Ferill 636. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1563  —  636. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um þá sem búa ekki í húsnæði skráðu í fasteignaskrá.


     1.      Hversu margir búa í húsnæði sem ekki er skráð í fasteignaskrá?
    Samkvæmt lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, skal skrá allar fasteignir í fasteignaskrá, þannig að gengið er út frá því að spurningin snúi að því hversu margir búi í húsnæði sem ekki er skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá.
    Rétt er að taka fram að þar sem ekki er heimilt að skrá lögheimili í húsnæði sem ekki er skráð sem íbúðarhúsnæði liggja ekki fyrir neinar opinberar skráningar á slíkri búsetu.
    Slökkviliðsstjórar á höfuðborgarsvæðinu hafa framkvæmt könnun á búsetu einstaklinga í atvinnuhúsnæði. Könnunin var framkvæmd árið 2017, en samkvæmt nýlegri endurskoðun er áætlað að um fjögur þúsund einstaklingar búi í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöður voru fengnar með vettvangskönnunum og ábendingum og eru þær því ekki nákvæmar. Ráðherra hefur ekki vitneskju um að sambærileg könnun hafi verið framkvæmd annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu og því liggja ekki fyrir upplýsingar um fjölda þeirra sem kunna að búa í húsnæði sem ekki er ætlað til íbúðar á landsbyggðinni.

     2.      Hvaða úrræða telur ráðherra rétt að leita til að tryggja að fyrrgreindur hópur eigi kost á viðunandi húsnæði?
    Ráðherra telur að aðgengi fólks að viðunandi húsnæði verði best tryggt með því að stuðla að auknu framboði slíks húsnæðis hvort sem er til eignar eða leigu, að húsnæðisstuðningi sé hagað þannig að hann mæti þörfum fólks og með því að efla fræðslu um þau húsnæðisúrræði sem fólki standa til boða. Stjórnvöld hafa þegar komið á úrræðum í þessum tilgangi, þar á meðal á grundvelli yfirlýsingar frá því í apríl 2019 um stuðning stjórnvalda við lífskjarasamninga. Frekari slíkar aðgerðir eru í farvatninu.
    Á árinu 2016 voru sett lög um almennar íbúðir. Þær íbúðir eru leigðar einstaklingum og fjölskyldum sem eru undir tilteknum tekju- og eignamörkum við upphaf leigutíma. Með framboði slíkra íbúða er gagngert stefnt að húsnæðisöryggi fyrir tekjulægri hópa og stuðlað að því að húsnæðiskostnaður þeirra sé í samræmi við greiðslugetu. Nú þegar hefur ríkið varið tæplega tólf milljörðum króna til stofnframlaga til að styðja við byggingar eða kaup á rúmlega tvö þúsund almennum íbúðum. Stærstum hluta fjármagnsins, eða 80% þess, hefur verið veitt til stofnframlaga vegna byggingar íbúða. Mörg sveitarfélög hafa nýtt sér stofnframlög til þess að mæta eftirspurn eftir félagslegum leiguíbúðum. Ríkisstjórnin hefur skuldbundið sig til að auka við fjárveitingu inn í almenna íbúðakerfið sem nemur tveimur milljörðum króna fyrir hvert ár á tímabilinu 2020–2022. Þannig má vænta þess að almennum íbúðum fjölgi um 1800 til viðbótar á næstu þremur árum.
    Þá hyggst ráðherra mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingu á húsaleigulögum á yfirstandandi þingi. Markmiðið með frumvarpinu er að auka réttarvernd og húsnæðisöryggi leigjenda, annars vegar varðandi ákvörðun leiguverðs í upphafi og hækkun þess á samningstíma og hins vegar að stuðla að gerð langtímaleigusamninga með breytingum á reglum um ótímabundna og tímabundna leigusamninga. Ákvæði frumvarpsins sem lúta að þessum atriðum eiga öll við um útleigu íbúðarhúsnæðis og annars húsnæðis sem leigt er til íbúðar og bæta þannig réttarstöðu þess hóps sem spurt er um. Ráðherra telur að breytingar samkvæmt frumvarpinu geti bætt verulega upplýsingar um leigumarkaðinn hérlendis, þar á meðal um fjölda einstaklinga sem hafa búsetu í atvinnuhúsnæði, þar sem í frumvarpinu er lagt til að skylt verði að skrá alla leigusamninga um íbúðarhúsnæði og annað húsnæði sem leigt er til íbúðar í húsnæðisgrunn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
    Ráðherra hyggst einnig leggja fram á yfirstandandi þingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál þar sem mælt er fyrir um nýja tegund lána, hlutdeildarlán, sem er ætlað að auðvelda ungu fólki og tekjulágu að komast yfir útborgunarþröskuldinn við kaup á fasteign. Heimild til að nýta séreignarsparnað vegna kaupa á íbúðarhúsnæði eða til ráðstöfunar inn á lán vegna húsnæðiskaupa hefur verið framlengd til 30. júní 2021. Þessi tvö fyrsttöldu úrræði koma hvort tveggja til með að styðja fólk við kaup íbúða og eignarmyndun og stuðla um leið að örvun á framboðshlið íbúða.
    Að lokum er rétt að víkja að húsnæðisstuðningi stjórnvalda sem er ýmist almennur eða sértækur. Þrátt fyrir að húsnæðisstuðningur leiði ekki til aukins framboðs húsnæðis getur hann hins vegar leitt til hraðari eignarmyndunar í íbúðarhúsnæði og þess að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu eigenda eða leigjenda íbúðarhúsnæðis. Af almennum stuðningi má nefna að allir sem búa í eigin húsnæði eiga kost á að nýta séreignarsparnað inn á höfuðstól þeirra fasteignaveðlána sem á húsnæðinu hvíla, innan tiltekinna marka. Þá geta eigendur íbúðarhúsnæðis átt rétt á vaxtabótum vegna þeirra fasteignaveðlána sem hvíla á viðkomandi húsnæði. Húsnæðisstuðningur við fólk á leigumarkaði er í formi húsnæðisbóta, sem greiddar eru af ríkinu, og sérstaks húsnæðisstuðnings, sem sveitarfélögin greiða. Húsnæðisbætur eru tekju- og eignatengdar, þ.e. þær skerðast eftir að komið er yfir tiltekin slík mörk, að teknu tilliti til fjölskyldustærðar. Sérstakur húsnæðisstuðningur er veittur af sveitarfélögunum og byggist á heildarmati á aðstæðum umsækjanda en ekki bara hlutlægum reglum um tekju- og eignamörk. Að síðustu má nefna að sveitarfélögin hafa annars almennt ríkar skyldur til að aðstoða íbúa sína í húsnæðismálum, sbr. skyldu þeirra til að tryggja, eftir því sem kostur er og þörf er á, framboð af húsnæði handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Einstaklingar og fjölskyldur á leigumarkaði sem ekki eiga kost á að búa annars staðar en í atvinnuhúsnæði ættu því að snúa sér til sveitarfélags síns til að leita lausna á húsnæðisvanda sínum.