Ferill 607. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 1564  —  607. mál.
Undirskriftir.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016 (viðskipti lánamiðlara yfir landamæri).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Kára Kárason frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Matthildi Sveinsdóttur og Tryggva Axelsson frá Neytendastofu. Nefndinni barst umsögn um málið frá Neytendastofu.
    Með frumvarpinu er lagt til að ný ákvæði bætist við lög um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, þar sem kveðið verði á um heimildir lánamiðlara til að stunda viðskipti yfir landamæri og um samstarf lögbærra yfirvalda innan Evrópska efnahagssvæðisins. Einnig eru lagðar til breytingar á sömu lögum um lán sem tengjast erlendum gjaldmiðlum þannig að neytendum standi til boða að taka lán til kaupa á fasteign hér á landi þótt tekjur þeirra séu í öðrum gjaldmiðli en íslenskri krónu. Loks eru lagðar til breytingar á lögum um neytendalán, nr. 33/2013, þannig að neytendum verði gert kleift að taka neytendalán í íslenskum krónum hér á landi þrátt fyrir tekjur í erlendum gjaldmiðli eða búsetu erlendis.
    Í umsögn Neytendastofu er m.a. lagt til að breyting verði gerð á orðalagi a-liðar 5. gr. frumvarpsins sem kveður á um að senda skuli neytanda aðvörun ef eftirstöðvar láns eða reglulegar endurgreiðslur breytast um meira en 20%. Neytendastofa leggur til að í stað orðanna „meira en 20%“ komi „20% eða meira“ og með því verði viðmið aðvörunar fastsett við 20% breytingu. Nefndin tekur undir þessa athugasemd og telur að með breytingunni verði viðmið um sendingu aðvörunar skýrara.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „meira en 20%“ í a-lið 5. gr. komi: 20% eða meira.

    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Smári McCarthy voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 29. maí 2020.

Óli Björn Kárason,
form.
Bryndís Haraldsdóttir, frsm. Jón Steindór Valdimarsson.
Brynjar Níelsson. Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Willum Þór Þórsson.