Ferill 725. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1254  —  725. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um einstaklinga og lögaðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, sem höfðu hafið starfsemina fyrir 1. febrúar 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Lögin gilda ekki um stofnanir, byggðasamlög og fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga.

2. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við minni rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar.

3. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi: Starfsemi aðila sem greiðir laun skv. 1. eða 2. tölul. 5. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og er skráður á launagreiðendaskrá, svo og á virðisaukaskattsskrá þegar það á við.
     2.      Launamaður: Launamaður skv. 1. eða 2. tölul. 4. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.
     3.      Lokunarstyrkur: Fjárframlag úr ríkissjóði skv. II. kafla.
     4.      Rekstraraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem fellur undir gildissvið laga þessara skv. 1. gr.
     5.      Rekstrarkostnaður: Rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að frátöldum niðurfærslum og fyrningum eigna.
     6.      Stuðningslán: Lán með ábyrgð ríkissjóðs skv. III. kafla.
     7.      Tekjur: Skattskyldar tekjur skv. B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að frátöldum hagnaði af sölu rekstrareigna.

II. KAFLI
Lokunarstyrkur.
4. gr.
Skilyrði.

    Rekstraraðili sem uppfyllir öll eftirtalin skilyrði á rétt á lokunarstyrk úr ríkissjóði:
     1.      Honum var gert skylt að loka samkomustað skv. 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. auglýsingar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, nr. 243/2020, eða láta af starfsemi eða þjónustu skv. 2. mgr. sömu greinar á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997.
     2.      Tekjur hans í apríl 2020 voru a.m.k. 75% lægri en í apríl 2019. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. apríl 2019 skulu tekjur hans í apríl 2020 bornar saman við meðaltekjur hans á 30 dögum frá því hann hóf starfsemi til loka febrúar 2020.
     3.      Tekjur hans á rekstrarárinu 2019 voru a.m.k. 4,2 millj. kr. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.
     4.      Hann er ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar.
     5.      Hann hefur ekki verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.

5. gr.
Fjárhæð.

    Fjárhæð lokunarstyrks skal vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila tímabilið 24. mars til 3. maí 2020. Lokunarstyrkur getur þó ekki orðið hærri en 800 þús. kr. á hvern launamann sem starfaði hjá rekstraraðila í febrúar 2020, þó að hámarki 2,4 millj. kr. á hvern rekstraraðila.
    Hafi rekstraraðili fengið stuðningslán má lokunarstyrkur ekki vera svo hár að samanlögð fjárhæð hans og lánsins verði hærri en hámarksfjárhæð stuðningsláns skv. 1. mgr. 11. gr.
    Lokunarstyrkur telst til skattskyldra tekna samkvæmt lögum um tekjuskatt.

6. gr.
Umsókn.

    Umsókn um lokunarstyrk skal beint til Skattsins eigi síðar en 1. september 2020. Umsókn skal vera rafræn en að öðru leyti á því formi sem Skatturinn ákveður.
    Rekstraraðili skal staðfesta við umsókn að hann uppfylli skilyrði 4. gr., að upplýsingar sem hann skilar og liggja til grundvallar ákvörðun fjárhæðar skv. 5. gr. séu réttar og að honum sé kunnugt um að það geti varðað álagi, sektum eða fangelsi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.

7. gr.
Ákvörðun.

    Skatturinn skal afgreiða umsókn svo fljótt sem verða má og ekki síðar en tveimur mánuðum eftir að honum berst fullnægjandi umsókn.
    Við afgreiðslu umsóknar og endurskoðun ákvörðunar um umsókn getur Skatturinn farið fram á að rekstraraðili sýni með rökstuðningi og gögnum fram á rétt sinn til lokunarstyrks. Skatturinn getur leitað umsagnar ráðherra sem fer með málefni sóttvarna um vafaatriði sem lúta að skilyrðum 1. tölul. 4. gr.
    Skatturinn skal endurákvarða lokunarstyrk komi í ljósi að rekstraraðili átti ekki rétt á styrknum eða átti rétt á hærri eða lægri styrk en hann fékk greiddan.
    Að því leyti sem ekki er á annan veg kveðið á um í lögum þessum gilda ákvæði 95., 96. og 97. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, eftir því sem við getur átt um afgreiðslu umsókna og endurákvarðanir Skattsins.
    Þrátt fyrir 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, er Skattinum heimilt að miðla til lánastofnunar sem hefur samið við Seðlabanka Íslands skv. 2. mgr. 18. gr. upplýsingum um fjárhæð lokunarstyrks til rekstraraðila sem hefur sótt um stuðningslán og hvort hann uppfylli skilyrði 6. tölul. 10. gr.

8. gr.
Málskot.

    Stjórnvaldsákvarðanir Skattsins samkvæmt lögum þessum sæta kæru til yfirskattanefndar. Um kærufrest og málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum laga um yfirskattanefnd. Yfirskattanefnd getur leitað umsagnar ráðherra sem fer með málefni sóttvarna um vafaatriði sem lúta að skilyrðum 1. tölul. 4. gr.

9. gr.
Ofgreiðsla.

    Hafi aðili fengið lokunarstyrk umfram það sem hann átti rétt á ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var með vöxtum skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá greiðsludegi. Dráttarvextir skv. 6. gr. sömu laga leggjast á kröfu um endurgreiðslu ef hún er ekki innt af hendi innan mánaðar frá dagsetningu endurákvörðunar Skattsins.
    Hafi rekstraraðili veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rekstrarkostnað eða upplýsingagjöf hans hefur að öðru leyti verið svo áfátt að áhrif hafi haft við ákvörðun um styrk skal Skatturinn gera honum að greiða 50% álag á kröfu um endurgreiðslu. Fella skal álagið niður ef aðili færir rök fyrir því að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann veitti réttar upplýsingar eða kæmi leiðréttingu á framfæri við Skattinn. Telji Skatturinn að háttsemi rekstraraðila geti varðað sektum eða fangelsi skal hann ekki gera honum að greiða álag heldur kæra málið til lögreglu.
    Ákvarðanir Skattsins og úrskurðir yfirskattanefndar um endurgreiðslur ofgreiddra lokunarstyrkja eru aðfararhæfir. Kæra til yfirskattanefndar eða málshöfðun fyrir dómstólum frestar aðför.

III. KAFLI
Stuðningslán.
10. gr.
Skilyrði.

    Ríkissjóður ábyrgist að lánastofnun sem hefur samið við Seðlabanka Íslands skv. 2. mgr. 18. gr. fái endurgreitt að fullu stuðningslán, að meðtöldum vöxtum skv. 1. mgr. 15. gr., sem hún veitir fyrir lok árs 2020 til rekstraraðila sem uppfyllir öll eftirtalin skilyrði:
     1.      Tekjur hans á 60 daga samfelldu tímabili frá 1. mars til 30. september 2020 voru, eða fyrirséð er að þau verði, a.m.k. 40% lægri en á sama 60 daga tímabili 2019. Hafi hann hafið starfsemi svo seint að ekki er unnt að bera saman tekjur hans á sama 60 daga tímabili bæði ár skulu tekjur hans á 60 daga samfelldu tímabili 2020 bornar saman við meðaltekjur hans á 60 dögum frá því hann hóf starfsemi til loka febrúar 2020.
     2.      Tekjur hans á rekstrarárinu 2019 voru að lágmarki 9 millj. kr. og að hámarki 500 millj. kr. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.
     3.      Launakostnaður hans á rekstrarárinu 2019 var a.m.k. 10% af rekstrarkostnaði hans sama ár. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna launa- og rekstrarkostnað þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.
     4.      Hann hefur ekki greitt út arð, óumsamda kaupauka, keypt eigin hlutabréf, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eigendum eða nákomnum aðilum lán eða aðrar greiðslur sem eru ekki nauðsynlegar til að viðhalda rekstri og rekstrarhæfi rekstraraðilans frá 1. mars 2020 og skuldbindur sig til að svo verði ekki þann tíma sem ábyrgðar ríkissjóðs nýtur við. Hugtakið nákominn aðili skal túlkað til samræmis við 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
     5.      Hann er ekki í vanskilum við lánastofnun sem hafa staðið lengur en 90 daga.
     6.      Hann er ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar.
     7.      Hann hefur ekki verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.
     8.      Ætla má, á grundvelli hlutlægra viðmiða varðandi rekstur hans á undangengnu ári, að hann verði rekstrarhæfur þegar bein áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar eru liðin hjá.

11. gr.
Fjárhæð.

    Stuðningslán getur numið allt að 10% af tekjum rekstraraðila á rekstrarárinu 2019. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll. Stuðningslán getur þó ekki orðið hærra en 6 millj. kr.
    Hafi rekstraraðili fengið lokunarstyrk dregst hann frá hámarki lánsfjárhæðar skv. 1. mgr.

12. gr.
Umsókn.

    Umsókn um stuðningslán skal beint, í gegnum miðlæga þjónustugátt á vefnum, til lánastofnunar sem hefur samið við Seðlabanka Íslands skv. 2. mgr. 18. gr.
    Rekstraraðili skal staðfesta við umsókn að hann uppfylli skilyrði 10. gr., eftir atvikum eins og þau kunna að verða útfærð í reglugerð ráðherra, að upplýsingar sem hann skilar og liggja til grundvallar ákvörðun fjárhæðar skv. 11. gr. séu réttar og að honum sé kunnugt um að það geti varðað álagi, sektum eða fangelsi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.

13. gr.
Afgreiðsla.

    Lánastofnun afgreiðir stuðningslán til rekstraraðila sem fullnægir skilyrðum 10. gr. og ákvarðar fjárhæð þess til samræmis við 11. gr. Stuðningslán skal veitt til 30 mánaða.

14. gr.
Nýting.

    Stuðningslán má aðeins nýta til að standa undir rekstrarkostnaði lánþega. Óheimilt er að nýta stuðningslán til að borga af eða endurfjármagna önnur lán.

15. gr.
Lánskjör.

