landssambandi hreyfihamlaðra, Skógræktarfélagi Akraness, Skorradalshreppi, Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Viðskiptaráði Íslands.
    Frumvarpið er liður í aðgerðum stjórnvalda vegna þeirra efnahagslegu áfalla sem heimsfaraldur COVID-19 hefur í för með sér. Í frumvarpinu er m.a. kveðið á um valkvæða frestun gjalddaga tiltekinna opinberra gjalda fyrir fyrirtæki í rekstrarvanda, sérstakan barnabótaauka til foreldra, auknar endurgreiðslur virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað, að lækkun bankaskatts verði flýtt og um heimild til að unnt sé að veita lánastofnunum ríkisábyrgð að hluta á lánum til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi. Aðgerðunum er ætlað að aðstoða og vernda fyrirtæki jafnt sem einstaklinga og veita atvinnulífinu viðspyrnu þegar rofar til. Frumvarpið kemur til viðbótar lögum sem Alþingi hefur þegar sett vegna áhrifa faraldursins, svo sem um greiðslu atvinnuleysisbóta á móti skertu starfshlutfalli, sbr. lög nr. 23/2020, og frestun gjalddaga helmings staðgreiðslu og tryggingagjalds, sbr. lög nr. 17/2020.

Efni frumvarpsins.
Frestun gjalddaga (1., 2. og 11. gr.).
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að launagreiðendum verði veitt heimild til að fresta allt að þremur gjalddögum staðgreiðsluskila á tímabilinu 1. apríl til 1. desember 2020 til 15. janúar 2021 með möguleika á greiðsludreifingu þeirrar skuldar sem þannig safnast fram til 15. ágúst 2021. Skilyrði til þess að fá að nýta þetta úrræði eru þau að launagreiðandi hafi orðið fyrir a.m.k. þriðjungssamdrætti í rekstrartekjum yfir heilan mánuð samanborið við sama mánuð árið 2019, hann eigi ekki nægt eigið fé til að sækja sér lánafyrirgreiðslu á almennum markaði né heldur nægt handbært fé til að standa straum af útgjöldum til rekstrar þegar þau falla á gjalddaga, eigið fé hafi við árslok 2019 ekki verið neikvætt um fjárhæð sem nemi meira en helmingi innborgaðs hlutafjár, stofnfjár eða framlags og að launagreiðandi hafi ekki úthlutað arði á árinu 2020 eða úttektir eiganda innan ársins 2020 farið umfram reiknað endurgjald hans til þess tíma. Þá er skilyrði að launagreiðandi sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta eða sektir sem voru á eindaga fyrir árslok 2019 og að hann hafi staðið skil á skattframtölum og lögboðnum fylgiskjölum.
    Sambærileg heimild fyrir frestun á gjalddögum tryggingagjalds er lögð til í 2. gr. frumvarpsins og fyrir frestun fasteignaskatts vegna fasteigna skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga í 11. gr.

Niðurfelling fyrirframgreiðslu og barnabótaauki (3. gr.).
    Í 3. gr. er kveðið á um að tvö bráðabirgðaákvæði bætist við lög um tekjuskatt. Í fyrsta lagi er lagt til að ráðherra verði með reglugerð heimilt að kveða á um niðurfellingu eða takmörkun á skyldu til fyrirframgreiðslu tekjuskatts rekstraraðila á árinu 2020 fram að álagningu opinberra gjalda það ár vegna tekna ársins 2019, sbr. 1.–4. mgr. 112. gr. og 1. mgr. 114. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Nýting heimildarinnar hefur í för með sér að skattgreiðslan frestast fram að álagningu en samkvæmt heimildum nefndarinnar er líklegt að heildarfjárhæð þeirra greiðslna sem frestast geti numið allt að 40 milljörðum kr.
    Í öðru lagi er lagt til að sérstakur barnabótaauki verði greiddur með hverju barni innan 18 ára aldurs. Barnabótaaukinn nemi 40.000 kr. eða 20.000 kr. eftir því hvorum megin tekjumarka samkvæmt ákvæðinu foreldrar lenda miðað við tekjur ársins 2019. Greiðslan teljist ekki til skattskyldra tekna og komi þannig ekki til frádráttar öðrum greiðslum, svo sem bótum úr almannatryggingakerfinu.

Tollafgreiðslugjald og gjalddagar aðflutningsgjalda (4. gr. og c-liður 5. gr.).
    Í 4. gr. er kveðið á um að tvö bráðabirgðaákvæði bætist við tollalög, nr. 88/2005. Í fyrsta lagi er lagt til að heimild tollyfirvalda til innheimtu tollafgreiðslugjalds vegna tollafgreiðslu flugvéla og skipa utan almenns afgreiðslutíma falli niður fram til loka árs 2021.
    Í öðru lagi er kveðið á um að gjalddögum aðflutningsgjalda hjá aðilum sem njóta greiðslufrests á gjöldunum verði fjölgað þannig að í stað þess að gjalddagi hvers tveggja mánaða uppgjörstímabils út árið 2020 sé 15. dagur næsta mánaðar eftir lok tímabilsins verði aðeins helmingur aðflutningsgjalda viðkomandi tímabils á gjalddaga þann dag en helmingur á gjalddaga 5. dag næsta mánaðar á eftir. Samhliða þessu bætist bráðabirgðaákvæði við lög um virðisaukaskatt, sbr. c-lið 5. gr. frumvarpsins, þar sem heimilað verður að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu allan virðisaukaskatt vegna viðkomandi uppgjörstímabils, þótt einungis hluta af gjaldföllnum virðisaukaskatti hafi á þeim tíma verið skilað.

Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu manna á byggingarstað (a- og b-liður 5. gr.).
    Í a-lið 5. gr. frumvarpsins er lagt til að endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts af vinnu við íbúðarhúsnæði verði hækkað tímabundið úr 60% í 100%. Auk þess er lagt til að endurgreiða skuli virðisaukaskatt af vinnu manna á byggingarstað frístundahúsnæðis, auk hönnunar eða eftirlits vegna nýbygginga, endurbóta eða viðhalds íbúðar- og frístundahúsnæðis. Enn fremur nær ákvæðið til vinnu manna vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis.
    Í b-lið ákvæðisins er kveðið á um að einnig megi endurgreiða virðisaukaskatt vegna vinnu manna við húsnæði sem alfarið er í eigu mannúðar- og líknarfélaga, íþróttafélaga, björgunarsveita, landssamtaka björgunarsveita og slysavarnadeila og einstakra félagseininga sem starfa undir merkjum samtakanna, að nánari skilyrðum uppfylltum.
    Ákvæðin eru tímabundin og falla úr gildi 31. desember 2020.

Gistináttaskattur (6. gr.).
    Í 6. gr. frumvarpsins er lagt til að gistináttaskattur falli niður tímabundið á tímabilinu 1. apríl 2019 út árið 2021 auk þess sem lagt er til að gjalddagi gistináttaskatts vegna uppgjörstímabilanna janúar og febrúar 2020 annars vegar og mars og apríl 2020 hins vegar verði 5. febrúar 2022.

Útgreiðsla séreignarsparnaðar (7. og 8. gr.).
    Í 7. gr. er lagt til að allir sem eiga séreignarsparnað skv. II. kafla laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, geti tekið út allt að 12.000.000 kr. á grundvelli umsóknar til vörsluaðila. Heimildin gildir frá 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2020. Fjárhæðin skal greiðast út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum, að frádreginni staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, á 15 mánaða tímabili frá því að beiðni um útgreiðslu er lögð fram hjá vörsluaðila og styttist sá tími hlutfallslega ef um lægri fjárhæð en 12.000.000 kr. er að ræða.
    Þá skal útgreiðsla séreignarsparnaðar samkvæmt ákvæðinu ekki hafa áhrif á bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, greiðslu barnabóta, vaxtabóta eða greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. 22. gr. laga nr. 22/2006. Nýti einstaklingur sér úrræðið hefur það ekki áhrif á rétt hans til að ráðstafa iðgjöldum sem myndast eftir 1. apríl 2020 til öflunar íbúðarhúsnæðis að uppfylltum þeim skilyrðum sem um þá ráðstöfun gilda.
    Í 8. gr. er lagt til að það tímabil sem vörsluaðilum er heimilt að fresta útgreiðslum séreignarsparnaðar, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, verði fært til samræmis við 7. gr. frumvarpsins.

Lækkun bankaskatts (9. gr.).
    Í 9. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæði til bráðabirgða III í lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki falli brott úr lögunum. Ákvæðið kveður á um þrepaskipta lækkun skattsins og brottfall þess verður til þess að sú lækkun sem samkvæmt lögum nr. 131/2019 var ætlað að koma til framkvæmda í þrepum kemur að fullu til framkvæmda á næsta ári.

Skilyrði um rekstrarviðmið sveitarfélaga (10. gr.).
    Í 10. gr. er lagt til að sveitarstjórnum verði heimilt að víkja frá skilyrðum 1. og 2. tölul. 2. mgr. sveitarstjórnarlaga við stjórn sveitarfélagsins árin 2020, 2021 og 2022. Annars vegar er um að ræða það skilyrði að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. séu á þriggja ára tímabili ekki hærri en sem nemur samanlögðum reglulegum tekjum. Hins vegar er um að ræða það skilyrði að heildarskuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum.

Viðbótarlánafyrirgreiðsla og ríkisábyrgð (12. og 13. gr.).
    Í 12. og 13. gr. frumvarpsins, sbr. einnig frumvarp til fjáraukalaga 2020 (695. mál), er lagður grunnur að því að lánastofnanir geti veitt fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru sérstök viðbótarlán með ríkisábyrgð sem nemi allt að helmingi höfuðstóls. Í 12. gr. er lagt til að bráðabirgðaákvæði bætist við lög um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997, um að ríkissjóði verði heimilt að undirgangast ábyrgðarskuldbindingar í tengslum við samning við Seðlabankann um að bankinn veiti slíkum viðbótarlánum fyrirgreiðslu. Í 13. gr. er lagt til að nýtt bráðabirgðaákvæði bætist við lög um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, þar sem bankanum verði veitt heimild til að veita lánastofnunum ábyrgð án viðtöku trygginga til að auðvelda þeim að veita umrædd viðbótarlán enda ábyrgist ríkissjóður skaðleysi Seðlabankans. Um þetta úrræði vísast að öðru leyti til greinargerðar með frumvarpi til fjáraukalaga 2020.

