Ferill 695. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 1194  —  695. og 699. mál.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020 og tillögu til þingsályktunar um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Það er ljóst að íslenskt atvinnulíf gengur í gegnum fordæmalausa tíma og mikið reynir á efnahagslega og félagslega innviði landsins. 1. minni hluti styður allar góðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar þar sem þær er að finna en leggur hér fram til viðbótar nokkrar uppbyggilegar hugmyndir sem gætu hjálpað íslenskum heimilum og atvinnulífi í núverandi ástandi.
    Það ber að hafa í huga að langstærsti hluti 230 milljarða kr. aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar er einungis greiðslufrestur á opinberum gjöldum, ábyrgð á lánum eða úttekt fólks á eigin séreignarsparnaði. Hin raunverulega innspýting ríkissjóðs núna er um einn þriðji af þessum 230 milljörðum kr., eða um 60–70 milljarðar kr. sem er minna en 7% af ríkisútgjöldunum og dugir því skammt.
    Í því ljósi er fráleitt að halda því fram að þetta séu „stærstu einstöku efnahagsaðgerðir sögunnar“ eins og fullyrt hefur verið. Fram hefur komið að aðgerðir íslenskra stjórnvalda eru talsvert minni en hjá mörgum öðrum þjóðum og er það sérstaklega umhugsunarvert í því ljósi hversu háð íslenskt atvinnulíf er ferðaþjónustu.
    Viðbúið er að efnahagsleg niðursveifla verði djúp. Fulltrúar ferðaþjónustunnar hafa lýst stöðunni sem „hamförum“ og að í raun séu nánast öll fyrirtæki í ferðaþjónustu tæknilega gjaldþrota. Þá mun eftirspurn eftir annarri þjónustu í öðrum geirum atvinnulífsins einnig dragast mikið saman. Landsframleiðslan verður því fyrir miklu höggi en íslenskt atvinnulíf og heimili eru úrræðagóð þegar kemur að áföllum.
    Að mati 1. minni hluta er algjört forgangsatriði stjórnvalda að tryggja og vernda líf og heilsu almennings. Það á að vera leiðarljós í öllum aðgerðum stjórnvalda. Þess vegna vekur það athygli að ekki er gert ráð fyrir neinum fjármunum í frumvarpinu til að mæta augljósum og óhjákvæmilegum viðbótarútgjöldum í heilbrigðiskerfinu. Viðbótarálagi á sjúkrahúsum og heilsugæslu hefur verið mætt með aukavöktum og aukamönnun og það verða að koma skýr skilaboð frá stjórnvöldum strax um að þetta verði greitt en þessum stofnunum ekki gert að hagræða að ári vegna umframkeyrslu þessa árs.
    Hin efnahagslega staða er alvarleg og skiptir meginmáli að vel takist til við allar efnahagsaðgerðir hins opinbera. Viðskiptaráð segir í umsögn sinni: „Allar líkur eru á að mun meira þurfi til og þá sérstaklega á allra næstu mánuðum til þess að fyrirtæki í fjölbreyttum atvinnugreinum lifi af tekjumissi sem flestir töldu áður að gæti aðeins átt sér stað í stórkostlegum náttúruhamförum.“

Mikilvægi ferðaþjónustunnar.
    Opinber skuldastaða
er í raun nokkuð svipuð núna og hún var árið 2008. Skuldastaða ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu er hærri núna (um 30%) en hún var fyrir hrunið 2007 (um 20%). Það er vissulega rétt að einkaaðilar skulda mun minna nú og gjaldeyrisforðinn er talsvert stærri en árið 2008 og það skiptir miklu máli, ekki síst fyrir stöðugleika krónunnar.
    Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein á Íslandi sem aflar mestra gjaldeyristekna en um leið einmitt sú atvinnugrein sem fyrst og fremst verður nú fyrir áfalli. Ísland er jafnvel háðara ferðaþjónustu nú en bankaþjónustu árið 2008. Grunnþættir ferðaþjónustu sem hlutfall af landsframleiðslu eru svipaðir núna og hlutfall bankaþjónustunnar var árið 2007.
     Bein störf í ferðaþjónustu árið 2020 eru hins vegar meira en þrisvar sinnum fleiri (um 30.000) en störfin í fjármálaþjónustunni voru árið 2007 (9.000). Nú þegar eru um 9.000 manns atvinnulausir. Í hruninu árið 2008 urðu 20.000 manns atvinnulausir. Atvinnuleysi eykst að öllum líkindum mikið á næstunni.