    Stuðningslán er óverðtryggt og ber sömu vexti og vextir af sjö daga bundnum innlánum lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands eru hverju sinni.
    Lánastofnun er heimilt að innheimta þóknun, sem skal dregin frá við útborgun stuðningsláns, til að standa undir kostnaði við umsýslu stuðningslána. Fjárhæð hennar skal nánar ákvörðuð í samningi Seðlabanka Íslands við lánastofnun skv. 2. mgr. 18. gr. en skal þó að hámarki vera 2% af höfuðstól stuðningsláns. Lánastofnun er ekki heimilt að taka aðra þóknun eða gjald fyrir afgreiðslu stuðningsláns.

16. gr.
Endurgreiðsla.

    Stuðningslán, að meðtöldum vöxtum, skal endurgreitt með 12 jöfnum greiðslum síðustu 12 mánuði lánstímans, með fyrirvara um vanefndarúrræði lánastofnunar. Lántaka er heimilt að greiða upp eða inn á stuðningslán án uppgreiðsluþóknunar hvenær sem er á lánstíma.

17. gr.
Ofgreiðsla.

    Hafi rekstraraðili fengið stuðningslán umfram það sem hann átti rétt á ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var með áföllnum vöxtum skv. 1. mgr. 15. gr. Dráttarvextir skv. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, leggjast á kröfu um endurgreiðslu ef hún er ekki innt af hendi innan eins mánaðar frá því að lánastofnun krafði rekstraraðila um endurgreiðslu.
    Telji lánastofnun að rekstraraðili hafi veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar svo sektum eða fangelsi geti varðað skal hún kæra málið til lögreglu.

18. gr.
Samningar Seðlabanka Íslands.

    Ráðherra er heimilt að semja við Seðlabanka Íslands um að annast umsýslu vegna ábyrgða ríkissjóðs á stuðningslánum, þar á meðal uppgjör ábyrgða.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að semja við lánastofnanir um framkvæmd þeirra á stuðningslánum og samskipti þeirra við Seðlabankann, þar á meðal um uppgjör ábyrgða ríkissjóðs á lánunum og upplýsingagjöf lánastofnana til Seðlabankans. Í samningum Seðlabankans við lánastofnanir skal jafnframt fjallað um þóknanir lánastofnana skv. 2. mgr. 15. gr.

19. gr.
Eftirlit.

    Nefnd sem ráðherra skipar samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997, hefur eftirlit með framkvæmd þessa kafla, þar á meðal samninga skv. 18. gr. Ákvæði 3. mgr. bráðabirgðaákvæðisins gilda að breyttu breytanda um eftirlit samkvæmt þessari grein.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.
20. gr.
Reglugerð um minniháttar aðstoð.

    Stuðningur samkvæmt lögum þessum skal samræmast reglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) nr. 1407/2013 frá 18. desember 2013 um beitingu 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins gagnvart minniháttaraðstoð eins og hún var tekin upp í EES-samninginn.

21. gr.
Viðurlög.

    Einstaklingur eða lögaðili sem brýtur af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gegn lögum þessum, svo sem með því að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar í umsókn um lokunarstyrk eða stuðningslán eða með því að nýta stuðningslán á ólögmætan hátt, skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema brot megi teljast minni háttar.

22. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra getur kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara í reglugerð, þar á meðal um nánari útfærslu skilyrða 10. gr.

23. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði II. kafla koma til framkvæmda 4. maí 2020.

V. KAFLI
Breyting á öðrum lögum.
24. gr.

Breyting á lögum um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ákvæði laga þessara gilda ekki um þær ábyrgðarskuldbindingar sem ríkissjóði er heimilt að undirgangast gagnvart lánastofnunum samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Það er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr tjóni vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og skapa öfluga viðspyrnu í kjölfar hans. Ríkisstjórnin samþykkti 10. mars 2020 að beita sér fyrir markvissum aðgerðum til að mæta efnahagslegum áhrifum faraldursins. Meðal aðgerða sem þegar hefur verið gripið til er greiðsla atvinnuleysisbóta samhliða skertu starfshlutfalli, greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví, frestun á skattgreiðslum og veiting ábyrgða ríkisins á hluta lána til fyrirtækja í greiðsluvanda. Að auki hefur sérstöku fjárfestingarátaki verið hrundið af stað. Þá höfðu stjórnvöld samráð við Samtök fjármálafyrirtækja í aðdraganda samkomulags lánastofnana um tímabundna greiðslufresti á lánum til fyrirtækja.
    Til að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins voru settar á víðtækar samkomutakmarkanir og gerð krafa um að tiltekinni starfsemi yrði tímabundið hætt. Þau fyrirtæki sem stunda þá atvinnustarfsemi höfðu í flestum tilvikum lítil tök á að afla tekna til þess að standa undir föstum kostnaði. Frumvarpinu er ætlað að koma til móts við þann hóp með styrkgreiðslum. Jafnframt er því ætlað að styðja við efnahagsumsvif og atvinnustig með því að viðhalda greiðsluflæði í hagkerfinu þar sem stærri hóp fyrirtækja, sem hefur orðið fyrir tekjufalli af völdum heimsfaraldursins, er gert auðveldara um vik við að standa straum af föstum rekstrarkostnaði með opinberri ábyrgð á stuðningslánum til þeirra. Þau úrræði sem lögð eru til í frumvarpinu eru einkum sniðin að minni fyrirtækjum. Við mótun þeirra var sérstaklega hugað að samspili þeirra við úrræði sem þegar hefur verið ráðist í.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Heimsbyggðin hefur ekki tekist á við faraldur af sambærilegri stærðargráðu við kórónuveirufaraldurinn í heila öld. Viðbrögð til þess að hefta útbreiðslu faraldursins eiga sér ekki samsvörun og efnahagslegar afleiðingar eru taldar verða meiri en sést hafa frá kreppunni miklu sem hófst árið 1929.
    Meginstef þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til til þess að hefta faraldurinn er að draga úr samneyti milli fólks til að fækka smitleiðum. Aðgerðir stjórnvalda hér á landi hafa í meginatriðum verið eftirfarandi. Hinn 6. mars 2020 lýsti ríkislögreglustjóri yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Viku síðar, 13. mars, virkjaði heilbrigðisráðherra, að tillögu sóttvarnalæknis, heimildir sóttvarnalaga, nr. 19/1997, til að takmarka samkomur, með auglýsingu um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, nr. 217/2020, með það að markmiði að hægja eins og unnt væri á útbreiðslu kórónuveirunnar. Viðburðir þar sem fleiri en 100 manns koma saman voru bannaðir á tímabilinu 16. mars 2020 til og með 12. apríl 2020. Hinn 22. mars ákvað heilbrigðisráðherra að takmarka samkomur enn frekar en áður, með auglýsingu um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, nr. 243/2020. Meðal þess sem hertar aðgerðir fólu í sér var bann við samkomum þar sem fleiri en 20 manns koma saman og lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu frá 24. mars til og með 12. apríl 2020. Með auglýsingu nr. 309/2020 var takmörkun á samkomum samkvæmt auglýsingu nr. 243/2020 framlengd til og með 3. maí 2020.
    Í auglýsingu heilbrigðisráðherra nr. 217/2020 voru í fyrsta sinn settar takmarkanir á samkomur sem miðuðust við að óheimilt væri að 100 einstaklingar eða fleiri kæmu saman. Í auglýsingunni var ekki tæmandi talið hvaða starfsemi félli þar undir en tiltekið var í dæmaskyni ráðstefnuhald, málþing, fundir, skemmtanir og kirkjuathafnir. Í auglýsingunni var einnig birt regla um nálægðartakmörkun, þ.e. almennt viðmið um að starfsemi skyldi skipulögð þannig að hægt væri að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga.
    Auglýsingin var felld úr gildi með auglýsingu nr. 243/2020 um sama efni, en í henni voru í meginatriðum settar fram tvenns konar takmarkanir á starfsemi. Annars vegar fjöldatakmörkun þegar 20 einstaklingar eða fleiri koma saman og hins vegar bein krafa um lokun tiltekinnar starfsemi eða að óheimilt væri að veita ákveðna þjónustu vegna sérstakrar smithættu. Þá var nálægðartakmörkunin um 2 metra á milli einstaklinga áfram í gildi.
    Í 5. gr. auglýsingarinnar er fjallað um þá starfsemi sem skylt var að loka og þjónustu sem óheimilt var að veita. Þar segir annars vegar að sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, krám, spilasölum, spilakössum og söfnum skuli lokað á gildistíma auglýsingarinnar auk þess sem tekið er fram að aðrir veitingastaðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar skuli ekki hafa opið lengur en til kl. 23:00. Þá er hins vegar kveðið á um að starfsemi og þjónusta sem krefst eða hætta er á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar sé óheimil á gildistíma auglýsingarinnar, svo sem allt íþróttastarf, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa, nuddstofa og önnur sambærileg starfsemi. Tekið er fram að sama eigi við um íþróttastarf þar sem notkun á sameiginlegum búnaði geti haft smithættu í för með sér, svo sem í skíðalyftum.
    Þá er í auglýsingunni tiltekið að skólastarf og nauðsynleg heilbrigðisþjónusta sem þolir ekki bið falli utan gildissviðs auglýsingarinnar auk þess sem heimilt sé að sækja um undanþágur frá takmörkun á samkomum.
    Þessar umfangsmiklu takmarkanir hafa óhjákvæmilega haft áhrif á hagkerfið og má segja að það standi frammi fyrir tvíþættu áfalli vegna kórónuveirufaraldursins. Annars vegar verður samdráttur í innlendri eftirspurn vegna aðgerðanna og viðbragða almennings og stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Hins vegar er útlit fyrir algjört tekjuhrun í ferðaþjónustu. Vel hefur gengið að hefta útbreiðslu veirunnar hér á landi og vonir standa til að innlend eftirspurn geti tekið við sér að nýju samhliða því að undið verði skipulega og varfærnislega ofan af sóttvarnaraðgerðum. Hins vegar fara líkur vaxandi á því að samdráttur verði dýpri en fyrst var talið og fyrstu aðgerðir stjórnvalda tóku mið af. Leiðir það einkum af því að áhrifin verða meiri á ferðaþjónustu vegna aðstæðna á helstu markaðssvæðum og lokun landamæra. Atvinnuleysi verður af þessum sökum meira en áður hefur sést og þrálátara en vonast var eftir. Þessar erfiðu ytri aðstæður endurspeglast skýrt í nýrri hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem spáir mjög djúpri kreppu sem leiði af sér breytingar í hegðun og neyslu fólks.
    Faraldurinn og aðgerðir til að hefta útbreiðslu hans hafa dregið úr getu og vilja fólks til að kaupa vörur og þjónustu sem það ella hefði keypt. Innlend eftirspurn hefur því tímabundið dregist verulega saman og líkur eru á að hún verði áfram minni á næstu mánuðum en raunin hefði verið án faraldursins. Kortavelta Íslendinga dróst saman um 16% milli febrúar og mars. Samdrátturinn milli mánaða í mars var á við helming alls þess samdráttar sem mældist milli áranna 2007 og 2009 og er svipaður og samdrátturinn haustið 2008. Fyrstu tölur fyrir aprílmánuð benda til að samdrátturinn í verslun og þjónustu verði meiri en í mars. Þá sér ekki fyrir endann á algeru hruni í eftirspurn erlends ferðafólks, sem nam áður um fimmtungi af heildareftirspurn eftir innlendri vöru og þjónustu. Ógerningur er við núverandi aðstæður að spá fyrir um hversu hratt kraftur færist í ferðaþjónustuna að nýju.
    Hrun í eftirspurn eftir vörum og þjónustu hefur dregið úr tekjum fyrirtækja og birst í hærra atvinnuleysi, sem hætt er við að reynist langvinnt, og tilheyrandi tekjutapi heimila. Þannig áætlar Vinnumálastofnun að atvinnuleysi í apríl verði 17%, en það var 5% í febrúar áður en kórónuveirufaraldurinn breiddist út hér á landi. Líklegt er að atvinnuleysi verði ekki undir 10% á árinu að meðaltali, en árið 2019 störfuðu um 28.000 manns í einkennandi greinum ferðaþjónustu.
    Á meðan áhrif heimsfaraldursins og nauðsynlegar sóttvarnaraðgerðir knýja fram verulegan sparnað í hagkerfinu með tilheyrandi áhrifum á atvinnulíf og vinnumarkað er hlutverk hagstjórnar að vinna gegn því að minnkandi eftirspurn leiði til greiðsluflæðisvanda sem leiði til enn minni eftirspurnar og samdráttar í hagkerfinu. Draga má úr atvinnuleysi og efnahagslegu tapi sem leiðir af efnahagssamdrættinum með því að draga úr líkum á að fyrirtæki lendi í vanda með að standa skil á skuldbindingum á meðan samdráttur neyslu er mestur og fresta óumflýjanlegri aðlögun í ferðaþjónustu vegna mikillar fækkunar ferðamanna þar til innlend eftirspurn hefur náð sér á strik.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið er tvíþætt. Annars vegar er lagt er til að fyrirtæki og einstaklingar í atvinnurekstri, sem hafa tímabundið þurft að hætta alveg eða draga verulega úr atvinnustarfsemi vegna opinberra tilmæla um takmarkanir á samkomum og hafa orðið af verulegum tekjum af þeim sökum, geti sótt um styrk vegna lokunarinnar til Skattsins. Hins vegar er lagt til að ríkissjóður ábyrgist að fullu stuðningslán frá lánastofnunum til minni rekstraraðila sem orðið hafa fyrir verulegu og tímabundnu tekjutapi vegna áhrifa af kórónuveirufaraldrinum til að standa undir rekstrarkostnaði þeirra.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið var ekki talið gefa tilefni til að kanna samræmi við stjórnarskrá.
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið bannar að meginreglu til ríkisaðstoð sem raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinnar vöru að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila. Sú aðstoð sem frumvarpið gerir ráð fyrir fellur undir reglur um minniháttaraðstoð og felur því ekki í sér ríkisaðstoð í skilningi samningsins.