Breytingartillögur nefndarinnar.
Skilyrði til að fresta gjalddaga (1. gr.).
    Við umfjöllun nefndarinnar hafa komið fram sjónarmið um að skilyrði fyrir nýtingu heimildar til að fresta gjalddaga opinberra gjalda, sbr. 1., 2. og 11. gr. frumvarpsins, veiti ekki nægilegt svigrúm og geti takmarkað möguleika á að úrræðin nýtist fyrirtækjum sem raunverulega þurfa á þeim að halda. Við þær aðstæður sem úrræðunum er ætlað að leysa úr, einkum í ljósi mikillar óvissu, sé eðlilegt að eftirlitsaðili hafi svigrúm til að meta aðstæður í ólíkum tilfellum en sé ekki bundinn af nákvæmlega skilgreindum viðmiðum.
    Nefndin leggur til breytingar á 1. gr. frumvarpsins sem miða að því að veita Skattinum aukið svigrúm til þess að meta hvort grunnskilyrði fyrir nýtingu úrræðisins um að launagreiðandi eigi í verulegum rekstrarörðugleikum sem leiðir með beinum eða óbeinum hætti af heimsfaraldri kórónuveiru teljist fullnægt í einstökum tilvikum. Í þessu skyni leggur nefndin til að í 1. mgr. ákvæðisins verði tekið fram að frestun á gjalddaga sé háð því skilyrði að launagreiðandi eigi við verulega rekstrarörðugleika að stríða á árinu 2020 vegna skyndilegs og ófyrirséðs tekjufalls vegna almenns samdráttar innan lands og á heimsvísu.
    Í 2.–4. mgr. ákvæðisins koma m.a. fram kröfur um að launagreiðandi hafi orðið fyrir a.m.k. þriðjungssamdrætti í rekstrartekjum yfir heilan mánuð samanborið við sama mánuð árið 2019, hann eigi ekki nægt eigið fé til að sækja sér lánafyrirgreiðslu á almennum markaði né heldur nægt handbært fé til að standa straum af útgjöldum til rekstrar þegar þau falla á gjalddaga og að eigið fé hafi við árslok 2019 ekki verið neikvætt um fjárhæð sem nemi meira en helmingi innborgaðs hlutafjár, stofnfjár eða framlags. Nefndinni hefur verið bent á tilvik þar sem þessar kröfur myndu útiloka fyrirtæki frá því að nýta heimildina þrátt fyrir að þau þyrftu raunverulega á úrræðinu að halda.
    Nefndin telur að það kynni að fara gegn markmiði laganna um að tryggja að neikvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag vari sem skemmst, og um að reyna eftir fremsta megni að forða lífvænlegum fyrirtækjum frá falli, að útiloka með öllu að fyrirtæki sem kunna að vera á jaðri einhverra framangreindra forsendna geti nýtt úrræði samkvæmt ákvæðinu. Telur nefndin því rétt að framangreindar kröfur verði ekki í lagatextanum. Eftir sem áður telur nefndin ljóst að Skattinum sé heimilt að líta til þeirra krafna sem koma fram í 2.–4. mgr. 1. gr. frumvarpsins við mat á því hvort launagreiðandi teljist uppfylla grunnskilyrðið um verulega rekstrarörðugleika á árinu 2020 vegna skyndilegs og ófyrirséðs tekjufalls. Þannig yrði til að mynda talið að sterk rök þyrftu að koma til svo að launagreiðandi sem auðsjáanlega á nægt handbært fé til að standa straum af útgjöldum til rekstrar þegar þau falla á gjalddaga yrði talinn uppfylla skilyrðið. Hið sama á við um fyrirtæki þar sem samdráttur í mánaðartekjum nemur minna en þriðjungi miðað við sama mánuð árið áður.
    Önnur skilyrði sem talin eru í 1. gr., þ.m.t. um að launagreiðandi sé ekki í vanskilum með opinber gjöld sem voru komin á eindaga í lok síðasta árs og að rekstrarörðugleikar teljist ekki til staðar í skilningi ákvæðisins hafi arður verið greiddur á árinu 2020, telur nefndin rétt að láta standa í ákvæðinu. Nefndin áréttar mikilvægi þess að fyrirtæki séu meðvituð um að vegna eðlis fyrirgreiðslunnar eru sett ströng skilyrði, m.a. um arðgreiðslur. Þá bendir nefndin á að kaup með eigin bréf í félögum séu í raun annað form arðgreiðslna við þessar aðstæður.
    Auk þessa leggur nefndin til nokkrar orðalagsbreytingar á 1. gr. sem miða m.a. að því að skýra kröfu í 5. mgr. um skil á skattframtölum, að heimila Skattinum að óska rökstuðnings fyrir því að um verulega rekstrarörðugleika sé að ræða, svo sem með hliðsjón af lækkun á virðisaukaskattskyldri veltu, og að fram verði tekið að Skattinum sé heimilt að hafna umsókn um greiðslufrestun telji hann skilyrðum ákvæðisins ekki fullnægt. Þá verði tekið fram að við mat á því hvort viðbótargreiðslufrestur frá 15. janúar 2021 verði veittur skuli m.a. líta til virðisaukaskattsskila umsækjanda á árinu 2020 og umfangs starfsemi hans að öðru leyti.
    Loks leggur nefndin til að breytingar verði gerðar á vísunum í 2. og 11. gr. frumvarpsins til 1. gr., m.a. til samræmis við breytta 1. gr. Nefndin vekur athygli á að sömu sjónarmið og framan greinir um heimildir Skattsins til eftirfylgni með ákvæði 1. gr. gilda um heimildir sveitarfélaga til að afgreiða óskir um greiðslufrestun skv. 1. efnismgr. 11. gr. frumvarpsins. Þannig geta sveitarfélög, við mat á því hvort aðili sem óskar frestunar teljist eiga við tímabundna rekstrarörðugleika að stríða vegna tekjufalls, haft hliðsjón af sömu forsendum og við á um eftirlit Skattsins. Sveitarfélög geta einnig krafist nauðsynlegra gagna og upplýsinga til að leggja mat á það enda gilda sömu málsmeðferðarreglur líkt og fram er tekið í 11. gr. Með sama hætti og breytingum nefndarinnar á 1. gr. er ætlað að auka svigrúm Skattsins til heildstæðs mats á aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig, en ekki rýmka gildissvið ákvæðisins þannig að fyrirtæki sem ekki þarf á fyrirgreiðslu að halda geti nýtt það, hefur breytingin í för með sér að svigrúm sveitarfélaga til að meta óskir um greiðslufrestun eykst án þess að takmarka möguleika þeirra á að líta til þeirra viðmiða sem talin eru í 2.– 4. mgr. frumvarpsins eins og það var lagt fram.

Frestun gjalddaga helmings staðgreiðslu og tryggingagjalds.
    Með lögum nr. 17/2020 sem samþykkt voru á Alþingi 13. mars sl. var gjalddaga helmings þeirrar staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds sem var á gjalddaga 1. mars 2020 frestað um mánuð. Sá hluti greiðslna sem frestaðist er á gjalddaga 1. apríl næstkomandi samkvæmt ákvæðinu og eindaga 14 dögum síðar. Ljóst er að grundvallarmáli skiptir fyrir mörg þeirra fyrirtækja sem nýttu úrræðið að kostur verði gefinn á frekari frestun þessarar greiðslu. Jafnframt er ljóst að ekki dugir að líta svo á að hinn frestaði hluti falli innan gjalddaga 1. apríl sem heimilt er að fresta samkvæmt ákvæðum 1. og 2. gr. frumvarpsins þar sem þrengri skilyrði eru fyrir frestun á grundvelli þeirra en var samkvæmt lögum nr. 17/2020. Þá væri óeðlilegt að gera þá kröfu að sækja þyrfti um frestun á staðgreiðslu og tryggingagjaldi sem eru á gjalddaga 1. apríl samkvæmt almennum reglum til að fresta mætti þeim helmingi gjaldanna sem eru á gjalddaga 1. apríl á grundvelli laga nr. 17/2020.
    Til að leysa framangreindan vanda með sem einföldustum hætti telur nefndin farsælast að við frumvarpið bætist greinar þar sem kveðið verði á um þær breytingar á bráðabirgðaákvæði VI í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda annars vegar og bráðabirgðaákvæði X í lögum um tryggingagjald hins vegar að í stað 1. apríl 2020 verði gjalddagi ákveðinn 1. janúar 2021. Eindagi gjaldanna verður þar með 15. janúar 2021 í stað 15. apríl 2020.

Fyrirframgreiðsla tekjuskatts (a-liður 3. gr.).
    Nefndin leggur til orðalagsbreytingu á ákvæði a-liðar 3. gr. til samræmis við umfjöllun um ákvæðið í greinargerð með frumvarpinu þannig að ráðherra geti ekki eingöngu ákveðið að fella fyrirframgreiðslu skv. 112. gr. tekjuskattslaga niður heldur einnig að lækka hana. Nefndin bendir á að við beitingu heimildarinnar er mikilvægt að tryggja að þeim aðilum sem ekki þurfa á fyrirgreiðslu að halda verði áfram unnt að greiða á þeim gjalddögum sem fram undan eru að óbreyttu, eins og ekkert hafi í skorist.

Barnabótaauki (b-liður 3. gr.).
    Sú útfærsla á greiðslu barnabótaauka sem lögð er til í b-lið 3. gr. frumvarpsins sætti gagnrýni við umfjöllun nefndarinnar, m.a. vegna óskýrleika og þess að sú tekjutenging sem gert var ráð fyrir leiddi í mörgum tilvikum til óeðlilegrar niðurstöðu.
    Nefndin leggur til breytingu á ákvæðinu þannig að kveðið verði á um að við álagningu opinberra gjalda 2020 skuli til viðbótar almennum barnabótum skv. A-lið 68. gr. annars vegar greiða sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 42.000 kr. með hverju barni til þeirra sem fá greiddar barnabætur og hins vegar skuli greiða þeim sem ekki eru ákvarðaðar barnabætur vegna tekjuskerðingar sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 30.000 kr. með hverju barni. Í ákvæðinu verði tekið skýrt fram að sérstakur barnabótaauki teljist ekki til skattskyldra tekna og leiði ekki til skerðingar annarra tekna, svo sem bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá verði barnabótaauka ekki skuldajafnað á móti vangreiddum gjöldum eða meðlögum. Ráðherra verði heimilt að kveða nánar á um framkvæmd ákvæðisins í reglugerð.
    Kostnaður ríkissjóðs af aðgerðinni miðað við breyttar forsendur nefndarinnar um tekjutengingu annars vegar og fjárhæð barnabótaaukans hins vegar er áætlaður um 3 milljarðar kr. Miðað við þær forsendur sem lagt var upp með í frumvarpinu var gert ráð fyrir 2,7 milljörðum kr. til þessarar aðgerðar.
    Innan nefndarinnar komu fram þau sjónarmið að við þessar aðstæður væri rétt að víkja frá þeirri meginreglu barnabótakerfisins að bætur væru tekjutengdar miðað við tekjur foreldra. Þá var einnig bent á að vegna aðstæðna væri erfitt að segja til um hvort þeir sem hefðu fallið í tiltekin tekjubil á síðasta ári hefðu enn tekjur í sama mæli eða hvort þeir hefðu enn fulla atvinnu.