    Hlutur erlendra ferðamanna í verðmætasköpun ferðaþjónustu er um 70% og má ætla að fækkun ferðamanna kunni að hafa áhrif á um 18.000 störf.
    Það er ljóst að ferðaþjónustan minnkar til muna næsta árið. Í síðasta hruni gat ríkið hins vegar komið inn í bankana 2008 og rekið þá áfram með þeim störfum sem þar voru að stærstum hluta. Ríkið fer líklega ekki að reka hótel í stórum stíl, leiðsögufyrirtæki, bílaleigur, veitingastaði, verslanir, afþreyingarþjónustu, rútufyrirtæki o.s.frv. í kjölfar yfirvofandi hruns.
     Ef gengi krónunnar lækkar til muna þýðir það lífskjararýrnun fólks og verðbólguskot eins og síðast, m.a. vegna áhrifa verðtryggingar.
    Það er sérstakt áhyggjuefni hversu veikir sumir innviðir eru enn, svo sem heilbrigðisþjónustan sem bjó við neyðarástand, að sögn þeirra sem þar vinna, áður en kórónuveiran barst til landsins.
    Sumt er í betra horfi núna en var árið 2008 en hins vegar er rétt að búa sig undir mjög erfiða efnahagslega tíma. Það er hægt en þá þurfa stjórnvöld að huga fyrst og fremst að fólkinu og heimilunum í landinu og þeirra stöðu. Þá er eðlilegt að beinum ríkisstuðningi við einstök fyrirtæki fylgi skýr skilyrði um samfélagslega ábyrgð.

Ýmislegt jákvætt er í aðgerðapakkanum:
     1.      Fyrsti minni hluti álítur að átakið „Allir vinna“ um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu iðnaðarmanna sé jákvætt skref. Þetta er mál sem Samfylkingin stóð m.a. að eftir bankahrun og gafst þá vel. Fylgjast þarf vel með að útvíkkun heimildarinnar vegna heimilisaðstoðar nái þeim markmiðum sem að er stefnt.
                      Fyrsti minni hluti leggur til að þetta úrræði nái þó til fjölbreyttari starfsemi og til vinnu utan byggingarstaða, svo sem á verkstæðum. Þá er jákvætt að til standi að endurgreiða virðisaukaskatt til björgunarsveita, líknarfélaga og sambærilegra félaga.
     2.      Barnabótaaukinn er jákvæður en hann er mjög rýr, rúmir 3 milljarðar kr., sem er einungis 0,3% aukning á ríkisútgjöldum. Mikilvægt er að þessar greiðslur skerði ekki bætur öryrkja en það er óljóst af lestri frumvarpsins. Einn fjórði af þeim sem hafa fengið barnabætur undanfarin ár fær þær ekki lengur vegna of mikilla tekjutenginga, en mjög brýnt er í ljósi þessarar kreppu að stórbæta barnabótakerfið.
     3.      Gjafabréfið vegna kaupa á innlendri ferðaþjónustu hljómar vel en 5.000 kr. á hvern fullorðinn mann verður þó að teljast naumt skammtað.
     4.      Markaðsátakið í ferðaþjónustu er sjálfsagt og mikilvægt að mati 1. minni hluta, enda er ljóst að ferðaþjónustan er að taka á sig mikið högg. Mikilvægt er jafnframt að fá Íslendinga til að ferðast um landið.
     5.      Frestun opinberra gjalda og brúarlánin geta verið gagnleg fyrir fyrirtæki. Þó ber að hafa í huga að það kemur að gjalddögum og skuldadögum þegar um er að ræða lán og fresti. Skoða þarf sérstaklega skilyrði brúarlánanna og hverjir fá lánin. 1. minni hluti telur brýnt að brúarlánum og annars konar ríkisstuðningi við fyrirtæki fylgi skýr skilyrði, t.d. um að ekki verði ráðist í fjöldauppsagnir á sama tíma og að fyrirtæki sem þiggja slíkan stuðning greiði ekki út arð eða kaupi eigin hlutabréf í beinu framhaldi, né greiði ofurlaun eða bónusa.
                      Vert er að hafa í huga að brúarlánin duga einungis fyrir um 10% af tekjutapi atvinnulífsins í einn mánuð að mati Viðskiptaráðs.
