Ferill 728. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1257  —  728. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um Matvælasjóð.

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.



1. gr.

    Hlutverk Matvælasjóðs er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi.
    Matvælasjóður lýtur stjórn fjögurra manna sem ráðherra skipar til þriggja ára í senn. Einn skal skipaður samkvæmt tilnefningu Bændasamtaka Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og tveir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Stjórninni er heimilt að skipa fagráð sér til ráðgjafar.
    Stjórn sjóðsins mótar stefnu fyrir sjóðinn og ber undir ráðherra til samþykktar. Stjórnin skal gera tillögur til ráðherra um úthlutanir úr sjóðnum. Ráðstöfunarfé sjóðsins samanstendur af fjárveitingu af fjárlögum hverju sinni og öðrum tekjum, eftir því sem þeim er til að dreifa.
    Stjórn sjóðsins hefur umsjón með rekstri hans. Heimilt er að fela þriðja aðila reksturinn. Stjórnin skilar ársreikningi og reglulegu yfirliti um störf sín til ráðherra. Þóknun stjórnar er ákveðin af ráðherra. Kostnaður af rekstri sjóðsins greiðist af tekjum hans.
    Stjórn sjóðsins setur starfsreglur um auglýsingar, meðferð og mat umsókna, framkvæmd úthlutunar, fagráð o.fl.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Lög um Framleiðnisjóð landbúnaðarins, nr. 89/1966, falla úr gildi 31. desember 2020. Skal starfsemi sjóðsins þá vera lokið. Matvælasjóður tekur við öllum eignum hans og skuldbindingum frá þeim tíma.
    Skipa skal stjórn fyrir Matvælasjóð svo fljótt sem verða má eftir gildistöku laga þessara sem þegar skal hefja vinnu við stefnumótun fyrir sjóðinn og undirbúning að starfsemi hans.

3. gr.