5. Samráð.
    Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við forsætisráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Seðlabanka Íslands, Skattinn og yfirskattanefnd. Við mótun úrræðanna var aflað upplýsinga frá Hagstofu Íslands og Sjúkratryggingum Íslands.
    Sökum þess hversu áríðandi þótti að leggja frumvarpið fram á Alþingi var ekki haft samráð um drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda.

6. Mat á áhrifum.
Áhrif á rekstraraðila sem gert var að loka eða hætta tímabundið starfsemi og þjónustu.
    Í II. kafla er lagður til styrkur til handa þeim rekstraraðilum sem var skylt að loka eða hætta tímabundið starfsemi og þjónustu skv. 5. gr. auglýsingar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, nr. 243/2020, með síðari breytingum. Talið er að þessi hópur samanstandi af um 2.000 rekstraraðilum sem höfðu af þessum sökum tímabundið mjög takmarkaða möguleika til þess að afla sér tekna og standa undir föstum kostnaði sem rekstrinum fylgir. Þó munu ekki allir 2.000 uppfylla önnur skilyrði til að hljóta styrk, svo sem um að tekjur hafi dregist saman um 75%, og því er ljóst að heildarfjöldi þeirra sem fá styrk verður eitthvað lægri. Styrkjunum er ætlað að koma til móts við tekjutap sem þessir rekstraraðilar urðu fyrir vegna ákvarðana stjórnvalda um rekstrarstöðvun og til að draga úr líkum á rekstrarerfiðleikum þeirra af þeim sökum. Styrkjunum er ekki ætlað að bæta allt tekjutap fyrirtækjanna vegna lokananna. Styrkfjárhæð er bundin hámarki, 800 þús. kr. á hvern starfsmann hjá rekstraraðila í febrúar 2020, þó að hámarki 2,4 millj. kr. fyrir hvern rekstraraðila. Styrkurinn gagnast þannig einkum smærri rekstraraðilum. Hann mun teljast til skattskyldra tekna en ekki virðisaukaskattsskyldrar veltu.

Áhrif á lántakendur.
    Í III. kafla er lagt til að ríkissjóður ábyrgist að fullu stuðningslán frá lánastofnunum til rekstraraðila, sem veitt eru fram til ársloka 2020 og fullnægja ákveðnum kröfum. Meðal skilyrða fyrir stuðningslánunum eru að skattskyldar tekjur lántaka á árinu 2019 hafi numið á bilinu frá 9 millj. kr. að 500 millj. kr. og að tekjur hans á 60 daga samfelldu tímabili frá 1. mars til 30. september 2020 verði a.m.k. 40% lægri en á sama 60 daga tímabili 2019. Lánsfjárhæð getur verið allt að 10% af rekstrartekjum fyrirtækja á árinu 2019, þó að hámarki 6 millj. kr., og er eingöngu heimilt að nýta stuðningslánið til þess að greiða rekstrarkostnað lántaka.
    Gögn frá Hagstofunni benda til þess að um 14.000 fyrirtæki uppfylli skilyrði stuðningslánanna um tekjur og launakostnað. Að því gefnu að þau myndu uppfylla öll önnur skilyrði frumvarpsins til fá lán myndi meðallánið nema tæpum 3,5 millj. kr. Að teknu tilliti til líklegs heildarfjölda fyrirtækja sem standast skilyrði um tekjufall og sóst gætu eftir slíkum lánum er talið að stuðningslánin gætu samtals numið tæplega 28 milljörðum kr.
    Þau lánsskilyrði sem lögð eru til í frumvarpinu um hámarksveltu og hámarkslánsfjárhæð leiða til þess að stuðningslánin nýtast einkum minni fyrirtækjum sem orðið hafa fyrir tímabundnum tekjusamdrætti. Tilætluð áhrif eru að styðja við greiðsluflæði í hagkerfinu með því að auka möguleika smærri fyrirtækja á að standa undir föstum kostnaði. Þar með er stutt við efnahagsumsvif.

Áhrif á lánastofnanir.
    Lánastofnunum verður falið að veita þau stuðningslán sem lögð eru til í III. kafla. Áhrifin á lánastofnanir fara eðlilega eftir því hversu margar umsóknirnar verða en þó skal horft til þess að stuðningslánin gætu dregið úr þörf bankanna til að afgreiða önnur flóknari lán og þannig auðveldað þeim að takast á við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Lánastofnunum verður heimilt að taka þóknun sem nemur allt að 2% af höfuðstól stuðningslánanna.
    Stuðningslánin verða færð sem eign bankanna en vegna 100% ábyrgðar ríkisins á stuðningslánunum hafa þau ekki áhrif á eiginfjárkröfur þeirra. Leitað verður leiða til að draga úr mögulegum neikvæðum áhrifum stuðningslánanna á lausafjárhlutföll bankanna.

Áhrif á stjórnsýslu.
    Með frumvarpinu er lagt til að Skattinum verði falið nýtt verkefni við afgreiðslu umsókna um styrk skv. II. kafla. Gera má ráð fyrir töluverðri eftirspurn eftir styrkjunum og mun afgreiðsla þeirra því fela í sér aukin umsvif og kostnað hjá Skattinum. Lagt er til að umsóknarferlið verði rafrænt og mun hönnun þess og umsjón einnig fela í sér útgjöld.
    Seðlabanki Íslands mun annast framkvæmd á veitingu ábyrgða ríkissjóðs á stuðningslánum skv. III. kafla líkt og gildir um viðbótarlán sem Alþingi hefur samþykkt að veita með fjáraukalögum fyrir 2020, sbr. fjáraukalög nr. 26/2020 og bráðabirgðaákvæði í lögum um ríkisábyrgðir, sbr. breytingar með lögum nr. 25/2020. Mun þetta óhjákvæmilega fjölga verkefnum Seðlabankans.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ákvarðanir Skattsins um lokunarstyrk verði kæranlegar til yfirskattanefndar og að nefndin og Skatturinn geti leitað umsagnar heilbrigðisráðuneytisins vegna vafaatriða er varða skylduna til að loka starfsemi. Áhrifin munu ráðast af fjölda umsagnarbeiðna og kærumála en gert er ráð fyrir að þau áhrif verði ekki veruleg og málin ekki af þeim toga að þau krefjist mannauðs sem nefndin og ráðuneytið búa ekki yfir nú þegar.

