Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1570, 150. löggjafarþing 813. mál: atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa (framlenging hlutabótaleiðar).
Lög nr. 44 30. maí 2020.

Lög um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa (framlenging hlutabótaleiðar).


I. KAFLI
Breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, með síðari breytingum.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XIV í lögunum:
  1. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 32. gr. skulu sjálfstætt starfandi einstaklingar sem hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæði þessu á tímabilinu 15. mars 2020 til 31. maí 2020 öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. ágúst 2020 að öðrum skilyrðum uppfylltum.
  3. 4. mgr. orðast svo:
  4.      Ákvæði þetta gildir frá og með 1. júní 2020 og fellur úr gildi 1. september 2020.


2. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Við greiðslu atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. júní 2020 til og með 30. júní 2020 samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. 17. gr., vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda skulu föst laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall ekki koma til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. enda hafi fyrra starfshlutfall lækkað um 20 prósentustig hið minnsta og launamaður haldið að lágmarki 25% starfshlutfalli. Hið sama gildir á tímabilinu 1. júlí 2020 til og með 31. ágúst 2020 enda hafi fyrra starfshlutfall lækkað um 20 prósentustig hið minnsta og launamaður haldið að lágmarki 50% starfshlutfalli. Vinnuveitanda er óheimilt að krefjast vinnuframlags frá launamanni umfram það starfshlutfall sem eftir stendur þegar starfshlutfall hefur verið minnkað.
     Hyggist launamaður, sem nýtt hefur úrræði til greiðslu atvinnuleysisbóta vegna minnkaðs starfshlutfalls á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XIII, á tímabilinu 15. mars 2020 til og með 31. maí 2020, nýta úrræðið samkvæmt þessu ákvæði skal hann tilkynna Vinnumálastofnun um það fyrir 30. júní 2020.
     Þeir launamenn sem nýtt hafa rétt sinn til atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæði þessu skulu staðfesta hjá Vinnumálastofnun breytt starfshlutfall fyrir 1. júlí 2020 hafi þeir í hyggju að nýta þann rétt eftir 1. júlí 2020.
     Þegar launamaður tilkynnir Vinnumálastofnun um áframhaldandi nýtingu úrræðis skv. 2. mgr., eða þegar sótt er um atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðis þessa í fyrsta skipti, skal vinnuveitandi staðfesta að hann uppfylli öll eftirfarandi skilyrði:
  1. Hann beri ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
  2. Meðaltal mánaðartekna vinnuveitanda frá 15. mars 2020 og til þess dags er launamaður sækir um atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðinu, eða staðfestir áframhaldandi nýtingu á rétti sínum til atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðinu, hafi lækkað um a.m.k. 25% í samanburði við eitt af eftirtöldum tímabilum:
    1. meðaltal mánaðartekna sama tímabils árið 2019,
    2. meðaltal mánaðartekna frá 1. júní 2019 til 31. ágúst 2019,
    3. meðaltal mánaðartekna frá 1. desember 2019 til 29. febrúar 2020 eða
    4. meðaltal mánaðartekna frá 1. mars 2019 til 29. febrúar 2020.
  3. Hann hafi eftir 1. júní 2020 ekki ákvarðað úthlutun arðs, lækkun hlutafjár með greiðslu til hluthafa eða kaup eigin hluta, innt af hendi aðra greiðslu til eiganda á grundvelli eignaraðildar hans, greitt óumsaminn kaupauka, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eiganda eða aðila nákomnum eiganda lán eða annað fjárframlag sem ekki varðar öflun, tryggingu eða viðhald rekstrartekna eða greitt eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en 3.000.000 kr. til hvers og eins. Hugtakið nákominn aðili skal túlkað skv. 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Jafnframt skuldbindi vinnuveitandi sig til þess að gera enga framangreinda ráðstöfun fyrir 31. maí 2022.
  4. Hann hafi staðið í skilum með launatengd gjöld og opinber gjöld á þeim degi er launamaður sækir um atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðinu eða tilkynnir um áframhaldandi nýtingu á rétti sínum til atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðinu, sbr. 2. mgr.
  5. Hann hafi staðið skil á skattframtali og fylgigögnum þess, þ.m.t. skýrslu um eignarhald á CFC-félagi, sbr. 10. gr. reglugerðar um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum, nr. 1102/2013, og öðrum skýrslum og skilagreinum, svo sem staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal hann, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum, sbr. lög um ársreikninga, nr. 3/2006, og upplýst um raunverulega eigendur, sbr. lög um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019.

