Ferill 838. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1475  —  838. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018 (notendaráð).

Frá félags- og barnamálaráðherra.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      3. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      Á eftir orðunum „m.a. um almenn eða frekari skilyrði fyrir veitingu leyfa“ í 3. mgr. kemur: samráð við notendaráð sveitarfélaga.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið var samið í félagsmálaráðuneytinu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Félagasamtök, sjálfseignarstofnanir og aðrir þjónustu- og rekstraraðilar sem hyggjast veita þjónustu samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, skulu afla starfsleyfis ráðuneytisins. Í lögunum er gert að skilyrði að ráðuneytið afli umsagnar notendaráðs í því sveitarfélagi þar sem starfsemin fer fram áður en leyfið er veitt.
    Hugtakið notendaráð er ekki skilgreint í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir en í 8. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, kemur fram að sveitarfélög skuli starfrækja sérstök notendaráð sem tryggi aðkomu hagsmunasamtaka notenda við stefnumörkun og áætlanagerð sveitarfélags í málefnum er varða fatlað fólk.
    Sú skylda að afla umsagnar frá notendaráðum hefur í framkvæmd valdið miklum töfum á útgáfu starfsleyfa, m.a. vegna þess að í sumum sveitarfélögum hefur reynst erfitt að skipa notendaráð. Þá hafa starfandi notendaráð gert athugasemdir við fyrirkomulagið þar sem notendaráð hafi ekki alltaf forsendur til að meta umsækjendur, sérstaklega þegar fatlaður einstaklingur sækir um starfsleyfi til að vera sjálfur umsýsluaðili eigin samnings um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA).
    Þær miklu tafir sem hafa orðið á útgáfu starfsleyfa vegna þessa fyrirkomulags koma fyrst og fremst niður á notendum þjónustunnar. Ef starfsleyfi fást ekki útgefin getur framboð á þjónustu verið takmarkað með tilheyrandi erfiðleikum fyrir notendur þjónustunnar og þeirra sem vilja sinna þjónustu samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Ákvæði 7. gr. laganna felur í sér skilyrðislausa skyldu ráðuneytisins að leita umsagnar notendaráðs þar sem starfsemi fer fram, óháð því hvort um sé að ræða lögaðila sem hefur með höndum rekstur þjónustu við fatlað fólk eða fatlaðan einstakling sem kýs sjálfur að sjá um umsýslu eigin samnings um NPA. Í framkvæmd hefur þessi skylda valdið ýmsum erfiðleikum og í sumum tilvikum hefur reynst ómögulegt að veita starfsleyfi.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að í stað skyldu til að leita umsagnar notendaráða í öllum tilfellum þegar sótt er um starfsleyfi á grundvelli 7. gr. laganna verði lagt fyrir ráðherra að útfæra samráð við notendaráð fatlaðs fólks í reglugerð. Eftir sem áður ber ráðherra að hafa samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, Samband íslenskra sveitarfélaga og heildarsamtök launafólks við gerð slíkra reglna.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var undirritaður fyrir Íslands hönd árið 2007 og fullgiltur 24. september 2016. Kjarni samningsins snýr að jafnrétti sem er meðal annars tryggt í 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sbr. lög nr. 97/1995. Í samningnum eru mannréttindi fatlaðs fólks viðurkennd sem þau sömu og annarra og jafnframt er staðfestur réttur fatlaðs fólks til að njóta þessara réttinda. Markmið samningsins, eins og fram kemur í 1. gr., er að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi og auka virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess. Í 4. gr. samningsins skuldbinda aðildarríkin sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar. Í 3. mgr. sömu greinar kemur fram að við undirbúning og beitingu löggjafar sinnar og við vinnu að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks skuli aðildarríki hafa náið samráð við og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
    Í 3. mgr. 33. gr. samningsins um framkvæmd og eftirlit innan lands kemur fram að vegna framkvæmdar samningsins á ólíkum sviðum og ólíkum stigum skuli borgaralegt samfélag, einkum fatlað fólk og samtök sem fara með mál þess, eiga hlut að og taka fullan þátt í eftirlitsferlinu.

5. Samráð.
    Áform um gerð frumvarpsins voru kynnt á vettvangi samráðsnefndar um málefni fatlaðs fólks sem skipuð er á grundvelli 36. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Áformin voru einnig kynnt öðrum ráðuneytum. Fjölþætt samráð hefur verið haft við hagsmunaaðila við vinnslu frumvarpsins og í aðdraganda þess.

6. Mat á áhrifum.
    Engin fjárhagsleg eða efnahagsleg áhrif eru fyrirséð ef frumvarpið verður að lögum.