Áhrif á efnahagslífið.
    Langstærstur hluti fyrirtækja á Íslandi hefur færri en tíu starfsmenn og lægri tekjur en 500 millj. kr. á ári. Fyrirtæki af þessari stærðargráðu mynda grunn íslensks efnahagslífs en geta í mörgum tilfellum átt erfitt um vik með fyrirgreiðslu hjá lánastofnunum vegna skorts á veðum og óvissu um greiðsluflæði vegna þeirra búsifja sem kórónuveirufaraldurinn og viðbrögð við honum hafa leitt til. Ólíkt lausafjárvandræðum sem hljótast af hefðbundnari hagsveiflum glímir efnahagslífið nú við mjög skarpan greiðsluvanda vegna tímabundinnar stöðvunar atvinnustarfsemi og neyslu, sérstaklega í starfsemi sem krefst nálægðar starfsfólks og viðskiptavina. Þótt afleiðingar efnahagsáfallsins vegna faraldursins muni óhjákvæmilega reynast langvinnar í tilteknum atvinnugreinum ættu þær ekki að ógna lífvænleika annarrar starfsemi ef fjármagnsflæði stöðvast ekki í hagkerfinu á meðan áfallið ríður yfir. Lokunarstyrkjum og stuðningslánum með fullri ríkisábyrgð er þannig ætlað að styðja við lífvænleg fyrirtæki til greiðslu fasts kostnaðar á meðan mestu efnahagslegu áhrifa faraldursins gætir. Með þeim úrræðum sem lögð eru til í frumvarpi þessu og samspili þeirra við önnur úrræði stjórnvalda, svo sem hlutaatvinnuleysisbóta vegna skerts starfshlutfalls, er vonast til að dregið verði úr greiðsluflæðisvanda fyrirtækja á meðan samdráttur í neyslu er í botni. Þar með er reynt að koma í veg fyrir að snarpur en tímabundinn samdráttur heildareftirspurnar leiði til hringrásar þar sem stöndug fyrirtæki leggja upp laupana, fjárfesting og efnahagsumsvif minnka og atvinna dregst saman. Úrræði frumvarpsins gætu dregið úr atvinnuleysi og efnahagslegu tapi sem leiðir af efnahagssamdrættinum.
    Upplýsingar frá Hagstofunni benda, sem fyrr segir, til þess að 14.000 fyrirtæki hafi uppfyllt skilyrði frumvarpsins um tekjur og launakostnað vegna stuðningslána. Það er stór hluti launagreiðenda í viðskiptahagkerfinu, en þeir voru tæplega 18.000 í upphafi árs. Ekki er hins vegar ljóst hversu mörg fyrirtækjanna uppfylla önnur skilyrði fyrir lánum með ríkisábyrgð, t.d. um 40% samdrátt í tekjum. Í nýlegri skoðanakönnun Samtaka atvinnulífsins kom fram að um 40% þeirra sem svöruðu töldu að tekjufall á 2. ársfjórðungi yrði a.m.k. 50%. Að gefnum skilyrðum sem af því leiðir og skilyrðum frumvarpsins gæti umfang lánanna numið um 28 milljörðum kr. Við þetta bætist að um 2.000 rekstraraðilar eru taldir uppfylla skilyrði til að hljóta lokunarstyrk og umfang þeirra gæti numið allt að 2,5 milljörðum kr., en þessir tveir hópar skarast að einhverju leyti. Laust fé í umferð gæti aukist um sömu fjárhæð og nýtist við að draga úr mögulegum greiðsluflæðisvanda í hagkerfinu. Að teknu tilliti til aðstæðna í efnahagslífinu nú um mundir er ekki talið að þessi aukning lausafjár hafi óæskileg áhrif á þróun verðbólgu.

Áhrif á ríkissjóð.
    Í ljósi þess að um það bil 2.000 rekstraraðilar geta átt rétt á lokunarstyrkjum og er áætlað að kostnaður ríkissjóðs geti orðið allt að 2,5 milljörðum kr. vegna þeirra. Skv. III. kafla munu lánastofnanir jafnframt veita stuðningslán til minni fyrirtækja sem ríkissjóður ábyrgist. Líkt og rakið er hér framar er talið að heildarfjárhæð stuðningslánanna geti numið um 46 milljörðum kr. en hópurinn sem á rétt á stuðningslánunum skarast að einhverju leyti við þann sem á rétt á styrkjum og koma þær til frádráttar hámarki lánsfjárhæðar. Þá hefur við mat á þessari fjárhæð ekki verið tekið tillit til annarra lánsskilyrða, til að mynda um samdrátt rekstrartekna eða að fyrirtæki séu ekki í vanskilum með opinber gjöld, sem gætu fækkað lánshæfum aðilum. Eftir að tekið hefur verið tillit til þeirra þátta er áætlað að fjárhæð stuðningslánanna lækki og gæti þá numið um 28 milljörðum kr. Ómögulegt er að spá fyrir um endurheimtur af þessum lánum og af hversu stórum hluta þeirra mun reyna á ábyrgð ríkisins. Þá er óljóst hvert samspil stuðningslána sem lögð eru til í þessu frumvarpi verða við viðbótarlán sem samþykkt var að veita með fjáraukalögum fyrir árið 2020, nr. 26/2020 (695. mál, þskj. 1207), og 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögum um ríkisábyrgðir, sbr. lög um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020 (683. mál, þskj. 1206), og hver hreinn kostnaðarauki verður af þeim stuðningslánum sem lögð eru til í frumvarpinu.
    Lagt er til að ráðherra skipi nefnd sem verði falið að hafa eftirlit með framkvæmd III. kafla. Um er að ræða sömu nefnd og mun hafa eftirlit með viðbótarlánum. Gert er ráð fyrir að kostnaður við vinnu nefndarinnar geti numið að hámarki 48 millj. kr. á ári.
    Í samningi milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Seðlabanka Íslands um framkvæmd á veitingu ábyrgða gagnvart lánastofnunum vegna viðbótarlána þeirra til fyrirtækja vegna heimsfaraldurs kórónuveiru er gert ráð fyrir að ráðuneytið greiði allan kostnað Seðlabankans af framkvæmd verkefnisins. Líklegt má telja að sami háttur verði hafður á með þau stuðningslán sem lögð eru til í þessu frumvarpi en kostnaðarmat liggur ekki fyrir.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Aðeins einstaklingar og lögaðilar sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sem þeir höfðu hafið starfsemi fyrir 1. febrúar 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, geta fengið lokunarstyrk eða stuðningslán samkvæmt frumvarpinu. Atvinnurekstur og sjálfstæð starfsemi er skilgreind í 1. tölul. 3. gr. Aðili telst hafa hafið atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í skilningi frumvarpsins þegar hann hefur verið skráður á launagreiðendaskrá og, þegar það á við, virðisaukaskattsskrá. Ótakmörkuð skattskylda skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt felur að meginreglu til í sér skyldu til að greiða tekjuskatt hér á landi af öllum skattskyldum tekjum einstaklings eða lögaðila.
    Frumvarpið nær ekki til stofnana, byggðasamlaga og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Fyrirtæki telst í eigu ríkis eða sveitarfélaga í skilningi frumvarpsins ef ríki og sveitarfélög eiga samanlagt meira en helming eignarhluta í því. Fyrirtæki sem þrjú sveitarfélög eiga hvert 20% hlut í telst þannig til dæmis í eigu sveitarfélaga þótt aðrir en ríki og sveitarfélög eigi þau 40% sem út af standa.
    Í frumvarpinu er vísað til þeirra sem falla undir gildissviðið sem rekstraraðila, sbr. 4. tölul. 3. gr.

Um 2. gr.

    Til þess að draga úr áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða til að hægja á útbreiðslu hans á efnahagslífið hafa stjórnvöld komið af stað ýmsum úrræðum sem styðja við atvinnulífið og fólk á vinnumarkaði, svo sem með lögum um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa (minnkað starfshlutfall), nr. 23/2020, og lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020. Markmið þessa frumvarps er að breikka stuðning stjórnvalda þannig að stærri hópur geti nýtt sér úrræði sem draga úr tímabundnum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða til að verjast útbreiðslu veirunnar á efnahagslífið. Efnahagsleg áhrif sem stefnt er að eru að styðja við eftirspurn, viðhalda atvinnustigi og draga úr hættu á greiðsluflæðisvanda sem gæti leitt til enn dýpri efnahagssamdráttar.

Um 3. gr.