Aðflutningsgjöld (b-liður 4. gr.) og heimild til færslu innskatts (c-liður 5. gr.).
    Með b-lið 4. gr. frumvarpsins er lagt til að aðilum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum verði til ársloka 2020 heimilað að dreifa hverri greiðslu á tvo gjalddaga. Að teknu tilliti til umsagna um framangreinda tillögu og að höfðu samráði við ráðuneytið leggur nefndin til að miða skuli alfarið við seinni gjalddagann, þ.e. fimmta dag annars mánaðar eftir lok hvers tveggja mánaða uppgjörstímabils. Með því móti verði enn frekar komið til móts við innflytjendur vegna greiðslu aðflutningsgjalda af vörum sem eru tollafgreiddar frá mars 2020 og til ársloka. Gjalddagi aðflutningsgjalda fyrir janúar og febrúar var 15. mars og mun breytingin því fyrst koma til vegna uppgjörstímabilsins mars og apríl. Gjalddagi þess tímabils verður því 5. júní næstkomandi. Með breytingunni verður innflytjendum því veittur 20 daga aukinn frestur til að skila virðisaukaskatti í tolli (tollkrít) vegna innflutnings.
    Samhliða þessari breytingu leggur nefndin til breytingu á c-lið 5. gr. frumvarpsins þannig að heimilt verði að færa virðisaukaskatt viðkomandi uppgjörstímabils vegna tollafgreiðslu til innskatts eftir almennum reglum virðisaukaskattslaga þrátt fyrir að gjaldföllnum virðisaukaskatti sem lagðist á við tollafgreiðslu hafi á þeim tíma ekki verið skilað.
    Af breytingunni leiðir að gjalddagi virðisaukaskatts í tolli vegna innflutnings og gjalddagi virðisaukaskatts af viðskiptum innan lands vegna sama uppgjörstímabils mætast. Sé innskattur hærri en útskattur þannig að gjaldandi eigi rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts verður unnt að skuldajafna henni á móti gjaldföllnum virðisaukaskatti í tolli vegna innflutnings. Þó skal það áréttað að breytingunni er ekki ætlað að breyta forgangsröðun skatta og gjalda, sbr. reglur nr. 797/2016, um greiðsluforgang og skuldajöfnun skatta og gjalda.

Aðgerðir vegna komandi gjalddaga virðisaukaskatts.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að við núverandi aðstæður væri þörf á því að koma til móts við atvinnulífið með öflugri aðgerðum en lagðar eru til í frumvarpinu. Líta þyrfti til þess að næsti gjalddagi virðisaukaskatts væri 6. apríl.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til að tvö ný bráðabirgðaákvæði bætist við lög um virðisaukaskatt. Annars vegar er lagt til að á árinu 2020 skuli gildisdagur þeirra inneignarskýrslna sem er skilað á tilskildum tíma vera sá sami og gjalddagi viðkomandi uppgjörstímabila. Breytingartillögunni er ætlað að tryggja að inneign samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu sem berst fyrir og á gjalddaga og sætir venjubundinni afgreiðslu fái sama gildisdag og gjalddagi uppgjörstímabilsins. Með því móti reiknast ekki vextir á virðisaukaskatt í tolli sem er ógreiddur á gjalddaga ef inneign er til staðar sem hægt er að skuldajafna á móti honum.
    Hins vegar er lagt til að á ótvíræðan hátt verði kveðið á um að í ljósi aðstæðna skuli Skattinum heimilt að fella niður álag vegna vanskila á virðisaukaskatti, sbr. 27. gr. laga um virðisaukaskatt, samkvæmt tilmælum eða að höfðu samráði við ráðherra vegna uppgjörstímabila ársins 2020. Samkvæmt ákvæðinu skal aðili sæta 1% álagi fyrir þá fjárhæð sem vangreidd er fyrir hvern dag eftir gjalddaga upp að 10%. Því er ljóst að miklir hagsmunir geta verið í húfi fyrir þá aðila sem ekki sjá fram á að geta skilað virðisaukaskattinum að fullu á komandi gjalddaga.
    Mikil umræða varð í nefndinni um hvort þær aðgerðir til greiðslufrests á opinberum gjöldum myndu veita fyrirtækjum í miklum rekstrarvanda nægjanlegt skjól. Ljóst er að nokkur tími líður áður en sér til lands í þeirri efnahagslegu óvissu sem fylgt hefur útbreiðslu veirunnar og nauðsynlegt er að stjórnvöld sýni einbeittan vilja til aðstoðar. Fjármálaráðuneyti og skattyfirvöld hafa í samtölum við nefndina lýst miklum vilja til að beita þeim úrræðum sem til staðar eru til að koma til móts við þau fyrirtæki sem þurfa á greiðslufresti að halda vegna þessa. Nefndin vill í því samhengi árétta mikilvægi þess að ráðherra beini þeim tilmælum til Skattsins að álag verði ekki lagt á vanskil á virðisaukaskatti á gjalddaga í apríl. Jafnframt verði ákvæði 12. greinar laga um innheimtu opinberra gjalda, nr. 150/2019, beitt til greiðsludreifingar á opinberum gjöldum eftir því sem frekast er unnt fyrir þau fyrirtæki sem á slíkum stuðningi þurfa að halda. Æskilegt væri að Skatturinn gæti boðið upp á rafræna umsókn um greiðsluáætlun í samræmi við ákvæði laganna.
    Enn fremur vill nefndin árétta mikilvægi þess að ekki verði beitt hörðum innheimtuaðgerðum af hálfu hins opinbera næstu mánuði þar til skýrari mynd kemst á umfang efnahagsáhrifa vegna faraldurs kórónuveirunnar og frekari aðgerðir stjórnvalda vegna þeirra.

Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu við viðhald ökutækja (a-liður 5. gr.).
    Í umsögn Bílgreinasambandsins um frumvarpið hvatti sambandið til þess að viðhald ökutækja yrði fellt undir a-lið 5. gr. þar sem heimilaðar eru endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna vinnu manna við íbúðar- og frístundahúsnæði. Vísaði sambandið til þess að þegar ákvæðið hefði fyrst komið fram eftir efnahagshrunið 2008 hefði mátt koma í veg fyrir aukið atvinnuleysi í bílgreinum með því að fella einnig viðhald ökutækja undir heimild til endurgreiðslu. Hins vegar hefði ekki verið tekið tillit til viðhalds ökutækja með þeim afleiðingum að mikill fjöldi fólks í bílgreinum missti vinnuna á sama tíma og verkin færðust inn í svart hagkerfi. Nú störfuðu um 4.000 manns innan bílgreina og með þessari aðgerð væri líklegt að draga mætti úr uppsögnum auk þess sem tekjur skiluðu sér áfram til ríkisins í formi tekjuskatts og virðisaukaskatts af sölu varahluta.
    Nefndin telur góð rök standa til þess að heimilt verði að sækja um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við bifreiðaviðgerðir sem fer fram á því tímabili sem ákvæðið tekur til að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum og leggur til breytingu á a-lið 5. gr. frumvarpsins í því skyni. Leggur nefndin til að endurgreiðsla virðisaukaskatts taki einnig til vinnu við bifreiðaviðgerðir, bílasprautun (bílamálun) og bílaréttingar (bifreiðasmíði). Einstaklingur utan rekstrar geti sótt um slíka endurgreiðslu vegna vinnu við einkabifreiðar sem ekki eru nýttar í atvinnuskyni. Ekki er gert ráð fyrir því að heimild til endurgreiðslu taki til smurþjónustu eða hjólbarðaviðgerða. Gert er ráð fyrir því að heimilt verði að endurgreiða virðisaukaskatt vegna reikninga þar sem þáttur vinnu er að lágmarki 25.000 kr. án virðisaukaskatts og að rétt til endurgreiðslu eigi skráður eigandi þeirrar bifreiðar sem veitt er viðhald.
    
Viðbótarlán með ríkisábyrgð (12. og 13. gr.).
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis til nefndarinnar eru lagðar til breytingar á 12. og 13. gr. frumvarpsins, sem og lið 7.32 í 4. gr. frumvarps til fjáraukalaga 2020. Leggur ráðuneytið til að í stað þess að í 12. gr. verði kveðið á um heimild ríkissjóðs til að undirgangast ábyrgðir í tengslum við samning við Seðlabankann um að bankinn veiti fyrirgreiðslu til lánastofnana til að auðvelda viðbótarlán til fyrirtækja verði í ákvæðinu gert ráð fyrir að ríkissjóði sé heimilt að undirgangast ábyrgðarskuldbindingar gagnvart lánastofnunum vegna viðbótarlánanna og að fjármála- og efnahagsráðherra verði heimilt að semja við Seðlabankann um að annast framkvæmdina gagnvart lánastofnunum. Samhliða þessari breytingu falli 13. gr. frumvarpsins brott.
    Að auki leggur ráðuneytið til að við 12. gr. bætist tvær nýjar málsgreinar sem kveði á um að ráðherra skipi nefnd sem hafi eftirlit með framkvæmd ákvæðisins og nánari atriði sem nefndina varða, svo sem um hæfni og skipun nefndarmanna, rétt nefndarinnar til upplýsingaöflunar og skyldu hennar til að skila skýrslu til ráðherra um framkvæmdina á sex mánaða fresti sem ráðherra leggi fyrir Alþingi.
    Nefndin telur breytingarnar sem ráðuneytið leggur til vera til batnaðar og telur mikilvægt að eftirlitsnefnd með framkvæmd viðbótarlána með ríkisábyrgð verði komið á fót. Nefndin leggur til að 13. gr. frumvarpsins falli brott og að 12. gr. orðist með þeim hætti sem ráðuneytið leggur til. Að auki leggur nefndin til að í 1. mgr. 12. gr. komi fram að í samningi milli ráðherra og Seðlabankans um framkvæmd ákvæðisins skuli kveða á um grunnskilyrði um viðbótarlán með ábyrgð ríkisins, m.a. um að lántaki greiði ekki arð eða kaupi eigin hluti á meðan ríkisábyrgðar nýtur við.