     Greiðslur atvinnuleysisbóta skv. 1. mgr. skulu nema hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta í réttu hlutfalli við hið skerta starfshlutfall. Laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geta þó aldrei numið hærri fjárhæð en 700.000 kr. á mánuði og skulu ekki nema hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns. Til að finna út meðaltal heildarlauna skal miða við þriggja mánaða tímabil áður en launamaður missti starf sitt að hluta. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990.
     Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. er launamanni heimilt að óska eftir að miðað verði við meðaltal heildarlauna í hverjum mánuði tekjuárið 2019. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á fyrrnefndu þriggja mánaða tímabili, eða á þriggja mánaða viðmiðunartímabili skv. 3. málsl. 5. mgr., sem meðaltal heildarlauna skal miðast við, er launamanni heimilt að óska eftir að tekið verði mið af þeim viðmiðunartekjum sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði miðuðust við. Hafi launamaður verið í foreldraorlofi, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, á þriggja mánaða viðmiðunartímabilinu, sbr. 3. málsl. 5. mgr., er launamanni heimilt að óska eftir að tekið verði mið af meðaltali heildarlauna síðustu þriggja mánaða áður en viðkomandi hóf töku foreldraorlofs. Í slíkum tilvikum er Vinnumálastofnun heimilt að óska eftir tilkynningu frá vinnuveitanda, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, um tilhögun foreldraorlofs viðkomandi launamanns. Hið sama gildir um þá sem nýtt hafa sér úrræði ákvæðis til bráðabirgða XIII á tímabilinu 15. mars 2020 til 31. maí 2020.
     Samtala launa frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæði þessu skal ekki sæta skerðingu skv. 2. málsl. 5. mgr. ef meðaltal heildarlauna launamanns er undir 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf. Ef meðaltal heildarlauna launamanns er yfir 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf má skerðing skv. 2. málsl. 5. mgr. aldrei verða til þess að samtala launa frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbóta samkvæmt þessu ákvæði nemi samanlagt lægri fjárhæð en 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf.
     Heimilt er að greiða bætur samkvæmt þessu ákvæði þótt launamaður teljist ekki tryggður í skilningi laganna, svo sem vegna náms, sbr. 52. gr., eða skilyrða um ávinnslutímabil, sbr. 15. gr., enda sé skilyrðum ákvæðisins fullnægt. Önnur ákvæði laganna gilda um greiðslu bóta samkvæmt þessu ákvæði eftir því sem við getur átt. Greiðslur atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæði þessu skerða ekki áunnin réttindi til greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt lögunum.
     Vinnumálastofnun er heimilt að krefjast nánari staðfestingar eða gagna um þau atriði sem vinnuveitanda ber að staðfesta skv. 4. mgr. og er vinnuveitanda skylt að verða við slíkri kröfu tafarlaust. Komi til þess á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. maí 2022 að vinnuveitandi uppfylli ekki lengur skilyrði skv. 4. mgr. eða þær skuldbindingar sem hann hefur undirgengist skal hann endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði þær atvinnuleysisbætur sem launamenn hans hafa fengið greiddar á grundvelli ákvæðis þessa á tímabilinu 1. júní 2020 til og með 31. ágúst 2020 að viðbættu 15% álagi.
     Leiði skoðun í ljós að skilyrði skv. 4. mgr. hafi ekki verið uppfyllt eða ef vinnuveitandi afhendir ekki nánari staðfestingu eða gögn samkvæmt beiðni Vinnumálastofnunar er stofnuninni heimilt að krefja viðkomandi vinnuveitanda um endurgreiðslu þeirra atvinnuleysisbóta sem launamenn hans hafa fengið greiddar á grundvelli ákvæðis þessa á tímabilinu 1. júní 2020 til og með 31. ágúst 2020 að viðbættu 15% álagi hafi vinnuveitandi ekki þegar endurgreitt bæturnar skv. 9. mgr.
     Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu atvinnuleysisbóta sem launamenn vinnuveitanda hafa fengið greiddar á grundvelli ákvæðis þessa á tímabilinu 1. júní 2020 til og með 31. ágúst 2020, sbr. 9. og 10. mgr., eru aðfararhæfar.
     Einstaklingur eða lögaðili sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veitir Vinnumálastofnun rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atriði skv. 4. mgr. skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema brot megi teljast minni háttar.
     Vinnumálastofnun er heimilt að birta opinberlega lista yfir vinnuveitendur sem hafa nýtt sér úrræði samkvæmt ákvæði þessu fyrir sex eða fleiri af launamönnum sínum.

II. KAFLI
Breyting á lögum um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, með síðari breytingum.

3. gr.

     Í stað dagsetningarinnar „1. júní 2020“ í 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða III í lögunum kemur: 1. september 2020.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2020.

Samþykkt á Alþingi 29. maí 2020.