     Um 1. tölulið. Með atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi er átt við starfsemi aðila sem greiða laun skv. 1. eða 2. tölul. 5. gr. um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Undir það fellur bæði endurgjald fyrir vinnu starfsfólks og reiknað endurgjald vegna vinnu við eigin rekstur. Það er jafnframt hugtaksatriði að launagreiðandi hafi verið skráður á launagreiðendaskrá. Skv. 19. gr., sbr. 5. og 7. gr., laga um staðgreiðslu opinberra gjalda ber hverjum þeim sem greiðir laun í skilningi laganna að tilkynna sig sem launagreiðanda. Þá er það einnig hugtaksatriði að viðkomandi sé jafnframt skráður á virðisaukaskattsskrá þegar það á við. Skv. 5. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, ber hverjum þeim sem er skattskyldur samkvæmt þeim lögum að tilkynna ríkisskattstjóra um atvinnurekstur sinn eða starfsemi.
     Um 2. tölulið. Launamaður samkvæmt frumvarpinu er launamaður skv. 4. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Til þeirra teljast bæði þeir sem fá endurgjald fyrir starfa sem þeir inna af hendi á ábyrgð launagreiðanda og þeir sem skulu reikna sér endurgjald vegna vinnu við eigin rekstur.
     Um 3. tölulið. Lokunarstyrkur samkvæmt frumvarpinu er fjárframlag sem ríkissjóður veitir rekstraraðila á grundvelli II. kafla.
     Um 4. tölulið. Rekstraraðilar samkvæmt frumvarpinu eru einstaklingar og lögaðilar sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. febrúar 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi, sbr. 1. gr.
     Um 5. tölulið. Rekstrarkostnaður samkvæmt frumvarpinu er rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Í því ákvæði kemur fram að frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri megi draga rekstrarkostnað, þ.e. þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Niðurfærslur og fyrningar eigna eru þó undanskildar því rekstraraðili þarf ekki að inna af hendi fé til að standa undir þeim.
     Um 6. tölulið. Stuðningslán samkvæmt frumvarpinu er lán til rekstraraðila sem ríkissjóður ábyrgist á grundvelli 10. gr.
     Um 7. tölulið. Tekjur samkvæmt frumvarpinu eru tekjur sem eru skattskyldar skv. B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, það er allar tekjur af atvinnurekstri og sjálfstæðri starfsemi. Tekjur vegna sölu varanlegra rekstrarfjármuna eru þó undanskildar sérstaklega. Þær tekjur geta verið verulegar en eru almennt óreglulegar og gefa ekki rétta mynd af þeim tekjum sem rekstraraðili hefur alla jafna. Miða skal við almennar reglur laga um tekjuskatt við ákvörðun á því hvenær tekjur hafi orðið til, sbr. einkum 2. mgr. 59. gr. laganna þar sem fram kemur að tekjur skuli að jafnaði telja til tekna þegar þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða.

Um 4. gr.

    Lagt er til að rekstraraðili þurfi að uppfylla fimm skilyrði til að hljóta lokunarstyrk.
     Um 1. tölulið. Lagt er til að styrkur sé háður því að rekstraraðila hafi verið skylt að loka samkomustað skv. 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. auglýsingar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar nr. 243/2020 eða láta af starfsemi og þjónustu á grundvelli 2. mgr. sömu greinar. Skv. 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, er heimilt að setja atvinnufrelsi manna skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Með hliðsjón af markmiði með frumvarpinu verður að gera greinarmun á eðli og umfangi þeirra skerðinga sem lagðar eru á atvinnustarfsemi með auglýsingunni. Auglýsingin felur annars vegar í sér skerðingar á starfsemi sem sæta þarf fjöldatakmörkunum skv. 3. gr. auglýsingarinnar, nálægðartakmörkunum skv. 4. gr. og takmörkunum á opnunartíma skv. 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. og hins vegar algert bann við tiltekinni starfsemi og þjónustu á gildistíma samkomutakmarkana skv. 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 5. gr. Skv. 8. gr. auglýsingarinnar getur ráðherra veitt undanþágu frá samkomutakmörkunum skv. 3. og 4. gr. í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins eða til verndar lífi eða heilsu manna. Samkvæmt heilbrigðisráðuneytinu hefur heimildin verið túlkuð þröngt og undanþágur aðeins veittar þegar afar brýnir hagsmunir hafa verið taldir hvíla að baki því að starfsemi haldi áfram órofin. Talsverður munur er því á aðstöðu aðila eftir því hvort starfsemin fellur annars vegar undir 3. gr. , 4. gr., eða 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar og hins vegar undir 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar. Starfsemi sem sæta þarf fjölda- og nálægðartakmörkunum eða takmörkun á opnunartíma er hægt að viðhalda í einhverri mynd og laga að hertum sóttvörnum jafnvel þótt slík starfsemi hafi í mörgum tilvikum verulega dregist saman eða lagst af tímabundið. Þá getur ráðherra jafnframt veitt kerfislega og efnahagslega mikilvægum aðilum undanþágu frá takmörkunum. Aðilum sem falla undir 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 5. gr. er hins vegar að mestu gert óheimilt að stunda sína starfsemi og hafa ekki kost á að laga rekstur sinn tímabundið að breyttu umhverfi með hertum sóttvörnum. Má því segja að rekstrargrundvelli hafi verið kippt tímabundið undan þeim aðilum. Telja verður að eðli og umfang þeirrar skerðingar sem þeim aðilum hafi verið gert að sæta sé annað og meira en þeirra sem sæta fjölda- og nálægðartakmörkunum og takmörkun á opnunartíma. Sanngirnissjónarmið hníga að því að greiða þeim aðilum styrk til að standa undir hluta rekstrarkostnaðar sem fellur á gildistíma samkomutakmarkana. Er því lagt til, í samræmi við markmið frumvarpsins, að styrkur greiðist ekki vegna skerðingar á starfsemi sem sæta þarf fjölda- og nálægðartakmörkunum skv. 3. og 4. gr. eða takmörkun á opnunartíma skv. 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar heldur einungis vegna þeirrar starfsemi og þjónustu sem beinlínis var óheimil á gildistíma auglýsingarinnar skv. 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 5. gr.
    Í 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar segir að sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, krám, spilasölum, spilakössum og söfnum skuli lokað á gildistíma auglýsingarinnar. Skemmtistaðir og krár teljast til leyfisskyldra veitingastaða í skilningi 7. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, sbr. 4. gr. sömu laga. Skilgreiningu á skemmtistöðum og krám er að finna í 18. gr. reglugerðar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 1277/2016. Skv. b-lið ákvæðisins eru skemmtistaðir skilgreindir sem veitingastaðir með reglubundna skemmtistarfsemi og fjölbreyttar veitingar í mat og/eða drykk. Undir þá skilgreiningu falla einnig staðir þar sem aðaláhersla er lögð á áfengisveitingar, dans gesta, tónlist og langan afgreiðslutíma en engar eða takmarkaðar veitingar í mat. Skv. f-lið ákvæðisins eru krár skilgreindar sem veitingastaðir með takmarkaða þjónustu og einfaldar eða engar veitingar í mat þar sem aðaláhersla er lögð á áfengisveitingar og langan afgreiðslutíma. Öðrum veitingastöðum en skemmtistöðum og krám var ekki gert að hætta starfsemi á gildistíma auglýsingarinnar, þótt þeim hefði eftir atvikum verið gert að sæta skerðingu á opnunartíma, og eiga því ekki rétt á styrkjum samkvæmt frumvarpinu.
    Skilgreining á starfsemi veitingastaða er tilgreind í rekstrarleyfi viðkomandi staðar. Hafa ber í huga að á einum veitingastað getur verið starfrækt tvenns konar starfsemi á sama rekstrarleyfinu. Til dæmis getur staður verið rekinn sem veitingahús á dagtíma en skemmtistaður á kvöldin. Við mat á því hvort slíkur veitingastaður eigi rétt á styrk ber að horfa til umfangs hvorrar starfsemi í rekstri staðarins.
    Skv. 2. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar er starfsemi og þjónusta sem krefst eða hætta er á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar óheimil á gildistíma auglýsingarinnar. Í dæmaskyni er nefnt allt íþróttastarf, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa, nuddstofa og önnur sambærileg starfsemi. Tekið er fram að sama eigi við um íþróttastarf þar sem notkun á sameiginlegum búnaði geti haft smithættu í för með sér, svo sem í skíðalyftum. Ákvæði 5. gr. auglýsingarinnar er almennt orðað og ber ekki með sér tæmandi talningu á þeirri starfsemi sem fellur undir skýlausa kröfu um lokun eða algera skerðingu á möguleikum aðila til að halda úti starfsemi eða veita þjónustu. Við mat á því hvað telst sambærileg starfsemi skv. 2. mgr. 5. gr. verður að horfa til þess hvort eðli starfseminnar krefjist eða feli í sér hættu á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar. Þar undir fellur starfsemi ýmissa heilbrigðisstétta, svo sem tannlækna, hvers kyns líkams- og snyrtimeðferðir, til dæmis húðflúrunarstofur, hand- og fótaaðgerðir, sjúkraþjálfun og sjúkranudd. Meðferðir á dýrum, svo sem hundasnyrting, falla þar einnig undir.
    Heilbrigðisráðuneytið hefur haft umsjón með fyrirspurnum um túlkun á inntaki og gildissviði auglýsingar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Með hliðsjón af því er í 8. gr. frumvarpsins lagt til að Skatturinn og yfirskattanefnd geti leitað umsagnar ráðherra sem fer með málefni sóttvarna um vafaatriði sem lúta að skilyrði 1. tölul. 4. gr.
     Um 2. tölulið. Lokunarstyrkjum er ætlað að styðja við rekstraraðila sem hafa orðið fyrir verulegum skakkaföllum vegna aðgerða til að verjast útbreiðslu kórónuveirunnar. Því er lagt til að rekstraraðili þurfi að hafa orðið fyrir a.m.k. 75% tekjufalli. Til einföldunar er miðað við tekjur eina heila mánuðinn sem takmarkanir samkvæmt auglýsingu nr. 243/2020 stóðu yfir, þ.e. apríl 2020, og þær bornar saman við tekjur í sama mánuði árið áður. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir 1. apríl 2019 skal þó miðað við meðaltekjur hans á 30 dögum frá því hann hóf starfsemi til loka febrúar 2020. Sem dæmi má nefna rekstraraðila sem hóf ekki starfsemi fyrr en 10. október 2019 og hafði því starfað í 143 daga í lok febrúar 2020. Hafi hann haft 10 millj. kr. tekjur frá upphafi voru meðaltekjur hans á 30 daga tímabili þá 2.097.902 kr. (10 millj. kr. * 30 dagar / 143 dagar). Tekjur hans í apríl 2020 mega því ekki hafa verið hærri en 524.476 kr. (2.097.902 kr. * 25%).
     Um 3. tölulið. Töluliðnum er ætlað að tryggja að um fullburða atvinnustarfsemi hafi verið að ræða en ekki aðeins hliðarstarf eða áhugamál. Skattskyldar tekjur 2019 þurfa að hafa verið a.m.k. 4,2 millj. kr., eða 350 þús. kr. á mánuði að meðaltali. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll. Hafi hann til dæmis starfað frá 12. júní 2019 ætti að margfalda skattskyldar tekjur á tímabilinu með tæplega 1,4 (365 dagar / 263 dagar) til að kanna hvort skilyrðinu um 4,2 millj. kr. árstekjur hafi verið fullnægt.
     Um 4. tölulið. Ekki er talið eðlilegt að ríkissjóður veiti rekstraraðilum sem voru í vanskilum með opinber gjöld áður en áhrifa aðgerða til að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar fór að gæta sérstakan fjárstuðning. Því er það gert að skilyrði fyrir styrkjum að rekstraraðili sé ekki í vanskilum með opinbert gjöld sem voru komin á eindaga í árslok 2019. Ákvæðið er nánast samhljóða 3. efnismgr. 2. gr. laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020, og hafa má hliðsjón af túlkun hennar.
     Um 5. tölulið. Frumvarpinu er ætlað að styðja við starfandi rekstraraðila og viðhalda þannig atvinnustigi og efnahagsumsvifum í landinu. Því er lagt til að rekstraraðilar geti ekki fengið lokunarstyrk ef bú þeirra hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta eða þeir hafa verið teknir til slita. Um gjaldþrotaskipti gilda lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Upphaf gjaldþrotaskipta miðast almennt við úrskurð héraðsdómara um gjaldþrotaskipti. Um slit á lögaðilum fer samkvæmt þeim lögum sem gilda um viðkomandi lögaðilaform. Um slit einkahlutafélaga fer þannig til dæmis samkvæmt lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994.