Innheimta vaxta af vangreiddum iðgjöldum.
    Í umsögn sinni um málið bentu Landssamtök lífeyrissjóða á að margir iðgjaldsgreiðendur væru nú þegar í vanda við að standa skil á iðgjöldum fyrir sína starfsmenn. Um vexti af vangreiddum iðgjöldum færi samkvæmt samþykktum viðkomandi lífeyrissjóðs þar sem í mörgum tilvikum kæmi fram að af vangreiddum iðgjöldum skyldi innheimta dráttarvexti eða vanskilavexti í samræmi við ákvæði laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Lífeyrissjóðir hefðu því takmarkað svigrúm til að innheimta lægri vexti án þess að gera breytingar á samþykktum sínum en til þess þyrfti að kalla saman sjóðsfélagafund. Því hefðu komið fram sjónarmið um að æskilegt væri að lífeyrissjóðum væri gert kleift að innheimta lægri vexti vegna vanskila án þess að það krefðist breytinga á samþykktum. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til að bráðabirgðaákvæði verði bætt við lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, sem heimili stjórn lífeyrissjóðs að setja reglur um innheimtu lægri vaxta vegna iðgjalda sem eru komin fram yfir eindaga. Heimildin taki til iðgjaldstímabils frá 1. janúar 2020 til 1. janúar 2021.

Undirritun og þinglýsing viðauka við verðbréf vegna faraldurs kórónuveiru.
    Í tengslum við samkomulag lánveitenda um tímabundinn greiðslufrest á lánum fyrirtækja, sem nánar verður fjallað um í sérstökum kafla hér á eftir, hafa margir lánveitendur brugðist við þeim aðstæðum sem skapast hafa vegna kórónuveirufaraldursins með því að bjóða upp á tímabundna frestun á greiðslum af lánum fyrirtækja. Meðal lánastofnana er lögð áhersla á að hafa skilmálabreytingar eins einfaldar og mögulegt er í framkvæmd og segir í samkomulaginu að greiðslur vaxta og afborgana sem frestað hafi verið skuli leggjast við höfuðstól og skuli samningstíminn lengjast sem nemi fjölda afborgana sem frestað hafi verið. Sé um að ræða skuldir án gjalddaga frestist greiðsla til loka samningstíma samkomulagsins, þ.e. 30. júní 2020. Þá segir að greiðslur sem frestað hafi verið skuli bera sömu vexti og upphafleg skuld. Gerir nefndin ráð fyrir því að skilmálabreytingar á lánum einstaklinga verði með svipuðum hætti.
    Framangreindum skilmálabreytingum mun óhjákvæmilega fylgja mikil skjalafjöld sem að óbreyttu þyrfti að undirrita með eiginhandarundirritun og þinglýsa. Nefndin telur ljóst að slíkt geti verið nær ómögulegt í framkvæmd þegar þúsundir einstaklinga sæta sóttkví eða einangrun auk þess sem samkomubann og aðrar ráðstafanir stjórnvalda miða að því að takmarka samneyti fólks. Nefndin telur því æskilegt að skilmálabreytingar geti að mestu farið fram með fullgildum rafrænum undirskriftum en beinir því einnig til lánastofnana að leita lausna og leiðbeina fólki sem ekki hefur rafræn skilríki.
    Þar sem ekki er hægt að þinglýsa skjölum sem hafa verið undirrituð rafrænt leggur nefndin til að við þinglýsingalög bætist ákvæði til bráðabirgða sem mæli fyrir um að viðaukar við veðbréf sem þannig eru undirritaðir, þar sem kröfuhafi er opinber stofnun, viðskiptabanki, sparisjóður eða lánastofnun, skuli hafa sömu réttaráhrif og ef þeim væri þinglýst og þeir samþykktir af síðari veðhöfum. Skilyrði fyrir því að viðauki öðlist slíkt gildi er að í honum sé eingöngu mælt fyrir um frestun greiðslna á skuldum einstaklinga eða fyrirtækja, þar með talið vöxtum og afborgunum, í allt að níu mánuði, og að hann sé gerður á tímabilinu frá og með 16. mars 2020 til og með 1. september 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Er því gert ráð fyrir því að viðauki sem mæli fyrir um önnur skilyrði en frestun greiðslna öðlist ekki slík réttaráhrif án þinglýsingar og samþykkis síðari veðhafa.
    Þar sem um tímabundið ástand er að ræða og mikilvægt að tryggja áreiðanleika veðbóka telur nefndin eðlilegt að skylt verði að þinglýsa þeim viðaukum sem ákvæðið fjallar um fyrir 16. mars 2021. Þannig verði unnt að tryggja grandvísi þriðja aðila til lengri tíma litið. Jafnframt leggur nefndin til að bráðabirgðaákvæði bætist við lög um samningsveð, nr. 78/1997, þess efnis að framangreint ákvæði gangi framar ákvæðum þeirra laga.
    Nefndin bendir á að skv. 5. gr. laga um samningsveð eru kröfur um kostnað, sem veðhafi hefur af innheimtu veðkröfu, og vexti af skuldum, sem fallið hafa í gjalddaga á einu ári áður en beiðni um nauðungarsölu veðsettrar eignar var sett fram, tryggðar með aðalkröfunni. Verði lánveitendur ekki við beiðni lántaka um tímabundna frestun greiðslna vegna heimsfaraldurs kórónuveiru er erfitt að sjá að það geti það leitt til annars en að síðari veðhafar yrðu verr settir en ef afborgunum hefði verið frestað og vöxtum bætt við höfuðstól. Í síðarnefnda tilvikinu yrðu hinar ógreiddu afborganir ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði tryggðar með aðalkröfunni ef til nauðungarsölu kæmi, án vitneskju síðari veðhafa eða grandlauss þriðja aðila um stöðu lánsins. Af þessu leiðir að það að viðauki við veðbréf öðlist við rafræna undirritun tímabundið sömu áhrif og hafi honum verið þinglýst og hann samþykktur af síðari veðhöfum getur ekki talist brjóta í bága við eignarrétt síðari veðhafa.

Réttindi fiskverkafólks til hlutaatvinnuleysisbóta.
    Nefndinni barst ábending frá velferðarnefnd um að fella þyrfti brott ákvæði 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XIII í lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, til þess að tryggja að fiskvinnslufólk hefði sama rétt til atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli og annað launafólk á tímabilinu 15. mars 2020 til 1. júní 2020. Í 6. mgr. ákvæðisins kemur fram að það eigi ekki við um launamenn sem njóti réttar til kauptryggingar og starfi hjá vinnuveitanda sem eigi rétt á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði í tímabundinni vinnslustöðvun á grundvelli laga um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.
    Í nefndaráliti velferðarnefndar um frumvarpið, þar sem kveðið var á um að bráðabirgðaákvæðið (664. mál), kom m.a. fram um 6. mgr. ákvæðisins: „Nefndin hefur verið fullvissuð um að launafólk sem heyrir undir þessi lög verði ekki verr sett en annað launafólk eftir gildistöku þessa frumvarps. Þetta megi eftir atvikum tryggja með breytingu á reglugerð nr. 556/2004 þannig að fyrirtækjum í sjávarútvegi verði búnir sambærilegir möguleikar til rekstrarákvarðana og fyrirtækjum í öðrum atvinnugreinum. Nefndin telur þennan skilning vera forsendu þess að ákvæði 6. mgr. a-liðar 1. gr. frumvarpsins eigi rétt á sér.“
    Í kjölfar gildistöku framangreinds bráðabirgðaákvæðis hefur komið í ljós að ekki sé hægt með reglugerðarbreytingu að tryggja að launafólk í fiskvinnslu verði eins sett og aðrir sem nýta sér framangreint úrræði um hlutaatvinnuleysisbætur. Nefndin tekur undir ábendingu velferðarnefndar þess efnis að mikilvægt sé að samræma réttindi launamanna hvað þetta varðar og leggur til að fiskvinnslufólki verði heimilt að sækja um greiðslu atvinnuleysisbóta vegna minnkaðs starfshlutfalls á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XIII við lög um atvinnuleysistryggingar líkt og öðru launafólki. Leggur nefndin því til að 6. mgr. ákvæðisins falli brott.
    Í ljósi framangreinds leggur nefndin jafnframt til að bráðabirgðaákvæði verði bætt við lög um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks þar sem fram verði tekið að hafi vinnuveitandi nýtt sér úrræðið um hlutaatvinnuleysisbætur og starfsmaður fengið atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli geti vinnuveitandi ekki nýtt heimildir laga um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks til greiðslna úr sjóðnum. Bráðabirgðaákvæðið falli úr gildi 31. desember 2020.

Frestun launahækkana kjörinna fulltrúa.
    Í samræmi við tilkynningu frá Stjórnarráðinu sem gefin var út 27. mars 2020 leggur nefndin til að við lög nr. 79/2019, þar sem kveðið er á um launafyrirkomulag tiltekinna hópa, m.a. þjóðkjörinna fulltrúa, bætist bráðabirgðaákvæði um að hækkun launa þeirra sem falla undir II.–VII. kafla laganna, þ.e. alþingismanna, ráðherra, ráðuneytisstjóra, dómara, saksóknara, lögreglustjóra, seðlabankastjóra og ríkissáttasemjara, sem koma á til framkvæmda 1. júlí 2020, verði frestað til 1. janúar 2021. Nefndin telur að þessi frestun sé bæði eðlileg og sanngjörn í ljósi aðstæðna í íslensku efnahagslífi.

Sérstök eingreiðsla til öryrkja.
    Nefndin leggur til að við lög um almannatryggingar, nr. 100/2007, bætist bráðabirgðaákvæði þess efnis að sérstaka eingreiðslu að fjárhæð 20.000 kr. skuli greiða örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum eigi síðar en 1. júní 2020. Eingreiðslan skuli ekki teljast til skattskyldra tekna greiðsluþega og ekki leiða til skerðingar annarra greiðslna.

Umfjöllun nefndarinnar.
Heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við húsnæði.
    Nefndin hefur orðið vör við að misskilnings gæti um inntak a-liðar 5. gr. frumvarpsins hvað varðar rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við byggingu, viðhald og endurbætur við íbúðar- og frístundastundahúsnæði, sem og hönnun og eftirlit í tengslum við þær framkvæmdir. Nefndin áréttar því að allir sem byggja eða standa að viðhaldi eigin íbúðar- og frístundahúsnæðis á umræddu tímabili geta sótt um endurgreiðslu af þeirri vinnu sem veitt er á tímabilinu. Ákvæðið nær ekki eingöngu til einstaklinga en skilyrði er að ekki sé um að ræða húsnæði sem nýtt verður í virðisaukaskattsskylda starfsemi. Því geta t.d. orlofssjóðir stéttarfélaga og leigufélög nýtt heimildina sem felst í a-lið 5. gr. frumvarpsins í tengslum við byggingu eða endurbætur á íbúðar- eða frístundahúsnæði í þeirra eigu.