    Við gildistöku þessara laga verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Búnaðarlög, nr. 70/1998:
                  a.      Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
                      1.      Orðin „þar sem m.a. skal kveðið á um framlög til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins vegna atvinnuuppbyggingar í sveitum og verkefna sem stuðla að aukinni framleiðni í íslenskum landbúnaði“ í 1. mgr. falla brott.
                      2.      2. málsl. 4. mgr. fellur brott.
                  b.      2. mgr. 21. gr. laganna orðast svo:
                     Framlögum til verkefna skv. 1. mgr. skal ráðstafa að fenginni umsögn fagráðs í viðkomandi búgrein.
     2.      Lög um skattskyldu lánastofnana, nr. 65/1982: Í stað heitisins „Framleiðnisjóðs landbúnaðarins“ í 2. gr. laganna kemur: Matvælasjóðs.
     3.      Lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996: Í stað heitisins „Framleiðnisjóður landbúnaðarins“ í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: Matvælasjóður.
     4.      Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003: Í stað heitisins „Framleiðnisjóður landbúnaðarins“ í 1. tölul. 5. mgr. 71. gr. laganna kemur: Matvælasjóður.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að settur verði á fót nýr sjóður til að styrkja verðmætasköpun við framleiðslu, vinnslu og markaðssetningu matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi, sem fái heitið Matvælasjóður.
    Við úthlutun styrkja úr sjóðnum verður sérstök áhersla lögð á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og aðgerðir til að efla samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu. Sjóðnum mun einnig vera heimilt að styðja við vöruþróun og markaðssókn á erlendum mörkuðum.
    Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Undirbúning að stofnun Matvælasjóðs má rekja til þingsályktunar nr. 40/149 um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna (þskj. 1924 á 149. lögþ. 2018–2019) var ríkisstjórninni falið að hrinda í framkvæmd ýmsum aðgerðum sem miði að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisaðstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Á meðal aðgerða var að settur yrði á fótur sjóður með áherslu á eflingu nýsköpunar í innlendri matvælaframleiðslu.
    Upphaflega var lagt til að setja Matvælasjóð á fót með frumvarpi til laga um ýmsar breytingar á lögum um matvæli, sem varð að lögum nr. 144/2019. Ákvæði um sjóðinn voru hins vegar felld úr frumvarpinu við meðferð málsins, þar sem talið var að þau þyrftu frekari vinnslu við. Farið hefur verið yfir þau sjónarmið sem þá komu fram við þinglega meðferð.
    Framlagning frumvarpsins nú er auk þess liður í ráðstöfunum hins opinbera til örvunar hagkerfisins í framhaldi af samdrætti sem orðið hefur vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum. Er enda gert ráð fyrir því, svo sem greinir í kafla frumvarpsins um mat á áhrifum, að til komi 500 millj. kr. fjárveiting á árinu 2020 til stofnunar sjóðsins.
    Lagt er til að AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi, sem starfar samkvæmt reglum nr. 1131/2013, og Framleiðnisjóður landbúnaðarins, sem starfar samkvæmt samnefndum lögum nr. 89/1966, renni inn í nýjan Matvælasjóð. Með því er um leið horft til þess að spara rekstrarkostnað en með því skapast aukið svigrúm til stuðnings við verkefni.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að settur verði á fót nýr sjóður, Matvælasjóður, til að styrkja verðmætasköpun í þróun, vinnslu og markaðssetningu matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi. Jafnframt verði AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi sem og Framleiðnisjóður landbúnaðarins lagðir niður.
    Unnið er að mótun matvælastefnu fyrir Ísland sem er til merkis um áherslu stjórnvalda á að efla matvælaframleiðslu hér á landi og laða fram nýja sprota. Mikil gerjun er í nýsköpun meðal matvælafyrirtækja og mörg dæmi eru um árangursríkt þverfaglegt samstarf þeirra á milli. Vel skipulagður nýsköpunar- og þróunarsjóður með áherslu á verðmætasköpun í þróun og vinnslu matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi styður við þetta og stuðlar að bættri nýtingu fjármagns til þróunar á þessu sviði. Veittur stuðningur getur til að mynda ýtt undir samstarf rannsóknaaðila við fyrirtæki sem getur skapað ný verðmæti.
    Á það hefur verið bent að smæð einstakra fyrirtækja í landbúnaði geti takmarkað getu greinarinnar til að takast á við áskoranir. Í sjávarútvegi eru fyrirtæki oft stærri. Því þarf að gæta þess sérstaklega við stefnumótun fyrir hinn nýja sjóð að landbúnaður fá tilhlýðilega hlutdeild í stuðningi þannig að hlutfallsleg skipting fjármagns úr nýjum sjóði til þessara atvinnugreina verði með sambærilegum hætti og nú er. Getur hér einnig haft þýðingu til hvaða stigs tækniþekkingar eða verkhæðar verði horft í auglýsingum um umsóknir. Ekki þykir þó rétt að mæla fyrir um deildaskiptingu hins nýja sjóðs, þar sem hætt er við að með því gæti þverlægt samstarf milli atvinnugreina, í umsóknum til sjóðsins, orðið flóknara. Nefna má að einnig getur komið til samstarf við aðrar atvinnugreinar, t.d. með aukinni notkun innlendrar orku (jarðvarma) til matvælaframleiðslu, svo sem í garðyrkju eða við þurrkun afurða.
