Ferill 794. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1549  —  794. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Heyrnar- og talmeinastöðvar.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Heyrnar- og talmeinastöð?
    Kveðið er á um lögbundin verkefni Heyrnar- og talmeinastöðvar í 2. gr. laga nr. 42/2007, um Heyrnar- og talmeinastöð. Í 1. mgr. segir að hlutverk stofnunarinnar sé meðal annars að:
     1.      Sjá um heyrnarmælingar, greiningu og meðferð á heyrnar- og talmeinum.
     2.      Veita faglega ráðgjöf og annast þjálfun og endurhæfingu heyrnarlausra, heyrnarskertra og þeirra sem eru með heyrnar- og talmein.
     3.      Sinna forvörnum á starfssviði sínu í samvinnu við aðrar stofnanir eftir því sem við á.
     4.      Útvega hjálpartæki fyrir heyrnarskerta, heyrnarlausa og þá sem eru með heyrnar- og talmein og veita fræðslu og þjálfun í notkun þeirra. Stofnunin skuli enn fremur sjá um viðhald og uppsetningu hjálpartækjanna.
     5.      Stunda rannsóknir og sinna fræðslu á starfssviði sínu. Stofnunin skuli safna upplýsingum um alla þá sem eru heyrnarskertir, heyrnarlausir eða eru með heyrnar- og talmein og öðrum tölfræðilegum upplýsingum sem nýtast við rannsóknar- og þróunarstörf.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Heyrnar- og talmeinastöðvar og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Fjárlög gera ráð fyrir 188,9 millj. kr. til rekstrar Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar á þessu ári. Fjárheimildin er ætluð til að sinna verkefnum stofnunarinnar og er ekki sundurliðuð sérstaklega.