Hlutaatvinnuleysisbætur einstaklinga sem starfa samkvæmt tímabundnu atvinnuleyfi.
    Í umsögn frá Samtökum atvinnulífsins segir að greiðslur atvinnuleysisbóta samhliða skertu starfshlutfalli, sbr. ákvæði til bráðabirgða XIII við lög um atvinnuleysistryggingar, komi ekki til með að nýtast starfsfólki sem er með tímabundið atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, jafnvel þótt það hafi starfað hér á landi árum saman og greitt hafi verið tryggingagjald vegna þess. Nefndin áréttar að skv. 5. mgr. umrædds bráðabirgðaákvæðis er heimilt að greiða bætur á móti minnkuðu starfshlutfalli þótt launamaður teljist ekki tryggður í skilningi laganna. Nefndin leitaði af þessu tilefni eftir afstöðu félagsmálaráðuneytisins og Vinnumálastofnunar og hefur fengið staðfest að ekkert komi í veg fyrir að starfsmenn sem starfa samkvæmt tímabundnu atvinnuleyfi geti nýtt sér úrræðið og hlotið atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli að öðrum skilyrðum ákvæðisins uppfylltum.

Átaksverkefni sveitarfélaga.
    Í aðgerðalista Sambands íslenskra sveitarfélaga til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf er því beint til sveitarfélaga að skilgreina og bjóða allt að 1.000 störf í atvinnuátaksverkefnum í samvinnu við Atvinnuleysistryggingasjóð. Hugað verði sérstaklega að því að ný störf vegna verkefnisins henti konum og fólki af erlendum uppruna. Nefndin hvetur Vinnumálastofnun og sveitarfélögin eindregið til þess að eiga slíkt samstarf um að skapa störf. Nefndin hvetur sveitarfélögin jafnframt til að bregðast við aðstæðum með lækkun gjalda og greiðslufresti. Mikilvægt er að hugað sé sérstaklega að stöðu fyrirtækja og atvinnuleitenda. Telji sveitarfélögin sig ekki hafa nauðsynlegar lagaheimildir til að grípa til aðgerða er nefndin reiðubúin til að eiga samvinnu við sveitarfélögin í þeim efnum.

Lækkun bankaskatts.
    Í frumvarpinu er lagt til að lækkun bankaskatts verði flýtt miðað við þá þrepaskiptingu lækkunar sem samþykkt var á Alþingi 4. desember 2019, sbr. lög nr. 131/2019. Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um lækkunina kom m.a. fram: „Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að unnið verði að frekari skilvirkni í fjármálakerfinu með það að leiðarljósi að lækka kostnað neytenda. Ljóst er að heimili og fyrirtæki greiða a.m.k. stóran hluta sértæka bankaskattsins í formi hærri útlánavaxta og lægri innlánsvaxta. Meiri hlutinn leggur áherslu á að fylgt verði eftir að fyrirhuguð lækkun sérstaka bankaskattsins í þrepum skili sér í hagstæðari vaxtakjörum fyrirtækja og heimila, auki þar með ráðstöfunartekjur almennings og ýti undir fjárfestingu og nýsköpun.“
    Nefndin ítrekar þessa afstöðu og telur brýnt að tryggt verði að sú lækkun sem kveðið er á um í þessu frumvarpi skili sér til heimila og fyrirtækja í landinu í formi hagstæðari kjara í bankaviðskiptum.

Samkomulag um tímabundinn greiðslufrest á lánum fyrirtækja.
    Meðan á umfjöllun nefndarinnar um frumvarpið stóð kynntu Samtök fjármálafyrirtækja samkomulag um tímabundinn greiðslufrest á lánum fyrirtækja vegna heimsfaraldurs COVID-19. Samkomulagið er byggt á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 13/2020 um að veita undanþágu frá ákvæðum samkeppnislaga um bann við samkeppnishömlum til að heimila samstarf lánveitenda um að fresta innheimtu skulda fyrirtækja. Undanþágan er bundin skilyrðum sem ætlað er að tryggja enn frekar hagsmuni fyrirtækja sem nú standa frammi fyrir óvæntum rekstrarerfiðleikum og eiga að tryggja að samstarf lánveitenda komi ekki í veg fyrir að einstakir lánveitendur geti veitt viðskiptavinum sínum frekari greiðsluerfiðleikaúrræði en samkomulagið kveður á um. Aðilar samkomulagsins eru Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn, Kvika, Lykill, sparisjóðirnir og lífeyrissjóðir.
    Samkomulagið felur m.a. í sér að fyrirtæki geta sótt um að fresta greiðslum í allt að sex mánuði hjá aðalviðskiptabanka sínum eða sparisjóði sem tilkynnir öðrum lánveitendum sem eru aðilar að samkomulaginu um frestunina. Viðkomandi aðilar fresta þá greiðslum afborgana og vaxta sem leggjast við höfuðstól og skal samningstíminn lengjast sem nemur fjölda afborgana sem frestað var. Samkomulagið nær til rekstrarfyrirtækja sem selja vöru og þjónustu og uppfylla nánar tilgreind skilyrði um að hafa staðið í skilum, orðið fyrir tekjufalli og að hafa nýtt sér viðeigandi úrræði stjórnvalda vegna heimsfaraldursins.
    Við þær aðstæður sem samfélagið stendur frammi fyrir er mikilvægt að allir leggist á eitt um að takmarka skaðann og hjálpa þeim aðilum sem aðstæðurnar bitna öðrum fremur á. Nefndin telur afar jákvætt að framangreint samkomulag hafi náðst og bindur miklar vonir við að það, ásamt aðgerðum stjórnvalda, geti skipt sköpum fyrir mörg lífvænleg fyrirtæki til að standa af sér það samdráttarskeið sem yfir stendur.
    Nefndin telur nauðsynlegt að fjármálafyrirtækin tryggi gagnsæi í vinnubrögðum sínum og að gætt verði að jafnræði viðskiptavina. Nefndin mun sinna eftirlitshlutverki sínu m.a. með því að óska eftir greinargerðum og upplýsingum frá fjármálastofnunum og viðkomandi eftirlitsaðilum.

Staða heimilanna.
    Í samdrætti þeim sem fram undan er verða mörg heimili í landinu fyrir miklum búsifjum, ekki síður en fyrirtæki. Gera má ráð fyrir að allflestir landsmenn muni finna fyrir versnandi efnahag á meðan faraldurinn gengur yfir. Í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar er aðaláhersla lögð á að hjálpa fyrirtækjum. Mikilvægt er að stjórnvöld mæti einnig tímabundnum rekstrarvanda heimila og væntir nefndin þess að ekki verði langt að bíða kynningar á aðgerðum þar að lútandi.
    Nefndin telur m.a. ljóst að viðskiptabankar og aðrir lánveitendur verði að sýna skilning og liðlegheit gagnvart einstaklingum sem misst hafa vinnuna eða orðið fyrir miklu tekjutapi vegna samkomubanns og annarra afleiðinga COVID-19-faraldursins, svo sem með því að bjóða úrræði á borð við frystingu bíla- og húsnæðislána. Þá ættu aðgerðir Seðlabanka Íslands undanfarnar vikur, ekki síst lækkun stýrivaxta, að nýtast bæði heimilum og fyrirtækjum. Þannig hvetur nefndin lánveitendur til að auðvelda neytendum sem það kjósa að endurfjármagna húsnæðislán til að bæta kjör sín og til að veita aðgengilegar og greinargóðar upplýsingar og ráðleggingar um valkosti í þeim efnum.
    Nefndin væntir þess að stjórnvöld vinni af ákveðni gegn því að efnahagsáhrif af faraldrinum bitni harkalega á barnafjölskyldum. Huga þarf sérstaklega að barnafjölskyldum þar sem foreldrar geta ekki mætt til vinnu um langt skeið vegna skertrar starfsemi grunnskóla og leikskóla. Enn fremur þarf að tryggja afkomu launafólks sem var í viðkvæmri stöðu fyrir og fólks sem er í sérstökum áhættuhópi vegna undirliggjandi sjúkdóma en hefur ekki formlega verið skyldað í sóttkví.
    Atvinnulausir og fjölskyldur þeirra eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu og fjöldi fólks eygir litla möguleika á að finna sér nýja vinnu á næstu misserum. Ljóst er að atvinnuleysi mun fara vaxandi á næstunni. Atvinnuleysi fór vaxandi á ákveðnum landssvæðum strax í janúar á þessu ári, áður en faraldurinn breiddist út, og margt bendir til að búast megi við langtímaatvinnuleysi sem vari lengur en í þrjá mánuði. Í þessu ljósi má benda á að kaupmáttur atvinnuleysisbóta hefur ekki vaxið í takti við kaupmátt lægstu launa og slæmar aukaverkanir langtímaatvinnuleysis eru samfélaginu kostnaðarsamar.