                      Auðvitað á einnig að fresta opinberum gjöldum einstaklinga þar sem það á við, en ekki aðeins miða við fyrirtæki. Rauði þráðurinn í aðgerðum ríkisstjórnarinnar virðist fyrst og fremst vera að bjarga fyrirtækjum. Þótt það sé mikilvægt að hjálpa fyrirtækjum að takast á við þetta mikla högg þarf að setja fólkið, almenning, í forgrunn allra aðgerða.
     6.      Alþingi hefur afgreitt í þverpólitískri sátt hinar svokölluðu hlutabætur og laun í sóttkví sem eru jákvæð og mikilvæg skref. Hlutabæturnar eru stærsta og mikilvægasta aðgerðin sem boðuð hefur verið til að bregðast við þeim efnahagsþrengingum sem nú blasa við. Frumvarpið var ekki í samræmi við umfang vandans þegar það var afgreitt úr ríkisstjórn en batnaði mjög í meðförum velferðarnefndar þingsins, í góðu samráði.
    Fyrsti minni hluti styður góðar tillögur en það þarf að gera meira. Í þeim aðgerðum er mikilvægt að hafa hagsmuni heimilanna og lítilla og meðalstórra fyrirtækja ætíð að leiðarljósi.

Hugmyndir að viðbótaraðgerðum.
    Fyrsti minni hluti vill nefna til viðbótar eftirfarandi hugmyndir að aðgerðum þótt þessi upptalning sé ekki tæmandi.
     1.      Fyrst og fremst þarf að huga að heimilum landsins til að mæta þessu áfalli, ekki síst þeim sem missa atvinnuna eða verða fyrir miklu tekjutapi. Það á að frysta lán einstaklinga og fara aðrar leiðir sem farnar voru eftir bankahrunið til hagsbóta fyrir almenning. Markmið stjórnvalda á að vera að verja störf og kaupmátt heimilanna eins og kostur er og þá ber að nýta ríkisfjármálin að fullu. Það er leið jafnaðarmanna um allan heim.
                      Huga þarf sérstaklega að fólki sem verður fyrir tekjutapi eða atvinnutapi vegna skerts skólastarfs eða vegna sjálfskipaðrar sóttkvíar heima við eða hjá einhverjum aðstandanda.
     2.      Huga þarf mun betur að einyrkjum, örfyrirtækjum, litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem eru hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi með um 70% af öllum störfum samfélagsins, ekki síst þegar kemur að ýmsum skapandi greinum. Mörg þessara fyrirtækja standa frammi fyrir lokun vegna tekjutaps eða vegna tilmæla sóttvarnayfirvalda. Mörg smáfyrirtæki eru nú í algjöru frosti.
                      Þá henta brúarlán ekki endilega sumum þessara fyrirtækja sem hafa ekki einu sinni efni á að taka þátt í hlutabótakerfinu.
                      Fremur mætti hugsa sér að til kæmu fleiri aðgerðir, svo sem beinir styrkir, niðurfelling gjalda, t.d. tryggingagjalds til örfyrirtækja með færri en 10 starfsmenn og jafnvel annarra lítilla fyrirtækja, tímabundið bann við fullnustuaðgerðum og ýmsar aðrar svipaðar aðgerðir.
     3.      Efla þarf nýsköpun, rannsóknir og grænar fjárfestingar á þessum síðustu og verstu tímum. Tækniþróunarsjóð þarf að stórefla en einungis 27% verkefna með hæstu einkunn hlutu styrk við síðustu úthlutun. Það bendir til ónýttra tækifæra. Einnig þarf að auka enn meira fjármagn til annarra rannsóknar- og innviðasjóða og menningar og lista sem núna fá mikið fjárhagslegt högg. Þá þarf að auka fjármagn til endurgreiðslna til kvikmyndagerðar sem lækkuðu um 30% milli ára og hækka enn frekar eða jafnvel afnema þak vegna endurgreiðslu þróunarkostnaðar.
                      Allt þetta hefur jákvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu og nýsköpun, og þar með verðmætasköpun í hagkerfinu. Eftir bankahrunið urðu til fjölmörg fyrirtæki á sviði nýsköpunar en þáttur hins opinbera skiptir miklu máli í því sambandi.
