Ferill 882. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 1541  —  882. mál.
Leiðréttur texti.




Beiðni um skýrslu


frá mennta- og menningarmálaráðherra um útfærslur framhaldsskólanna á námi á tímum kórónuveirufaraldursins.

Frá Maríu Hjálmarsdóttur, Ágústi Ólafi Ágústssyni, Guðmundi Andra Thorssyni, Guðjóni S. Brjánssyni, Helgu Völu Helgadóttur, Loga Einarssyni, Oddnýju G. Harðardóttur, Andrési Inga Jónssyni, Birni Leví Gunnarssyni, Jóni Þór Ólafssyni, Smára McCarthy, Halldóru Mogensen, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, Hönnu Katrínu Friðriksson, Jóni Steindóri Valdimarssyni, Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur og Þorgerði K. Gunnarsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að mennta- og menningarmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um útfærslur framhaldsskólanna á námi á tímum kórónuveirufaraldursins.
    Með skýrslubeiðni þessari er óskað eftir því að mennta og menningarmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu þar sem eftirfarandi atriði komi fram:
     1.      Hvaða aðgerðir tókust vel og hverjar voru helstu áskoranirnar?
     2.      Hvaða ófyrirséðu atvik komu fram í ferlinu?
     3.      Lögðu skólastjórnendur fram aðgerðaáætlun fyrir kennara um hvernig námi skyldi háttað?
     4.      Hvaða námsgreinar liðu sérstaklega fyrir fjarkennslu? Til hvaða aðgerða á að grípa svo hægt sé að bæta upp námsframvindu í þeim greinum?
     5.      Jókst undirbúningstími kennara við þessar aðstæður?
     6.      Var nægilegt framboð á góðum rafrænum og gagnvirkum námsgögnum og í hvaða námsgreinum?
     7.      Mun reynsla af fjarkennslu á vorönn 2020 skila bættum námsgögnum á framhaldsskólastigi og/eða breyttum kennsluaðferðum?
     8.      Hversu marga klukkutíma voru kennarar og nemendur fyrir framan skjá að jafnaði á viku meðan skólar voru lokaðir?
     9.      Hvernig fór nám fram fyrir þá sem hafa sérþarfir?
     10.      Var samráð milli kennara um verkefnaálag á nemendur í hverjum skóla fyrir sig?
     11.      Skipti tækjakostur skóla máli fyrir gæði fjarkennslu?
     12.      Hafði fjárhagur nemenda áhrif á þátttöku í fjarkennslu og aðgengi þeirra að viðeigandi tækjabúnaði?
     13.      Hvað var gert til að sporna við brottfalli nemenda úr námi?
     14.      Hvert var hlutfallslegt brottfall á vorönn miðað við fjölda skráðra nemenda 1. mars 2020 eftir hverjum skóla fyrir sig og borið saman við árið á undan.
     15.      Skólunum er í sjálfsvald sett hvort þeir borgi álag fyrir fjarkennsluna og bónusgreiðslur til kennara því mismunandi eftir því í hvaða skóla þeir kenna. Hyggst ráðherra veita auknu fé til skólanna fyrir þetta álag?
     16.      Hversu mörgum námssamningum nema í iðngreinum var sagt upp í kjölfar kórónuveirufaraldursins?

Greinargerð.

    Kórónuveirufaraldurinn hefur haft gríðarlegar afleiðingar. Til þess að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar var samkomubann sett á 16. mars sl. og framhaldsskólum lokað. Við það færðist nám alfarið yfir í fjarkennslu.
    Á þessum fordæmalausu tímum var það sett í hendur skólastjórnenda að skipuleggja nám þann tíma sem skólar þurftu að vera lokaðir. Aðlögunartíminn var stuttur og þurftu bæði kennarar og nemendur að læra inn á nýjar námsaðferðir. Faraldurinn hafði einnig víðtæk áhrif á nám þeirra iðnnema sem annaðhvort sinntu verklega hluta námsins eða voru á námssamningi þetta misserið.
    Ætla má að útfærslur skólanna hafi verið mismunandi þar sem engin ein samræmd leið var farin. Ljóst er að þessar aðstæður hafa reynst mörgum nemendum erfiðar og hætta er á að brottfall nemenda hafi orðið þónokkurt miðað við frásagnir kennara í fjölmiðlum.
    Mikilvægt er að draga lærdóm af góðum árangri á þessum tíma sem og þeim hindrunum sem urðu á veginum. Þann lærdóm má svo nýta til fjölbreyttara námsframboðs í framtíðinni í fjarnámi. Það er í takt við þá þróun sem á sér stað í fjórðu iðnbyltingunni og opnar nýjar leiðir í námsframboði til nemenda óháð búsetu og stöðu.