Umfang aðgerða hins opinbera vegna faraldurs kórónuveiru.
    Frumvarp þetta er hluti af nauðsynlegum og umfangsmiklum ráðstöfunum íslenskra stjórnvalda vegna efnahagsáfalla sem fylgt hafa COVID-19-faraldrinum. Markmið aðgerðanna, hvort heldur er á sviði peningamála eða ríkisfjármála er og verður að vera að verja hag heimilanna og styðja við bakið á fyrirtækjum. Óvissan er mikil og aðstæður síbreytilegar. Það er því mikilvægt að stjórnvöld séu tilbúin til að bregðast strax við breyttum aðstæðum með skynsamlegum og hnitmiðuðum aðgerðum.
    Nefndin undirstrikar að frumvarp þetta getur aldrei talist lokahnykkur í aðgerðum stjórnvalda til varnar íslensku efnahagslífi. Náin og góð samvinna Alþingis, ríkisstjórnar, Seðlabanka og aðila vinnumarkaðarins skiptir sköpum þegar tekist er á við efnahagslega erfiðleika.
    Seðlabanki Íslands hefur stigið fast niður í aðgerðum á sviði peningamála. Á síðustu tveimur vikum hefur bankinn lækkað vexti um eitt prósentustig. Meginvextir bankans eru 1,75% og hafa aldrei verið lægri. Svigrúm er til frekari vaxtalækkana sé þess þörf. Bindiskylda banka við Seðlabankann hefur verið lækkuð um 40 milljarða kr. Seðlabankinn hefur lýst því yfir að hann sé reiðubúinn til að miðla meira lausafé út í kerfið ef nauðsyn krefur. Þá aflétti bankinn sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki, en það auðveldar bankakerfinu að styðja við heimili og fyrirtæki þar sem allt að 350 milljarða kr. svigrúm til nýrra útlána myndast þá.
    Nefndin undirstrikar nauðsyn þess að bankakerfið nýti þetta aukna svigrúm til að standa við bakið á viðskiptavinum sínum. Vaxtalækkun, afnám sveiflujöfnunaraukans, lægri bindiskylda og lækkun sérstaks bankaskatts verður að birtast í hagstæðari lánakjörum fyrirtækja og heimila.
    Sú ákvörðun peningastefnunefndar 22. mars sl. að hefja bein kaup á skuldabréfum ríkissjóðs á eftirmarkaði styður við ríkisfjármálastefnuna og styrkir markmið Seðlabankans um að tryggja jafnt heimilum sem fyrirtækjum lægri fjármögnunarkostnað.
    Alþingi hefur þegar samþykkt frumvarp um hlutastörf þar sem ríkissjóður greiðir allt að 75% launa fólks. Með hlutastarfsleiðinni er verið að verja störf og tryggja eins og unnt er að ráðningarsamband milli launafólks og fyrirtækja haldist. Reiknað er með að kostnaður vegna þessa geti orðið um 22 milljarðar kr. Þá var fyrirtækjum gefinn kostur á að fresta gjalddaga helmings opinberra gjalda í mars og apríl, en nefndin leggur til að sá frestur verði framlengdur til 15. janúar 2021. Áætlað er að umfangið verði um 11 milljarðar kr. Með samþykkt frumvarpsins verður fyrirtækjum, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, jafnframt gefinn kostur á því að fresta allt að þremur gjalddögum staðgreiðslu og tryggingagjalds fram á næsta ár til að bæta lausafjárstöðu sína. Ætla má að staðgreiðsla þeirra skatta sem um ræðir, tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds hjá launagreiðendum öðrum en opinberum aðilum, gæti numið um 100 milljörðum kr. samanlagt á þriggja mánaða tímabili. Afnám gistináttagjalds til ársloka 2021, úttekt séreignarsparnaðar og aukin endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu eru aðgerðir til að létta undir með atvinnulífinu og örva það. Mikilvægur hluti af efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar er að auka fjárfestingar hins opinbera á þessu ári um samtals 22,5 milljarða kr. Þar af er ráðgert að opinber fyrirtæki fjárfesti fyrir 4,6 milljarða kr. Þetta kemur til viðbótar við 74,3 milljarða kr. fjárheimildir til fjárfestinga á fjárlögum 2020. Samtals er því áætlað að fjárfestingar hins opinbera nemi tæplega 97 milljörðum kr. á þessu ári.
    Þá skipta breytingar sem nefndin leggur til um að lengja frest á gjalddögum aðflutningsgjalda miklu máli samhliða heimild til að færa allan virðisaukaskatt til innskatts á uppgjörstímabili þrátt fyrir að virðisaukaskatti vegna innflutnings hafi á þeim tíma ekki verið skilað. Hið sama verður sagt um sérstaka heimild fyrir Skattinn til að fella niður álag vegna vanskila á virðisaukaskatti í samráði við ráðherra í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru.
    Ríkisábyrgð á lánum til fyrirtækja samhliða lækkun bankaskatts, afnámi sveiflujöfnunaraukans og lægri bindiskyldu eykur svigrúm bankakerfisins til útlána til fyrirtækja sem auðveldar þeim að standa í skilum og viðhalda ráðningarsambandi við starfsfólk. Um leið geta fyrirtækin verið betur í stakk búin til að ná viðspyrnu þegar óvissuástandi lýkur. Nefndin ítrekar mikilvægi þess að fjármálafyrirtæki standi þétt við bakið á atvinnulífinu.
    Fram hjá því verður ekki litið að vinnumarkaðurinn á Íslandi er að stórum hluta kynjaskiptur. Nefndin telur því nauðsynlegt að í aðgerðum til að verja afkomu launafólks, tryggja starfsöryggi og styðja við fyrirtæki verði gætt að kynjasjónarmiðum. Við frekari útfærslu á úrræðinu Allir vinna þarf að leggja áherslu á þjónustu- og iðngreinar þar sem konur eru fjölmennar.
    Nefndin beinir því eindregið til ríkis og sveitarfélaga að við skipulag og fjármögnun verkefna og aðgerða sem grípa þarf til vegna alvarlegs efnahagsástands sé hugað sérstaklega að viðkvæmum hópum á vinnumarkaði og að kynja- og byggðasjónarmið séu höfð að leiðarljósi.
    Frumvarpið ber þess merki að um bráðabirgðaaðgerðir er að ræða. Í því felast ekki síst þau skýru skilaboð til fyrirtækja og heimila að stjórnvöld og Alþingi gera sér grein fyrir því að frekari aðgerða er þörf.

Óvissuástand.
    Hafa ber í huga að þegar frumvarp þetta er afgreitt er enn mjög óljóst hvernig veirufaraldurinn muni þróast og hvaða efnahagslegu sviðsmyndir eru líklegar. Á þessum tímapunkti er hvorki hægt að segja til um það hvenær faraldurinn fjarar út né hversu hratt efnahagskerfið nær sér. Nú þegar er ljóst að aðgerðir til að hemja farsóttina hafa dregið úr framleiðslu og aukin óvissa hefur valdið miklum erfiðleikum á fjármálamörkuðum. Gera má ráð fyrir því að efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar þurfi að fylgja eftir með enn frekari ráðstöfunum eftir því hvernig mál þróast á næstu misserum. Aðstæður breytast dag frá degi og mikilvægt er að stjórnvöld verði undir það búin að bregðast hratt og örugglega við breytingum eftir því sem tilefni er til og nauðsyn krefur.

Fyrirvarar nefndarmanna og athugasemd áheyrnarfulltrúa.
    Oddný G. Harðardóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þorsteinn Víglundsson og Smári McCarthy skrifa undir álit þetta með fyrirvara. Gerð verður grein fyrir fyrirvörum nefndarmanna, sem og athugasemd Ingu Sæland, áheyrnarfulltrúa í nefndinni, í þessum kafla.

Oddný G. Harðardóttir.

Frumvarpið og breytingartillögur nefndarinnar.
    Þau bráðabirgðaákvæði sem lögð eru til í frumvarpinu eru nauðsynleg til að bregðast við stöðu fyrirtækja sem annars væri óviðráðanleg. Hins vegar eru breytingarnar tímabundnar og takmarkaðar. Ekki fer á milli mála að til frekari aðgerða stjórnvalda þarf að koma sem allra fyrst. Brýnt er að samráð verði haft við stjórnarandstöðu um frekari lausnir til að verjast alvarlegum áhrifum faraldursins.
    Breytingartillögur nefndarinnar við frumvarpið eru til bóta. Þar má nefna breytingar á gjalddögum virðisaukaskatts og möguleikum til að fella niður álag ef fresta þarf þeim greiðslum, sem og skilyrði um bann við arðgreiðslum og kaupum í eigin bréfum fyrirtækja sem nýta sér úrræði stjórnvalda.
    
Heimilin.
    Mörg heimili verða fyrir miklum búsifjum ekki síður en fyrirtæki og allflestir landsmenn munu finna fyrir versnandi efnahag meðan faraldurinn gengur yfir. Stjórnvöld verða að mæta tímabundnum rekstrarvanda heimila líkt og fyrirtækja. Húsnæðiskostnaður og rekstur ökutækja er þar stór þáttur.
    Stjórnvöld þurfa að gera skýlausa kröfu til banka um að þeir veiti fyrirgreiðslu og sýni í verki að aðgerðir Seðlabankans og ríkisins nýtist fólkinu í landinu sem nú er í viðkvæmri stöðu. Leigjendum þarf að mæta með hækkun á húsnæðisbótum og sveitarfélög þurfa að veita tilslökun á greiðslu fasteignagjalda til heimila rétt eins og til fyrirtækja.
    
Barnafjölskyldur.
    Með hækkun barnabóta ættu stjórnvöld að vinna gegn því að efnahagsáhrif faraldursins bitni harkalega á barnafjölskyldum. Viðmiðunartölur um óskertar barnabætur hafa ekki hækkað í rúm tvö ár og skerðingar vegna launa eru grimmar. Fjölskyldur langt undir meðallaunum ársins 2019 fá engar barnabætur.
    Fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni gagnrýnir stjórnarmeirihlutann harðlega fyrir að miða við tekjur ársins 2019 þegar barnabótaauki er ákveðinn. Hann er einskiptisaðgerð sem nýtist ekki síst foreldrum sem hafa misst vinnuna eða stóran hluta tekna sinna vegna faraldursins og búa við óvissu um tekjur næstu mánaða. Því er fráleitt að tekjutengja barnabótaaukann miðað við tekjur ársins 2019. Skynsamlegra og sanngjarnara hefði verið að greiða sömu upphæð vegna allra barna.
    Strax þarf að leita lausna vegna tekjufalls fólks sem getur ekki mætt til vinnu vegna skertrar starfsemi grunnskóla og leikskóla.

Kvennastörf.
    Það sætir furðu að ekki skuli hafa náðst samstaða um að leggja fram tillögur um átakið Allir vinna sem snúa að fleiri kvennastéttum. Samkomubann bitnar illa á stórum iðngreinum þar sem konur eru í meiri hluta, svo sem hárgreiðslu og snyrtifræði. Til að glæða þar heilbrigð viðskipti að samkomubanni loknu ætti að fella þær greinar undir ákvæðið. Einnig ætti að ýta undir hringrásarhagkerfið, t.d. með því að hvetja til viðskipta við saumastofur og sambærilega starfsemi með sama hætti.

Atvinnuleysisbætur.
    Hækka verður atvinnuleysisbætur strax og við þá hækkun væri eðlilegt að miða við krónutöluhækkanir lífskjarasamningsins, þ.e. 17.000 kr. frá 1. janúar 2020 og 24.000 kr. frá 1. apríl. Atvinnuleysisbætur hækkuðu síðast í janúar 2018 og kaupmáttur þeirra er mun minni en kaupmáttur lægstu launa. Þá er fyrirséð að námsmenn muni eiga í erfiðleikum á komandi mánuðum vegna skorts á hluta- og sumarstörfum. Finna þarf lausn á vanda þeirra sem allra fyrst.