                      Ánægjulegt er að fjárlaganefnd var tilbúinn að bæta hér í en þó hefði 1. minni hluti viljað sjá enn meiri fjármuni lagða í nýsköpun, rannsóknir og grænar fjárfestingar.
     4.      Þá er staða heilbrigðisþjónustunnar, sem býr við stóraukið álag, mjög mikið áhyggjuefni. Þegar frumvarp til fjáraukalaga var fyrst lagt fram var ekki gert ráð fyrir þessum þörfum. Það er augljóst að það þarf að bæta allverulega í heilbrigðiskerfið sem var í mjög bágri stöðu fyrir þetta áfall.
     5.      Sérstakt áhyggjuefni er staða atvinnulausra en þar er mikil fjölgun fram undan. Skoða þarf að opna skólana fyrir atvinnulausa eins og var gert eftir bankahrunið. Einnig þarf að ráðast í fjölmargar vinnumarkaðsaðgerðir til að mæta auknu atvinnuleysi og gegn langtímaatvinnuleysi.
                      Atvinnuhorfur námsmanna eru mjög bágar þetta og næsta ár. Tryggja þarf að námsmenn geti fengið atvinnuleysisbætur fái þeir ekki sumarstarf. Þá þyrfti að ráðast í að efla rannsóknar- og nýsköpunarsjóði fyrir námsmenn, t.d. í sumar þar sem hefðbundin sumarstörf þeirra eru nánast horfin.
                      Fyrsti minni hluti telur brýnt að hækka atvinnuleysisbætur sem nú eru í sögulegu lágmarki miðað við lágmarkslaun. Einnig ætti að hækka greiðslur Tryggingastofnunar til samræmis við lágmarkslaun. Dæmi eru um ríki sem hafa farið þá leið að hækka greiðslur til lífeyrisþega og atvinnulausra í niðursveiflu, m.a. til að auka eftirspurn í hagkerfinu.
                      Grunnbætur eru í dag 289.510 kr. á mánuði sem er umtalsvert lægra en lægstu laun sem nema 335.000 kr. frá 1. apríl nk. og tekjutengdar atvinnuleysisbætur fyrstu þrjá mánuði í atvinnuleit sem eru að hámarki 456.404 kr. Það þýðir að einstaklingur á meðallaunum á vinnumarkaði nær ekki 70% af tekjum sínum á tímabili tekjutengingar líkt og lagt er upp með.
                      Hækkun bótafjárhæða nú drægi verulega úr líkum á að fjölskyldur sem verða fyrir atvinnumissi lendi í íþyngjandi fjárhagserfiðleikum til lengri tíma og styddi á sama tíma við kaupmátt heimilanna sem skiptir sköpum til að ná viðspyrnu í efnahagslífinu.
     6.      Í fjáraukalagafrumvarpinu eins og það var þegar það var afgreitt frá ríkisstjórn var lagt til að fjárheimildirnar yrðu einungis auknar um rúman 21 milljarð kr. Þetta væri einungis rúmlega 2% aukning fjárheimilda frá gildandi fjárlögum. Þetta er allt of lítið.
                      Í upphafi var gert ráð fyrir að einungis 15 milljarðar kr. yrðu veittir í að flýta fjárfestingum og beindust þær fjárfestingar að stærstum hluta að hefðbundnum karlastörfum. Rúmir 2 milljarðar kr. áttu að fara í grænar lausnir og nýsköpun en það eru einungis 0,2% af ríkisútgjöldunum.
                      Að mati Samtaka iðnaðarins kalla aðstæður á að farið sé í a.m.k. 30–35 milljarða kr. viðbótarframkvæmdir í ár umfram það sem ríkissjóður hefur þegar áætlað í samgönguinnviði og byggingar hins opinbera. Einstakt tækifæri er að huga sérstaklega að grænum fjárfestingum og nýsköpun.
                      Fyrsti minni hluti leggur því áherslu á að talsvert meiri kraftur verði settur í opinberar framkvæmdir til að auka eftirspurn í hagkerfinu á krepputímum. Einungis 2% aukning ríkisútgjalda hvað þetta varðar, eins og var boðað í þessu frumvarpi til fjáraukalaga, er langt í frá nóg. Hins vegar er ánægjulegt að meiri hluti fjárlaganefndar var tilbúinn að bæta hér í þótt 1. minni hluti telji að þörf sé á talsvert hærri upphæð í fjárfestingar, ekki síst á þessum tímapunkti.