Um 5. gr.

     Um 1. mgr. Í 1. málsl. málsgreinarinnar kemur fram sú meginregla að fjárhæð lokunarstyrks skuli vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila á því tímabili sem skylt var að loka samkomustað eða láta af starfsemi eða þjónustu skv. 5. gr. auglýsingar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar nr. 243/2020, þ.e. 24. mars til 3. maí 2020. Kalli Skatturinn eftir því þarf rekstraraðili að sýna fram á að kostnaður hafi fallið til á því tímabili, svo sem með framlagningu greiðslukvittana. Kostnað sem fellur til á lengra tímabili en 24. mars til 3. maí 2020 má hlutfalla. Sem dæmi má nefna að hafi tiltekinn kostnaðarliður rekstraraðila í mars, apríl og maí 2020 verið samanlagt 3 millj. kr. gæti styrkur til hans vegna þessa kostnaðar numið ríflega 1,3 millj. kr. (3 millj. kr. * 41 dagur / 92 dagar).
    Lokunarstyrkur getur þó ekki verið hærri en 800 þús. kr. á hvern launamann sem starfaði hjá rekstraraðila í febrúar 2020, eða 2,4 millj. kr. á hvern rekstraraðila. Styrkurinn verður þannig ekki hærri en 800 þús. kr. hafi rekstraraðili haft einn launamann á sínum vegum í febrúar 2020, 1,6 millj. kr. ef þeir voru tveir og 2,4 millj. kr. ef þeir voru þrír eða fleiri. Aðeins á að líta til fjölda launamanna en ekki starfshlutfalls. Hámarkið er þannig óháð því hvort launamenn hafi verið í fullu starfi eða hlutastarfi.
     Um 2. mgr. Samanlögð fjárhæð lokunarstyrks og stuðningsláns, án tillits til frádráttar þóknunar skv. 2. mgr. 15. gr., á ekki að vera hærri en hámarksfjárhæð stuðningsláns skv. 1. mgr. 11. gr. Hámarksfjárhæð stuðningsláns er almennt 10% af tekjum rekstraraðila 2019 eða 6 millj. kr., eftir því hvor fjárhæðin er lægri. Af þessum sökum þarf fjárhæð lokunarstyrks að taka mið af stuðningsláni sem rekstraraðili hefur fengið. Sem dæmi má nefna rekstraraðila sem á rétt á allt að 5 millj. kr. stuðningsláni skv. 1. mgr. 11. gr., en kaus að fá aðeins 4 millj. kr. að láni. Lokunarstyrkur til hans gæti þá ekki verið hærri en 1 millj. kr. (5 millj. kr. – 4 millj. kr.). Rekstraraðili sem hefur fullnýtt rétt sinn til stuðningsláns getur ekki fengið lokunarstyrk.
     Um 3. mgr. Lokunarstyrkur myndar skattstofn samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Hann telst þó ekki til skattskyldrar veltu samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

Um 6. gr.

     Um 1. mgr. Gert er ráð fyrir að komið verði á fót rafrænni gátt fyrir umsóknir en að umsókn og umsóknarferli verði að öðru leyti á formi sem Skatturinn ákveður. Lokunarstyrk er ætlað að mæta tímabundnum vanda rekstraraðila sem stafar af lokunum 24. mars til 3. maí 2020 og því lagt til að umsóknum skuli skila eigi síðar en 1. september sama ár.
     Um 2. mgr. Margir rekstraraðilar munu ekki hafa skilað ársreikningum og endanlegum skattskýrslum vegna rekstrarársins 2019, og enginn vegna rekstrarársins 2020, þegar og ef frumvarpið verður að lögum. Óhjákvæmilegt er því að styðjast að verulegu leyti við upplýsingar sem rekstraraðili leggur til við umsókn um styrk, en gert ráð fyrir eftirliti eftir á. Því er lagt til að umsækjandi skuli staðfesta við umsókn að hann uppfylli skilyrði 4. gr., að upplýsingar sem hann skilar og liggja til grundvallar ákvörðun fjárhæðar skv. 5. gr. séu réttar og að honum sé kunnugt um að það geti varðað álagi, sektum eða fangelsi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.

Um 7. gr.

     Um 1. mgr. Lagt er til að Skatturinn fari yfir umsóknir um lokunarstyrki og greiði út styrki til þeirra sem eiga rétt á þeim. Skatturinn skal afgreiða umsókn svo fljótt sem verða má og ekki síðar en tveimur mánuðum eftir að honum berst fullnægjandi umsókn.
     Um 2. mgr. Ekki er gert ráð fyrir að umsókn þurfi að fylgja ítarlegar upplýsingar eða gögn. Þess í stað geti Skatturinn kallað eftir rökstuðningi og gögnum ef þess þarf við afgreiðslu umsóknar eða við endurskoðun á ákvörðun eftir á, eftir atvikum í reglubundnu eftirliti. Heilbrigðisráðherra setti auglýsingu um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, nr. 243/2020, og hefur leyst úr vafamálum um gildissvið 5. gr. hennar. Því er lagt til að Skatturinn geti leitað umsagnar heilbrigðisráðherra sem fer með málefni sóttvarna um vafaatriði sem lúta að skilyrði 1. tölul. 4. gr.
     Um 3. mgr. Komi í ljós eftir afgreiðslu styrks að skilyrði fyrir greiðslu hans voru ekki uppfyllt skal Skatturinn með endurákvörðun fella hann niður. Þá skal hann endurákvarða styrkfjárhæð, eftir atvikum til lækkunar eða hækkunar, ef síðar kemur í ljós að rekstraraðili átti rétt á hærri eða lægri styrk en hann fékk greiddan. Um endurgreiðslu ofgreidds styrks fer skv. 9. gr. frumvarpsins.
     Um 4. mgr. Gert er ráð fyrir að almennar málsmeðferðarreglur skattalaga gildi um ákvarðanir Skattsins, að því leyti sem ekki er sérstaklega kveðið á um annað. Þetta hefur m.a. þá þýðingu að heimild til endurákvörðunar takmarkast almennt við sex rekstrarár á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram.
     Um 5. mgr. Til að afgreiða umsókn um stuðningslán getur lánastofnun þurft upplýsingar um fjárhæð lokunarstyrks sem rekstraraðili hefur fengið og um hvort hann uppfylli skilyrði 6. tölul. 10. gr. frumvarpsins varðandi skattskil. Því er lagt til að Skattinum verði heimilað að miðla þeim upplýsingum til lánastofnana og að ákvæði um þagnarskyldu starfsmanna Skattsins standi því ekki í vegi.

Um 8. gr.

    Stjórnvaldsákvarðanir Skattsins sæta almennt kæru til yfirskattanefndar og lagt er til að hið sama gildi um stjórnvaldsákvarðanir hans samkvæmt lögum þessum, nái frumvarp þetta fram að ganga, þar á meðal um það hvort aðili eigi rétt á lokunarstyrk. Um kærufrest og meðferð mála, þar á meðal form kæru, gagnaöflun, málflutning og lok meðferðar, gilda lög um yfirskattanefnd, nr. 30/1992. Heilbrigðisráðherra setti auglýsingu um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, nr. 243/2020, og hefur leyst úr vafamálum um gildissvið 5. gr. hennar. Því er lagt til að yfirskattanefnd geti leitað umsagnar ráðherra um vafaatriði sem lúta að skilyrði 1. tölul. 4. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.

     Um 1. mgr. Hafi aðili fengið styrk umfram það sem hann átti rétt á, hvort sem hann átti ekki rétt á neinum styrk eða fékk hærri styrk en hann átti rétt á, ber honum að endurgreiða í ríkissjóð þá fjárhæð sem ofgreidd var. Krafan ber útlánavexti skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi sem ofgreitt var og þar til greitt er. Dráttarvextir skv. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu leggjast þó á standi rekstraraðili ekki skil á endurgreiðslu innan mánaðar frá dagsetningu endurákvörðunar Skattsins um að fella niður eða lækka styrk.
     Um 2. mgr. Hafi rekstraraðili fengið ofgreiddan styrk með því að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar skal Skatturinn almennt gera honum að greiða 50% álag. Álagið leggst á endurgreiðslukröfuna eins og hún er með áföllnum vöxtum og eftir atvikum dráttarvöxtum á greiðsludegi. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur talið það geta verið andstætt mannréttindasáttmála Evrópu að gera sama manni að greiða álag á skatta og sæta í framhaldinu höfðun sakamáls vegna sama brots. Með tilliti til þeirra sjónarmiða er lagt til að Skatturinn geri aðila ekki að greiða álag ef Skatturinn telur háttsemi hans geta varðað sektum eða fangelsi heldur vísi málinu til rannsóknar lögreglu. Rekstraraðila bæri eftir sem áður að greiða áfallna vexti og eftir atvikum dráttarvexti af ofgreiddum styrk.
     Um 3. mgr. Lagt er til að gera megi aðför til fullnustu ákvörðun Skattsins og úrskurðum yfirskattanefndar um endurgreiðslur ofgreiddra styrkja án undangengins dóms, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989. Um framkvæmd fullnustunnar fer samkvæmt lögum um aðför. Ekki má þó gera aðför á meðan endurgreiðslukrafa er til meðferðar hjá yfirskattanefnd eða dómstólum. Réttmæt endurgreiðslukrafa ber þó áfram vexti eða dráttarvexti á meðan á slíkri meðferð stendur.