Fyrirtækin.
    Stærsta atvinnugreinin á Íslandi, ferðaþjónustan, er í algjöru frosti. Stjórnvöld þurfa nú þegar að ákveða hvernig stutt verði enn betur við fyrirtæki þar sem starfsemi hefur stöðvast og engar tekjur að hafa, en fyrirsjáanlegt er að svo verði áfram um hríð eftir að faraldurinn verður genginn yfir. Fastur kostnaður er þar undir, svo sem húsaleiga, fasteignagjöld, tryggingar, hiti og rafmagn. Tímabundin frestun á nokkrum gjalddögum opinberra gjalda dugir ekki við þær aðstæður. Sérstaklega liggur á stuðningi við smáfyrirtæki úti um allt land og viðkvæm sprotafyrirtæki sem eiga möguleika á að dafna með auknum stuðningi. Aðgerðir Dana og Þjóðverja til að vinna gegn áhrifum COVID-19 á smáfyrirtæki eru góðar fyrirmyndir í þessum efnum.

Fjármálamarkaður og atvinnulíf.
    Fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni krefst þess að stjórnvöld komi á sérstöku eftirliti með fjármálakerfi og atvinnulífi svo að tryggt sé að ekki verði stunduð vafasöm viðskipti, markaðsmisferli eða innherjasvik í því hörmulega efnahagsástandi sem nú ríkir og leggur þunga áherslu á að stjórnvöld sjái til þess að bankar sýni samfélagsábyrgð og vinni með heimilum í erfiðri stöðu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

    Frumvarpið hefur tekið verulegum breytingum í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar. Ástæða er til að þakka formanni nefndarinnar fyrir að hafa gefið nefndinni tækifæri til að gera þessar breytingar og að hafa sjálfur haft frumkvæði að breytingum. Tekið hefur verið tillit til ýmissa ábendinga sem birst hafa í innsendum umsögnum og athugasemdum gesta. Þetta á bæði við um lagfæringu tæknilegra ágalla og efnisbreytingar. Breytingar sem nefndin leggur til koma til móts við margt af því sem þingmenn Miðflokksins bentu á við fyrstu umræðu um málið.
    Afstaða Miðflokksins hefur verið sú að stjórnvöld hefðu átt að tilkynna um aðgerðir fyrr en raunin varð á og að þær hefðu átt að vera mun umfangsmeiri en þær voru. Þó höfum við ítrekað að þingmenn flokksins myndu liðka fyrir öllum aðgerðum sem væru til þess fallnar að mæta hinum skaðlegu áhrifum kórónuveirufaraldursins. Ljóst er að mjög brýnt er að afgreiða málið enda þurfa margar þeirra breytinga sem kveðið er á um í frumvarpinu ásamt breytingartillögum nefndarinnar að koma til framkvæmda fyrir mánaðamót. Af þessum ástæðum skrifa ég undir nefndarálitið og legg ekki fram breytingartillögur umfram þær tillögur sem nefndin leggur til sameiginlega.
    Margar breytingartillögur nefndarinnar og sumar þeirra athugasemda sem birtast í álitinu eru til mikilla bóta og bera í ákveðnum tilvikum vott um gagnlegt innsæi. Þó tel ég mikilvægt að fram komi að ég er ekki sammála öllu því sem birtist í áliti nefndarinnar og er mjög andsnúinn sumum þeirra ályktana sem þar birtast.
    Vert er að nefna nokkur dæmi um atriði sem ekki hafa verið leidd til lykta á fullnægjandi hátt. Þetta er ekki tæmandi listi en dæmin eru nefnd til að sýna fram á hvað betur hefði mátt fara í áliti nefndarinnar.
    Afgreiðsla tillögu um sérstakan barnabótaauka er með öllu óskiljanleg. Komið hefur fram að það sé verulegum erfiðleikum háð að framkvæma tillöguna á þann hátt sem ríkisstjórnin kynnti og birtist í frumvarpinu. Sú tekjutenging sem lögð er til grundvallar er illframkvæmanleg enda liggja ekki fyrir gögn um skattgreiðslur síðasta árs. Jafnframt er ljóst að tekjur á liðnu ári segja í mörgum tilvikum ekkert um tekjur og aðstæður fólks á yfirstandandi ári vegna áhrifa heimsfaraldursins. Loks hefur komið fram að það að gera aðgerðina almennari, á þann hátt að hún nái jafnt til allra sem hafa börn á sínu framfæri, myndi hlutfallslega leiða til mjög lítillar kostnaðaraukningar. Leiða má líkur að því að flækjurnar sem fylgja því að ná fram hinni rakalausu tekjutengingu muni reynast kostnaðarsamari en einföldun. Sú einföldun hefði auk þess tryggt fólki sem misst hefur atvinnu sína, eða verulegan hluta tekna, bætur sem nýst hefðu börnum viðkomandi. Ekki var annað að heyra í umræðum í nefndinni en að á þessu væri víðtækur skilningur. Sú niðurstaða sem liggur fyrir vekur því furðu og ekki örgrannt um að byggt sé á pólitískum kennisetningum fremur en tilliti til raunverulegra aðstæðna.
    Borið hefur á því að reynt hafi verið að leysa úr flækjum með því að flækja málin enn meira. Slíkar aðferðir eru afar óviðeigandi við þær aðstæður sem nú eru uppi þar sem allt kallar á að aðgerðir séu eins almennar og einfaldar og kostur er.
    Veruleg vandkvæði eru á útfærslu aðstoðar við fyrirtæki. Nægir þar að nefna að skilyrðin sem setja á fyrir því að fyrirtæki sem eiga kost á lánum með hlutdeildarábyrgð ríkisins virðast til þess fallin að útiloka fyrirtæki sem hafa ekki lent í mestu rekstrarerfiðleikunum, enn sem komið er, en eru þó líkleg til að lenda í miklum erfiðleikum innan skamms. Þannig skapast hætta á því að fyrirtæki sem haldið gætu fólki í vinnu og reynst burðarásar hagkerfisins til lengri tíma falli milli skips og bryggju. Fyrirtækin gætu þá skaðast að því marki að þau þyrftu að segja upp fólki og reyndust illa í stakk búin til að leiða endurreisn efnahagslífsins.
    Með frumvarpinu ásamt breytingum nefndarinnar er Skattinum falið mjög umfangsmikið hlutverk við að meta fyrirtæki og rétt þeirra til ríkisaðstoðar. Enn er þó verulegum vafa undirorpið hvernig Skatturinn á að leysa þetta hlutverk af hendi og ljóst að það mun fela í sér gríðarmikla vinnu, tíma og fjölda álitamála. Þetta er enn ein áminningin um mikilvægi þess að aðgerðir sem ráðist er í við þessar aðstæður séu eins almennar og einfaldar og kostur er og að hægt sé að innleiða þær hratt.
    Nefna mætti fjölmörg önnur dæmi um það hvernig taka hefði mátt meira tillit til þeirra ábendinga sem bárust nefndinni, t.d. varðandi áhrif áfengisgjalds á ferða- og veitingaþjónustu sem og áhrif fasteignaskatta. Þá eru ótaldar þær aðgerðir sem bæta hefði mátt við áform ríkisstjórnarinnar en eins og fyrr greinir gefst nefndinni vart svigrúm til að standa að tillögum sem falla utan þess ramma sem frumvarpið setur.
    Þegar ríkisstjórnin kynnti aðgerðirnar sem nefndin hefur nú tekið til umfjöllunar var nefnt að breyttar aðstæður myndu kalla á frekari aðgerðir. Að mínu mati var ljóst áður en aðgerðirnar voru kynntar að aðstæður yrðu fljótlega mun verri en þær sem tillögunum var ætlað að mæta. Í því samhengi er rétt að minna á að því fyrr sem gripið er til viðeigandi ráðstafana þeim mun líklegri eru þær til að skila tilætluðum árangri og þeim mun minni verður kostnaðurinn fyrir samfélagið þegar upp verður staðið.
    Þótt ég undirriti nefndarálitið af framangreindum ástæðum ítreka ég mikilvægi þess að ráðist verði í frekari aðgerðir án tafar og að nefndin leyfi sér að laga tillögur ráðherra að raunverulegum aðstæðum eða hafi frumkvæði að því að leggja til aðgerðir sem eru til þess fallnar að lágmarka tjón samfélagsins af því neyðarástandi sem nú ríkir.

Þorsteinn Víglundsson.

    Íslensk heimili og fyrirtæki takast á við gríðarlegar efnahagshremmingar sem koma í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar og þeirra umfangsmiklu aðgerða sem gripið hefur verið til í þeim tilgangi að hefta útbreiðslu hennar, bæði hér á landi og um heim allan. Mikilvægt er að ríkisfjármálum sé beitt með markvissum og nægilega umfangsmiklum hætti til að draga úr efnahagslegum áhrifum. Að mati fulltrúa Viðreisnar í nefndinni er mikilvægast að þungi aðgerðanna beinist að því að verja störf og kaupmátt almennings og koma með öllum tiltækum ráðum í veg fyrir að fyrirtæki neyðist til að segja upp starfsfólki. Það má m.a. gera með því að auka verulega við opinberar framkvæmdir og verkefni af margvíslegum toga og auka lausafé sem atvinnulífið hefur til að takast á við vandann.
    Ákvæði þessa frumvarps sem snúa að greiðslufresti atvinnulífsins ganga allt of skammt þótt margt hafi áunnist í starfi nefndarinnar til að bæta upprunalegar tillögur ríkisstjórnarinnar. Fyrst ber þar að nefna að engar tillögur eru gerðar um skattalækkanir eða tímabundna niðurfellingu opinberra gjalda eins og mikið hefur verið kallað eftir. Ljóst er að við þessar aðstæður sem ekki eiga sér hliðstæðu er ekki skynsamlegt að atvinnulífið sé látið ýta á undan sér þungum skuldabagga opinberra gjalda á sama tíma og fyrirtækin glíma við mikið tekjufall og efnahagssamdrátt. Vert er að muna í því samhengi að stjórnvöld eru í raun að stöðva stóran hluta íslensks efnahagslífs til að halda uppi nauðsynlegum sóttvörnum. Um brýna þörf róttækra sóttvarna er ekki deilt og ekki heldur um það að aðgerðir heilbrigðisyfirvalda eiga að vera í algerum forgangi og að efnahagslegir hagsmunir verða að víkja meðan við náum stjórn á útbreiðslu veirunnar. Að sama skapi er sanngjörn krafa að stjórnvöld hlaupi undir bagga með atvinnulífinu og minnki tjónið sem það verður fyrir vegna þessara aðgerða eins og kostur er.
    Hvað einstakar aðgerðir varðar ber hæst að ekki er gengið nærri nógu langt gagnvart gjalddaga á virðisaukaskatti um næstu mánaðamót. Ekki er lögð fram nein tillaga um formlega frestun heldur er lagt til að álögum vegna vanskila verði ekki beitt. Þetta eru óljós og ósannfærandi skilaboð til fyrirtækja sem eru að berjast fyrir lífi sínu. Réttast hefði verið að bjóða upp á frestun á að minnsta kosti tveimur gjalddögum virðisauka með sambærilegum hætti og gert er vegna staðgreiðslu. Jafnframt hefði verið æskilegt að heimila frestun tveggja gjalddaga á aðflutningsgjöldum í tolli. Með þeim hætti hefði mátt bæta verulega lausafjárstöðu fyrirtækja við fordæmalausar og erfiðar aðstæður.
    Loks verður að lýsa yfir vonbrigðum með þá leið sem valin var að því er varðar sérstakan barnabótaauka. Ljóst er að mun einfaldara og sanngjarnara hefði verið að 40.000 kr. hefðu fylgt hverju barni án tillits til tekna foreldra. Um er að ræða sérstaka viðbót sem ætlað er að mæta mikilli óvissu í fjárhag heimila. Rétt er að hafa í huga að fjöldi foreldra er þessi dægrin við það að missa vinnu sína eða verða fyrir verulegum tekjuskerðingum. Tekjur síðasta árs segja því ekki endilega til um stöðu þessara foreldra nú eða á næstu mánuðum. Hörð andstaða var við slíka útfærslu í hluta nefndarinnar, þótt ljóst hefði verið að meiri hluti nefndarmanna væri henni fylgjandi. Það verður að lýsa yfir vonbrigðum með þá niðurstöðu að minni hluti nefndarinnar hafi haft sitt fram með þessum hætti.
    Að lokum er þó vert að þakka fyrir það samstarf sem tókst með nefndarmönnum, þvert á pólitískar línur. Margt náðist að laga í meðförum nefndarinnar vegna þessa góða samstarfs þótt ekki hefði náðst að bæta úr metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar um greiðsludreifingu virðisaukaskatts, líkt og þegar hefur verið nefnt.