     7.      Þá hvetur 1. minni hluti stjórnvöld til að huga sérstaklega að samfélagslega mikilvægum fyrirtækjum. Tryggja þarf starfsemi og störf þessara fyrirtækja. Þá er mikilvægt að almannahagsmunir ráði för við meðferð fjármuna.
                      Almenningur á ekki að sætta sig við að tap einkafyrirtækja sé ætíð þjóðnýtt en hagnaðurinn sé einkavæddur.
     8.      Skoða þarf sérstaklega stöðu leigjenda en í Þýskalandi var ákveðið í kjölfar þessa áfalls að óheimilt yrði næsta árið að segja upp leigusamningum af hálfu leigusala, jafnvel þótt dráttur verði á greiðslu leigu.
     9.      Tveir af stóru viðskiptabönkunum eru nú í eigu ríkisins og getur það gefið stjórnvöldum tækifæri til að nýta sér þá stöðu til að verja og byggja upp íslenskt atvinnulíf. Einnig skiptir máli að þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa ráðist í og munu ráðast í gagnvart bankakerfinu skili sér til fjölskyldna og fyrirtækja.
     10.      Ganga á nú þegar til kjarasamninga við hjúkrunarfræðinga en það er algerlega ólíðandi að ekki sé samið á réttlátan hátt við þessa mikilvægu stétt, sem núna hættir lífi sínu í baráttunni við veiruna í þágu fólksins í landinu. Sama á við aðrar stéttir sem einnig mæðir mikið á þessa dagana og er ósamið við.
     11.      Öryrkjabandalagið hefur lýst því yfir að bregðast þurfi við stöðu örorkulífeyrisþega sem getur versnað til muna í núverandi ástandi. Örorkulífeyrir er í sögulegu lágmarki, langt undir framfærsluviðmiðum, og skerðingar þær mestu sem nokkurn tímann hafa verið lagðar á hér á Íslandi, segir í umsögn ÖBÍ. Landssamband eldri borgara lýsir einnig yfir áhyggjum sínum af ástandinu og ekki síst vegna þeirra sem búa einir.
                      Ánægjulegt er að fjárlaganefnd var tilbúin að bæta í þennan málaflokk miðað við það sem til stóð í upphafi.
                      Þá kemur fram í umsögn Geðhjálpar að samtökin hafi fundið fyrir aukinni þörf fyrir þjónustu en að undanförnu hafa margir aðilar sem sinna málaflokknum þurft að loka starfsemi sinni. Auka þarf fjárframlög í þennan málaflokk, bæði af hálfu ríkisvaldsins og sveitarfélaga. Slíkt dregur bæði úr kvíða og þjáningu en einnig borgar það sig efnahagslega að tryggja virkni fólks.
                      Hér verður einnig ánægjuleg breyting í meðförum fjárlaganefndar og verða lagðir viðbótarfjármunir til þessara þátta og annarra félagslegra verkefna.
     12.      Gæta þarf sérstaklega að stöðu sveitarfélaga í þessu fordæmalausu ástandi. Mjög mikið reynir á nærþjónustu og rík krafa verður um fjárfestingar sveitarfélaga og jafnvel eftirgjöf tekjustofna sem ríkið þarf að huga að. Sveitarfélögum er sniðinn þröngur stakkur þegar kemur að fjármögnun sinni, ólíkt ríkissjóði, sem ætti ekki að velta of miklum byrðum á sveitarfélög í ástandi sem þessu.
     13.      Að lokum vill 1. minni hluti vekja athygli á hugmynd um rafrænan þjóðfund þar sem lítil og meðalstór fyrirtæki, sem oft gleymast í svona aðgerðapökkum, og ekki hvað síst almenningur gætu komið með hugmyndir til stjórnvalda að leiðum og lausnum í þessu efnahagsástandi. Með því væri verið að nýta sér hugmyndaauðgi og kraft þjóðarinnar og hleypa fleirum að borðinu. Slíkt aðgengi að vinnunni er lýðræðislegt og skynsamlegt og eykur líkur á sátt um aðgerðir sem ráðist verður í.
                      Í efnahagslegu neyðarástandi þarf oft að hugsa hratt en einnig er nauðsynlegt að hugsa á óhefðbundinn og skapandi hátt. Við erum öll í þessu saman.

Alþingi, 27. mars 2020.

Ágúst Ólafur Ágústsson.