Ferill 799. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1551  —  799. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Sjúkratrygginga Íslands.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinna Sjúkratryggingar Íslands?
    Sjúkratryggingar Íslands annast framkvæmd sjúkratrygginga og semja um og greiða endurgjald fyrir heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, í samræmi við stefnumörkun ráðherra á hverjum tíma. Í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 112/2008 eru talin upp lögbundin verkefni stofnunarinnar, en þar kemur fram að hlutverk sjúkratryggingastofnunarinnar sé eftirfarandi:
     1.      Að annast framkvæmd sjúkratrygginga samkvæmt III kafla laganna.
     2.      Að semja um heilbrigðisþjónustu samkvæmt IV. kafla laganna.
     3.      Að annast kaup á vörum og þjónustu sem stofnuninni ber að veita samkvæmt III. kafla.
     4.      Að greiða endurgjald fyrir heilbrigðisþjónustu sem veita ber samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu eða samið hefur verið um, sbr. IV. kafla laganna.
     5.      Að hafa eftirlit með gæðum og árangri á starfsemi þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu samkvæmt samningum, sbr. IV. kafla laganna.
     6.      Að sinna öðrum verkefnum sem stofnuninni eru falin samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.
    Önnur verkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, eru til að mynda að bera ábyrgð á og starfrækja gagnagrunn með þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að reikna út greiðsluþátttöku sjúkratrygginga og gjald sjúkratryggðs við kaup á lyfjum og heilbrigðisþjónustu, sbr. 29. gr. a og 29. gr. b. Þá skal stofnunin kynna almenningi rétt sinn samkvæmt lögum nr. 112/2008 með upplýsingastarfsemi.
    Samkvæmt lögum nr. 45/2015, um slysatryggingar almannatrygginga, annast Sjúkratryggingar Íslands framkvæmd slysatrygginga almannatrygginga.
    Samkvæmt lögum nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, annast Sjúkratryggingar Íslands sjúklingatryggingu fyrir heilsugæslustöðvar, sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir sem ríki á í heild eða að hluta og einnig vegna sjúkraflutninga og sjúklinga erlendis á vegum sjúkratrygginga og „siglinganefndar“.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Sjúkratrygginga Íslands og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Fjárlög gera ráð fyrir samtals 45.497,7 millj. kr. til rekstrar Sjúkratrygginga Íslands og verkefna sem stofnunin annast á þessu ári. Kostnaði er ekki deilt niður á hvert lögbundið verkefni í fjárlögum, heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum vegna hvers málefnasviðs og málaflokks og þeim skipt niður eftir fjárlagaviðföngum (sjá eftirfarandi töflu).
Málaflokkur Fjárlagaviðfang Fjárheimild 2020
2330 - Erlend sjúkrahúsþjónusta 08206145 Brýn meðferð erlendis 2.252,8
2330 - Erlend sjúkrahúsþjónusta 08206151 Sjúkrakostnaður vegna veikinda og slysa erlendis 457,1
2420 - Sérfræðiþjónusta og hjúkrun 08206111 Lækniskostnaður 11.986,6
2420 - Sérfræðiþjónusta og hjúkrun 08206125 Hjúkrun í heimahúsum 143,6
2420 - Sérfræðiþjónusta og hjúkrun 08206135 Tannlækningar 5.126,8
2420 - Sérfræðiþjónusta og hjúkrun 08206191 Annað 744,8
2430 - Sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun 08206131 Þjálfun 5.128,1
2440 - Sjúkraflutningar 08206141 Sjúkraflutningar og ferðir innan lands 1.110,4
2610 - Lyf 08206115 Lyf 10.020,5
2630 - Hjálpartæki 08206121 Hjálpartæki 5.358,5
2960 - Bætur vegna veikinda og slysa 08211110 Bætur vegna veikinda og slysa 1.957,6
3230 - Stjórnsýsla velferðarmála 08202101 Sjúkratryggingar Íslands 1.210,9
Samtals 45.497,7