Smári McCarthy.

    Búast má við verulegum efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru og því er mikilvægt að stjórnvöld bregðist við með umfangsmiklum og árangursríkum mótvægisaðgerðum. Það er auðvelt að styðja flestar þær aðgerðir sem lagðar eru til þrátt fyrir að þær séu ekki nógu umfangsmiklar. Frestun á gjalddögum skatts, barnabótaauki, endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna ýmissa verka, lækkun bankaskatts og viðbótarfyrirgreiðsla og ríkisábyrgðir eru allt aðgerðir sem eru til þess fallnar að styðja við rekstur hagkerfisins í núverandi árferði. Hins vegar eru sumar þeirra aðgerða sem lagðar eru til ekki líklegar til árangurs og framsýni skortir í áherslunum.
    Það er fagnaðarefni að nefndin hafi sammælst um að taka með skýrum hætti fyrir arðgreiðslur og annars konar fjármagnsflutninga út úr fyrirtækjum til eigenda þeirra meðan ríkisábyrgðar lána nýtur við. Þó er ljóst að slík skilyrði munu því miður ekki takmarka aðgengi að slíkum lánum til fyrirtækja sem hafa greitt út verulegar fjárhæðir í arð að undanförnu og bregðast við versnandi ástandi með hópuppsögnum í stað innspýtingar fjármagns. Það má sýna því skilning að slíkar takmarkanir yrðu flóknar í útfærslu en rétt er að nota tækifærið til að minna þau fyrirtæki sem um ræðir á samfélagslega ábyrgð sína.
    Efast má um mikilvægi og gagnsemi aðgerða á borð við niðurfellingu gistináttaskatts og útgreiðslu séreignarsparnaðar enda ýmist um óverulegar fjárhæðir að ræða eða svo sértækar aðgerðir að tiltölulega fáir njóta góðs af. Sérstakur barnabótaauki mun vissulega nýtast barnafólki að einhverju leyti en aðgerðin er ómarkviss og rökin að baki útfærslu hennar eru ósannfærandi.
    Þá er gagnrýnivert að aðgerðirnar snúa fyrst og fremst að stærri fyrirtækjum, t.d. þurfa fyrirtæki í raun að hafa náð ákveðinni stærð til þess að frestun á gjalddögum opinberra gjalda og aðgangur að lánum hefði grundvallaráhrif á lífvænleika rekstursins. Þannig er horft fram hjá veruleika margra smærri rekstraraðila og einyrkja eins og listamanna, sjálfstætt starfandi iðnaðarmanna og sérfræðinga sem ekki geta nýtt sér slíka fyrirgreiðslu án þess að hún hefði langvarandi tekjuskerðingu í för með sér. Skortur er á róttækari aðgerðum í þágu almennings í landinu þar sem búast má við verulegu atvinnuleysi og tekjuskerðingu og ekki verður séð að nóg sé að gert til þess að bregðast við því.
    Ángel Gurría, framkvæmdastjóri OECD, sagði réttilega á ráðstefnu í Reykjavík: „Við þurfum að byggja upp snjallara hagkerfi, nýtt hagkerfi þar sem lögð er áhersla á heilbrigði og velsæld mannkyns.“ Mögulegt er að heimsfaraldur kórónuveiru hafi þegar leyst úr læðingi uppsafnaðan þrýsting á hagkerfið sem kemur til vegna aukinnar sjálfvirknivæðingar, breytinga í alþjóðaviðskiptum og undirliggjandi breytinga á vinnumarkaði. Ef það er raunin, og ekki síst ef heimsfaraldurinn hefur veruleg og varanleg áhrif á viðskiptakerfi heimsins og vinnumarkað, er ljóst að þær aðgerðir sem birtast í þessu frumvarpi verða aldrei annað en tímabundinn og óþarfur vegatálmi á leið til nýrrar framtíðarskipanar alþjóðahagkerfisins. Heimurinn virðist nú þegar hafa breyst varanlega og því er mikilvægt að stjórnvöld lagi sig að þeim breytingum. Ef það er raunin, og jafnvel þó að svo væri ekki, er tímabært að líta til nýrra hugmynda sem hafa komið fram og notið vaxandi stuðnings fræðimanna á undanförnum árum. Þær miða að því að gera hagkerfið mannvænna og sjálfbærara og stuðla að velsæld í öðrum skilningi en einungis þeim sem lýtur að hefðbundnum hagvexti umfram hefðbundinn efnahagslegan vöxt. Í slíkri nálgun væri lögð áhersla á að tryggja grunnframfærslu almennings og kröftum ríkisins beint að því að efla nýsköpun og skapandi greinar og fjármagna vel rannsóknir og þróun, ekki síst í vísindagreinum þar sem unnið er að lausnum við aðsteðjandi loftslagsvá.
    Ljóst er að aðsókn í Atvinnuleysistryggingasjóð verður veruleg á komandi mánuðum. Þegar er búið að búa þannig um hnútana að fólk geti fengið hlutagreiðslur úr sjóðnum vegna minnkaðs vinnuframlags. Það vantar í raun bara herslumuninn til að komið verði á borgaralaunum í formi neikvæðs tekjuskattsþreps. Það skref fæli í sér umbreytingu á Atvinnuleysistryggingasjóði til samræmis við það sem vænta má af hagkerfi framtíðarinnar. Þannig væri tekjum undir ákveðinni krónutöluupphæð mætt með mótframlagi ríkisins sem færi minnkandi eftir því sem tekjurnar aukast. Þannig væri fólki með engar tekjur tryggt viðunandi lífsviðurværi, en fólk sem hefði töluverðar en þó ónógar tekjur hefði fyrir vikið meira svigrúm vegna þess sem bætt væri við. Aðgerð sem þessi fæli í sér minni yfirbyggingu fyrir ríkið en nú er og minni skriffinnsku fyrir alla. Slík aðgerð næði betur yfir öll tilfelli en ljóst er að mörg sértilfelli eru til staðar í núverandi kerfi þar sem fólk í erfiðri fjárhagslegri stöðu fellur á milli.
    Efnahagsleg viðbrögð við yfirstandandi heimsfaraldri geta ýmist byggst á trú yfirvalda á getuna til að viðhalda fyrra ástandi eða trú þeirra á að það sé ekki raunsætt. Þær aðgerðir sem lagðar eru til eru ágætar til þess að viðhalda tímabundið ríkjandi kerfi en aðstæður bæði bjóða upp á og að mörgu leyti krefjast þess að horft sé til nýrra möguleika. Ég lýsi því yfir stuðningi mínum við fyrirhugaðar aðgerðir með þeim fyrirvörum sem raktir hafa verið og í ljósi þess skamma tíma sem stjórnvöldum hefur gefist fyrir fyrstu viðbrögð. Hins vegar verður að kalla eftir víðtækri samvinnu ríkisstjórnarinnar við Alþingi á komandi vikum og mánuðum við að endurhugsa framtíðarskipan hagkerfisins.

Inga Sæland, áheyrnarfulltrúi.

    Inga Sæland, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, styður framgang málsins með eftirfarandi fyrirvara: Þegar er viðurkennt að aðgerðum stjórnvalda lýkur ekki með þessu frumvarpi. Samþykkt þess, með þeim breytingum sem nefndin leggur til, er hins vegar fyrsta skrefið í rétta átt og mun koma að miklu gagni við að takmarka þann óhjákvæmilega skaða sem verður vegna áhrifa heimsfaraldurs COVID-19-sjúkdómsins. Þó hefði mátt kveða á um miklu öflugri stuðning við fátækt fólk og fjölskyldur strax, því að það eru grundvallarmannréttindi að ríkisvaldið uppfylli grunnþarfir borgaranna um fæði, klæði, húsnæði og hvers konar nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

Tillaga um afgreiðslu.
    Nefndin ítrekar enn og aftur að ljóst er að aðgerðum stjórnvalda lýkur ekki með þessu frumvarpi. Samþykkt þess, með þeim breytingum sem nefndin leggur til, er hins vegar stórt skref í rétta átt og mun skipta sköpum við að takmarka þann óhjákvæmilega skaða sem verður vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Ljóst er að á næstu dögum og vikum verða stjórnvöld og aðrir aðilar að fylgjast grannt með gangi mála og leita allra leiða til að leysa þann vanda sem fram undan er.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 28. mars 2020.

Óli Björn Kárason,
form, frsm.
Þorsteinn Víglundsson,
með fyrirvara.
Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Oddný G. Harðardóttir,
með fyrirvara.
Ólafur Þór Gunnarsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
með fyrirvara.
Smári McCarthy,
með fyrirvara.
Willum Þór Þórsson.