Um 10. gr.
    

    Lagt er til að lánastofnanir sem hafa gert samning við Seðlabanka Íslands skv. 2. mgr. 18. gr. frumvarpsins geti veitt rekstraraðila sem uppfyllir tilgreind skilyrði stuðningslán með ábyrgð ríkissjóðs. Lánastofnanir eru viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. a og 1.–3. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Ábyrgð ríkissjóðs er einföld ábyrgð. Ábyrgðin verður því ekki virk nema hefðbundnar innheimtutilraunir lánastofnunar hafi verið árangurslausar og fullreynt að ekki fáist greiðsla frá lántaka.
     Um 1. tölulið. Stuðningslánum er ætlað að styðja við rekstraraðila sem hafa orðið fyrir verulegum skakkaföllum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða til að verjast útbreiðslu veirunnar. Af þeim sökum er lagt til að það verði gert að skilyrði fyrir stuðningsláni að rekstraraðili hafi orðið fyrir a.m.k. 40% tekjufalli á 60 daga samfelldu tímabili frá 1. mars til 30. september 2020 samanborið við sama tímabil 2019. Með því að miða við 60 daga tímabil er reynt að líta til þess tímaramma þar sem mestra efnahagslegra áhrif faraldursins gætir og draga úr áhrifum tímabundinna sveiflna. Valkvætt er við hvaða tímabil innan þessa ramma er miðað en miða verður við sömu tímabil á báðum árum. Ef til dæmis væri miðað við tekjur 15. mars til 13. maí 2020 bæri að bera þær saman við tekjur 15. mars til 13. maí 2019. Ef rekstraraðili hóf starfsemi svo seint á árinu að ekki er unnt að bera saman sama 60 daga tímabil á báðum árum skulu tekjur hans á 60 daga samfelldu tímabili 2020 þó bornar saman við meðaltekjur hans á 60 dögum frá því að hann hóf starfsemi til loka febrúar 2020. Sem dæmi má nefna rekstraraðila sem hóf ekki starfsemi fyrr en 10. október 2019 og hafði því starfað í 143 daga í lok febrúar 2019. Hafi hann haft 10 millj. kr. tekjur frá upphafi voru meðaltekjur hans á 60 daga tímabili þá 4.195.804 kr. (10 millj. kr. * 60 dagar / 143 dagar). Tekjur hans á því 60 daga tímabili sem valið er á árinu 2020 mega því ekki hafa verið meiri en 2.517.483 kr. (4.195.804 kr. * 60%).
     Um 2. tölulið. Lágmarksviðmiði töluliðarins er ætlað að tryggja að um fullburða atvinnustarfsemi hafi verið að ræða en ekki aðeins hliðarstarf eða áhugamál. Skattskyldar tekjur 2019 þurfa að hafa verið a.m.k. 9 millj. kr., eða 750 þús. kr. á mánuði að meðaltali. Er í því sambandi horft til miðgildis tekna fullvinnandi einstaklings árið 2019. Hámarksviðmiðinu er ætlað að tryggja að stuðningslánin nýtist einkum minni rekstraraðilum til samræmis við markmið frumvarpsins. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll. Hafi hann til dæmis starfað frá 12. júní 2019 til 29. febrúar 2020 ætti að margfalda skattskyldar tekjur á tímabilinu með tæplega 1,4 (365 dagar / 263 dagar) til að kanna hvort skilyrðum töluliðarins sé fullnægt.
     Um 3. tölulið. Frumvarpinu er ætlað að gagnast rekstrarfélögum sem viðhalda atvinnustigi í landinu. Því er lagt til að það verði gert að skilyrði fyrir stuðningslánum samkvæmt frumvarpinu að launakostnaður sé að lágmarki 10% af rekstrarkostnaði rekstraraðila. Með launakostnaði er átt við bæði laun og launatengd gjöld, þ.e. gjöld sem launagreiðendur greiða vegna launamanna önnur en laun, svo sem greiðslur í sjóði stéttarfélaga, tryggingagjald og mótframlög í lífeyrissjóði. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna launa- og rekstrarkostnað þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.
     Um 4. tölulið. Stuðningslánum er ætlað að stuðla að því að rekstraraðilar geti viðhaldið starfsemi sinni. Talið er óeðlilegt að eigendur greiði sér samhliða út arð eða að ráðist sé í aðrar svipaðar ráðstafanir. Ábyrgð ríkissjóðs á stuðningslánum fellur ekki niður þótt lántaki brjóti gegn skilyrðinu á lánstíma en slíkt brot getur varðað sektum eða fangelsi skv. 21. gr.
     Um 5. tölulið. Frumvarpinu er ætlað að gagnast rekstraraðilum sem eiga í vandkvæðum vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru en ekki þeim sem áttu fyrir í vandræðum með að standa í skilum. Hætt er einnig við því að þeir sem höfðu lengi verið í vanskilum með greiðslur af lánum áður en áhrifa faraldursins tók að gæta hér á landi stæðu ekki í skilum með stuðningslán. Því er lagt til að aðili sem hefur verið í vanskilum við lánastofnun lengur en 90 daga geti ekki fengið stuðningslán samkvæmt frumvarpinu. Töluliðurinn á við um vanskil gagnvart öllum lánastofnunum en ekki aðeins þeirri lánastofnun sem hefur umsókn til meðferðar.
     Um 6. tölulið. Ekki er talið eðlilegt að ríkissjóður veiti rekstraraðilum sem voru í vanskilum með opinber gjöld áður en áhrifa kórónuveirunnar fór að gæta hér á landi sérstaka fyrirgreiðslu. Því er það gert að skilyrði fyrir stuðningslánum að rekstraraðili sé ekki í vanskilum með opinbert gjöld sem voru komin á eindaga í árslok 2019. Ákvæðið er nánast samhljóða 3. efnismgr. 2. gr. laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020, og hafa má hliðsjón af túlkun hennar.
     Um 7. tölulið. Frumvarpinu er ætlað að styðja við starfandi rekstraraðila og viðhalda þannig atvinnustigi og efnahagsumsvifum í landinu. Því er lagt til að rekstraraðili geti ekki fengið stuðningslán ef bú hans hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta eða rekstraraðilinn hefur verið tekinn til slita. Um gjaldþrotaskipti gilda lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Upphaf gjaldþrotaskipta miðast almennt við úrskurð héraðsdómara um gjaldþrotaskipti. Um slit á lögaðilum fer samkvæmt þeim lögum sem gilda um viðkomandi lögaðilaform. Um slit einkahlutafélaga fer þannig til dæmis samkvæmt lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994.
     Um 8. tölulið. Af sömu sökum og í athugasemdum við 7. tölul. greinir er lagt til að rekstraraðili geti ekki fengið stuðningslán nema ætla megi að hann verði rekstrarhæfur þegar bein áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verja útbreiðslu hennar eru liðin hjá. Gert er ráð fyrir að skilyrðið verði útfært nánar í reglugerð sem ráðherra setur skv. 22. gr. Þar verði mælt fyrir um hlutlæg rekstrarviðmið á borð við eiginfjárhlutfall, hlutfall rekstrarhagnaðar af veltu og hlutfall handbærs fjár af rekstrarkostnaði á mánuði fyrir áhrif heimsfaraldursins.

Um 11. gr.

     Um 1. mgr. Í 1. málsl. málsgreinarinnar kemur fram sú meginregla að stuðningslán geti numið allt að 10% af tekjum rekstraraðila á rekstrarárinu 2019. Er í þessu sambandi horft til þess að fastur eða mjög tregbreytanlegur kostnaður smærri fyrirtækja er að meðalaltali um 20–25% af tekjum á ári. Horft er til þess að veruleg efnahagsleg áhrif faraldursins á innlent hagkerfi gætu varað í sex mánuði. Lánsfjárhæðin ætti því að geta stutt við greiðslur fasts kostnaðar til þess tíma. Sem dæmi má nefna að hafi tekjur rekstraraðila 2019 verið 50 millj. kr. getur stuðningslán til hans hæst orðið 5 millj. kr. (50 millj. kr. * 10%). Stuðningslán getur ekki verið hærra en 6 millj. kr. óháð tekjum rekstraraðila 2019. Þeir rekstraraðilar sem hafa haft 60 millj. kr. í tekjur geta því fengið hámarkslán sem nemur 6 millj. kr. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll. Hafi hann til dæmis starfað frá 12. júní 2019 ætti að margfalda tekjur á tímabilinu með tæplega 1,4 (365 dagar / 263 dagar) til að ákvarða hver fjárhæð stuðningsláns megi vera.
     Um 2. mgr. Hafi rekstraraðili fengið lokunarstyrk dregst hann frá þeirri lánsfjárhæð sem ella væri heimilt að veita honum skv. 1. mgr. Það á við hvort sem lánsfjárhæð skv. 1. mgr. takmarkast af tekjum rekstraraðila 2019 eða 6 millj. kr. hámarkinu. Hafi rekstraraðili sem var með 50 millj. kr. tekjur 2019 til dæmis fengið 2 millj. kr. lokunarstyrk gæti stuðningslán til hans hæst verið 3 millj. kr. (5 millj. kr. – 2 millj. kr.). Hafi rekstraraðili sem var með meira en 60 millj. kr. tekjur 2019 fengið sömu styrkfjárhæð gæti stuðningslán til hans hæst verið 4 millj. kr. (6 millj. kr. – 2 millj. kr.).