    Hinn nýi sjóður mun byggja á og njóta góðs af þeirri reynslu sem til hefur orðið í farsælu starfi þeirra sjóða sem lagt er til að renni inn í Matvælasjóð, sem mótast hefur af nánu samstarfi við sjávarútveginn og samtök bænda.
    AVS rannsóknasjóður starfar samkvæmt reglum um AVS – rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs, nr. 1131/2013. Verðmætisaukning og styrkt samkeppnishæfni íslensks sjávarfangs er mikilvægasti þátturinn við mat á umsóknum um stuðning úr sjóðnum. Styrkir eru veittir til hagnýtra verkefna sem taka á öllum þáttum sjávarútvegs og fiskeldis. Áherslusvið sjóðsins eru sem hér segir: i) veiðar og vinnsla, ii) líftækni, iii) markaðir og iv) fiskeldi.
    Framleiðnisjóður landbúnaðarins veitir styrki til framleiðniaukningar og hagræðingar í landbúnaði og atvinnurekstri á bújörðum. Sjóðurinn skiptist í tvær deildir, annars vegar deild rannsókna- og þróunarverkefna og hins vegar deild nýsköpunar og eflingar atvinnu á bújörðum. Auk þess hefur hann nokkur sérstök verkefni með höndum fyrir Bændasamtök Íslands, þar með talið úthlutun styrkja til þróunarverkefna í sauðfjárrækt, nautgriparækt og garðyrkju samkvæmt búvörusamningum og reglugerð um almennan stuðning við landbúnað.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gaf ekki tilefni til að skoða samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Haustið 2019 var settur á fót samráðshópur með fulltrúum Bændasamtaka Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Samhliða því var haft samráð við stjórnir AVS rannsóknasjóðs og Framleiðnisjóðs, aflað upplýsinga og leitað sjónarmiða þeirra um áherslur hins nýja sjóðs. Ótvírætt er að sú vinna mun nýtast við fyrstu heildrænu stefnumótun fyrir sjóðinn. Rætt var í þessu sambandi um hvernig tryggja mætti að fyrirtæki í báðum atvinnugreinum, eftir atvikum með þátttöku rannsóknaraðila, fengju hæfilegt viðnám krafta sinna. Rætt var að við mótun stefnu mætti horfa til eftirfarandi áherslusviða: i) aukinna verðmæta matvælaframleiðslu, ii) nýrra tækifæra til markaðssóknar og vitundarvakningar, iii) líftækni og iv) smærri verkefna. Með því síðastnefnda var horft til verkefna hjá smáframleiðendum sem ella gætu átt erfitt uppdráttar við umsóknir um hærri styrki.
    Þau sjónarmið komu fram við þessa vinnu að gæta yrði að því að túlka ekki starfssvið sjóðsins of þröngt við stefnumótun fyrir hann. Telja verður að horfa þurfi til matvæla og matvælaframleiðslu í víðum skilningi þannig að ekki sé aðeins horft til alls ferlisins frá „haga til maga“ heldur einnig til hliðarstrauma hráefnis, þróunar nýrra virðiskeðja, markaðssóknar o.fl. í anda hugsunar um lífhagkerfið.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið mun hafa áhrif á fyrirtæki og rannsóknaraðila í sjávarútvegi og landbúnaði enda hefur það að markmiði að styrkja verðmætasköpun við framleiðslu, vinnslu og markaðssetningu matvæla.
    Með frumvarpinu er lagt til að settur verði á fót nýr sjóður, Matvælasjóður, með sameiningu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi. Matvælasjóður kemur til með að heyra undir sama málefnasvið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í fjárlögum og er því ekki gert ráð fyrir neinum breytingum á útgjaldaramma málefnasviðsins. Þessu til viðbótar er ráðgert að á fjáraukalögum 2020 verði varið 500 millj. kr. til sjóðsins.
    Í fjárlögum 2020 eru framlög sem koma til vegna sameiningar AVS rannsóknasjóðs og Framleiðnisjóðs, samtals tæpar 400 millj. kr. Þar af er gert ráð fyrir að AVS rannsóknasjóður hafi um 250 millj. kr. til ráðstöfunar og Framleiðnisjóðurinn um 150 millj. kr. Hluti fjárveitingar þessara sjóða er fjármagnaður með sértekjum sem eru áætlaðar samtals 9 millj. kr. á árinu 2020. Þá hefur Framleiðnisjóður úr nokkru eigin fé að ráða. Rekstrarkostnaður hvors sjóðs um sig er um 20 millj. kr. á ári en að því frágreindu má gera ráð fyrir að sameiginlegt olnbogarými til stuðnings nemi í kringum 350 millj. kr. af þessum framlögum. Ætla má að nokkur samlegðaráhrif í rekstri muni hljótast af sameiningu hinna tveggja sjóða og má gera ráð fyrir að sá sparnaður sem af hljótist muni auka olnbogarými til stuðnings verkefna.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir fjárhagsáhrifum á ríkissjóð þar sem gert er ráð fyrir að kostnaði verði forgangsraðað innan viðkomandi útgjaldaramma málefnasviðs atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í fjármálaáætlun. Hins vegar er gert ráð fyrir að í fjáraukalögum 2020 verði 500 millj. kr. viðbótarfjármagni varið til sjóðsins.


Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar. Athuga má þó að rétt þykir að mæla fyrir um að skipunartími í stjórn verði til þriggja ára, með sama hætti og gildir fyrir Rannsóknarsjóð Rannís, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003. Þá má athuga, þar sem fjallað er um tekjur sjóðsins, að rétt þykir að gera ráð fyrir heimild fyrir öðrum tekjum, verði þeim til að dreifa, en fyrirmynd þess er t.d. í 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir.

Um 2. og 3. gr.

    Með greinunum er lagt til að lög um Framleiðnisjóð landbúnaðarins, nr. 89/1966, verði felld niður samtímis því að tekjum sjóðsins af fjárlögum verði varið til hins nýja Matvælasjóðs. Rétt þykir að taka fram að nýr Matvælasjóður taki við skuldbindingum Framleiðnisjóðs, en með því er átt við frágang verkefna o.fl. Ekki er ástæða til að geta sérstaklega um AVS rannsóknasjóð í greininni þar sem ekki þarf lagabreytingu til breytinga á starfsemi hans.