Um 12. gr.

     Um 1. mgr. Umsókn um stuðningslán skal beint til lánastofnunar sem hefur samið við Seðlabanka Íslands skv. 2. mgr. 18. gr. frumvarpsins um þátttöku í úrræðinu. Það skal þó gert í gegnum miðlæga þjónustugátt á vefnum. Ráðgert er að koma á fót umsóknargátt á vefnum Ísland.is.
     Um 2. mgr. Margir rekstraraðilar munu ekki hafa skilað ársreikningum og endanlegum skattskýrslum vegna rekstrarársins 2019, og enginn vegna rekstrarársins 2020, þegar og ef frumvarpið verður að lögum. Óhjákvæmilegt er því að styðjast að verulegu leyti við upplýsingar sem rekstraraðili leggur til við umsókn um stuðningslán, en gert ráð fyrir eftirliti eftir á. Því er lagt til að umsækjandi skuli staðfesta við umsókn að hann uppfylli skilyrði 10. gr., að upplýsingar sem hann skilar og liggja til grundvallar ákvörðun fjárhæðar skv. 11. gr. séu réttar og að honum sé kunnugt um að það geti varðað álagi, sektum eða fangelsi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.

Um 13. gr.

    Lánastofnanir sem semja við Seðlabanka Íslands skv. 2. mgr. 18. gr. frumvarpsins annast yfirferð lánsumsókna og greiðslu stuðningslána til þeirra sem eiga rétt á þeim. Þær ákvarða einnig fjárhæðir stuðningslána innan þess ramma sem 11. gr. frumvarpsins mælir fyrir um. Gert er ráð fyrir að nánar verði mælt fyrir um framkvæmd lánanna í samningum Seðlabankans og lánastofnana.

Um 14. gr.

    Stuðningslánum samkvæmt frumvarpinu er ætlað að aðstoða rekstraraðila við að standa undir rekstrarkostnaði til skamms tíma, en ekki til dæmis til að endurfjármagna önnur lán á hagstæðari kjörum. Því er lagt til að nýting stuðningslána verði takmörkuð. Brot á ákvæðinu getur varðað sektum eða fangelsi skv. 20. gr.

Um 15. gr.

     Um 1. mgr. Stuðningslánum fylgir ekki útlánaáhætta fyrir lánastofnanir þar sem ríkissjóður ábyrgist þau að fullu. Því er gert ráð fyrir að lánin beri jafnháa vexti og lánastofnanir fá af innlánum hjá Seðlabanka Íslands og séu óverðtryggð. Miðað er við vexti á sjö daga bundnum innlánum lánastofnana sem eru sem stendur meginvextir Seðlabankans. Þeir eru nú 1,75%.
     Um 2. mgr. Auk vaxta er gert ráð fyrir að lánastofnanir geti innheimt þóknanir af lántökum til að standa undir umsýslukostnaði lánastofnananna við að veita og halda utan um stuðningslánin. Gert er ráð fyrir að þóknunin verði ákveðin sem tiltekið hlutfall af höfuðstól hvers stuðningsláns í samningum sem Seðlabankinn geri við lánastofnanir skv. 2. mgr. 18. gr.

Um 16. gr.

    Lagt er til að ekki verði greitt af stuðningslánum í átján mánuði en að þau verði endurgreidd, að meðtöldum vöxtum, með jöfnum greiðslum í 12 mánuði að 18 mánuðum liðnum. Sú tímalína miðast við að endurgreiðsla hefjist nokkru eftir að frestun ýmissa skattgreiðslna, samkvæmt lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020, lýkur. Fyrirmælin hnika ekki hefðbundnum vanefndarúrræðum lánveitanda, svo sem um gjaldfellingu láns vegna verulegra vanefnda lántaka. Lántaka er ávallt heimilt að greiða af stuðningsláni fyrir gjalddaga og þarf ekki að greiða uppgreiðsluþóknun vegna þess.

Um 17. gr.

     Um 1. mgr. Hafi aðili fengið stuðningslán umfram það sem hann átti rétt á, hvort sem hann átti ekki rétt á neinu stuðningsláni eða hann fékk hærra stuðningslán en hann átti rétt á, ber honum að endurgreiða lánastofnun þá fjárhæð sem ofgreidd var. Krafan ber sömu vexti og stuðningslánin almennt frá þeim degi sem ofgreitt var og þar til greitt er. Dráttarvextir skv. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, leggjast þó á standi rekstraraðili ekki skil á endurgreiðslu innan eins mánaðar frá því að aðila berst krafa um endurgreiðslu frá lánastofnun.
     Um 2. mgr. Það að veita af ásetningi eða stórfelldu gáleysi rangar eða ófullnægjandi upplýsingar við umsókn um stuðningslán getur varðað viðurlögum skv. 21. gr. Telji lánastofnun að svo standi á skal hún kæra málið til lögreglu.

Um 18. gr.

    Gert er ráð fyrir að fyrirkomulag ábyrgða ríkissjóðs á stuðningslánum samkvæmt frumvarpinu verði hliðstætt því sem gildir um viðbótarlán sem ríkissjóður ábyrgist á grundvelli liðar 7.32 í heimildagrein fjáraukalaga fyrir árið 2020, nr. 26/2020, sbr. fjárlög fyrir árið 2020, nr. 133/2019. Fjármála- og efnahagsráðherra og seðlabankastjóri skrifuðu 17. apríl 2020 undir samning um framkvæmd á veitingu ábyrgða vegna viðbótarlánanna. Gert er ráð fyrir að ráðherra og Seðlabankinn semji hliðstætt um ábyrgðir á stuðningslánum og að Seðlabanki Íslands semji svo við lánastofnanir um skipti þeirra innbyrðis.

Um 19. gr.

    Samkvæmt 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögum um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997, skal ráðherra skipa nefnd til að hafa eftirlit með framkvæmd viðbótarlána sem ríkissjóður ábyrgist á grundvelli liðar 7.32 í heimildagrein fjáraukalaga fyrir árið 2020, nr. 26/2020, sbr. fjárlög fyrir árið 2020, nr. 133/2019. Lagt er til að nefndinni verði jafnframt falið að hafa eftirlit með framkvæmd III. kafla frumvarpsins. Jafnframt er lagt til að 3. mgr. bráðabirgðaákvæðisins gildi um það eftirlit að breyttu breytanda. Eftirlitsnefndin gæti á þeim grundvelli kallað eftir upplýsingum og gögnum um framkvæmd III. kafla frumvarpsins og samninga sem Seðlabankinn gerir skv. 18. gr. bæði frá Seðlabankanum og hlutaðeigandi lánastofnunum. Jafnframt bæri nefndinni þá að skila ráðherra skýrslu um framkvæmdina á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn fyrir 1. nóvember 2020, en jafnframt upplýsa ráðherra án tafar ef hún verður vör við brotalamir í framkvæmdinni. Ráðherra skal þá leggja skýrslur nefndarinnar fyrir Alþingi.

Um 20. gr.

    Í greininni er byggt á því að sá stuðningur sem felst í styrkjum og ríkisábyrgð samkvæmt II. og III. kafla skuli samræmast svonefndri reglugerð um minniháttaraðstoð (e. de minimis aid) sem er hluti af XV. viðauka EES-samningsins. Stuðningur sem uppfyllir skilyrði reglugerðarinnar telst ekki til ríkisaðstoðar í skilningi 61. gr. EES-samningsins.

Um 21. gr.

    Lagt er til að það varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að brjóta gegn ákvæðum laganna af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Það á þó ekki við ef brot telst minni háttar. Í dæmaskyni er tekið fram að þetta eigi við um þá háttsemi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar í umsókn. Það á bæði við um þær upplýsingar sem veittar eru í hinu rafræna umsóknarferli vegna lokunarstyrkja og stuðningslána og líka um þær upplýsingar sem umsækjandi kann að afhenda, eða vera krafinn um, í umsóknarferlinu. Einnig er tekið fram í ákvæðinu að það varði refsingu að nýta stuðningslán öðruvísi en heimilt er skv. 14. gr.

Um 22. gr.

    Lagt er til að ráðherra verði heimilað að setja reglugerð þar sem m.a. megi útfæra nánar skilyrði 10. gr. Gert er ráð fyrir að þar verði a.m.k. útfært nánar skilyrði 8. tölul. þeirrar greinar um að rekstraraðili skuli verða rekstrarhæfur þegar bein áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verja útbreiðslu hennar eru að mestu liðin hjá. Líklegt er að nánari útfærsla muni fela í sér ítarleg ákvæði um atriði á borð við eiginfjárhlutföll, hlutföll rekstrarhagnaðar af veltu og hlutföll handbærs fjár sem eru talin eiga frekar heima í reglugerð en í lögum.

Um 23. gr.

    Lagt er til að lögin taki þegar gildi enda eru þau ívilnandi og ætlað að mæta brýnni þörf. Þó er gert ráð fyrir að ákvæði II. kafla, um lokunarstyrki, komi ekki til framkvæmda fyrr en 4. maí 2020 þar sem lokunarstyrkjum er ætlað að mæta rekstrarkostnaði rekstraraðila á tímabilinu 24. mars til 3. maí 2020.

Um 24. gr.

    Lagt er til að lög um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997, gildi ekki um ábyrgðir ríkissjóðs á stuðningslánum samkvæmt frumvarpinu. Þau lög eiga fyrst og fremst við þegar ríkissjóður veitir ábyrgðir vegna einstakra framkvæmda eða verka en ekki þegar veittur er almennur efnahagslegur stuðningur til fyrirtækja. Samsvarandi undanþága er gerð vegna viðbótarlána sem ríkissjóður ábyrgist á grundvelli liðar 7.32 í heimildagrein fjáraukalaga fyrir árið 2020, nr. 26/2020, sbr. fjárlög fyrir árið 2020, nr. 133/2019, og 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II við lög um ríkisábyrgðir, sbr. lög um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020.